9.8.2013 | 02:08
Skoðaði ekki fossana. Ótrúlegt.
Það var gagnlegt og gott að iðnaðarráðherra skoðaði virkjanirnar á Þjórsár- Tungnaársvæðinu eins og greint er frá í frétt á mbl.is. Ráðherrann og skoðanasyskin hennar kvörtuðu fyrir kosningar yfir óvönduðum vinnubrögðum varðandi rammaáætlun og þetta er það fyrsta sem maður sér sem dæmi um ný og vandaðri vinnubrögð.
Eða það hefði maður getað ætlað.
Um þessar virkjanir, sex að tölu, frá Búrfellsvirkjun upp að Vatnsfellsvirkjun, hafa engar deilur staðið þótt látið sé í veðri vaka að náttúruverndarfólk "sé á móti öllu" og "á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu".
Ef athugun á fyrirhugaðri virkjun með Norðlingaölduveitu hefði fylgt með, þrátt fyrir að sá virkjanakostur sé ekki inni eins og stendur, hefði það svo sem verið verjanlegt að því tilskyldu að sú athugunin væri vönduð og allt haft uppi á borðinu.
En svo virðist ekki hafa verið af frétt á mbl.is að dæma.
Samkvæmt henni var aðeins skoðað fyrirhugað stíflustæði Norðlingaölduveitu og látið þar við sitja.
Að skoða ekkert annað en stíflustæðið, sem skipti máli varðandi þann virkjanakost, er hins vegar forkastanlegt vegna þess að með því er gefin alröng mynd af þeirri virkjun og virðist ætlunin vera að sú mynd verði ráðand, enda hefur hún verið það frá upphafii.
Ef frétt um ferðalagið er rétt fór ráðherrann sem sé til Reykjavíkur í lok ferðalags án þess að skoða fossana þrjá sem þessari virkjun er ætlað að þurrka upp í ánni, þar af tvo sem eru á stærð við Gullfoss.
Annar þeirra, Dynkur, er líkast til flottasti stórfoss landsins ef hann fær að renna í fullri stærð.
Þetta eru nú hin nýju og vönduðu vinnubrögð sem nú er verið að taka upp !
Sem sagt: Þetta virðist ekki aðeins vera af sama toga og þegar´á sínum tíma var aðeins gefinn kostur á að skoða sjálft stíflustæði Kárahnjúka en alls ekki landið þar fyrir innan sem átti að sökkva.
Þetta atriði að sleppa að skoða fossana núna og jafnvel ekki að segja frá þeim, er sýnu verra ef rétt er hermt en þöggunin varðandi afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar. Og frá því er sagt eins og sjálfsögðum hlut að skoðun stíflustæðisins eins hefði verin látin nægja.
Erum við þar með komin til baka um 13 ár? Svo virðist vera og ekki nóg með það, enn lengra aftur, aftur fyrir tíma Davíðs og Halldórs.
Hvernig litist mönnum á ef ráðherra, sem aldrei hefði séð Gullfoss, væri leiddur að fyrirhuguðu stíflustæði ofan við fossinn en fengi aldrei að sjá Gullfoss? Og ætti síðan að ákveða að virkja hann?
Eða ef ráðherra, sem aldrei hefði séð Dettifoss, Selfoss né Jökulsárgljúfur, væri leiddur að fyrirhuguðu stíflustæði í ánni, en því væri hins vegar alveg sleppt að skoða þau náttúrufyrirbæri sem ætti að eyðileggja með virkjuninni.
"Iðnaðarráðherra skoðaði virkjanir" er fyrirsögn fréttarinnar og ein af virkjununum var Norðlingaölduveita. Nóg að sjá hvar stíflan á að koma.
"Þá er það ákveðið" sögðu ræningjarnir í Kardemommubænum. Er það líka þannig í þessu máli?
Mjög er kvartað yfir því að ekki sé reynt að dreifa fjölgandi ferðamönnum betur um landið.
Í Þjórsá eru þrír fossar sem gætu þjónað þessu hlutverki en greinilega á að stúta þeim sem fyrst ef aðferðafræðin er sú sem virðist ríkja þarna og hefur ríkt alla tíð.
Já, hún hefur ríkt alla tíð. Þegar faghópur rammaáætlunar um ferðamennsku fjallaði um Norðlingaölduveitu var fyrsta niðurstaðan sú, að virkjunin væri mjög mikiils virði, þótt hún væri ekki komin, en möguleikar til ferðamennsku hins vegar afar litlir, af því að svo fáir hefðu komið á svæðið hingað til !
Hlálegar forsendur, því að ef núverandi ástand hefði átt að liggja til grundvallar í báðum tilfellum og jafnræðis gætt, hefði virkjunin, orkunýting, fengið einkunina núll, af því að það hefði ekki verið virkjað þarna fram að þessu, - og verndarnýting líka fengið einkunnina núll, af því að ekkert hefði verið gert til að nýta náttúruverðmæti svæðisins fyrir ferðamenn.
Eðlilegt hefði verið að sömu forsendur hefðu verið lagðar fyrir báðum möguleikum. Það var hins vegar ekki gert.
![]() |
Iðnaðarráðherra skoðaði virkjanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekkert þetta um ég hirði,
öllu sökkt hér dag og nótt,
allt er þetta einskis virði,
aðeins mismunandi ljótt.
Þorsteinn Briem, 9.8.2013 kl. 09:42
Besta lýsing sem ég hef séð á aðferðarfræðinni við Kárahnjúka, Steini.
Þar var 56 milljónum eytt í upphafi til þess að gera níu sjónvarpsþætti virkjanamannvirkin og framkvæmdirnar en ekki eytt einni sekúndu í það að sýna það, sem átti að sökkva, eða fossana, sem átti að stúta.
Baslið með Örkina síðan 2006 fela í sér viðbrögð við þessu.
Ómar Ragnarsson, 9.8.2013 kl. 09:50
Djásn og leyndardómar fjallamanna eru ekki fjöldanum aðgengilegir. Talsvert þarf að hafa fyrir því að sjá og skoða fossa Þjórsá frá hinum ýmsu sjónarhornum. Vegaslóðar oft aðeins færir jeppum. Að fljúga yfir þá er ekki sama og nærvera með hljóði og úða. Nálægð við víðir, lyng, gæs og ref magna áhrifin. Áhrifamenn þurfa því að velja um nálgun. Landsvirkjun er ekki hlutlaus aðili eða fólkið.
Háifoss er einn stórkostlegi foss landsins og er í Sandá sem rennur í Þjórsá. Frá Hólaskjóli er hægt að nálgast hann á bíl. Yndi hestamanna og annarra gesta sem vilja leggja á sig göngu frá Stöng. Fossarnir í efrihluta Þjósá eru á annari gráðu, þegar hálendið tekur við. Talsvert þarf að hafa fyrir því að komast að þeim.
Gnúpverjar þekkja þessa fossa og kunna að meta. Þeir óttast að með lóni við Þjósárver minnki enn vatnsmagnið í fossaá landsins. Ef verðmæti eru metin í krónum til framtíðar eru hér nokkrir gullfossar fyrir ferðamenn og þjóð sem ekki þekkir sitt hálendi.
Sigurður Antonsson, 9.8.2013 kl. 12:36
Það er ekki bara að "óttast" um fossana. Vatnið verður tekið af þeim og leitt í göng yfir í Þórisvatn með Norðlingaölduveitu. Það myndi ekki kosta mikla peninga að gera gott aðgengi að þeim.
Hins vegar hefur verið tekið við því sem trúarbrögðum hér á landi að útilokað sé að bæta aðgengi að svóna náttúrufyrirbærum nema eyðileggja þau fyrst með virkjunum.
Þegar ég reyni að halda þessari íslensku kenningu fram í þjóðgörðum erlendis til að réttlæta það sem gert er hér á landi, er glápt á mig eins og fáráð.
Ómar Ragnarsson, 9.8.2013 kl. 13:40
Er nokkur leið að finna út hvað skoðunarferðir næstu 50-100 árin muni skila í tekjum fyrir þjóðarbúið á þessar slóðir?
Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 15:29
Spekin úr þínu munni rennur
bullar bæði dag og nótt
Ómari gerir margar glennur
Steini Briem huxar ljótt
BMX (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 16:37
Hólaskjól er að sjálfsögðu við Skaftá. Á mörkum hálendisins eins og Hólaskógur sem er skammt frá Háafossi og bróður hans Granna. Skjól er við Hólaskóga fyrir norðanátt en enginn skógur. Vaxtarlegur birkiskógur er að myndast við Stöng en ofan Stangarfells er aðeins að finna víðikjarr. Mörg heiti eru þarna kennd við skóg en ekki mikill gróður. Kindum hefur fækkað verulega og eflaust breytist gróður þarna ef veður kólnar ekki að nýju.
Landsvirkjun afhenti Gnúpverjum sundlaug við Reykholt fremst í Rauðukömbum. Henni hefur nú verið lokað en augljóst er að þarna eru miklir möguleikar fyrir útivistarfólk. Landvinningar fyrir ferðamenn og upplýsandi þjóðgarðsmenn Gnúpverja. Perlur Gnúpverja eru fossarnir á svæðinu, en þeir eru margir.
Á Hafinu fyrir ofan Búrfell eru 2 vindmyllur Landsvirkjunar. Þær framleiða mun meira rafmagn en vindmyllur á meginlandinu. Hér eru tækifærin fyrir Landsvirkjun. Umframafköst vindmylla geta eflaust greitt rafmagnskapall til meginlandsins væru þær staðsettar á Austurlandi.
Verkfræðingar og forsvarsmenn Landsvirkjunar ættu að breyta um gír og fara að hugsa í nýjum lausnum. Fossarnir í þjórsá hafa minnkað mikið með vatnsmiðlun og frekari landvinningar verkfræðinga og virkjunarmanna verða að vera betur rökstuddir. Hætta á við öll lón fyrir ofan Búðarháls og leyfa Þjórsárfossum að njóta vafans. Dýrgripir sem ekki verða teknir aftur.
Sigurður Antonsson, 9.8.2013 kl. 16:43
Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012 og 72% þeirra fóru þá að Gullfossi að sumri til en 61% að vetri til.



Búist er við að um 800 þúsund erlendir ferðamenn dvelji hér á Íslandi á þessu ári, 2013, og meira en hálf milljón fer að Gullfossi, miðað við að 63% þeirra fari þangað á árinu.
Ef sami fjöldi erlendra ferðamanna færi að fossinum Dynki í Þjórsá og hver þeirra greiddi tíu þúsund krónur fyrir ferðina væri heildarupphæðin rúmlega fimm milljarðar króna nú í ár.
Og 150 milljarðar króna, andvirði Kárahnjúkavirkjunar á 30 árum.
Um 800 þúsund ferðamenn heimsóttu Kanaríeyjar í apríl síðastliðnum og líklegt er að mun fleiri erlendir ferðamenn dvelji hér á Íslandi á næstu árum en 800 þúsund á ári.
Árið 2007 var reiknað með að hingað kæmi ein milljón erlendra ferðamanna árið 2020 en nú er búist við að þeir verði um tvær milljónir eftir tíu ár, 2023.
Þorsteinn Briem, 9.8.2013 kl. 17:25
Hvernig væri að stífla Hvítá neðan við Hraunfossa og gera þar þrusu virkjun.
Og svo Gullfoss, - come on, hann er lægri en Skógarfoss.
Fullt af megawöttum á lægsta verði í heimi. Það eina sem spillir er það að þarna er gott aðgengi, og eitthvað af fólki að glápa á þetta vatnspus.
Jón Logi (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 19:41
Dynkur sem fossadjásn ígildi Karahnúkavirkjunar?
Þá eru eftir fossar í dragám vestan Þjórsá. Hölknárfossar eru háir, blíðir og mikilúðlegir, sá stærsti oft nefndur Slæðufoss. Í Dalsá, Geldingaá, Miklakvísl og fleiri ónefndum eru flúðir og fossadans með djúpum hyljum neðar. Gæsir og gæsaungar á árbökkunum. Allt stórbrotið við nálgun eftir hálfsdags gönguferð þegar öll skilningarvit eru á útopnuðu. Hér ætti að vera friðland í orðsins fyllstu merkingu
Ótaldir eru vatnsmiklir, jökullitaður Kjálkaversfoss og Gljúfurleitarfoss sem er um 28 m á hæð. Allir fossar austan við þjórsá eru margir í tærum lindám. Óþarfi að leggja allt undir í einu. Geyma þá óspilta handa næstu kynslóðum, þar á meðal Dynk eða Búðarhálsfoss.
Hingað til hafa fáir séð alla dýrðina aðrir en leitarmenn á afrétti. Þeir hafa haft lag á að gera sér kofa á fögrum útsýnisstöðum allt upp að Blautukvíslareyrum við Hofsjökull.
Þjórsárver er friðland en ekki er minni ástæða til að friða svæðið ofan við Sultartangalón beggja megin árinnar.
Sigurður Antonsson, 9.8.2013 kl. 20:38
Þakka þér þetta frábæra innlegg.
Hrikalegt, við höfum ekkert lært af Kárahnjúkavirkjun. ,,Sumum fannst landslagid þar nú ekkert sérstakt" að maður tali nú ekki um þá sem aldrei höfðu séð það. Minnir á táknræna athöfn unga fólksins sem hóf vatnsburð úr Tjörninni inn í Alþingisgarðinn, það var í lagi að drekkja honum, því svo fáir höfðu séð hann.
Jóhanna Bryndís Helgadóttir (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 21:53
Fegurpin gera fjöllin stó,r en mennina litla .Sama er með fossana.
Sigurgeir Jónsson, 9.8.2013 kl. 23:53
Á að vera fegurðin gerir fjöllin stór.
Sigurgeir Jónsson, 9.8.2013 kl. 23:54
Fjarlægðin gerir fjöllin blá......og langt til Húsavíkur.
Breytir þó engu um raunverulegt gildi stórfossa í ferðamennsku.
Eitt sinn var ég við Goðafoss með ferðamannahóp, og einn spurði mig af hverju við virkjuðum ekki þennan. Svarið var, að við erum með hann virkjaðann. "Hvernig þá?" spurði kall. Svarið : "Sérðu ekki alla ferðamennina?"
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.8.2013 kl. 11:14
Sæll Ómar,
Athygli mín var vakin á þessari bloggfærslu þar sem þú gerir athugasemd við ferð mína í síðustu viku með Landsvirkjunarmönnum til þess að skoða virkjanakosti á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Þar fór ég sem iðnaðarráðherra með fulltrúum fyrirtækisins til þess að kynna mér þessi mál og var þetta afar fróðleg ferð í alla staði.
Mér sýnist af ofangreindum pistli að þú teljir að mig skorti frekari upplýsingar um þetta svæði. Það er eflaust rétt hjá þér - ég væri síðust til að halda því fram að ég væri fullnuma. Það er hins vegar ekki rétt sem mér finnst þú ýja að að það sé vegna áhugaleysis eða skeytingarleysis.
Ég sendi boltann yfir til þín - hvernig væri að við færum saman á rúntinn um þetta svæði? Ég býð þér upp á einn dag af mínum tíma og set það í þínar hendur að skipuleggja það sem þér finnst mikilvægt að sýna mér? Á leiðinni getum við notað tímann og spjallað um þessi mál - hvað segirðu um þetta plan?
Með góðri kveðju,
Ragnheiður Elín
Ragnheiður Elín Árnadóttir (IP-tala skráð) 13.8.2013 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.