"Lotur meistaratignarinnar".

Fram á níunda áratug síðustu aldar gátu helstu bardagar í hnefaleikum orðið 15 lotur. Þá var slíku hætt og síðan eru 12 lotur hámarkið.´

Ýmsir voru andvígir þessari breytingu og bentu á það, að oft hefði reyndin orðið sú að síðustu þrjár loturnar í 15 lotu bardögum hefðu verið þær frægustu í íþróttinni. Þær væru kallaðar "The championship rounds" og ef þær hefðu ekki farið fram, hefði sagan misst af mörgum af frægustu atvikunum í íþróttinni .

Aragrúa dæma má nefna um þetta, svo 15. lotuna í bardaga Jack Johnsons og Jim Jeffries 1910, 13. lotuna í bardaga Rocky Marciano og Jersey Joe Walcotts 1952, 15. loturnar í bardögum Muhammads Alis við Joe Frazier 1971, Chuck Wepner 1976 Leon Spinks 1978, og 14. lotuna í bardaga Alis og Fraziers 1975.

Svipað virðist gilda um leikina í HM þessa dagana. Framlengingarnar hafa fært okkur flest mörkin, langmestu ánægjuna, spennuna og dramatíkina.

Sagt hefur verið um hnefaleikara, að bestu bardagarnir þeirra á milli séu rétt eftir að þeir voru á toppnum og eru að byrja á því að vera á niðurleið. Þá fjölgar mistökunum, fleira gerist en fyrr og keppendurinir verða að leggja sig meira fram og í raun að fara fram úr getu sinni.

Þess vegna hafi síðasti bardagi Alis og Fraziers verið sá besti þeirra í millum og mesti bardagi allra tíma.  

Svipað kann að gilda um fótboltann. Þegar menn eru búnir að hlaupa allt að 15 kílómetra í sprettum í 90 mínútur fer leikurinn að gliðna og mistökum að fjölga og þar með opnast allt.

Menn fara fram á ystu mörk þess sem hægt er að leggja á líkama og sál og jafnvel lengra en það.

Og það er svo magnað og hrífandi.  

 


mbl.is Belgía áfram eftir frábæra framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Með ólíkindum hve Bandaríkjamenn náðu að standast áhlaup Belga - og munaði sáralitlu að þeir næðu að setja mark á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma og ,,stela" þar með sigrinum.

Hitt er svo annað, að sennilega verður Argentína að teljast sigurstranglegri gegn Belgum. Allaveg verða þá Belgar að vera fundvísari á netmöskvanna en þeir voru í kvöld gegn BNA.

Belgar munu ekkert fá svona opin færi trekk í trekk gegn Argentínu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.7.2014 kl. 00:43

2 identicon

Sæll Ómar.

 Hin hliðin á þessum teningi er þegar sjá má af
líkamstjáningu einni saman að bardagi er tapaður
áður en hann byrjar; lið kemur á völlinn sem ætlar sér ekki neitt.

Og svo er það svindlið! 

Ófá myndbönd af 'höggum' þar sem menn féllu í gólfið
þegar í ljós kom við endursýningu að þeir létu sig falla;
frjálst fall þó ekkert hefði snert þá!!

Húsari. (IP-tala skráð) 2.7.2014 kl. 09:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svo ég taki ofangreind dæmi mín til skoðunar þá var viðureign Johnsons og Jeffries kölluð "bardagi aldarinnar" 1910 og uppgjör á milli hvítra og svartra þar sem heiður hvors kynþáttar um sig hvíldi á keppendum. Úrslitin, rothögg í 15. lotu, verða því ekki véfengd.

Í 13. lot rotaði Rocky Marciano ríkjandi heimsmeistara Jersey Joe Walcott með höggi sem sumir telja svaklegasta högg allra tíma. Ekkert "frjálst fall" þar.

Joe Frazier sló Ali með höggi í 15. lotu 1971 sem sumir telja "krók aldarinnar". Ali tókst samt að standa upp og standa út lotuna, en tapaði samt. Ekkert í líkamstjáningu þessara tveggja bendir til annars en að þeir fórnuðu sér 100% og það var heldur ekkert í lokaafgreiðslu Alis á Wepner í 15. lotu sem bendir til neins annars en að báðir reyndu allt sem þeir gátu til að vinna.

Sama er að segja um bardagann "Thrilla in Manila" þar sem báðir gengu hreinlega fram af sér. Og 15. lotan hjá Spinks og Ali var valin "lota ársins" 1978 vegna þeirrar örvæntingarfullu og brjálæðislegu lokasóknar, sem Ali fór í til þess að reyna að halda í tapaðan titil.  

Ómar Ragnarsson, 2.7.2014 kl. 11:32

4 identicon

Sæll Ómar.

Þú misskilur algerlega það sem ég skrifaði.

Ég efast ekki eitt andartak um að þú ferð með
rétt mál í pistli þínum.

Ég benti einungis á þá plágu sem svindl er í
íþróttum hvort heldur í boxi eða knattspyrnu eða hvaða
íþrótt annarri sem vera skal; andstæðu þess sem þú fjallaðir um
og þú hlýtur að hafa séð rétt eins og ég.

Ali og Joe, þeir voru menn fyrir sinn hatt! Fyrirfinnst varla nokkur sem
efast um það, það er einfaldlega ekki hægt!

Húsari. (IP-tala skráð) 2.7.2014 kl. 13:36

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Húsari minn. Svindl verður við lýði í öllum íþróttum meðan mannlegur breyskleiki verður ekki læknaður, satt er það. Við erum innilega sammála um það hvað leikaraskapurinn við að "fiska" dóma er svört hlið á knattspyrnunni og fleiri íþróttum.

Dæmi eru um að íþróttamenn hafi hreinlega "frosið" af hræðslu þegar þeir skynjuðu afl mótherjans. Dæmi um það er hin stutta viðureign Bruce Seldons og Mike Tyson.

Tyson kom nokkrum höggum strax í upphafi á Seldon, hið síðasta strauk skalla Seldons en samt datt hann eins og fluga.

Hann stóð upp og reyndi að kinka kolli til dómarans og gefa til kynna að hann gæti haldið áfram, en á sama tíma skalf hann á fótunum og gat ekki leynt sjokki sínu, svo að dómarinn stöðvaði bardagann.

George Foreman sagði eftir á að hann hefði þurft að hafa sig allan við til að láta fætur sína ekki sjálfa af ótta við Joe Frazier í fyrri bardaga þeirra.

Auðséð er þegar bardaginn er skoðaður að Foreman er lafhraddur fyrstu hálfu mínútuna, en þegar hann fer að hitta Frazier og Frazier að slá vindhögg breytist staðan og úrslitin vera fágæt niðurlæging fyrir heimsmeistara, sleginn sex sinnum í gólfið !  

Ali sló nokkrum sinnum svo snögg og hröð högg að þau sáust varla. Samt sást við hæga spilun að höfuð andstæðinganna slógust til og að þetta voru ekki nein "draugahögg" eins og talað var um þegar hann sló Liston niður í öðrum bardaga þeirra.

Þá var talað um svindl en eftir að Ali sló bæði William Cleveland og Ron Lyle niður á sama hátt breyttist tónninn.   

Ómar Ragnarsson, 2.7.2014 kl. 17:24

6 identicon

Sæll Ómar.

Þakka þér fyrir þessa sérlega fróðlegu og skemmtilegu
viðbót við pistil þinn hér að ofan.

Mér hefur ævinlega þótt skrif þín á þessu sviði bera af og
þarf ekki frekari vitnanna við á þessum degi, - kæra þökk fyrir það.

Húsari. (IP-tala skráð) 2.7.2014 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband