3.3.2014 | 21:09
"Hvað á þetta að verða langt?"
Allt frá stofnun Sjónvarpsins 1966 til ársins 1978 var það eitthvert erfiðasta verkefni fréttamanna að taka viðtöl við stjórnmálamenn. Ástæðan var sú að þegar þeir voru spurðir, voru þeir oft svo langorðir og komu sér þar að auki oft hjá því að svara spurningum, að það þurfti að fylgja málinu eftir og spyrja þá aftur, - já og oftast aftur og aftur.
Þegar síðan var komið upp á fréttastofu byrjaði það erfiða starf að koma viðtali, sem hafði kannski orðið 15 mínútna langt í upptökunni, niður í 2 eða 3 mínútur með styttingum og endursögnum í miklu tímahraki.
Eftir á var maður sjálfur oft sáróánægður með útkomauna og viðmælandinn jafnvel enn óánægðari með að hafa ekki fengið að fimbulfamba að vild og fengið það sent út óklippt.
Aldrei gerðist það þó að viðkomandi stjórnmálamaður eða ráðherra heimtaði að allt viðtalið yrði sýnt óstytt, hvað þá að þeir fengju það í hendur til að geta stjórnað styttingu þess því að menn gerðu sér þrátt fyrir allt grein fyrir því að fréttatíminn þoldi ekki skjaldbökutempó og málalengingar og að úr því að þeir höfðu ekki getað klára málið á skaplegum tíma yrðu þeir að taka því að viðtölin yrðu stytt eftir þörfum.
En 1978 gerðist það að ég þurfti einn dag að taka viðtöl við talsmenn þeirra þriggja flokka, sem þá voru í ríkisstjórn þar sem hver höndin var oft upp á móti annarri enda sprakk hún eftir aðeins 13 mánaða líf.
Ég tók fyrst viðtöl við tvo ráðherra, annan frá Alþýðubandalaginu og hinn frá Alþýðuflokknum og sat uppi með um það bil 10 mínútna efni samanlagt sem þurfti að klippa niður í 3 mínútur.
Bjóst við að sitja uppi með minnst 15 mínútur alls eftir viðtal við talsmann Framsóknarflokksins, Steingrím Hermannsson.
Þegar við vorum búnir að stilla okkur upp og allt var orðið klárt fyrir myndatökuna spurði hann allt í einu: "Hvað á þetta að verða langt?"
Enginn hafði áður spurt slíkrar spurningar og ég varð svolítið hissa en svaraði: "Ein og hálf mínúta á hvern ykkar eða fjórar og hálf mínúta alls í fimm mínútna langri frétt.
Síðan byrjaði viðtalið. Steingrímur svaraði fyrstu spurningu minni, sem sneri að kjarna málsins á 45 sekúndum. Ég fylgdi eftir með annarri spurningu og hann svaraði henni á 15 sekúndum. Enn kom spurning hjá mér og hann notaði 10 sekúndur til að svara og hafði svarað svo vel, hnitmiðað og samþjappað, að fleiri spurninga var ekki þörf og viðtalið var vel innan tímamarkanna.
"Þetta hefur aldrei gerst áður," sagði ég steinhissa við hann "og mér vitanlega hefur enginn gert þetta eins og þú." Venjulega tekur það þrisvar til fjórum sinnum lengri tíma að taka viðtalið en rúm er fyrir í fréttatímanum að sýna."
"Ég veit það," svaraði hann, "og þess vegna spurði ég hvað viðtalið ætti að verða langt. Það var til þess að ég gæti komið svari mínu til skila innan tímamarkanna svo að það þyrfti ekki að klippa það neitt. Og ég er ánægður með það að hafa skilað mínu eins vel og ég get. Ert þú ekki feginn, því líka?"
"Jú, auðvitað" svaraði ég. "Ég dauðkveið fyrir því að þurfa að fara að hjakka í klippingu og endursögn viðtalsins í tímarhraki fyrir kvöldið. En hvað kemur til að þú ert sá fyrsti sem gerir þetta svona?"
"Það er af því," svaraði hann, "að ég var í nokkur ár við nám í Bandaríkjunum og komst að því hvernig þeir gera þetta þar."
"Ertu sáttur við það, að hinir fái fyrir bragðið eitthvað aðeins tíma en þú í fréttatímanum?" spurði ég.
"Já," svaraði hann. "Það er ekki lengd svarsins sem skiptir máli heldur það hvort það er gott eða slæmt".
Ég vona að þessi frásögn af viðtalinu við Steingrím Hermannsson forðum daga skýri eitthvað eðli þess máls, sem þessi bloggpistill er tengdur við.
Ég minnist þess ekki í 47 ára sögu Ríkissjónvarpsins að svipuð skilyrði hafi verið sett fyrir viðtali og nú.
Ef þið klippið ekki allt til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð saga, Ómar. Sem fréttamaður átti ég einnig góð samskipti við Steingrím, eins og raunar alla stjórnmálamenn þau rúmlega tíu ár sem ég var á fréttastofunni. Man ekki eftir neinum hnökrum í þeim samskiptum. Man eftir viðtali við stjórnmálamann,sem aftur og aftur rak í vörðurnar, eða mismælti sig.Þetta var á fyrstu árunum og margir voru hræddir við sjónvarpið. Viðtalið var tekið á filmu. Dálítið var erfitt að klippa það saman. Hann hringdi til mín eftir útsendingu og þakkaði mér fyrir. Gleymi því ekki.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 21:51
Ég las þennan pistil með hálfum hug og hund í lund, hélt að nú ætlaði Ómar að tala beint á ská, en takk fyrir ágætt innlegg í umræðuna um viðtöl við stjórnmálamenn.
Er ekki mögulegt að fréttamenn í dag séu farnir að stýrast af öðrum sjónarmiðum en í kring um 1980, þegar þeir eru að klippa til fréttir? Jafnvel þó maður saki þá ekki um hlutdrægni sem má þó vel vera tilfellið þessa dagana, að þá sé komin meiri "sölumennska" í fréttirnar. Vegna samkeppninnar þá verði þær að trekkja, segja það sem fólk vilji heyra fremur enn einnhvern sjálfstæðan sannleika?
Þannig taki fréttamenn óvart þátt í einhverri lýðskrumsuppskrúfun atburðanna svona rétt eins og þegar ágætri fréttakonu varð það á að hvetja mótmælanda í vörubílamótmælum til að kasta eggjum. Trúlega ekki til að taka afstöðu heldur til að krydda aðeins fréttina, gera hana sölulegri!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 21:51
Fá orð hafa minnsta ábyrgð.En ekkifréttamennirnir sem eru á ruv í dag hefðu ekki látið sér þessi stuttu svör Steingríms duga.Þeir hefðu þrástaglast á einhverjum óskiljanlegum spurningum í pólitiskum tilgangi til að geta klippt viðtalið og sýnt eithvað úr því sem var aukaatriði, og slegið því upp í fyrirsögn.
Sigurgeir Jónsson, 3.3.2014 kl. 21:54
Það er rangt að "ákveðin fréttakona hafi kvatt vörubílstjóra til að kasta eggjum", Bjarni Gunnlaugur. Skoðaðu staðreyndir málsins.
Ómar Ragnarsson, 3.3.2014 kl. 21:58
Ráðherrann bað um upptöku af viðtali sem þegar hafði verið sýnt, en var synjað. Það kom nefnilega fram í viðtalinu að hann útilokaði ekki aðra niðurstöðu i viðræðuslitamálinu, en það þótti ekki frétt á föstudaginn, senniulega til að skemma ekki stemmninguna fyrir mótmælunum daginn eftir.
Gunnar Johannsson (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 22:17
Tek undir með Gunnari, hann fór ekki fram á að viðtalið væri sýnt óstytt, hann vildi fá upptöku af öllu viðtalinu, sem er í raun eðlilegt miðað við hvað útvarpiði er hlutdrægt þessa dagana.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2014 kl. 23:19
Ég sagði þetta að vísu eftir minni, enda fannst mér atburðurinn ekki merkilegur í sjálfu sér. http://www.visir.is/lara-omarsdottir-hefur-sagt-upp-storfum/article/2008279632187
Fréttakonan sagðist geta fengið einhvern til að kasta eggi en var óvart "í loftinu" þegar ummælin féllu. Í kjölfar þess sagði hún af sér. Þær voru staðreyndir málsins.
Þessi ágæta kona hefur eflaust lært af mistökunum, en punkturinn í athugasemdinni að ofan stendur. Það er að segja að þarna var dæmi um tilhneigingu fréttamanns (sagði sjálf eftir á að þetta hefði verið grín) til að gera fréttina söluvænlegri.
Þeir eru kanski bara að grínast á RUV þessa dagana!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 23:42
Karlinn vildi sem sagt ráða því sjálfur hvernig þetta viðtal var klippt.
Að einhver sé hlutdrægur er skoðun en ekki staðreynd.
Rétt eins og þegar fullyrt er til að mynda að einhver sé kjáni, heimskur, skemmtilegur eða myndarlegur.
Þorsteinn Briem, 3.3.2014 kl. 23:42
Getur verið að stjórnmálamenn í dag séu í stjórnmálum á forsendum annarra en að Steingrímur hafi verið að vasast í þessu á sínum eigin forsendum og hafi því átt auðveldara með að svara spurningum hnitmiðað....?
Ómar Bjarki Smárason, 4.3.2014 kl. 00:14
Sæll, Ómar
Er það misminni að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti vor, hafi um hríð neitað viðtölum nema "í beinni"?
Þykist muna það allvel.
kv
Hjálmar Jónsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 00:32
Ekki minnist ég þess, en á tímabili vildu Jón Baldvin og Davíð ekki koma í viðtöl á Stöð 2 og það er alvanalegt að fólk telji sig ekki geta komið í viðtöl af ýmsum ástæðum.
Ómar Ragnarsson, 4.3.2014 kl. 01:23
Framsóknarmenn aldeilis að brillera.
Þeir fletta nú af sér grímunni hver af öðrum.
Merkilegast er þó að sjó viðbrögð þeirra hörðustu stuðningsmanna. Og það er nú eiginlega bara hörðustu stuðningsmenn sem eru orðnir eftir í framsóknarflokknum. Allt töfratrikksfylgið frá kosningunum fokið burt. Bara á örfáum mánuðum.
Það merkilega er svo hvernig hræsnin í framsóknarmönnum er gríðarleg og óhugnaleg. Eiginlega skammarlegt fyrir Ísland þessir framsóknarmenn nútímans. Það má segja að snorrabúð sé stekkur.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.3.2014 kl. 01:50
Fréttastjóri RÚV, Óðinn Jónsson, sagði frá því á facebooksíðu sinni í dag að Gunnar Bragi hefði neitað RÚV um viðtal nema hann fengi eintak af því í heild, óklipptu.
Hvernig er þá hægt að segja eins og Ómar:
"..eða ráðherra heimtaði að allt viðtalið yrði sýnt óstytt, hvað þá að þeir fengju það í hendur til að geta stjórnað styttingu þess "
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2014 kl. 05:38
Gunnar, skoðaðu myndbandið. Gunnar Bragi neitaði viðtali nema það yrði ekki klippt: Sjá http://www.visir.is/svona-voru-samskipti-gunnars-braga-vid-ruv/article/2014140309733?fb_action_ids=10152313993111514&fb_action_types=og.likes&fb_ref=under
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:51
Ég skil vel að ráðherra hafi reiðst fréttamanni að klippa út setninguna "að vitanlega gæti utanríkismálanefnd komið með niðurstöðu, tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi þingsályktun um að draga umsókn Íslands að ESB til baka."
Það er alveg kominn tími til að minna RUV á hlutverk sitt, þetta er mikið alvörumál hvernig menn haga sér þar. Meirihluti þjóðarinnar er farinn að upplifa þöggun og aðeins ein skoðun leyfð., þ.e. ESB er upphaf og endir alls.
Dettur engum í hug að RUV þurfi að biðjast afsökunar á þessum vinnubrögðum fréttamannsins? Greinilega a.m.k. ekki fréttamönnunum sjálfum Ómari og Agli Helga sem vísar á þetta blogg. Enda frétta- og blaðamenn orðin svo sjálfhverf stétt að takmarkið hefur týnst einhvers staðar á leiðinni - þ.e. að a.m.k. RUV skuli flytja óhlutdrægar fréttir. Ekki vinna í að hella olíu á eldinn.
Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:58
Bera lítið traust til Fréttastofu RÚV: 7,2%,
bera lítið traust til Ruv.is: 7,4%,
bera lítið traust til Mbl.is: 20,7%,
bera lítið traust til Morgunblaðsins: 26,1%.
RÚV nýtur mests trausts
Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 11:24
4.3.2014 (í dag):
RÚV hefur oftar fjallað um neikvæð viðhorf til Evrópusambandsins en jákvæð
Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 13:30
Takk fyrir þetta Ómar,sakna hans mikið!
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 13:59
Bergur, væntanlega hefur eitthvað fleira verið sagt, nema ekkert sé að marka Óðinn Jónsson. Þetta var tilvitnun í hann.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2014 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.