Raunveruleiki eða sýndarveruleiki ?

Fyrir um tíu árum urðu svonefndir "raunveruleikaþættir" vinsælir í kvikmyndum og sjónvarpi. Fræðslukvikmyndir í gamla stílnum þóttu lummó þótt um væri að ræða umfjöllun um jafn raunverulegt mál og Kárahnjúkavirkjun.

Þessu fékk ég að kynnast á kvikmyndahátíð í Helsingborg 2003.  Myndir okkar Páls Steingrímssonar, "In memoriam" og "Land of Solitude" komust að vísu í úrslit en urðu að víkja fyrir mynd um finnskan ljósmyndara, sem sat uppi í tré við ljósmyndun á Kolaskaga í heilt ár og mynd sem breskur kvenkafari tók af kóröllum við Bretlandsstrendur. 

Myndir okkar Páls skorti það að einhver ein persóna settti sig í stellingar "raunveruleikamyndar". 

Ég áttaði mig á því að ef mynd mín hefði átt að eiga upp á pallborðið hjá sjónvarpsstöðvum og kvikmyndahúsum hefði ég þurft að einbeita mér að því að mynda sjálfan mig vera einan uppi á austurhálendinu, helst sem minnst klæddur, jafnvel syndandi yfir ár þótt ég gæti flogið yfir þær. 

Myndin mín fékk að vísu önnur aðalverðlaunin á kvikmyndahátíð á Ítalíu ásamt mynd BBC um Níl, en ég hafði hvorki fjármuni né tíma til að fylgja því eftir. 

Firring nútímafólks, sem ofverndað er gegn lífsbaráttu og striti í tæknivæddum borgum nútímans kallaði á "raunveruleikaþættina" sem í flestum tilfellum voru ekki "raunveruleikinn" heldur tilbúin leikmynd eftir handriti. 

Maðurinn er skapaður til að heyja lífsbaráttu og sé sú barátta tekin frá honum verður hann oft leiður á lífinu.  Hingað til lands kemur fjöldi ferðafólks til þess að kynna sér lífsbaráttu og kjör fyrri kynslóða og upplifa eitthvað sjálft af glímuninni við náttúruöflin. 

Í því liggja mestu sóknarmöguleikar íslenskrar ferðaþjónustu. En raunveruleikinn verður seint búinn til og ég læt fylgja í lokin skemmtilega vísu Kristjáns Hreinssonar um lygina og sannleikann: 

Lygin oft hið sanna sér

á sínu efsta stigi

því sannleikurinn sjálfur er

sennilega lygi. 


mbl.is Raunveruleikastjarna sviptir sig lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband