Ógleymanlegar minningar frá Shellmótinu í aldarfjórðung.

Í aldarfjórðung var það fastur liður í tilverunni að fara með svonefnt "Strjörnulið" og leika skemmtileik við þjálfara eða aðra sem lið í upphafi mótsins.

Þetta stórkostlega mót var brautryðjendaverk Eyjamanna á sinni tíð og tugþúsundir alls staðar að af landinu eiga góðar minningar um það. 

Skilyrði fyrir því að vera í stjörnuliðinu var að vera þjóðþekktur og það á sem fjölbreyttastan hátt.

Liðið var ævinlega blanda af skemmtikröftum, fjölmiðlamönnum, stjórnmálamönnum, tónlistarmönnum, íþróttastjörnum o. s. frv.

Meðal ógleymanlegra atvika var þegar allur strákaskarinn kom hlaupandi að venju eftir leik til að þyrpast utan um okkur, og mestur atgangurinn var í kringum Jón Pál Sigmarsson, svo mikill að á tímabili virtist liggja við slysi þegar nokkrir drengir tróðust undir.

Einn þeirra lenti alveg flatur undir hrúgunni og mér sýndist stefna í stórslys. En þá brást kraftajötuninn snarlega við og ruddi heili hrúgu af drengjum ofan af og til hliðar frá drengnum, tók hann hálfkafnaðan grátandi upp og knúsaði hann og strauk vanga hans.

Að sjá þessa miklu blíðu auðsýnda af tröllinu var mér ógleymanleg sjón.

Í annað skiptið var Hjalti Úrsus með kraftasýningu og skoraði á hrausta menn í áhorfendahópnum að reyna sig við aflraunaþrautir. 

Menn voru tregir til, enda þrautirnar afar erfiðar. Hjalti skoraði þá á okkur að senda mann, en enginn lagði í það, þar til á endanum Stefán Karl Stefánsson, sjálfur Glanni glæpur, lét til leiðast.

Stefán er fjarri því að sýnast rammefldur eða sterkur, heldur jafnvel frekar hitt, svo grannur sem hann var.

En skemmst er frá því að segja að hann gaf vöðvatröllunum Hjalta og félaga hans ekkert eftir nema síður væri og uppskar verðskuldaða aðdáun áhorfenda.

Ég hef áður sagt hér á síðunni frá mögnuðum atvikum þar sem Laddi, Albert Guðmundsson, Rúnar Júlíusson, Þorfinnur Ómarsson, Páll Magnússon og fleiri brilleruðu,  en þeir voru fleiri, sem fóru á kostum, til dæmis Magnús Scheving, sem fór heljarstökk með boltann þegar hann tók innkast og kastaði yfir þveran völlinn, og Árni Johnsen varði stundum meistaralega í markinu með því að nota lundaháf!    


mbl.is „Besta mótið hingað til“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband