Róleg íhugun og aðalatriðin í lífinu. "Eins og blóm".

Það er gott að lesa viðtalið við Ragnheiði Arngrímsdóttur listljósmyndara í tilefni af ljósmyndasýningu hennar sem hún er með í Klínikinni mitt í öllum hasarnum og látunum sem fylgir nú orðið síðustu helginni í nóvember. 

Á facebook síðu minni í dag er tónlistarmyndbandið "Eins og blóm" sem Friðþjófur Helgason setti saman við nýju lögunum á plötu Gunnars Þórðarsonar, sem er einmitt verið að setja í umferð þessa dagana. 

P.S. inni í miðjum pistli: Fyrir mistök mín er myndbandið við ranga hljóðrás, danglað á píanó án söngs og nokkuð styttra en í lokaútgáfunni. Það er verið að vinna í að gera rétta útgáfu eins og hún er á plötu Gunnars, og verður þessu breytt þegar þeirri vinnu er lokið, en ekki víst hve langan tíma það tekur. 

Lagið fjallar um ástina sem dýrmætasta drifkraftinn í veröldinni í ljósi hringrásar kynslóðaskipta í mannheimi og lífríki. 

Þungamiðjan er kannski línan "Ást skóp allt í heimi" og þar á eftir lokalínur textans. 

Það er kannski viðeigandi að birta textann hér og tengja við hughrifin af lýsingu Ragnheiðar Arngrímsdóttur listljósmyndara á hugsuninni á bak við sýningu hennar.

 

EINS OG BLÓM. 

 

Eins og blóm tók við yl, sem gaf því lit, 

kviknar ást með sitt undurfagra glit

og breiðir blöð sín út, - 

já, eins og blóm. 

 

Lostin eldi svo undarlega hljótt, 

á unaðarins báli við áttum eina sál

ég og þú, og allt var orðið breytt. 

 

Og allt ævinnar skeið var ákveðið þarna; 

það sem okkar þá beið

við örlaga seið, 

en samferðafólk frá kyni til kyns 

er kært og líf vort léttir. 

 

Og við lítum á börn okkar ljómandi´af gleði  

þegar lífsundrið mesta það gerist á ný:  

 

Eins og fræ tók við yl, sem gaf því lit, 

kviknar ást með sitt undurfagra glit 

og breiðir blöð sín út,

já eins og blóm. 

 

Lostin eldi svo undarlega hljótt, 

alelda, jafnt hvern dag sem hverja nótt

á unaðarins báli þau eiga eina sál, 

hann og hún og allt er orðið breytt. 

 

Og allt lífið í kring það ljómar og iðar 

þegar lofgjörð ég syng 

um skaparans verk, 

en án minninga við erum ei neitt. 

Sönn ást skóp allt í heimi. 

 

Fyrir alvaldsins mætti við auðmjúk oss beygjum 

er að endingu loks kemur að okkur röð

og sem eilífðar smámblóm við fæðumst og deyjum

þegar andinn fær flug og um leið fellir blöð - 

eins og blóm. 

 


mbl.is Að staldra við og njóta augnabliksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti halda að þetta sé mesti hátíðisdagur ársins.

Í hádeginu í dag var heitið "Black Friday" og einstaka sinnum "Svartur föstudagur" nefnt mörgum sinnum á hverri mínútu í hverri auglýsingunni á fætur annarri. 

Söngurinn var kyrjaður í allan dag. 

Það er náttúrulega brandari að landtaka innflytjenda við Plymouth Rock á austurströnd Bandaríkjanna á sautjándu öld skuli vera að hefja Black Friday til himinhæða sem hátíðisdag hér á landi. 

Black Friday er nefnilega til orðinn vegna þessa atburðar í sögu Bandaríkjanna sem minnst er með frídeginum Thanksgiving Day, sem er jafnan síðasti fimmtudagur í nóvember. 

Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, - er líka svipað fyrirbrigði í Bandaríkjunum og Kanada og töðugjöld voru hér á landi, þakkardagur fyrir uppskeru sumarsins. 

Af því að Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, er frídagur vestra, hefur verslun verið lífleg daginn eftir hann og sömuleiðis á næsta mánudegi helgina á eftir. 

Naskur kaupahéðinn sá sér leik á borði að gera þennan mánudag að sérstökum netverslunardegi, sem hefur ekki síður sótt í sig veðrið en Black Friday undir heitinu Cyber Monday.

Cyber þykir einkar hentugt nafn af því engir skilja það til fulls. Þó hefur verið minnst á rafrænan mánudag, en auðvitað er ekki eins fínt og Cyber Friday.  

Miðað við ofangreinda hröðu þróun má spá í framhaldið á frekari innrás þess að hafa amerískar aðstæður og atburði úr sögu Bandaríkjanna í hávegum hér á landi. 

Fyrst þessir tveir dagar ásamt Single Day eru að verða einhverjir mestu tyllidagar hér á landi er úr samhengi að Thanksgiving Day, sem var upphafið á þessu öllu, skuli ekki fylgja með hinum bandarísku dögunum hér á landi og hlýtur hann að verða að fá að fljóta með og vera gerður að almennum frídegi á Íslandi. 

Í staðinn mætti leggja sumardaginn fyrsta niður, sem hefur alltaf verið lélegur dagur fyrir verslun og kaupahéðna.  

Þá verða fjórir hátíðisdagar seinni part nóvember með nafni á ensku farnir að keppa við jólin og páskana og náðarhöggið hlýtur að verða að eini nafngreindi íslenski dagurinn í nóvember, Dagur íslenskrar tungu, húki ekki þarna ekki einmana eins og álfur út úr hól, heldur fái að krýna sigur bandarískra aðstæðna á Íslandi með því að verða að Day of English Language. 

Til samræmis við þetta gæti næsta skref orðið, að fyrst hið merka ameríska örnefni Plymouth Rock er undirstaðan undir þessu öllu, mætti hugsa sér að þetta náttúrufyrirbæri í Bandaríkjunum fái verðskuldaða viðurkenningu hér á landi með því að gera 16. september að Day of American Nature. 

Í fréttum í dag var sagt: "Black Friday er kominn til að vera." Það hefði verið ósamræmi í því að segja: Black Friday hefur fest sig í sessi, því að orðin "er kominn til að vera" er hrá þýðing úr ensku: "...is here to stay." 

Hefur fest sig í sessi - og - er kominn til að vera - eru hvort tveggja sjö atkvæði, en  amerískt skal það vera í bak og fyrir. 

 


mbl.is „Stanslaust Þorláksmessurennsli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband