Vel valin verkefni, góð byrjun hjá forsetanum.

Mikið þótti mér vænt um að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skyldi velja Sólheima í Grímsnesi sem sinn fyrsta stað til að heimsækja og vekja athygli á. 

Það snertir mig persónulega á þann hátt, að eitt af því sem mér finnst kannski allra vænst um að hafa getað lagt lið á ferli mínum sem fréttamaður, var að fá tækifæri til að kynna einn íbúann, Reyni Pétur í sjónvarpi og opna augu fólks fyrir þeim hæfileikum  mannkostum, gleði og væntumþykju, sem fólkið þarna býr yfir, - jafnvel snilldarhæfileikum eins og hjá Reyni Pétri. 

Á Sólheimum má kalla marga hinsegin fólk á sína vísu, og því var ekki síðra það tiltæki forsetans að koma í Gleðigönguna hjá hópi, sem þurfti enn lengur en fólkið á Sólheimum, að lifa í skugga fáfræði og fordóma um hinsegin fólk. 

Og á Fiskideginum mikla á Dalvík var fjölmennasta hátíðin utan Reykjavíkur og þar að auki með miklum menningarbrag og góðri framkomu gesta og heimamanna. DSCN7873

Forsetinn setti með þessu fordæmi fyrir okkur hin, þegar hann sagðist vera ánægður með að fá tækifæri til að geta vakið athygli á góðum málum. 

Ég fór því í dag til þess að reyna eitthvað svipað, þótt í litlu sé, og setti einkanúmerið EDRÚ á reiðskjóta minn, Létti. 

Í vetur ók ég jöklabíl á stórum dekkjum í hjólförunum, sem myndast höfðu í Vesturlandsveg, en á svona stórum dekkjum getur verið ómögulegt að aka alveg beint í svona hjólförum. 

Það varð til þess að lögreglan stöðvaði mig og ég blés í blöðru hjá þeim. 

Ég get gantast með þetta á þann hátt, að ef þeir sjá svona hálfáttræðan karl á vélhjóli gætu þeir kannski átt það til að tékka á því hvort hann væri allsgáður að taka upp á svonalöguðu. 

Þá er vissara að veita upplýsingarnar á númerinu, svo að ekki þurfi að blása aftur í blöðru. 

En, án gamans, númerið er á hjólinu til þess að vekja athygli á hinu stórkostlega þjóðþrifastarfi sem SÁA innir af hendi og hefur bjargað þúsundum mannslífa, beint eða óbeint, og ómældum fjárhæðum.  

Sömuleiðis að hvetja til íhugunar um gildi bíndindis og heilbrigðs lífernis. 

Og á Litla-Hrauni er ljóst að eru ágætis menn, því að samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu eru númeraplöturnar á vélhjólum svo litlar, að ekki á að vera hægt að setja nema þrjá stafi í röð.

Var mér sagt að ég yrði skipta EDRÚ í tvennt, hafa ED- í efri línunni en RÚ í neðri. 

En, viti menn, - án þess að ég bæði um það leystu númerasmiðirnir á Hrauninu málið fyrir mig eins og sjá má.

Í reglum um einkanúmer er ákvæði um að 65 ára og eldri þurfi aðeins að borga 2600 krónur fyrir svona númer á vélhjóli, - kannski eitthvað meira fyrir bílnúmer.

Þetta er hugulsemi, - lífeyrisþegar lækka oft mikið í launum við að fara á eftirlaun og auk þess er eðli máls samkvæmt meiri nostalgía hjá þeim en hinum yngri.  

 


mbl.is Forseti Íslands kominn á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi nútímans: Yfirþyrmandi veldi tölvanna.

Þegar ljóðlínurnar "...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."...voru ortar fyrir hálfri öld, gleymdist helmingurinn af þessu fyrirbæri, sem nú birtist í tölvukerfunum, og má nefna viðhald og bilanir. 

Það hefur sannað sig óþyrmilega sem Henry Ford hélt fram varðandi Ford T, að "það sem ekki er í bílnum bilar aldrei."

Ef ekki væru neinar tölvur væri enginn þeirra hundruð þúsunda manna, sem vinna við viðhald þeirra og viðgerðir á þeim, með þá vinnu. 

Í kvikmyndagerð er það orðið að helst ófrávikjanlegri reglu, að eiga að minnsta kosti þrjá möguleika af afrakstri allrar upptöku.

Því stærri og yfirgengilegri sem tölvukerfi verða, því ferlegri verða afleiðingarnar af bilunum í þeim eins og bilunin í tölvukerfi Flugfélagsins Delta sýnir vel.

Hætta er á því að ekki sé nægilega vel gætt að því að ítarlega ofan í saumana á þeim möguleikum á bilunum og afleiðingum af þeim í sístækkandi og flóknari tölvukerfum sem stjórna orðið mest öllu lífi okkar, og þarf að gera bragarbót þar á.  


mbl.is Delta aflýsir hundruðum flugferða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin ekki að fullu afnumin?

Svo er að sjá af ummælum forsætisráðherra að í nýjum lögum um verðtryggingu verði hún ekki að fullu afnumin. "Afnám verðtryggingar" hefur samt verið slagorðið sem hamrað hefur verið á hjá flokki hans alveg síðan fyrir síðustu kosningar og fjöldi fólks hefur trúað því og bariast fyrir því að það sé jafnvel eitthvert mesta þjóðþrifamálið nú að afnema hana. 

Þetta hefur verið trúarsetning og gengið vel í marga, af því að þeir sem eru með verðtryggð lán hafa getað fengið út gríðarlegar upphæðir, sem lán þeirra hafa vaxið um þegar verðbólgan hefur þrýst afborgunum af verðtryggðum lánum upp. 

Í þeim útreikningum hefur hins vegar yfirleitt gleymst að taka á móti með í reikninginn, um hvaða upphæðir launin hafa hækkað á sama tíma. 

Alveg hefur gleymst í umræðunni hvers vegna verðtryggingin var sett á á útmánuðum 1979. 

Það var gert til að vinna bug á einhverju allra stærsta ranglætismáli síðustu aldar, sem var það, að vextir voru langt fyrir neðan raunvexti og hundruðum milljarða króna var beinlínis rænt af sparifjáreigendum og færðir í vasa þeirra, sem voru í aðstöðu til að geta skuldað sem mest. 

Á mestu verðbólguárunum, 1973-1990 brunnu innistæður upp á verðbólgubálinu, þeirra á meðal líknarsjóðir og það sem fólk hafði lagt fyrir til elliáranna. 

Hins vegar græddi fólk, sem var að koma sér upp þaki yfir höfuðið, allt að 40% af verði húseignanna.

Sumir orðuðu þetta þannig að unga fólkið færi ránshendi um eignir gamla fólksins. 

Vilmundur Gylfason var meðal þeirra sem börðust gegn þessu og með svonefndum Ólafslögum hafðist verðtryggingin fram. 

Það hefur komið fram að verðtryggingin henti misvel fyrir lántakendur, betur til skamms tíma en langs. 

Orðið verðtrygging segir allt um það, hvaða tilgangin hún á að þjóna. Hún á að tryggja að raunverð þess fjár sem verið er að nota, sé tryggt. 

Þetta kemur sér auðvitað vel fyrir lánastofnanir, sem fá að komast upp með það að taka enga áhættu af viðskiptunum í stað þess að áhættan skiptist betur á milli lánsaðila. 

Mesta réttlætismálið er því það, að engar hömlur séu á því hvers konar lán lántakendur geti tekið og þess vegna gæti það verið skynsamlegt, að lög um verðtryggingu nái slíku jafnræði fram, eins og orð forsætisráðherra virðast fela í sér. 

En upphrópunin um "afnám verðtryggingar" reynist þá hafa verið kosningaslagorð á grundvelli vanþekkingar, enda hefur ósætti innan stjórnarflokkanna fyrst og fremst tafið málið. 

Þeir geta aðeins kennt sjálfum sér um þennan drátt og það, ef málið klárast ekki fyrir kosningar. 

Slagorðin hafa stundum þann galla að þau alhæfa um of. Sífellt er talað eins og að allir hafi fengið skuldaleiðréttingu eða leiðréttingu vegna "forsemdubrests", en stórir þjóðfélagshópar fengu engan forsendubrest bættan, svo sem leigjendur, gamalt fólk, öryrkjar og þeir lægst launuðu. 

Og að stórum hluta borga þeir, sem leiðréttinguna fengu, hana sjálfir að stórum hluta í gegnum hærri skatta og ef verðbólga eykst. 


mbl.is Nefnir tvö mál sem þarf að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband