27.12.2011 | 15:36
Best að stela á jólanótt ? Toyotan horfin !
Eg veit ekki hvernig það er á Akureyri, samanber tengda mbl.frétt, en hér í Reykjavík gætu jólanótt, páskadagur og sunnudagurinn um verslunarmannahelgina verið hentugustu dagarnir fyrir bílþjófa.
Ástæðan er sennilega sú að um jól og páska er mest ró og friður og um verslunarmannahelgina er afar rólegt í Reykjavík enda beinist löggæslan mest að miklum verkefnum utanbæjar.
Ástæðan þess að ég er að spá í þetta núna er að í gær eða fyrradag var stolið skásta bílnum mínum, þeim eina sem eitthvert verðmæti var í, af stæði við bílasölu við Bíldshöfða, bláum Toyota 4runner jöklabíl, árgerð 1992, með númerinu TB 594, sem meðfylgjandi mynd er af þegar ég hef fengið tíma til að setja hana inn á síðuna.
4runnerinn var á 38 tommu dekkjum af Ground Hawg gerð með grófu mynstri, sjá meðfylgjandi mynd þar sem hann stendur hjá minnsta jöklajeppa á Íslandi, sem ég nota helst ef ég get, en dugar hins vegar ekki ef ég þarf að hafa með mér mannskap í jöklaferð.
Líklega er enginn annar bíll af þessari gerð með þessum lit og breyttur fyrir jöklaferðir á landinu, - auðþekkjanlegur bíll.
Líklega hafa það verið dekkin og felgurnar sem hafa freistað þjófanna, því að dekkin voru nær óslitin og negld og kosta ný um 400 þúsund krónur.
Bílinn átti að selja á 690 þúsund krónur.
Ef einhverjir hafa orðið varir við þennan bíl eða dekkin af honum á ferli síðan í fyrradag væri gott að fá upplýsingar um það.
Ég keypti þennan bíl fyrir ári af fenginni reynslu af gosinu á Fimmvörðuhálsi, en þangað hafði ég farið í fréttaferð ásamt fréttamanni og myndatökumanni frá Sjónvarpinu á 39 ára gömlum Range Rover jöklabíl með Nissan Laurel dísilvél, og enda þótt sá gamli sé afar duglegur jöklabíll, er kalt í honum og hávaðasamt og krafturinn í antikvélinni mætti vera meiri.
Toyotuna ætlaði ég að eiga til að geta gripið í hann ef ég þyrfti að fara í jöklaferð með mannskap, sem bjóða mætti upp á betri kjör en í nær fertugum fornbíl.
Toyotan kom í góðar þarfir í sumar þegar við Helga fórum upp á Sauðárflugvöll og Helga dró tvo bilaða jeppa, sem þar voru, til byggða, því að hún var sjálfskipt og því þægilegur dráttarbíll.
Að öðru leyti var þessum bíl ekki ekið neitt nema aðeins liðkaður 2-3 kílómetra á tveggja vikna fresti.
Ég vissi að nú á útmánuðum myndi ég hins vegar þurfa að selja jeppann til þess að geta klárað myndina stóru "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars" og þess vegna var hann bíll til sölu á JR bílasölunni og stóð meira að segja yst úti við Bíldshöfðann til þess að síður væri hægt að stela honum af því hann blasti við öllum sem eiga leið um götuna.
Þessi bílþjófnaður gat varla komið á verri tíma fyrir mig.
Ég veit að verslunarmannahelgin er varasöm fyrir bílaeigendur í Reykjavík því að fyrir nokkrum árum var brotin rúða í bíl mínum til þess að stela honum eða dótinu úr honum þar sem hann stóð upp við útvarpshús, en þjófarnir fældust vegna þess að þarna leggja leigbílstjórar bílum sínum.
Áður hafði verið brotist inn í sama bíl þar sem hann stóð inni í læstum bílakjallara Útvarpshússins og stolið úr honum dýrri myndavél !
P.S. að kvöldi 27. desember.
Nú hefur jeppinn komið í leitirnar og farin af stað framhalds- leynilögreglusaga, sjá næsta blogg.
Róleg jól hjá slökkviliðinu á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var þetta ekki bara Lalli Viggós á ferðinni á kranabílnum?
Guðmundur Ásgeirsson, 27.12.2011 kl. 16:01
Sæll Ómar
ég átti leið um höfðann um kl 14:30 í gær og þá var bíllinn á horninu sínu á sölunni
svo hann hefur horfið eftir það...
kv ÞG
Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 17:23
Auglýsti eftir bílnum á vef F4x4: http://f4x4.is/index.php?option=com_jfusion&Itemid=228&jfile=viewtopic.php&f=6&t=30854
kveðja
Dagur
Dagur Bragason (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 17:47
Hrikalegt að heyra! Búinn að hvetja alla í kringum mig að hafa augun hjá sér.
Snorri Þór Tryggvason (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 17:59
Ég sá að bíllinn stóð á sínum stað um sexleytið í gærkvöldi þegar ég átti leið um.
Pétur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 18:18
Sæll Ómar getur verið að hann standi við frystihús Hb Granda á orginaldekkjum. Er vélstjóra á frystitogara hjá Granda og er búinn að vera að vinna þarna í dag og sá svipaðan bíl þarna.
Finnbogi (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 19:48
Sæll nafni.
Vonandi fynst bíllin heill og óskemdur sem fyrst
Jón Ómar (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 19:51
Endilega reyna að finna bílinn fyrir Ómar þann snilling ferlegthvað' stolið er af bílum í dag !
Guðjón Þór Jónsson (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 20:12
Sæll.
Leitt með jeppann, en ég sá ámóta bíl keyra heldur óvandað inná ÓB´við Fjarðarkaup um kl 7:30 í morgunn, gæti verið myndavél á staðnum til að skoða!!!
Rúnar Helgason (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 20:43
Sæll ég sá svona 4runner númerslausan uppá kanti á bílastæðinu hjá granda frystihúsinu í morgun.Ég sá frettina á dv.is þetta er breyttur bíll blár að lit vonandi er þetta hann.
ólafur (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 20:47
Sæll. Ég sá líka þennan 4Runner á bílastæðinu út á Granda um kl 14 og var að furða mig á því hvers vegna svona breyttur jeppi væri látinn standa þarna. Í dag var hann á standard dekkjum.
Guðmundur (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 22:09
Kærar þakkir. Þetta gæti verið byrjun á framhaldssögu, litla leynilögreglusögu, samanber nýjustu fréttir og næsta bloggpistil á eftir þessum.
Ómar Ragnarsson, 27.12.2011 kl. 23:51
Ég held að ég hafi séð þennan bíl keyra fram hjá Alþingishúsinu 2. í jólum milli klukkan 14- 16 . Tók eftir því að einhver smellti mynd af bílnum (Gaf mér að það væri útlendingur að taka mynd af skýtnum fjallabíl). Ég myndi láta skoða myndir úr öryggismyndavélum frá Austurvelli frá þessum tíma.
Geir R (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 00:04
Sæll Ómar og gleðilegt ár.
Þú ættir kannski að athuga hvort notandinn "hjorleifur" á barnalandi hafi getað reddað sér svona dekki. Kannski hann hafi fengið tilboð frá einhverjum sem "átti" svona dekk? http://bland.is.bland.is/messageboard/messageboard.aspx?advtype=22&advid=26646616
Þórunn (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.