23.8.2011 | 10:04
Meira tjón, já griðarlegt tjón vegna friðana !
7,5 milljarðar í súginn vegna eins ritfangafyrirtækis er varla fréttnæmt þessa dagana. Í gær voru tvær fréttir á Stöð 2 vegna þess tjóns sem friðanir á náttúrugersemum og tafir við sölu rafmagns veldur.
Talan 17,4 milljarðar á tíu árum kom fljótlega upp varðandi "tjónið" af völdum þess ef ekki verður af Norðlingaölduveitu.
Nú má búast við því að í fréttum og fréttaskýringum sé framundan margra mánaða tími þar sem birtir verða útreikningar á tjóni af völdum þess að ekki hefur þegar verið virkjað allt sundur og saman sem virkjanlegt er.
Þar munu væntanlega koma fyrst þeir nítján virkjanakostir, sem fara samkvæmt fyrstu drögum Rammaáætlunar í verndarflokk og verður þá fljótlegt að koma tjóninu upp í nokkur hundruð milljarða.
Síðan má ekki gleyma því gríðarlega tjóni sem það hefur valdið þjóðinni í meira en 80 ár að Gullfoss skuli ekki hafa verið virkjaður. Þegar öll þessi 80 ár eru lögð saman hlýtur það tjón að vera svo mikið að furðu gegnir að þjóðin skuli enn skrimta í landinu.
Virkjun Geysis-svæðisins í Haukadal er einn af um 100 virkjanakostum, sem varpað hefur verið upp.
Það myndi topp tjón-umfjöllun af þessu tagi að reikna út, hve mörgum milljörðum þjóðin tapi á því að hafa ekki virkjað þetta svæði.
í stanslausum fréttaflutningi árum saman í þessa veru er það alger undantekning að nokkurn tíma sé leitað eftir gagnrökum, svo sem þeim hvaða fjármunir fáist fyrir það að lokka ferðamenn að þessum svæðum, en ítrekaðar rannsóknir sýna að þeir koma fyrst og fremst til landsins til að sjá hér ósnortna náttúru, sem búið er að útrýma að mestu í þeirra eigin löndum.
Í umfjöllun gærdagsins var það mært að samkvæmt áætlunum muni "lágmarksmagn" af vatni renna eftir sem áður um fossana miklu efst í Þjórsá, sem þó er búið að ræna allt þriðjungi vatns af. Fossinn Dynkur, sem fyrst og fremst var magnaðastur íslenskra stórfossa vegna hávaðans, sem nafnið bendir til, er því lengst af ársins líkur Samson hinum sterka, sem hárið var klippt af.
Einn af virkjunarkostunum, sem lendir í verndarflokk er svonefnd Helmingsvirkjun, en nafnið er vandlega valið þannig að fólk fatti helst ekki að um er að ræða virkjun Dettifoss.
Dettifoss er auglýstur sem aflmesti foss Evrópu. Verður hann það þegar búið er að taka "helmininginn" af vatni hans í butu? Hvað þýðir hugtakið "lágmarksrennsli" sem talað er um?
Fossinn er mikilfenglegur í klakaböndum að vetrarlagi. Nú er búið að leggja að honum heilsársveg en það verður til lítiils ef hann hverfur á vetururna í hít risaálvers á Bakka.
Jarðvarmaorkan og vatnsorkan í Yellowstone þjóðgarðinum er griðarleg. Aldrei hef ég samt séð minnst á það í Bandaríkjunum hve gríðarlegt tjón hljótist af því að virkja það ekki allt sundur og saman.
7,5 milljarðar í súginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í ljósi þess að hingað er að koma kínverskur auðjöfur að byggja hótel á möðrudalsöræfum að þá finnst mér undarlegt að sveitastjórnarmenn á þessu svæði skuli ekki enn sjá hversu mikil verðmæti liggja í gjástykki og svæðunum þar í kring ósnortnu. Þetta hefði átt að vekja menn til meðvitundar um það að fara að markaðsetja þetta svæði sem túristasvæðið og gera svæðið aðgengilegra fyrir túrista. Frekar vilja menn kæra stjórnvöld fyrir tap á því að þeir megi ekki nota auðlindina sína. Þvílíkir pappakassar.
Pétur Kristinsson, 24.8.2011 kl. 21:41
hvort er betra að virkja fallvötn á íslandi eða að reisa kjarnorku eða kolaorkuver í evrópu.
þetta er skítfúl spurning en ég hvet umhverfissinna sem styðja núverandi ríkisstjórn sem að vill endilega bindast evrópu að svara þessari spurningu. ef við bindumst evrópu þá eru ekki bara fiskimiðin undir heldur líka allar okkar náttúruperlur.
Garðar (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 03:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.