Eini íslenski flugmaðurinn sem hefur "misst mótor".

Það þykir tíðindum sæta að bílvél hafi orðið viðskila við bíl eftir árekstur við tvo ljósastaura á Akureyri í nótt. Þetta er þó ekki einsdæmi hvað bíla snertir, og má til dæmis sjá á YouTube hvernig keppnisbíll í kappastri í Bandaríkjunum fer í tvo hluta í árekstri svo að vélin hafnar alllangt frá bílnum.

En svo við höldum okkur við Akureyri, þá gerðist þar óvenjulegt atvik fyrir meira en 30 árum.

Á flugmannamáli er stundum talað um það að flugmenn "missi mótor" þegar vélin drepur á sér á flugi.

En Húnn vinur minn Snædal, flugumferðarstjóri, er eini íslenski flugmaðurinn sem hefur "misst mótor" í bókstaflegri merkingu.

Húnn smíðaði lítið flygildi, svonefnda eins manns snúðþyrlu (gyrocopter) sem hann nefndi "Prikið".

Flygildið er ákaflega létt, lítið og einfalt. Það hangir neðan í stórum láréttum spaða, líkt og þyrla, en munurinn er sá, að spaðinn er ekki vélknúinn, heldur byrjar hann að snúast og lyfta loftfarinu þegar annar minni vélknúinn spaði eða loftskrúfa, aftan á loftfarinu, knýr það lárétt áfram í flugtaki sem er líkt flugtaki flugvélar, uns hraðinn er orðinn nógu mikill til að stóri spaðinn lyfti "Prikinu".

Stóri kosturinn við svona loftfar er einfaldleiki og sá eiginleiki, að geta lent á afar litlum bletti á meðan tregða heldur stóra spaðanum í snúningi.

Eitt sinn þegar Húnn var að fljúga við Akureyrarflugvöll gerðist sá einstæði atburður að hreyfillinn datt af Prikinu í heilulagi ásamt loftskrúfu sinni.

Húnn horfði á hreyfilinn og skrúfuna skrúfast niður til jarðar, en vegna þeirrar léttingar, sem brotthvarf hreyfilsins hafði á Prikið, mátti hann þakka fyrir að geta náð stjórn á því og nauðlenda heilu og höldnu.

Eftir stendur að Húnn er eini íslenski flugmaðurinn sem hefur "misst mótor" í bókstaflegri merkingu og hugsanlega sá eini á Norðurlöndum sem hefur lent í slíku.  


mbl.is Vélin varð eftir á veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ef mig misminnir ekki þá gerðist eitthvað slíkt hér fyrir vestan, það var annað hvort Hörður Guðmundsson eða Hálfdán Ingólfsson sem missti hreyfil, í firðínum en gat lent vélinni á flugvöllinn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2013 kl. 14:08

3 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Gunnar Arthúrsson missti annan mótorinn af Fokker í flugtaki frá Ísafjarðarflugvelli einhverntímann eftir 1980.  Ég man vel eftir því, var stödd uppi á Seljalandsdal, og horfði á mótorinn falla í sjóinn.
Ásthildur - þetta var Hálfdán frændi minn sem þú ert að vitna í, en hann missti ekki mótor, heldur varð hann bensínlaus.

Sigríður Jósefsdóttir, 9.2.2013 kl. 15:31

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Alveg rétt hjá þér Sigríður mín, já ég var að meina hann, mundi vel eftir þessum atburði með mótorinn en mundi ekki hver var flugmaðurinn.  En mundi samt að Halli hafði lent í einhverjum erfiðleikum fyrir lendingu.  Takk rétt skal vera rétt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2013 kl. 15:46

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einu sinni fyrir langa löngu þegar ég var ung og var fyrir sunnan og þurfti nauðsynlega að komast vestur en það var verkfall hjá flugmönnum eða eitthvað slikt. Þá varð það úr að Páll man ekki hvers son flaug tvíþekju og var lengi í áburðardreyfingu, mikill flugkappi fór eina ferð  vestur, og þar sem hann mátti ekki lenda á Ísafjarðarflugvelli, var lent á sandinum í Bolungarvík.  Við flugum þarna útsýnisflug á þessari eðalflugvél, nema hvað á miðri leið kviknaði í einum hreyfli, og fólk um borð varð auðvitað skelkað, þá snaraðist sá gamli afturí og ég veit ekki hvað hann gerði, nema hann gat slökkt eldinn og flaug svo og lendi heilu og höldnu í Bolungarvík.  Ég gleymi þessu aldrei, en seinna þegar ég vitkaðist meira, varð ég voða flughrædd, var það sem betur fer ekki þarna.  En svona geta hlutirnir gerst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2013 kl. 16:39

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Horfði á þetta atriði hjá Húna... var að gaufa með pabba og mömmu í kartöfflugörðunum sem þá voru í brekkunum rétt sunnan flugvallarins.. hafði verið að horfa á flugið...allt í einu steinþagnaði mótorinn og maður sá eitthvað falla og skella með gusugangi á Leirurnar.. frekar fyndið fannst manni en koptin sveif glæsilega til lendingar...vélarvana. Líklega var þetta um 1970 eða aðeins fyrr.

Jón Ingi Cæsarsson, 9.2.2013 kl. 19:10

8 identicon

Sæll Omar!  Var tetta ekki prikid sem einn af DNG brædrum, Niels, kom med frå Ameriku. Eg held ad tetta hafi verid motor ur folsvagen. EN Huni sagdi eftir å ad hann hafdi aldrei heyrt adra eins tøgn å æfi sinni. Kvedja frå Norge

einar olafsson (IP-tala skráð) 9.2.2013 kl. 22:03

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hörður Guðmundsson missti ekki hreyfilinn framan af Cessna 180 vél, sem hann var að fljúga inn Skutulsfjörð heldur fór skrúfan af hreyflninum og hann lenti vélinn skrúfulausri.

Hreyfillinn datt ekki af Fokkernum, ef ég man rétt, heldur kviknaði í honum.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 00:39

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Prikið var snúðþyrla af gerðinni Benzen og hreyfillinn var mjög lítill tvígengishreyfill af gerðinni McCulloch.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 00:42

11 Smámynd: Snorri Hansson

Þar sem ég þekki smá hluta af sögu Priksins langar mig að láta hana fylgja með. Áður en mín saga byrjar hafði Húnn smíðað og test flogið Prikinu . Það flug stóð stutt og endaði með brotlendingu. Ástæðan var sú að hreyfingar stýrisins á gyrocopter voru allar öfugar við venjulegan stýripinna og það var ógerlegt fyrir vanan flugmann. Þegar endurbyggingu var lokið hafði Húnn sett venjulegan stýripinna.

Hann vildi æfa flug án mótors og þar sem ég átti stóran bíl bað hann mig að draga Prikið í löngum spotta eftir flugbraut Akureyrarflugvallar. Að nokkrum dögum liðnum var Húnn ánægður og kominn með fulla stjórn á gripnum.

Nú rann upp dagurinn sem Prikinu átti að fljúga í alvöru. . Það tók mjög langan tíma að fá mótorinn í gang og stilla ganginn. Loks  lagði prikið af stað út á braut og í átt að brautarenda ég og Sigurður Aðalsteinsson dóluðum til hliðar á bílnum ef þyrfti að draga gripinn til baka. Þegar við erum komnir langleiðina út á enda stoppar Prikið. Húnn er ekki ánægður með ganginn í vélinni. Hann losar sig úr sætinu,snýr sér að mótornum og grúfir sig í áttina að honum.

Skrúfublöðin tæta sig upp í gegnum andlitið á Húni þrisvar fjórum sinnum áður en hann dettur afturábak. Sigurður hleypur til aðstoðar en ég fer eins og druslan kemst að flugstöðunni til að kalla eftir sjúkrabíl. Þegar ég kem aftur er búið að drepa á mótornum . Húnn er með meðvitund og er að spyrja Sigurð hvernig sárið lýti út. Sigurður sá orðvari rólyndismaður, svarar og segir að þetta líti nú ekki alveg nógu vel út en lýsir því ekkert frekar. Það sem ég horfði á var að spaðinn hafði farið upp í gegnum hökuna  og upp í gegnum andlitið brotið bein og svipt hægra helming andlitsins til hliðar

þannig að kjálki kinn og auga var bert.

 Þetta er þrátt fyrir allt bara róleg stund þar sem við bíðum en Húnn  lætur þó vita að honum sé að verða kalt í sárinu. Fljótlega sáum við sjúkrabílinn koma æðandi eftir Drottningarbrautinni.

Þeir voru margar klukkustundir að koma Hún saman  á skurðborðinu.

 Hann var í húfu og umlykjandi hjálm sem studdi þétt að, þegar hann lenti í slysinu.

 Hjálmurinn bjargaði höfðinu  alveg örugglega.

 Og hér hef ég stautað mig í gegnum skelfilegustu stund lífs míns.

 

Snorri Hansson, 10.2.2013 kl. 01:00

12 identicon

Góðvinur minn keypti einu sinni svona gýrókopta. Ég reyndi að ná þessu skrípildi í loftið. En eitthvað smávægilegt var að, þannig að aldrei varð það að meiru en rétt að fljóta á "ground effect".
Það var svona 60 ha. vél í þessu og ýtiskrúfa. Tveggja blaða spaði fyrir ofan haus. Bensíntankurinn var innan í sætinu. og sett í gang með spotta ef ég man rétt.
Til að ná spaðanum á snúning þarf loft, nú eða afl. En gýrókopti snýst áfram eftir loftflæði meðan þyrla gerir það ekki, - og þessi græja var með "bendix" sem maður gat haldið að kransi undir spaðanum með barkatengingu og skafti til að komast nær snúningshraðanum sem þurfti til að svífa upp. Minnir að það hafi verið 200 rpm frekar en 300.
Hann átti að geta lyft sér á 15 mph, en við félagarnir gáfumst upp þegar hann fékkst rétt til að svífa á 40 mph. Ímyndið ykkur að sitja í hjólbörum á næstum 70 km hraða með hakkavél að ofan og aftan, og bensínforða undir rassinum,- þetta er bara fyrir spennufíkla ;)

Og samt fer maður allra helst ekki á hestbak

Jäon Logi (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 07:55

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýtískulegustu snúðþyrlurnar eru með búnaði sem gerir kleift að tengja hreyfilinn við lyftispaðann og þeyta honum upp undir nægan hraða til að lyfta þyrlunni. Siðan er kúplað frá og gefið afl með ýtiskrúfunni.

Lagnir flugmenn eiga að geta komist nálægt því að komast á loft á 20-30 metrum í logni og jafnvel örfáum metrum í mótvindi.

Ég hef lesið dálítið í gegnum árin um snúðþyrlur og því er haldið fram að gott flygildi af þessu tagi séu öruggustu loftförin, mun öruggari en þyrlur.

Ástæðan er sú að vegna þess að lyftispaðinn er ekki knúinn áfram af vélarafli þarf ekki allan þann flókna og dýra stýribúnað sem er tengdur við lyftispaðann á þyrlu.

Sömuleiðis þarf ekki hliðarskrúfu á stéli með sínum flókna stýribúnaði til að halda á móti snúningsafli vélknúins lyftispaða.

Góð snúðþyrla með hæfum flugmanni þarf miklu styttra flugtaksbrun en samsvarandi flugvél og getur lent á miklu styttri lendingarbraut.

Stutt eða allt niður í núll lendingarbrun er mun meira öryggisatriði en flugtaksbrunið, því að á jörðu niðri er miklu betra fyrir flugmanninn að kynna sér fyrir flugtak það svæði sem hann þarf,  heldur en að meta lendingarblettinn úr lofti fyrir lendingu.

Samt held ég að ég myndi frekar kjósa góða skammbrautarvél en snúðþyrlu í þeirri stöðu aldurs og reynslu sem ég er nú.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband