Plataði Diego Alves Messi ?

Vítaspyrna Messi var föst og örugg og boltinn stefndi í markið vinstra megin við markvörðinn, séð frá honum og hann virðist úr jafnvægi rétt fyrir spyrnuna.

Þegar spyrnan er skoðuð betur sést, að Diego Alves, stígur snöggt til hægri augnabliki áður en Messi spyrnir, - hann "gefur" Messi markið vinstra megin við sig.

Messi þakkar gott boð og gerir það sem allar vítaskyttur myndu gera, spyrnir boltanum fast og af öryggi í þann hluta marksins sem markvörðurinn er á leið úr.

Ef myndin er stöðvuð á þessum tímapunkti virðist markvörðurinn vera kominn úr jafnvægi á leið í vitlaust horn og boltinn stefna í örugga siglingu í "rétt" horn, ekkert endilega upp í samskeytin eða bláhornið, heldur af öryggi inn í hina stóru eyðu, sem Alves er búinn að gefa Messi. 

Þúsundir marka hafa verið skoruð úr vítaspyrnum á þennan hátt.

En markvörðurinn er greinilega að blekkja, því þegar myndin er spiluð áfram, stígur hann eldsnöggt til baka til vinstri og nær að verja, - hann var sem sagt aldrei kominn úr jafnvægi á leið í vitlaust horn, heldur er ekki hægt að sjá annað en að hann hafi blekkt Messi.

Það að markvörður "gefi" horn er alþekkt fyrirbrigði í handbolta og fótbolta, og það að blekkja með gabbhreyfingu, sem í þessu tilfelli er skref markvarðarins til hægri, er eitt mikilvægasta atriði flokkaíþrótta.

Í vítaspyrnum og fleiri leikatriðum reyna báðir aðilar að blekkja þannig að úr verður afar flókið blekkingakerfi.

Þetta á líka við í íþróttum þar sem maður er á mann, til dæmis í hnefaleikum.

Bob Fitzimonns þóttist fyrir meira en aöld ætla með snöggri gabbhreyfingu að slá ofarlega til Jim Corbett, sem lyfti höndum til varnar.

En í staðinn nýtti Fitz sér glufuna sem myndaðist og sló eldsnöggt þungt högg í taugamiðstöðina solar plexus rétt undir þindinni og tapaður bardagi breyttist í sigur og heimsmeistartitil.

Bragðið byggðist á nákvæmum rannsóknum Fitz á mannslíkamanum og Alves hefur áreiðanlega verið búinn að skoða vítaspyrnur Messi mörg hundruð sinnum á myndbandi.

Þegar Messi siglir að því er virðist óáreittur í gegnum fjögurra manna hópu varnarmanna og skorar glæsimörku,  byggist það oft á blekkjandi hreyfingum hans þar sem hann ruglar andstæðingana og fær þá jafnvel til að vinna gegn hver öðrum.

Í sumum tilfellum væri jafnvel einfaldari vörn að setja einn mann á Messi heldur en fleiri, slík er snilld hans við að blekkja og rugla hóp varnarmanna.

En í vítaspyrnu er maður á móti manni og sé gabbhreyfingum beitt, vinnur einfaldlega sá þeirra sem er snjallari eða heppnari.

Spyrnandi getur beitt margs kyns gabbhreyfingum og það gera þeir sem taka vítaspyrnur oft, og markvörðurinn getur það líka.

Oft reyna báðir aðilar þetta svo að úr verður flókið viðfangsefni, þar sem niðurstaðan fer eftir tvennu, hvor er heppnari, hvor er hefur fljótari viðbrögð á sekúndubroti,  - hvor er snjallari.

Einn möguleikinn er sá hvað varðar vítaspyrnuna, sem hér um ræðir, að Alves sé með einhver hin sneggstu markvarðaviðbrögð sem þekkjast.

Eða að hann hafi á síðustu stundu séð af stellingu Messis að hvert hann ætlaði að spyrna og náð að laga sig að því.

Niðurstaða: Messi var ekki skúrkur, - markvörðurinn sýndi snilld, hans er dýrðin.

Það er viðburður að knattspyrnumaður sé á forsíðu Time og aðalgrein blaðsins um hann.

En það hefur Messi afrekað, einmitt núna, og fær þá umsögn að hann sé besti knattspyrnumaður heims og hugsanlega hinn besti allra tíma.

Hinu síðarnefnda tel ég Messi ekki enn hafa náð, - til þess þarf hann eignast svipaða afrekaskrá á HM og stórmótum og  Pele eða Maradona.

En hann er ungur og á mikið eftir ef allt gengur vel.

Og vítaspyrnan misheppnaða sýnir að hann er eins og allir snillingar, þrátt fyrir allt bara maður.

 


mbl.is Messi aldrei þessu vant skúrkur (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Markvörðurinn át Messi. Allt planað og fyrirfram æft. Markvörðurinn er allan tíman stöðugur á fótunum og nær að setja Messi úr jafnvægi með snöggum hreifingum sínum og étur svo skot hans léttilega.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.2.2012 kl. 11:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góð greining á vítaspyrnu sem „átti“ að rata í netið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.2.2012 kl. 11:44

3 identicon

Góð greining Ómar, en þetta sem þú og fleiri segja forsendu þess að kallast sá besti allra tíma, sé að vinna fleiri stóra titla eins og Pele og Maradonna með landsliðinu, er ég ekki endilega sammála.

Landslið geta lent í slæmum þjálfurum, samherjar ekki nógu góðir, heimavöllur og endalausar breytur. Hinn alþjóðlegi bolti sem nú er spilaður og árangur Messi og félaga á þeim vettvangi, gerir hann að allt eins góðum kandidat.

gunnar gunnarsson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 16:42

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góður punktur hjá þér, Gunnar. Svona samanburður er alltaf erfiður því ef hann á að vera sanngjarn þarf að færa kandidatana til í tíma og rúmi, giska á hvernig Pele hefði plumað sig ef hann hefði verið á toppnum núna í sömu stöðu og Messi og öfugt.

Tækni, þjálfun og leikaðferðir, - allt hefur sitt að segja engu síður en annað umhverfi.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2012 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband