2.3.2007 | 20:50
SÉRGREIN FRAMSÓKNAR FYRIR KOSNINGAR
Hótun Framsóknar um að slíta stjórnarsamstarfinu kortéri fyrir kosningar vegna auðlindaákvæðis í stjórnarskrá er gamalþekkt trix þessa flokks þegar illa lítur út í komandi kosningum. Dæmi frá fyrri tíð: Í Stefaníustjórninni 1949 fékkst Framsókn ekki til þess að fella gengið sem var óhjákvæmilegt og gerði um það ágreining við Sjálfstæðisflokkinn sem olli stjórnarslitum.
Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins reið síðan á vaðið í málinu og í helmingaskiptasamstarfi flokksins og Framsóknarflokksins 1950 var gengisfellingin gulltryggð en að vísu tekið upp margfalt gengi með svonefndu Bátagjaldeyriskerfi, sem þjóðin leið fyrir allt til 1959 þegar Viðreisnarstjórnin afnam það.
Framsókn hafði fyrir kosningarnar 1950 reynt að skapa sér sérstöðu rétt eins og nú og Rannveig Þorsteinsdóttir komst á þing fyrir Framsókn í Reykjavík, sem var einsdæmi vegna þess að þingmenn Reykjavíkur voru þá aðeins sex. Hún sagðist "segja frjáplógsstarfseminni stríð á hendur!"
Auðvitað varð ekkert af því en í staðinn komu flokkarnir tveir á einhverju spilltasta fyrirgreiðslukerfi á byggðu bóli með helmingaskiptastefnunni alræmdu sem byggðist á að misnota ranglátt haftakerfi, - líklegast það langlífasta í Vestur-Evrópu. Það er í raun ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem síðustu leifum þessa skaðlega kerfis var rutt í burtu.
1956 var Framsókn farin að líða fyrir samstarfið við Sjálfsstæðisflokkinn og í mars það ár gerði hún hermálið að ágreiningsefni en rak þó herinn aldrei eftir að hún var komin áfram í stjórn.
Nú á enn að grípa til sama ráðs og það á að slá tvær flugur í einu höggi: Láta líta svo út sem mikill munur sé á stjórnarflokkunum og krækja sér í mál sem leiðir athyglina frá stóriðjustefnunni og umhverfismálunum.
Það er svolítið sérkennilegt að heilt kjörtímabil hefur liðið án þess að séð verði að Framsókn hafi gert mikið í þessu auðlindamáli en nú blossar það allt í einu upp. Össur
Skarphéðinsson segir að í stjórnarskrárnefndinni hafi fulltrúar Framsóknar aldrei minnst á þetta ákvæði eða í það minnsta ekki haft nokkurn áhuga á því.
En hvað um það, - það hefur verið blásið ryk af gömlu trixi sem gafst ágætlega hér áður fyrr. En nægir það nú?
Athugasemdir
Sæll Ómar og gott að þú rifjar þetta upp. Muna ekki allir hvernig þetta var fyrir síðustu kosningar? Þá hafði Framsókn verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í 8 ár en tók að hamast á stjórnarstefnunni og láta eins og þeir bæru enga ábyrgð og vildu algerlega snúa við blaðinu. Það var að sjálfsögðu allt gleymt á kosninganótt.
Árni Þór Sigurðsson, 2.3.2007 kl. 21:12
Gangi þér sem best í Öllu Ómar...ég vil sjá Vinstri-hægrigræna saman í stjórn eftir kosningar...þú ert þó greinilega ekki Framsóknarmaður
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.3.2007 kl. 21:36
Aldeilis frábær úttekt hjá þér á vanda Framsóknar þegar þeir hafa málað sig algjörlega út í horn ---og freista útgöngu til að leita þess sem horfið er, að atkvæðum fyrir komandi kosningar
Stóriðjumálin frá A-Ö er sá myllusteinn sem Framsókn er með um hálsinn og nú ætla þeir að losa um henginsrólina með svona "hókus pókus" aðferð ... það er liðin tíð að fólk láti blekkjast...
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 22:07
Þó komið sé þak á styrki til stjórnmálafl.mun Framsóknarfl.með KB banka,VÍS o.fl.verða sér úti um atkvæði á markaðslegum forsendum.Pólutíkin er óhrein þegar baklandi'ð er skítugt.
Kristján Pétursson, 2.3.2007 kl. 23:03
Það er náttúrlega ekki nýtt að Sjallar og Framsókn karpi. Ástæðan fyrir utanþingsstjórninni 1942-1944 var einkum ágreiningur á milli Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins, og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins. Þessi ágreiningur var kenndur við eiðrof og laut að deilum flokkanna um kjördæmaskipanina. Óvildin milli Ólafs og Hermanns var svo mikil að hvorugur þeirra tók þátt í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar 1947 til 1949 og hvorugur gat unnt hinum að vera forsætisráðherra í samstjórn flokkanna 1950 til 1953, enda þótt báðir væru þar ráðherrar. Hermann hvarf úr ríkisstjórn árið 1953 þegar Ólafur Thors varð forsætisráðherra.
Önnur ástæða fyrir því að utanþingsstjórn sat þegar lýðveldið var stofnað var sú að enginn stjórnmálaflokkur gat unnt hinum að sitja í ríkisstjórn þegar þjóðin hlaut sjálfstæði að nýju eftir að hafa lotið erlendum konungi frá árinu 1262. Stjórnmálamennirnir töldu ástæðulaust að taka þá áhættu að einhver stjórnmálaflokkanna gæti eignað sér með setu í ríkisstjórn að hafa stofnað lýðveldið. (Úr þjóðhátíðarræðu Bíbí í fyrra.)
Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 00:13
Sæll vertu Ómar og aðrir lesendur.
Eins og alþjóð veit á að fara að greiða atkvæði um deiliskipulag til þess að hægt verði að stækka la bræðslunaí Straumsvík.
Mikið sakna ég þín og þinna (Laugavegs)göngugarpa í allri þeirri umræðu. Ég vona svo innilega að væntanlegar alþingiskosningar séu ekki að fæla þig og þína stuðnings menn frá því að láta skoðanir í ljós. Þessi ál bræðsla er ekki nema 12,5 km frá mínu heimili í Laugardalnum eitthvað styttra í þínu tilfelli.
Ég kann vel að meta þínar aðgerði á Kárhnúka svæðinu. En verður maður eins og þú með þína sterku umhverfisvitund að líta okkur aðeins nær. Fram hjá þessum óskapnaði fara allir erlendir ferða menn sem til landsins koma. Ör fáir þeirra fara austur að hnúkum. Eiguæm við að skoða þetta saman. Kv Gs
Gs (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 01:09
Ég lít á þetta svona eins og hverja aðra sjónleiksuppfærslu, á sviði stjórnmálanna, reyndar stórhlægilegt ..... sjónarspil,
kv.
gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 3.3.2007 kl. 01:15
Kæri óskráður (Gs). Það er alger misskilningur að Kárahnjúkar séu í forgangi hjá mér heldur er það þveröfugt. Ég hef farið víða um að undanförnu til að fjalla um Brennisteinsfjöll, Sogin og önnur svæði sem hafa verið sett eða verða sett í uppnám vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík.
Þetta er í forgangi ásamt öðrum álvershugmyndum fram að kosningum og Kárahnjúkar víkja á meðan. Um þá hef ég hins vegar hugmyndir sem vert væri að ræða en læt það bíða.
Ég hef bloggað hart um þá staðreynd að álver á Reykjanesskaga verða í anddyri Íslands og koma því öllum Íslendingum við. Hitt er rétt að árétta að mikilvægi hluta fer ekki aðeins eftir því hve margir sjá þá.
Örfáir sáu Búddastytturnar í Afganistan sem sprengdar voru af Talibönum við hávær mótmæli umheimsins. Það var vitneskjan um þessar styttur sem nægði til þess að þær voru metnar svona mikils, - ekki það að þær væru fyrir hvers manns fótum.
Ómar Ragnarsson, 3.3.2007 kl. 01:25
Ég verð samt að nefna það hvað mér finnst fáir áhrifa- og stjórnmála menn tala um þessa tilvonandi stækkun, og eiginlega dapurlegt. Einhliða áróðri um dauða Hafnarfjarðar verði þetta ekki að veruleika haldið enda laust á lofti og jafnvel talað eins það þurfi endilega að verðlauna Alcan fyrir það yfir leitt að nenna að standa í þessum rekstri ( sem skilar þeim 4 miljörðum í hagnað´, á síðasta ári; eftir þvi sem lesa má). Vona að við fáum kröftug mótmæli gegn þessari stækkun sem allra allra fyrst. kv Gs.
Gs (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 01:43
Ómar minn, það bara fer þér ekki að reyna að vera pólitískur,en það má alltaf reyna
Glanni (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 02:48
Glanni, þar verð ég að vera verulega ósammála þér. Pólitík er ekki útlit eða hegðun. Pólitík er að vilja taka félagslega ábyrgð OG gera eitthvað í hlutunum. Meðan að menn og konur sitja út í horni með "skoðanir" þá gerist nú ekki mikið í hlutunum og það kemur engin að bjarga þér. Við verðum að bera ábyrgðina sjálf.
En að sjá hvernig Jón Sigurðsson f.h. ríkisstjórnarinnar hefur komið ábyrgðinni algerlega á íbúa Hafnarfjarðar finnst mér hreinlega bara ósiðlegt. Af hverju er ríkisstjórnin okkar ekki tilbúin til að bera ábyrgð? Vill ég leiðtoga sem sigla alltaf milli skers og báru og taka ekki af skarið? Viljum við leiðtoga sem nota lævísi frekar en heiðarleika?
Baldvin Jónsson, 3.3.2007 kl. 13:14
Já, það er náttúrlega lágmark að Sjallarnir þurrki af skónum áður en þeir ganga yfir Framsókn. Skyldi Framsókn hætta að sofa hjá Sjöllum þangað til hún fær sitt fram og heldur hún framhjá þeim með Samfó, Grænum og Frjálsblindum? Skilur Framsókn við Sjallana að borði og sæng og fær hún lögskilnað í vor? Verður hún ólétt og hver er þá faðirinn? Er það satt að Hvell-Geiri sé búinn að gefa allt úr búinu án þess að tala fyrst við Framsókn? Er Kata með Samfó og er það leyndó eða vita allir af því? Eru allir með öllum? Ekki missa af næsta þætti. Allt getur gerst á Rás sex!
Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 15:46
Hmmm Framsókn ólétt...hún hefði kannaki orðið ólétt hvort eð er.
Er Ómar til í stóðlífið? Hin pólitíska hreina meyja. Hefur hann einhverjar verjur? Að aftan, að framan, ofan og neðan. Musteri Sódómu á Austurvelli hefur mörg herbergi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.3.2007 kl. 17:33
Allir eru pólitískir. Að standa aðgerðarlaus hjá, að gera ekki neitt, er pólitísk afstaða, oft hræðilega afdrifarík. Að skipta sér ekki af getur verið það siðlausasta sem maður gerir (ekki).
Perikles sagði árið 431 fyrir Kristburð:
"Sömu mennirnir hafa áhuga jafnt á stjórnmálum sem einkamálum, og aðrir, sem ýmsar iðnir stunda, hafa þó vel vit á stjórnmálum. Vér Aþeningar einir teljum þann mann, er engan þátt tekur í stjórnmálum, ekki aðeins hlutleysingja, heldur ónytjung"
Hugrekki Ómars og framtakssemi er til eftirbreytni.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 19:04
Einn maður - eitt atkvæði er ekki lengur málið, heldur einn flokkur á mann. Samfó og Vinstri grænir á vinstri vængnum og Framsókn, Frjálsblindir, Hægri grænir og Sjallar á hægri vængnum. Ef vinstri flokkarnir ná ekki meirihluta í vor geta þeir valið á milli Frjálsblindra og Hægri grænna, ef þessir flokkar næðu inn mönnum. En fyrst yrðu þeir að tala við Frjálsblinda út af kaffinu. Og ekki fara þeir að mynda stjórn með tæpan meirihluta, þannig að stjórnarflokkarnir gætu orðið fjórir. Samfó fimm ráðherrar, Vinstri Grænir fimm, Frjálsblindir einn og Hægri grænir einn. Addi Kitta Gau sem sjávarútvegsráðherra og Magga sem umhverfisráðherra. Eða bara stuðningur Frjálsblindra og Hægri grænna. Ef Frjálsblindir heimta ráðherra fengju þeir ekki að vera með og sama uppi á teningnum með Hægri græna. En þá gætu þeir snúið sér að Sjöllum og Framsókn. Köttur úti í mýri...
Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 21:06
þessi ath.semd mín til Ómars var nú ekki illa meint,þvert á móti. Aðvitað hafa allir rétt á sínum skoðunum.
Baldvin, auðvitað þurfa ráðamenn að taka af skarið og segja hug sinn og stefnu, mér finnst nú ekki stanada á því í ríkisstjórninni, en hinsvegar getur Samfylkingin í Hafnafirði ekki verið heiðarleg og komið fram með skoðanir sínar og stefnu um stækkun álversins, það kalla ég lævísi.
Glanni (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.