Myrkrið, - einstæð og verðmæt upplifun.

Myrkrið er einn af þeim fjórum atriðum sem Lapplendingar nefna þegar þeir lokka ferðamenn alla leið þangað norður til að upplifa fyrirbæri sem þeir hafa ekki kynnst áður. Hin þrjú eru kuldi, þögn og ósnortin náttúra.

Öll þessi atriði eiga það sameiginlegt að þau vekja upplifun, sem erfitt er eða ómögulegt að eignast fyrir flesta jarðarbúa sem búa við raflýsingu, hita, hávaða og manngert umhverfi.

Margir spyrja sjálfsagt: Hvaða bull er það að það þurfi að varðveita myrkur? Er myrkrið raunverulega krónu virði?

Jú, það reynist vera mikilla peninga virði í Lapplandi. En ekki aðeins það. Sú upplifun að standa undir heiðskírri himni og sjá þúsundir og jafnvel milljónir stjarna í fyrsta sinn er upplifun sem er ólýsanleg, óviðjafnanleg og ógleymanleg.

Þess vegna er á okkar tímum hægt að "selja Norðurljósin" eins og Einar Ben lét sér detta í hug og hlegið var að á hans tíð.

Ég skal nefna lítið dæmi um gildi myrkursins. Dóttir mín og tengdasonur urðu kennarar í Vík eftir að þau luku kennaraprófi.

Þegar ég spurði þau hvað væri eftirminnilegast frá veru þeirra þarna hélt ég að það yrði upplifun þeirra af stórbrotnum náttúrufyrirbærum í nágrennninu og kynnum við gott og áhugavert fólk í nýju og ólíku umhverfi miðað við borgina, sem þau ólust upp í.

En einróma sögðu þau frá því fyrirbæri sem heillaði þau mest og eftirminnilegast myndi verða frá árum þeirra í Vík í Mýrdal:   Það var að standa úti að næturlagi, horfa upp í himinhvolf milljóna stjarna, sem hvefldist yfir þau og heyra ekkert annað hljóð en brimhjóðið við Reynisdranga.

 


mbl.is Mörður stýrir hópi um myrkurgæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Til fróðleiks:

Ljósmengun i þéttbýli og dreifbýli...
Auðlind sem er að hverfa

Ágúst H Bjarnason, 8.3.2012 kl. 16:57

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Myrkraverkin mörg og stór,
myrkur, kuldi hér og snjór,
mokað hefur margan flór,
Mörður slökkti hér og fór.

Þorsteinn Briem, 8.3.2012 kl. 17:27

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Mestu undur lífsins eru aldrei fjarri.

Þvílík gjöf náttúrunnar er ekki sjónin og að skynja alheiminn á stjörnubjartri nóttu. Venus og Mars ætla ég að séu skærust stjörnur nú á suðvesturhimni. Í rafljósunum í Reykjavík sjást ekki vel aðrar stjörnur.

Í kvöld er sá dagur sem áhrifa frá stóra sólgosinu gætir mest. Hvítur snjóstormur var á Reykjanesinu síðdegis í dag. Nú væri mikill upplifun að vera staddur við Reykjanesvita og upplifa samtímis glaðbeittan stjörnuhiminn og brimrótið. Þeir sem búa á Reykjavíkursvæðinu geta séð mikinn töfraheim í ljósaskiptunum í Heiðmörk og við Kaldársel.

Nú líður senn að jafndægri og stjörnubjörtum nóttum fækkar.

Sigurður Antonsson, 8.3.2012 kl. 21:39

4 identicon

Það reif af um tíma í gærkvöldi, og stjörnudýrðin var ofurleg. Vel hægt að sjá vetrarbrautina.

Fyrir þá sem vilja vita hvað er hvar og hvenær, má benda á ókeyðis forrit á netinu sem heitir "Stellarium"

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.3.2012 kl. 08:16

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Jón Logi, þú átt gott að búa í sveit.

Ómar Ragnarsson, 9.3.2012 kl. 15:55

6 identicon

Takk fyrir það. Hér er reyndar skjóllítið, og fjandanum styttra í vel-upplýst sveitaþorp (500 m.). En það er lítil lýsing miðað við Stór-Reykjavíkursvæðið.

Svo munar og um útblástur og annað ryk, sem dempar útsýnið og býr til svona "speglunarhjúp".

Selfoss nær þessu marki, en Hvolsvöllur og Hella ekki,,,,,,enn.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.3.2012 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband