Endalaus "túrbínutrix".

Stundum er engu líkara en að því stærri og galnari sem hugmyndin er, því auðveldara sé að koma henni í framkvæmd. 

Upp úr 1990 fór á flug hugmynd íslenskra verkfræðinga á árunum á undan um LSD, sem var skammstöfun fyrir Lang stærsta drauminn, að steypa þremur jökulsám norðan Vatnajökuls ofan í rafstöð í Fljótsdal þar sem risi 1500 megavatta virkjun með næstum þreföldun raforkuframleiðslunnar á Íslandi.

Rísa átti 750 þúsund tonna álver í Reyðarfirði til að "bjarga Austurlandi."

Á þessum tíma og allt fram til 2004 vissi hvorki ég né stjórmálamenn eða almenningu á Íslandi að Norðmenn höfðu gert svipaða áætlun fyrir norska hálendið tuttugu árum fyrr en fallið algerlega frá henni þegar þeir áttuðu sig á hinum gríðarlegu umhverfisspjöllum og áfalli fyrir ímynd Noregs sem svona stórvirkjun myndi valda.

Hin íslenska hugmynd krafðist þess að drekkja mörgum dölum á norðurhálendinu í miklu verri framkvæmd en sú norska var, af því að íslensku lónin myndu með tímanum fylla dalina upp með auri og virkjanirnar verða að mestu ónýtar.

Túrbínutrixið 1970 fólst í kaupum fyrirfram á túrbínum fyrir stóra virkjun í Laxárdal sem hluti af svo stórfelldum umhverfisspjöllum á Mývatns- og Laxársvæðinu, að maður lýsir þeim fyrir fólki á okkar tímum trúir það því varla.

Nú er vaðið af stað með 50 milljarða framkvæmd í Mosfellsbæ með meira en tvöfalt fleiri störfum en í álverinu á Reyðafirði og það á sama tíma og önnur 50 milljarða framkvæmd á sama sviði á að rísa á sama atvinnusvæðinu.

Í Morgunblaðinu í fyrradag var þessi hugmynd mærð í hástert, því að heildarniðurstaðan yrði sú að enginn Íslendingur þyrfti að fara til útlanda til lækninga þótt hann fengi ekki úrlausn í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Rétt eins og að Ísland yrði að miðstöð fjármála- og viðskiptalífs í bankabólunni gæti Ísland nú orðið eins konar miðstöð lækninga og læknavísinda.

Í grein þriggja lækna í Morgunblaðinu birtist aðeins víðari og raunsæjari sýn; sú, að íslenska heilbrigðiskerfinu yrði umturnað.

Annars vegar væri glæsisjúkrahúsið með alla bestu læknana og heilbrigðisstarfsfólkið og hins vegar hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi, væntanlega engan veginn samkeppnishæft við gullið og grænu skógana í landi Mosfellsbæjar.

Í mærðargreininni í fyrradag byggist aðdáun höfundar greinilega á því að þeir Íslendingar sem hafa efni á því þyrftu nú ekki lengur að fara til útlanda til að komast fram hjá íslenskum biðlistum eða ófáanlegri þjónustu.

Skítt með venjulegt fólk, sem ekki ætti minnstu fjárhagslega möguleika til að bjarga sér.

Það má taka einfalt hliðstætt dæmi:  

Á baðstað er þröng á þingi, aðstaðan mætti vera betri, og vatnið er 35 stiga heitt.

Það yrði að meðaltali gríðarleg bót að breyta þessu þannig, að útkoman yrði annars vegar laug með 60 stiga heitu vatni, en hins vegar laug með 10 stiga heitu vatni.

Meðaltalið á hita lauganna yrði 35 stig og allir ánægðir!    


mbl.is „Gjörbreyting á íslenskri heilbrigðisþjónustu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíð á réttri leið?

Þjóðhátíðin í Vestmanneyjum er stórmerkilegt fyrirbæri í íslensku þjóðlífi,einsstæð tilurð hennar, hugsunin á bak við hana og framkvæmdin.

Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi í meira en hálfa öld að fylgjast með henni, dást að því sem Eyjamenn gera á hverju ári og óska þeim velfarnaðar í því að vilhalda hinni sérstöku stemningu og menningu, sem er aðall hennar.

Á síðustu árum hefur hátíðin hneigst til þess að verða að risastórri tónlistarhátíð í stíl við Hróarskelduhátíðina í Danmörku.

En Þjóðhátíðin er miklu sérstakari og merkilegri en hinar erlendu tónlistar-útihátíðir.

Það er allt gott um það að segja að Þjóðhátiðin verði sem mögnuðust tónlistarhátíð á okkar tímum þegar tónlistarsköpun og flutningur er orðinn að heimsþekktu fyrirbæri.

En því er ekki að leyna, að sótt hefur verið að hinum hreina anda hennar með þeim gríðarlega fjölda aðkomufólks sem hefur fært með sér of mikinn drykkjuskap og sukk að mínu mati.

Aðdragandinn að þeirri miklu umræðu um þjóðhátíðina, sem orðið hefur síðustu árin, er orðinn nokkuð langur svo að margir muna ekki eftir þjóðhátíðinni eins og hún var á meðan meirihluti þjóðhátíðargesta voru Eyjamenn sjálfir, vel meðvitaðir um gildi hátíðarinnar og ræktarsamir við dýrmæta hefð, sem hreif alla gesti, sem komu ofan af landi.

En atburðir og umræða í aðdraganda þessarar þjóðhátíðar gefa von um að þjóðhátíðin sé á réttri leið, þar sem áhrifa Vestmannaeyinga gæti í vaxandi mæli svo að sem flestir aðkomumenn geti tileiknað sér hinn sanna þjóðhátíðaranda, sem lifað hefur í bráðum eina og hálfa öld.

 


mbl.is Þjóðhátíð sett með pomp og prakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband