Gagnrýnin umræða er þörf, en níð ekki.

Umræða með óhróðri og níði er ekki ný af nálinni. En hún er orðin meira áberandi en áður var eftir að flóðgáttir umræðu voru opnaðar á netinu og því miður fá margir útrás við að vekja á sér athygli á sér með því að höggva sem fastast á báða bóga.

Bylur þá oft hæst í tómri tunnu og verst er þegar rangar sakir eru bornar á fólk og stundaðir sleggjudómar, oft í skjóli nafnleyndar. Allra verst er þegar þetta verður að herferðum og óhróðursmenn láta sér ekki segjast, þótt rekið sé ofan í þá.

Á hinn bóginn mega menn ekki vera svo hörundssárir að þeir þoli ekki gagnrýna rökræðu, einkum ef hún beinist eingöngu að málflutningi viðkomandi en ekki að manninum sjálfum.

Boðorðið um að hjóla í málið en ekki manninn, snýr í báðar áttir, líka þá í þá átt, að viðkomandi maður taki það ekki sem persónulega árás þótt málflutningur hans sé rökræddur, gagnrýndur eða honum andmælt.

Á þeím nótum langar mig að taka þátt í umræðunni um samstöðu þjóðarinnar, sem hefur verið rædd nú um áramótin. Ég ætla ekki að draga neitt í efa nauðsyn viðleitni allra til samstöðu hvenær sem hún er möguleg, heldur taka undir þau orð sem hafa fallið í þá veru.

Á hinn bóginn tel ég rétt að fara yfir þau málefni sem nefnd hafa verið sem dæmi um samstöðu Íslendinga.

Sjálfstæðisbaráttan: Jú, þjóðin hefur alltaf verið sammála um að keppa að sem mestu sjálfstæði sínu. En staðreyndin er að áratugum saman, allt fram til 1918 var svo mikill ágreiningur um leiðir og markmið, að íslensk flokkaskipan snerist öll um ágreininginn í sjálfstæðismálinu þar sem skiptingin í Valtýinga og Heimastjórnarmenn ber einna hæst.

Einhverjar hörðustu og átakamestu kosningar í sögunni voru háðar 1908 um sjálfstæðismálið. Meirihluti knúði sitt fram og ráðherrann féll.  Í lokin náðist síðan 1918 hin æskilega samstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Sambandslagasamninginn.

Undanfari lýðveldisstofnunar 1944 var bullandi ágreiningur milli svonefndra hraðskilnaðarmanna og lögskilnaðarmanna. Eins og 1918 tókst alger samstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um lýðveldisstjórnarskránna, en lögskilnaðarmenn höfðu áður séð sitt óvænna eftir að hafa orðið í minnihluta og horft fram á ósigur fyrir hraðskilnaðarmönnum. Meirihlutinn knúði sitt fram.

Öll ár Kalda stríðsins, í næstum hálfa öld, var harður ágreiningur um utanríkismál, sem í raun snerist um mismunandi leiðir í sjálfstæðismálinu. NATO sinnar töldu einu leiðina til að tryggja öryggi landsins vera aðild að því bandalagi en andstæðingarnir voru á þveröfugri skoðun. Meirihlutinn knúði sitt fram.   

Stjórnarskráin: Nefnd hafa verið atriði um samstöðu eins og mannréttindakaflinn og kjördæmaskipanin. Þetta er rétt varðandi mannréttindakaflann en alrangt varðandi kjördæmaskipanina.

1931, 1942 og 1959 urðu harðvítug átök um kjördæmaskipunina. Deilurnar 1942 og tvennar kosningar það ár um málið ollu trúnaðarbresti milli formanna stærstu stjórnmálaflokkanna, Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem höfðu neikvæð áhrif á stjórn landsins í nær tvo áratugi.

Í öll þessi skipti knúði meirihlutinn sitt fram gegn harðri andstöðu minnihlutans.  

Ekki voru átökin minni um lang stærstu breytinguna á kjördæmaskipuninni 1959 þegar beinlínis var kosið um gerbylta og nýja skipan í tvennum kosningum eins og 1942. Breytingarnar 1989 og 1999 voru smámunir og þess vegna náðist samstaða um þær. Því er algert öfugmæli að tala um órofa samstöðu um kjördæmsskipunina. 1931, 1942 og 1959 knúði meirihlutinn sitt fram.

Talsmenn allra flokka sannmæltust um það 1943-44 að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni og forseti landsins brýndi þá til þess í áramótaávarpi 1949. Fjölmörgum stjórnarskrárnefndum hefur síðustu 70 ár mistekist þetta af því að það hefur ekki náðst samstaða. Minnihlutinn hefur alltaf knúið sitt fram í þessu atriði af því að fyrirfram var gert skilyrði um algera samstöðu.

Landhelgismálið: Það var samstaða um útfærsluna í 4 mílur og lokun flóa og fjarða 1952 og Ólafur Thors lýsti því vel af hverju: Vegna þess að engin ríkisstjórn myndi komast upp með annað.   

1958 var bullandi ágreiningur um landhelgismálið og líf vinstri stjórnarinnar hékk á bláþræði mánuðum saman út af logandi ágreiningi sem Lúðvík Jósepsson lýsti vel í sérstökum bæklingi sem hann gaf út um það.

Þegar ljóst var að Lúðvík hefði sitt fram náðist loks samstaða á síðustu stundu af því að þjóðinni varð ljóst að annað myndi leiða til ósigurs og ófarnaðar.  

Um samingana um lausn málsins með samningum við Breta var engin samstaða á þingi, - meirhlutinn knúði sitt fram og minnihlutinn lýsti því meira að segja yfir að hann teldi sig, ef hann kæmsti vil valda,  ekki bundinn af samningnum né því að skylt væri að bera deilur um landhelgina undir Alþjóðadómstólinn i Haag.

Stjórnarandstaðan felldi síðan stjórnina 1971 eftir mikil átök fyrir kosningarnar um landhelgismálið. Nýr meirihluti knúði fram 50 mílna útfærslu 1972 án þess að skylt væri að bera málið undir Alþjóðadómstólinn. Gylfi Þ. Gíslason sagði síðar að landhelgismálið hefði ráðið mestu um það að Viðreisnarstjórnin féll og nýr meirihluti knúði það fram að ógilda það sem fyrri meirhiuti hafði knúið fram.  

Eins og 1958 var ljóst á síðustu stund að samstaða yrði að myndast meðal þjóðarinnar þegar nýja landhelgin tæki gildi enda enn á ný óráð að gera annað. Sjálfstæðisflokkurinn breytti í framhaldinu heldur betur um hjá sér og bar fram 200 mílna landhelgi sem síðar var fylgt eftir með þjóðarsamstöðu.

Af ofangreindu sést að það var logandi ágreiningur um landhelgismálið sumarið 1958 og á árunum 1962 til 1972, eða í heilan áratug.  

Með því að fara yfir helstu staðreyndir í þessum málum hér að ofan beini ég ekki orðum mínum að neinum ákveðnum mönnum né persónum, heldur er ég aðeins að leggja mitt af mörkum til upplýsandi umræðu og rökræðu um það sem nú er ofarlega á baugi.


mbl.is Neikvæð umræða á netinu í nýársræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott, félagi.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 22:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að allir séu sammála um alla hluti.

Þannig er til dæmis engin þörf á alþingiskosningum.

Og hjón eru sammála um allt, til að mynda Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.

Engin dæmi til um annað.

Þorsteinn Briem, 2.1.2014 kl. 22:53

3 identicon

Hann Steini Breim er sammála

og það er gott að vita

en hefur hann lesið hér blogg skilmála

þá ætti hann að láta hér við sitja.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 09:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú gefst ekki upp á að uppnefna hér fólk, Helgi Jónsson.

Þjónar það einhverjum sérstökum tilgangi?

Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 09:42

5 identicon

Afsakaðu Steini...þetta átti að vera Briem

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 10:23

6 Smámynd: Þorkell Guðnason

Gleðilegt nýtt ár Ómar

Takk fyrir þessa samantekt. Hún er málefnaleg og þér til sóma

Kv

Keli

Þorkell Guðnason, 3.1.2014 kl. 12:11

7 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Einhvern vegin virkaði Breim rökréttara en Briem, án þess að ég ætli að uppnefna neinn.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.1.2014 kl. 17:39

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Briem er eitt elsta íslenska ættarnafnið, frá 18. öld, og dregið af Brjánslæk á Barðaströnd en Brjánn var skrifað hér Brian, líkt og í ensku.

Og líklegt þykir að nafnið hafi borist hingað með Írum á Landnámsöld.

Forfaðir Briemsættarinnar, Gunnlaugur Guðbrandsson (1773-1834) frá Brjánslæk, tók upp nafnið Briem þegar hann var í myndlistar- og lögfræðinámi í Kaupmannahöfn.

Erfitt var fyrir Dani að bera fram föðurnafnið Guðbrandsson, eins og fleiri íslensk föðurnöfn.

Árið 1994
voru hins vegar 2.227 ættarnöfn skráð hér á Íslandi og ættarnöfn eru nú töluvert fleiri hér en föðurnöfn.

27.4.1996:

Fleiri ættarnöfn skráð hér á Íslandi en föðurnöfn

Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 19:32

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Arabíska nafnið Ómar er mun yngra en Briem sem íslenskt nafn og enginn bar nafnið Ómar í manntali hér á Íslandi árið 1910.

Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 19:57

10 identicon

Þóroddur Þóroddsson hét maður sem var uppi í kringum 1750-1770 og bjó á patreksfirði. Hann átti 6 syni og það sem þótti sérstakt var að hann sendi þá alla til náms í Kaupmannahöfn en það var ekki algengt eða sjálfsagt á þeim tíma að hægt væri að mennta börn sín. Synir hans Þórodds völdu sér mismunandi nám en sá elsti, sem hét einmitt Þóroddur, valdi sér lögfræði.

Dönum þótti nafnið Þóroddur Þóroddsson ekki sérstaklega þjált nafn og áttu auðvitað erfitt með að bera fram þ, þannig að Þóroddur breytti nafni sínu í Thoroddur Thoroddsen og var ekkert að breyta því eftir að hann kom heim til Íslands eftir nám, og á þessum tíma þótti það reyndar dáldið fínt að bera danskt eftir nafn.

Thoroddur þessi mun vera langi langi afi Gunnars Thoroddsen fyrrverandi forsætisráðherra.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband