Taktík til að geta myndað stjórn?

Það er áreiðanlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. En ef hann á að geta það verður hann áður að hafa búið til tengsl inn í þá flokka sem til greina koma sem samstarfsflokkar.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnun yrði hægt að mynda stjórn með 43% fylgis kjósenda ef 16% kjósenda samtals kjósa nýju framboðin á sama hátt og komið hefur fram í síðustu könnunum og atkvæðin falla öll dauð.

En Sjálfstæðismenn verða að vera viðbúnir því að fylgi þeirra dali þegar að kjördegi líður og enn frekar í kjörklefanum sjálfum eins og oftast hefur verið raunin.

Þá gæti komið upp sú staða að ekki sé ráðlegt eða jafnvel ekki hægt að mynda stjórn með Framsóknarflokknum einum og þá yrði að vera búið að erja jarðveg fyrir stjórnarmyndun með öðrum flokkum.   

Í því ljósi má velta vöngum yfir hvers vegna Illugi Gunnarsson var settur sem þingflokksformaður.

Vitað er að hann og þingflokksformaður VG eiga tengsl aftur í æsku og einnig að Illugi virðist lunkinn í því að skapa kunningatengsl sem oft liðka fyrir stjórnmálalausnum. Þótt mörgum flokksmönnum finnist það hafa verið gott hjá Ragnheiði Elínu að vera föst fyrir á þingi, kann að vera að lipurð og lagni Illuga muni verða mikilvægari næsta vor.

Um þetta atriði, tengsl á milli þingmanna í gagnstæðum flokkum, var rætt þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði stjórn með Samfylkingunni 2007, til dæmis að kunningsskapur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáverandi formanns Sf og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þáverandi varaformanns Sjallanna, hefði undirbúið jarðveginn og liðkað fyrir stjórnarmynduninni.

Næsta vor verður mikið um að vera og óróasamt fyrir kosningar og fyrnt yfir mannaskiptin nú.

Bjarni Benediktsson veit að eftir næstu kosningar verður spurt að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum haustið áður.

Það skyldi því ekki vera að hrókeringar hans nú séu til þess að undirbúa sem best það sem áreiðanlega er öllu ofar fyrir hann, að komast í stjórn með einhverjum eftir næstu kosningar?    


mbl.is Segir Sjálfstæðisflokkinn ekki ná vopnum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ná auðveldlega meirihluta í næstu kosningum

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2012 kl. 00:13

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eins og staðan er núna er líklegast að eftir næstu alþingiskosningar verði mynduð ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti fengið 33% atkvæða í kosningunum og mjög ólíklegt er að aðrir flokkar en Samfylkingin fái þau 20% atkvæða, eða fleiri, sem þyrfti til að geta myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum einum.

Á Alþingi eru 63 þingmenn, helst þurfa því að minnsta kosti 33 þingmenn að styðja ríkisstjórnina og tæplega 1,6% atkvæða eru á bakvið hvern þingmann.

Þar að auki hefur Sjálfstæðisflokkurinn lítinn áhuga á að vera í ríkisstjórn með Vinstri grænum, enda eru þessir flokkar mjög ólíkir og auðvelt að halda því fram að Vinstri grænir séu á móti öllu, þar á meðal stóriðju.

Því er langlíklegast að Samfylkingin verði í næstu ríkisstjórn og hún mun að sjálfsögðu gera það að skilyrði fyrir myndun stjórnarinnar að hér verði þjóðaratkvæðagreiðsla um AÐILDARSAMNING Íslands að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir á næsta kjörtímabili.

Þorsteinn Briem, 6.9.2012 kl. 00:21

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

25.8.2012:

"Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á Hólum í Hjaltadal var meðal annars samþykkt ályktun um að ríkisstjórnarsamstarf VG og Samfylkingar hafi skilað miklum og ótvíræðum árangri.

"En betur má ef duga skal og þessum árangri þarf að fylgja eftir með áframhaldandi samstarfi vinstri manna í íslenskum stjórnmálum á næsta kjörtímabili," segir í ályktuninni."

Vinstri grænir vilja áframhaldandi samstarf vinstri manna á næsta kjörtímabili

Þorsteinn Briem, 6.9.2012 kl. 01:22

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Enn og aftur flokksræðið í fyrirrúmi umfram lýðræðið sem er fótum troðið!

Sigurður Haraldsson, 6.9.2012 kl. 02:01

5 Smámynd: Púkinn

Það má ekki gleyma einu - öllum þeim atkbæðum smáframboðanna sem munu falla niður dauð þar sem þau ná ekki inn kjördæmakjörnum manni og ná ekki 5% þröskuldinum.

33% attkvæðamagn D-listans gæti auðveldlrga þýtt 40% þingmanna.

Púkinn, 6.9.2012 kl. 09:48

6 identicon

„33% attkvæðamagn D-listans gæti auðveldlrga þýtt 40% þingmanna.“

Myndi þá Sjálfstæðisflokkurinn vera sá eini sem græddi á þingmannaleysi smáfuglanna?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.9.2012 kl. 21:50

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Við Íslendingar eigum vonandi ekki eftir að fá yfir okkur afturhaldsstjórn akkúrat núna.

Þá væri Íslendingum ekki viðbjargandi. Ef vilji er fyrir að fela Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarmafíunni völdin þá væri eins gott að biðja um danska einokun eins og hún var verst!

En vonandi sjá sem flestir við fláræði þessara stjórnmálaafla. Fyrir þeim er braskið og einkavæðing á öllu sem kann að gefa arð alfa og omega.

Góðar stundir en vonandi án Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um aldur og ævi!

Guðjón Sigþór Jensson, 7.9.2012 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband