"Hann rignir alltaf..."

Það hefur ekki bara húðrignt á Sunnlendinga og mun halda áfram að rigna á þá, heldur hefur verið og er mígandi rigning á Norðvesturlandi þar sem ég er staddur núna. 

Spá um minni rigningu og smáskúrir í staðinn fyrir daginn í dag stóðst ekki, nema á afmörkuðum svæðum fram að kaffi.

Þar með var sú von úti.

Í fyrra söng ég inn að gamni mínu lag, sem heitir "Hann rignir alltaf", en það var eins og við manninn mælt, að það stytti upp.

Nú er spáin hins vegar þannig, að ekki er von á uppstyttu og kannski rétt að draga lagið fram aftur eða annað í svipuðum dúr.

Textinn við lagið er eftir sjálfan William Shakerspeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, en það er sungið sem lokalag í leikriti meistarans,  Þrettándakvöldi.

Í sýningu Herranætur 1959 gerði Halldór Haraldsson píanóleikari þá nemandi við skólann lag við textann, en þegar ég spurði hann út í það í fyrra mundi hann ekkert eftir því.

Ég mundi hins vegar eðlilega eftir laginu, því að ég söng þetta á sínum tíma í lok hverrar sýningar.

Ég gerði nýja útsetingu við lagið og bætti við það og lét Halldór heyra.

Niðurstaðan er sú að við Halldór erum báðir skráðir höfundar.

Svona er textinn:  

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

Ég var lítill angi með ærsl og fjör,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og stundaði glens og strákapör

og hann rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr,

hæ, hopp, út í veður og vind.

En klækjarefum er kastað á dyr

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Mér varð til gamans að gifta mig,

hæ, hopp, út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig

og hann rignir alltaf rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.  

 

Ég hátta prúður í hjónasæng,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og brennivínsnefi bregð í væng,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf,  rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Sem veröldin forðum fór á kreik,

hæ, hopp, út í veður og vind,

enn vöðum við reyk, senn er lokið leik

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf   -

dag eftir dag!   


mbl.is Enn meiri rigning sunnanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í sömu skál þar sami grautur,
sorglegt er að heyra,
Ómar hann er alltaf blautur,
en ekki vill nú meira.

Þorsteinn Briem, 16.7.2014 kl. 21:38

2 identicon

Flottur Stein Briem.

En Ómar, við eigum líka Norðausturland. Hér á Húsavík er sól og blíða upp á hvern dag.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.7.2014 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband