Þegar fullorðinn uppgötvaði undraheim Legó.

Það eru ekki aðeins börn sem hafa "uppgötvað undraheim Legó" eins og segir í frétt mbl.is

Fullorðnir geta líka gleymt sér gersamlega í þessum undraheimi og þarf ekki flókna Legó sérsmíðaða hluta frá verksmiðjunni til að búa til ótrúlegustu hluti.

Þegar þrjú börn okkar hjóna voru á aldrinum 4-8 ára rétt fyrir 1970 fengu þau Legókubba í jólagjöf.

Hófst þegar smíð ýms konar hluta úr þeim, meðal annars á flugvélum.

Flugvélasmíðin byggðist á því að gera litlar flugvélar þar sem kubbarnir voru settir saman að þeir sneru tökkunum upp.

Ég sá fljótlega að þetta var ekki árangursríkasta aðferðin til að gera flugvélar, heldur yrði að hugsa þetta í plani sem væri 90 gráður frá planinu sem gefið var upp hjá Legó.

Þetta þýddi að vængir flugvélanna yrðu settir saman eins og veggir, þ. e. að þeir stæðu upp á endann þegar samsetningin átti sér stað og að flugvélarskrokkurinn væri þá eins og turn með vængina sambyggða við sig sitt hvorum megin.

Þetta endaði auðvitað með því að pabbinn var kominn á kaf við að setja saman ótrúlega stórar þotur sem börnin þrjú fóru að leika sér með.

Þetta ástand varaði í nokkra daga en þá var svo komið að ég var farinn að eyða allt of miklum tíma í að gera við þoturnar, sem börnin voru að brotlenda og lauk þar með þessu stutta en gefandi Legótímabili í ævi minni.

Engu að síður hef ég lengi átt mér þann draum að fá í hendur nógu marga Legókubba til að gera í eitt skipti fyrir öll draumaþotuna, nokkurs konar Dreamliner í samræmi við þær kröfur að hún væri eingöngu smíðuð úr venjulegum Legókubbum sem væru í mismunandi litum og sumir gegnsæir.


mbl.is Börnin uppgötva undraheima Legó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ótrúlegar Ómars dellur,
allar fyrir neðan hellur,
lærði margt í Legósmíði,
en lúxusrúmið var frá Víði.

Þorsteinn Briem, 12.2.2012 kl. 20:40

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 12.2.2012 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband