Byrjun á mun meiri stækkun.

Fyrir 13 árum datt það út úr Norðmönnum að LSD, lang-stærsti-draumurinn með sameiginlegri virkjun allra jökulfljóta Norðaustur- og Austurlands skyldi verða að veruleika með 700 þúsund tonna álveri á Reyðafirði.

Þetta stóð aðeins í mönnum og þá var skipt yfir í taktik sem hefur svínvirkað til þessa og felst í því að láta leggja fé í hógværar kröfur til að byrja með, og þegar búið væri að leggja það mikið fé í málið, að ekki yrði aftur snúið, yrði Íslendingum stillt upp við vegg og þvingaðir til að virkja allt.

Á tímabili var því harðneitað að Kárahnjúkavirkjun væri inni í myndinni, - aðeins um að ræða 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun látin nægja.

Þegar búið var að eyða nógu miklu fé var blaðinu snúið við því að 120 þúsund tonna álver skilaði ekki hagnaði og því yrði að reisa meira en þrisvar sinnum stærra álver. Ella yrði ekkert virkjað og féð,sem Íslendingar væru búnir að eyða, yrði ónýtt.

Svipuð aðferð hefur verið notuð í Helguvík og á Bakka og hefur svínvirkað, þótt nú hafi Bakki um sinn verið settur í biðstöðu. Enda opnast í staðinn mun árangursríkari leið fyrir Alcoa.  

Ég hef heyrt af því ávæning nýlega að framtíaráætlun Alcoa  væri að teygja sig smám saman upp í 700 þúsund tonnin, sem alltaf var stóri draumurinn, og aukning núna um 40 þúsund tonn rímar ágætlega við það.

Áætlunin sést vel þegar áherslurnar í virkjanamálunum eru skoðaðar.

Lagt er mikið kapp á virkjanir við Skrokköldu og Hágöngur við Sprengisand, en með því fylgir sjálfkrafa línulögn að sunnan svo langt norður á hálendið að hvort eð er verður búið að skerða svo víðernin á því, að það munar ekkert um það að leggja línur áfram norður og austur og kippa inn svonefndri Helmingsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum í leiðinni.

Allt þetta þarf að gera í þágu afhendingaröryggis og lokahnykkurinn verður borun ganga frá Jökulsá á Fljöllum austur í Hálslón og ný göng þaðan austur í Fljótsdal svo að hægt verði að stækka Fljóstdalsvirkjun um einhverjar túrbínur.

Þótt það hafi verið í umræðunni að friða allt vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum verður freistinin of mikil að taka að minnsta kosti þverá hennar, Kverká,  og veita henni yfir í Hálslón.

Þar með hefur gamli LSD draumurinn ræst um virkjanir allra jökulfljóta Norðaustur- og Austurlands og sömuleiðis að svipta norðurhálendið því að vera ósnortið víðerni.

Það er margyfirlýst keppikefli virkjanafíkla að gera það sama og samstarfsnefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma um svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki, að það verði virkjanasvæði.  

Stóriiðjutrúarmenn hafa marglýst því yfir virkjanir séu forsenda fyrir því að byggja upp ferðaþjónustu.  

Nú kunna ýmsir að segja að þetta sé vænisýki hjá mér.

Það sögðu líka margir við mig í kringum 2000 þegar fullyrt var að Fljótsdalsvirkjun og lítið álver myndu nægja og ég kvaðst samt aðspurður vera viss um að Kárahnjúkavirkjun yrði reist.

"Svona áhættusöm og tryllingslega stór virkjun verður aldrei að veruleika" sögðu þeir jafnvel við mig sem unnu að rannsóknum þar og bættu við: "Við erum bara að vinna hér við rannsóknir sem sérfræðiingar og vísindamenn. Vertu alveg rólegur. 120 þúsund tonna álver er meira en nóg.

Annað kom á daginn. Nú þegar hefur það verið sett fram hjá Orkuveitu Reykjavíkur að í stað þess að þyrma Bitru verði því svæði breytt í orkunýtingarsvæði, hvað sem Hvergerðingar segi.

Tónninn hefur verið gefinn, tónninn sem blaðamaður frá Los Angeles Times upplýsti mig um fyrir meira en tíu árum eftir að hafa kynnt sér aðstæður hér, en hann hafði um áratuga skeið sérhæft sig í umhverfis- og virkjanamálum vvíða um heim.

Hann sagði við mig: "Eftir að ég hef rætt við eins marga hér á landi og mér er unnt liggur það ljóst fyrir að á Íslandi verður ekki hætt fyrr en búið verður að virkja altt sem virkjanlegt, hvern einasta læk og hvern einasta hver er áður en yfir lýkur."   


mbl.is Alcoa vill stækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar . Þetta er hrollvekja. Alcoa á eða að hluta 25 álbræðslur. Fjarðarál er nú þegar önnur stærsta álbræðsla Alcoa.Stærst er Baaie-Comeau í Kanada með 385 kt. á ári.Næst kemur Fjarðarál með 344-6. Aðeins tvö önnur eru með yfir 300, þ.e. 310 og 309. Af hverju er hægt að reka minni álver annars staðar en á Íslandi?

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 07:43

2 identicon

Þetta er ófögur framtíðarsýn. Það setur að manni hroll.

Snæbjörn Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 08:03

3 identicon

Sæll.

Hvernig vilt þú framleiða verðmæti? Ég hugsa að 80-90% landsmanna hafi ekki vitað hvar Kárahnjúkar voru áður en farið var að ræða um virkjun þar. Hvað er að því að framleiða græna orku? Hvað er að því að nýta náttúruauðlindir? Af hverju þarf hálendið að vera ósnert?

Er þessi blaðamaður sem þú ræddir við einhver véfrétt? Hverri virkjun fylgir kostnaður sem verður að vera innan ákveðinna marka ef hún á að bera sig. Það er því einfaldlega ekki hagkvæmt að virkja sumt. Af hverju hvetur þú ekki, fyrst á þig er hlustað, til að við íhugum byggingu sjávarfallavers? Þú veist sjálfsagt betur en ég að þetta er gert erlendis. Einnig mætti hugsa sér að virkja vindinn (og er byrjað á því hér þó í litlu mæli sé), nóg er rokið hér stærstan hluta ársins. Þá þarf ekki að snerta við hálendinu sem þér virðist vera svo kært.

Helgi (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 08:37

4 identicon

Helgi:

Verðmætaframleiðslan úr raforkuframleiðslunni er það lítil, að enn þarf landslýður að greiða hærra fyrir orkuna af þeim virkjunum sem komu fyrstar (og eru þar með löngu upp greiddar) heldur en stóriðjan. Nú nema að vilji sé bara það sem þarf. Og hvaðan þá?

Verðmætaframleiðslan úr álinu tengist eingöngu störfum og afleiddum störfum, þar sem Íslendingar eiga ekkert í álinu sem flutt er út.

Hvert þeirra starfa er nokkurn veginn það dýrasta í sköpun sem hingað til hefur verið lagt fé í.

Raforkan er sannur útflutningur, en verður að lúta í lægra haldi fyrir bæði fiski og ferðamennsku.

Ekki hafa þó opinberar skuldbindingar & ábyrgðir verið það glaðlegar í þeim greinum.

Og vindorkan, - spennandi, en nýtur ekki hylli sem skyldi. Einhverjum hefur tekist að finna út að hér sé ekki nógur vindur. Hahaha.

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 09:10

5 identicon

Þú gleymir því þó Ómar, að viðhorf Landsvirkjunnar er allt önnur í dag en hún hefur verið. Nú verður orkan ekki lengur seld á spottprís - og Alcoa eins og önnur álfélög munu taka mið af því.

Þeir hafa þegar gefist upp á Bakka og þetta með stækkun á Reyðarfirði virðist fyrst og fremst byggjast á því að orkan frá Kárahnjúkum er ekki fullnýtt (lónið miklu stærra en það þurfti að vera).

Svo þú ert sem betur fer að mála skrattann á vegginn.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 09:16

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Lagarfljótið er meira en mórótt eftir Kárahnjúka.  Skýrslum var stungið undir stól.  Nýjar gerðar sem sögðu að það myndi gruggast 4-5 falt og það myndi hafa óveruleg áhrif á lífríki þess. 

Núna í sumar s.k. RUV veiddust 13 fiskar í Eyvindaránni við Egilsstaði sem rennur í Fljótið.  Á sem var lítill vandi að veiða 13 fiska fyrir hádegi þegar ég var polli.  Engum sögum fer af veiðum í Lagarfljótinu sjálfu eftir að "lítilsháttar grugg" bættist við frá Kárahnjúkum.

Lagarfljótið, lengsta vatnsfall landsins, er ekki lengur grænt hvað þá Vatnajökulsblátt.  En er eitthvað grænt við orkuna frá Kárahnjúkum?

Magnús Sigurðsson, 29.10.2011 kl. 09:19

7 Smámynd: Stefán Stefánsson

Síðan hvenær er Lagarfljótið lengsta vatnsfall landsins Magnús?

Stefán Stefánsson, 29.10.2011 kl. 10:06

8 identicon

Tja, flokksliturinn hjá Valgerði

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 10:06

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Búið var að kosta til þó nokkru fé við rannsóknir við Kárahnjúka, um 15-20 árum áður en álverið við Reyðarfjörð reis. Ómar talar um einhverja vilta drauma í því sambandi og hefur það eftir ónafngreindum aðila. Viltir draumar eða ekki... þá höfðu þeir ekkert með álver Alcoa í Reyðarfirði að gera.

Ástæðan fyrir því að ráðist var að lokum í virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka, var sú að öfgakenndur umhverfisáróður kom í veg fyrir virkjun við Eyjabakka, sem var bæði minni og hafði tiltölulega lítil umhverfisáhrif.

Pólitískur skilningur og vilji, hafði lengi verið fyrir hendi að virkja fallvötn á Austurlandi, til hagsbóta fyri landsfjórðungin og þjóðina alla. Það var því rökrétt framhald, að úr því ekki mætti virkja við Eyjabakka, þá yrði næsti kostur skoðaður, þ.e. Kárahnjúkar.

Magnús Sigurðsson talar um glatað lífríki í Lagarfljóti og Eyvindará. Lífriki sem lítið var fyrir! Hann grætur yfir því að fiskum hafi fækkað. Fullyrðing hans um að veiða hefði mátt 13 fiska úr Eyvindará fyrir hádegi, er einhverskonar LSD- draumur. Þessi litli spotti í Eyvindará sem er fiskgengur úr Lagarfljóti, hefur aldrei verið nein veiðiá, þó þar þar hafi fundist lækjarlontur, eins og í flestum sprænum á Íslandi.

Bændur við Lagarfljót hafa aldrei nýtt silung í fljótinu að neinu marki. Bæði vegna þess að lítið er af honum og eins vegna þess að hann þótti ekki hæfur til manneldis. Fiskurinn var grár í gegn og sérlega bragðvondur. Svo sprendur einhver bóndi fram í dag og grætur yfir minnkandi silungi í fljótinu!

Það skyldi þó ekki vera að þessi bóndi geri sér einhverjar vonir um bætur frá ríkisssjóði, vegna meints taps á glataðri auðlind? Auðlind sem aldrei hefur verið nýtt að marki og hefur aldrei skipt bændur við fljótið neinu máli.

Ef Landsvirkjun telur hagstætt að selja álverinu í Reyðarfirði 40 mw til viðbótar og stækkun álversins brýtur ekki í bága við umhverfismatið vegna álversins í firðinum fagra, þá mun Landsvirkjun að sjálfsögðu selja þeim þessi 40 mw. Annað væri hrein firra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.10.2011 kl. 10:42

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Stefán, ef þér líður betur með það þá skal ég breyta þessu í "eitt lengst vatnsfall landsins".

Magnús Sigurðsson, 29.10.2011 kl. 11:24

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég sé að leigubílstjórinn Gunnar telur sig þekkja mikið til lífríkis Lagarfljóts fyrr og nú.  Blessaður álfurinn ætli hann sé á LSD?

Magnús Sigurðsson, 29.10.2011 kl. 11:38

12 identicon

Magnús Sigurðsson. Þú vekur athygli á því að Gunnar Th. sé leigubílstjóri.

Af hverju eiginlega?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 12:04

13 identicon

Ég er alveg viss um að Leigubílstjórinn og Garðyrkjufræðingurinn hann Gunnar viti ýmislegt um lífríki. En hver er þessi álfur sem Magnús spyr um hvort sé á LSD?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 12:39

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Haukur, þetta er ekki sagt í niðrandi merkingu ef þú skildir halda það.  Leigubílstjórar búa oft yfir staðgóðri þekkingu vegna starfs síns, heyra í mörgum.  Ég er meir að segja sammála innleggi Gunnars að mestu í hans innleggi. 

En það eru nokkur atriði sem Gunnar mætti íhuga áður en hann gerir mönnum upp ósannindi. 

Lagarfljótið er gruggugra en vonir stóðu til og lífríkið geldur þess, burt séð frá skoðunum Gunnars á því hvort þar hafi verið lækjarlontur eða fiskur.  Meir að segja burtséð frá aðdróttunum hans um að bændur ætli sér að sækja bætur úr ríkissjóð vegna þessara óætu "lækjarlontna".

Í niðurstöðu Gunnars liggur hundurinn grafinn, þegar hann segir; "Ef Landsvirkjun telur hagstætt að selja álverinu í Reyðarfirði 40 mw til viðbótar og stækkun álversins brýtur ekki í bága við umhverfismatið vegna álversins í firðinum fagra, þá mun Landsvirkjun að sjálfsögðu selja þeim þessi 40 mw. Annað væri hrein firra." 

Ég er smeykur um að Gunnar sé þarna ekki að tala út frá yfirgripsmikilli þekkingu leigubílstjórans, heldur sé blessaður ál-furinn kominn á LSD.

Magnús Sigurðsson, 29.10.2011 kl. 12:45

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svo er ég líka ökukennari, ekki gleyma því!

Já, merkilegt en Magnús virðist halda að hann komi einhverju höggi á mig vegna atvinnu minnar. Málefnalegt, eða hitt þó heldur! Einnig heimskulegt... en jafnframt dálítið sorglegt.

Magnús, það sem ég hef sagt hér um lífríki Lagarinns og Eyvindarár, er almenn vitneskja fólksins sem býr hér eystra. Ég hef mínar upplýsingar frá fólki sem er fætt og uppalið við fljótið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.10.2011 kl. 12:53

16 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gunnar minn það er alveg sársaukalaust af minni hálfu að biðja þig afsökunar á því að hafa nefnt starfsvettvang þinn og hafa gleymt að geta þess að þú ert háskólamenntaður ökukennari.  Sem múrarinn Magnús þá bið ég þig hér með innilega afsökunará þessu skítkasti í þinn garð.

Ég skal meir að segja draga formálann að spurningunni í 6. athugasemd til baka þó svo að ég sé af bændafólki við Fljótið kominn og hafi alist upp á bökkum þess og eigi þar mitt heimili.  Spurningin var "er eitthvað grænt við orkuna frá Kárahnjúkum?"

Magnús Sigurðsson, 29.10.2011 kl. 13:19

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér að ofan er alveg skautað fram hjá því að í öllum fjórum tilfellunum, Reyðarfirði, Helguvík, Bakka og á Grundartanga var í fyrstu látið í veðri vaka að "hóflega stórt álver" væri nóg, ca 120 þúsund tonn.

Á útmánuðum 2000 kom hins vegar stefnumótandi ákvörðun fjárfesta í álverinu á Reyðafirði: Álver eru ekki hagkvæm nema þau séu minnst 450 þúsund tonn.

Sama hefur gerst varðandi hina staðina.

Ég vildi óska að Alcoa léti nægja að nýta sér aukið vatnsmagn í Hálslóni vegna hlýnunar veðurfars, ef það gæti annað 40 þúsund tonna aukaframleiðslu.

Gallinn er bara sá að ekki er hægt að fjölga túrbínum í Fljótsdalsstöð nema að fara út í allan pakkann sem ég lýsti og geti skilað af sér nýjum göngum og stækkun stöðvarinnar.

Talað er í athugasemd hér að ofan að hálendið virðist vera mér svo kært.

Þetta er ekkert einkamál mitt. Meira en 80% erlendra ferðamanna kemur til Íslands til að njóta ósnortinnar náttúru og hinn eldvirki hluti  Íslands á sér enga hliðstæðu í heiminum og hefur verið skilgreindur sem eitt af helstu náttúruundrum heims.

Ómar Ragnarsson, 29.10.2011 kl. 15:20

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jökla var langaurugasa fljót landsins og líklega með meiri aurframburð miðað við stærð en nokkur önnur á í heiminum.

Ég á hrikalegar myndir sem ég hef sýnt hér á blogginu af því hvernig Kringilsá ein og sér getur hlaðið upp heillu sethjöllunum fyrir neðan Töfrafoss og hvernig gljúfrið fyrir neðan fossinn er þegar að fyllast upp á nokkrum árum í stað þess að til þess þyrfti 100 ár eins og spáð var.

Ómar Ragnarsson, 29.10.2011 kl. 15:23

19 identicon

Ég gleimi því ekki, þegar verið var að ræða hugmynd manna um rafmagns kapall yfir til meginlandsins.  Nú, þegar Alcoa er farið að segja sjálft hvað verðið á rafmagninu á að vera, get ég nú ekki annað en ímyndað mér, að menn séu að bíta sig handa bakið eftir á.

Og hvað eru menn að áætla núna, ef ég má spyrja ... eru einhverjar raunhæfar hugmyndir manna, um það hvernig á að venda sér í málin?  Ekki ætla ég mér, að segja að nauðsynlegt sé að "verja" náttúruna fram yfir allt annað.  En ég tel aftur á móti nauðsynlegt, að verja hagsmuni "Íslendinga" til framtíðar, og ekki hugsa þess efnis að Ísland verði að sömu alþjóða sorptunnu og víða gerist annars staðar.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 17:48

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ertu búinn að reikna út Ómar, hvenær hálslón fyllist af aur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.10.2011 kl. 20:24

21 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þetta er náttúrulega svo mikill skáldskapur hjá þér Ómar að ný göng verði boruð úr Hálslóni austur í Fljótsdal til að bæta við túrbínum þar.
Það eru alls engar forsendur fyrir annarri virkjun í Fljótsdal og engar líkur á að nokkurntímann verði farið í jafn umfangsmiklar virkjunarframkvæmd eins og við Kárahnjúka.

Stefán Stefánsson, 29.10.2011 kl. 20:47

22 identicon

Merkilegt með þig Ómar og aðra umhverfisverndarsinna, talið um ekkert annað en virkjanir og álver. Gott og blessað, þið viljið sjálfsagt vel.

Eitt sinn var ég staddur á Selfossi í hífandi norðan-átt, og horfði á landið fjúka burt. Það sást varla til sólar fyrir jarðvegsfoki. Þessi jarðvegur sem þarna fauk út í sjó tók hundruðir þúsunda ára að mynda. Ekki hefur heyrst frá þér múkk, ekki hósti eða stuna í öllu þínu kvabbi um náttúruvernd, varðandi jarðvegsfok, gróðureyðingu og ofbeit.

Hvers vegna steinheldur þú kjafti varðandi þessa mestu og verstu náttúruvá sem steðjar að landinu? Þessi jarðvegur er að fjúka út í sjó og kemur aldrei aftur, en þú og náttúrukvabbararnir hafið ekki um neitt anna að blaðra en einhvberjar lækjarsprænur og álver.

Er gróðureyðing hálendisins ekki eins pistils virði?

Brjánn (IP-tala skráð) 30.10.2011 kl. 02:00

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála, Brjánn

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.10.2011 kl. 04:01

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gullfiskaminnið er mikið. Enginn íslenskur fjölmiðlamaður hefur gert eins marga þætti og fréttir um ofbeitina og jarðvegseyðinguna og ég.

Líklegast fleiri en allir aðrir til samans.

 Á tímabilinu 1984 - 2000 dundu á mér ásakanir bænda um að ég væri með níð á hendur þeim með því einu að sýna viðfangsefnið, fyrstur manna og einn.  

Þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, vígði sérstakan tilraunareit við eyðibýlið Djúphóla við Sandá hjá Kjalvegi, sem ég gekkst fyrir að yrði gerður í samvinnu Stöðvar 2, Landgræðslunnar og RALA.

Í hugum margra bænda var ég þá "óvinur bænda númer eitt."

Ég var því kominn með reynslu og nokkuð harðan skráp þegar þetta endurtók sig varðandi það að dirfast að sýna vírkjanasvæðin upp úr 1998 og "óvinur bænda númer eitt" bætti því á sig að verða "óvinur Austurlands númer eitt."

Ef gullfiskaminnið verður samt við sig er við því að búast að umfjöllun mín um virkjanamál verði öllum gleymd eftir tíu ár.

Ómar Ragnarsson, 31.10.2011 kl. 01:36

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég lofa því að ég gleymi því ekki!

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.10.2011 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband