Aðferðin: Þóf af öllu tagi í fjögur ár.

Allt frá upphafi stjórnarskrármálsins á útmánuðum 2009 hefur aðferð andstæðinga breytinga á stjórnarskránni aftur og aftur blasað við: Þóf og tafir, að drepa málum á dreif.

2009 voru heil fjögur ár til stefnu fram að næstu kosningum til að gera nýja stjórnarskrá en Sjálfstæðismenn á Alþingi gáfu tóninn af sinni hálfu til þess að tefja fyrir með því að beita strax málþófi.

Eftir kosningarnar 2009 var að vísu samþykkt með 63 atkvæðum allra þingmanna að halda í þá vegferð, sem síðan hefur staðið en á þessa staðreynd er aldrei bent í umræðunni nú.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áttu hugmyndina um þjóðfundinn, en hallmæla nú hver af öðrum þessari hugmynd sinni sem algeru rugli.

Þjóðfundurinn var að mínu mati nauðsynlegur en tafði auðvitað fyrir ferlinu.

Síðan kom önnur töf, hinn fáránlegi hæstaréttardómur sem átti sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum.

Nú er liðið eitt og hálft ár síðan frumvarp að nýrri stjórnarskrá lá fyrir og "efnisleg umræða og umfjöllun " gat hafist, en andstæðingar þess hafa notað öllu möguleg ráð í þessa 18 mánuði, bæði í málþófi í umræðum á þingi og í nefndarstörfum til þess að tefja fyrir henni og drepa umræðunni á dreif og tala eins og að fyrst nú séu þessi umræða og umfjöllun að hefjast.

Yfirgnæfandi meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslunni; þau úrslit eru töluð niður sem markleysa, en nú heyrum við í fréttum að í þjóðaratkvæðagreiðslu í Austurríki hafi meirihlutinn samþykkt herskyldu og var þó þáttakan þar minni en í þjóðaratkvæðagreiðslunni hér um stjórnarskrána og mjótt á mununum hjá þeim sem kusu. 

Hvergi sést því haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðslan þar hafi verið marklaus né heldur að kosning Obama í embættið, sem hann var svarinn inn í dag, hafi verið marklaus af því að aðeins jum helmingur Bandaríkjamanna tók þátt í forsetakosningunum. 

Yfirforinginn í Hádegismóum hefur gefið línuna: Eftir kosningar verði mynduð stjórnarskrárnefnd með gamla laginu með fulltrúum allra flokka til að uppfylla loforðið frá 1944 um nýja stjórnarskrá, eins og gert var æ ofan í æ án árangurs í 70 ár vegna þess að allir í nefndinni höfðu neitunarvald og beittu því alltaf. 

Ef dagskipan ritstjórans verður fylgt er góð von til þess fyrir andstæðinga nýrrar stjórnarskrár að geta hafið nýtt 70 ára þóf í framhaldi þess fyrra. 

 

 


mbl.is Stjórnlagafrumvarp fallið á tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi haft það að bjartfastri skoðun sinni að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé einkamál hans. Enginn mátti dirfast að hreyfa minnstu tillögu um breytingar. Svo langt gekk þetta að ef þurfti að færa einhvern til í goggunarröðinni þá var honum falið það verkefni að endurskoða stjórnarskrána.

Eftir umskiptin á liðnum árum þá er greinilegt að fulltrúar braskaraaflanna hafa ætíð stýrt bæði Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Báðir þessir flokkar lögðu allt undir, einkavæddu og jafnvel gáfu vildarvinum kvóta, fyrirtæki og banka til að braska með.

Þetta eru flokkarnir sem aldrei hafa ljáð máls á því að hér verði teknir umhverfisskattar. Í Evrópu verður sá sem hefur mengandi starfsemi af iðju sinni að kaupa sér mengunarkvóta. Hann nemur í dag um 25 Evrum á hvert tonn af CO2. Ef álbræðslurnar framleiða hér um milljón tonn, þá er um að ræða 50 milljóna Evra „gjöf“ til álbræðslanna en talið er að um 2vöfalt magn af CO2 og öðrum mengandi efnum verði til við framleiðslu hvert tonn á áli.

Hvar nema í þróunarríkjunum eru iðnjöfrum afhent slík hlunnindi!

Af ávöxtunum skulum við þekkja þá!

Guðjón Sigþór Jensson, 21.1.2013 kl. 22:05

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Merkilegt að núverandi stjórn skuli ekki hafa sett umhverfisskatta á álbræðslurnar eða ígildi mengunarkvóta ESB.

Eins lagin og hún hefur verið að setja á bleygju og sykurgjöld.

Sykurskatturinn hefur hækkað um mörg hundruð prósent.

Ráðherrar eru mjög glaðir yfir því og gera grín að sykurfíklunum sem þeir sjá í ýmsum myndum. Ágætis forræðishyggja ef hún fækkar sjúklingum og spítalaheimsóknum, en er það rétta leiðin til að ná árangri.

Innan við 100 dagar eru til kosninga og margt spennandi framundan á stjórnmálasviðinu. Kjöraðstæður til að vinna fylgi óánægra kjósenda.

Hvernig menn vinna úr þeim verður forvitnilegt. Stjórnarskrámálið er stórmál þar sem kjósendur hafa varðað veginn. Þeir vilja efla lýðræðið og dreifa valdinu. Getur einhver verið á móti því?

Sigurður Antonsson, 21.1.2013 kl. 22:48

3 identicon

Bara forvitni, Ómar: Getur þú bent mér á eina grein, já bara eina, í núverandi stjórnarskrá sem stendur þessu þjóðfélagi fyrir þrifum. Ég var í lögfræði 1964-1966 og ég man ekki eftir að prófessor Ólafur Jóhannesson (vitmeiri en við tveir samanlagt um stjónarskrá) hafi bent á eina einustu grein sem stæði þjóðinni fyrir þrifum. Svar óskast, takk.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 23:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hefur verið breytt nokkrum sinnum frá árinu 1966.

Og henni verður einnig breytt nú í vor.

Að minnsta kosti að einhverju leyti.

Þorsteinn Briem, 22.1.2013 kl. 00:58

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvernig er hægt að halda því fram að stjórnarandstaðan hafi tafið málið frá þeim tíma er stjórnlagaráð lagði fam sínar tillögur?

Ríkisstjórnin hélt málinu frá Alþingi, þrátt fyrir að stjórnarandstaðan kallaði í sífellu eftir að fá að ræða það!

Þú verður að hafa staðreyndirnar á hreinu Ómar!

Gunnar Heiðarsson, 22.1.2013 kl. 08:41

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi fyrirspurn Sigurðar Antonssonar hvers vegna núverandi stjórnvöld hafi ekki lagt á stóriðjuna umhverfisskatt (Nr.2).

Skattheimta sem þessi er mjög vandmeðfarin. Leggja þarf skattinn mjög almennt þannig að ekki fari eitt fyrirtæki verr út en önnur. Á þetta reyndi t.d. þegar hugmynd var um að leggja hærri virðisauka á gistingu og kallaði á mótmæli.

Á sumarþinginu 2007 var eitt mál á dagskrá: að leggja fyrir þingið samning við Rio Tinto um nýja skattlagningu sem byggðist á samningum milli ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við þá álmenn. Horfið var frá framleiðslugjaldi en tekin upp venjuleg skattlagning sem býður álfyrirtæki að hagræða bókhaldi með því að beina hagnaði til dótturfyrirtækis í skattaparadís. Þarna hefði þurft að leggja á mengunarskatt og í framhaldi á hin stóriðjufyrirtæki.

Þessi samningur færði álbræðslunni í Straumsvík a.m.k. hálfan milljarð aukinn hagnað með lægri skattheimtu. Allt var þetta í takt við að sýna þessum hagsmunum einstakan „skilning“. Víða um heim tíðkast sérgreiðslur, mútur til stjórnmálamanna sem sýna af sér þennan skilning.

Allt er á huldu hvort slíkt tíðkast hér en miðað við hvað sumir stjórnmálamenn hafa verið einstaklega duglegir að komast yfir mikla fjármuni, er þetta ekki útilokað. Var ekki Guðlaugur Þór t.d. einstaklega ötull að fá háar greiðslur úr íslenskum fyrirtækjum? Sjálfsagt væntu stjórnendur þeirra meiri hagnað í rekstri þeirra þegar Guðlaugur Þór hafði fengið féð.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 22.1.2013 kl. 18:39

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minnist þess að ákvæðið um Landsdóm var mjög umdeilt þegar ég var í lagadeild. Niðurstaða okkar í stjórnlagaráði 2011 var að fella það niður en kannski vilt þú, Örn, viðhalda því og telur að ákvæðið gamla hafi verið til bóta ?

Ég minnist þess að rifist var um það æ meir eftir því sem leið á öldina, hvort forsetinn hefði í raun málskotsrétt vegna þess að myndast hefði hefð fyrir því að hann beitti honum ekki. 

Lögfræðingar tókust á um þetta og margir vildu alls ekki hafa þetta ákvæði eða þá að neita því að það væri virkt. 

Bæði 1931 og 1974 urðu harðar deilur um þingrofsvaldið og ég minnist þess að enda þótt Ólafur Jóhannesson, sem kenndi mér stjórnarfars- og stjórnskipunarrétt, teldi þingrofið 1931 hafa verið lögmætt, voru fræðimenn ekki á eitt sáttir, ekki heldur 1974. 

Að mínum dómi var rétt að setja um þetta nýjan og skýran ramma í nýrri stjórnarskrá en kannski ert þú að móti því. 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2013 kl. 19:46

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má bæta við, að harðar deilur urðu meðal lögspekinga við inngöngu í EES, hvort setja þyrfti málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki, - hvort þetta væri brot á fullveldi landsins.

Í nýju stjórnarskránni eru ákvæði um afsal ríkisvalds, sem talsmenn allra flokka á þingi nú telja nauðsynlegt og eru tilbúnir að taka upp. Ef þeir væru svona ánægðir með gamla ófremdarástandið væru þeir varla sammála um að ný grein um þetta sé til bóta. 

En kannski var þetta og er enginn galli á núverandi stjórnarskrá. 

ÖSE telur misvægi atkvæða upp á allt að helming vera galla á núverandi stjórnarskrá, en þetta misvægi hefur verið frá allt frá upphafi alþingiskosninga. 

En þú telur það greinilega vera í góðu lagi. 

Ég gæti haldið áfram að telja upp en af því að þú ert svona ánægður með núverandi sjtórnarskrá læt ég þetta nægja. 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2013 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband