Vildu ekki göng yfir í Fljótin.

Þegar fjallað var um vegabætur á utanverðum Tröllaskaga hér um árið komu tveir möguleikar til umræðu: Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið.

Fljótaleiðin hefði legið þannig að frá Siglufirði væri ekið um göng yfir í Fljótin utanverð og innar úr Fljótunum um göng yfir í Ólafsfjörð. 

Fljótaleiðin hafði að vísu þann ókost að leiðin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar varð 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng, 34 í stað 17. 34 kílómetrar þykja ekki mikið á höfuðborgarsvæðinu og eru vel innan þeirra marka, sem eitt atvinnusvæði spannar. 

En að öllu öðru leyti hafði Fljótaleiðin kosti umfram Héðinsfjarðarleiðina.  

Fljótagöngin styttu leiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar og suður um til Reykjavíkur um átta kílómetra.

Þau tryggðu heilsárssamgöngur vestur og suður um og afnámu hinn hættulega og vonda veg um Almenninga.

Þeir skópu líka heilsársleið milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar, mun styttri en leiðin er um Héðinsfjarðargöng og hina slæmu Almenninga.

Þau styttu heilsárs hringleið um Tröllaskaga um ca 20 kílómetra og afnámu leiðina um Almenninga.

Þau viðhéldu töfrum Héðinsfjarðar og ævintýralegu aðdráttarafli hans sem eina óbyggða fjarðarins á svæðinu frá Ingólfsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.

Pólítískir kjördæmahagsmunir og flutningur Siglufjarðar úr Norðurlandskjördæmi vestra yfir í Norðausturkjördæmi réðu miklu um að Héðinsfjarðargöng voru valin. 

Til að aðstoða þingmennina til að tala niður Fljótaleiðina niður var Vegagerðin fengin til að gera að skilyrði að gangamunnarnir Fljótamegin lægju mun lægra en aðrir gangamunnar á landinu.

Það lengdi göngin verulega og gerði þau dýrari.

Meðmælendur Héðinsfjarðarleiðarinnar höfðu yfirburði í aðstöðu til að reka áróður fyrir henni.

Nú þrýsta Siglfirðingar á að fá nyrðri helming Fljótaleiðarinnar frá Siglufirði til Fljóta í viðbót við Héðinsfjarðargöngin.

Á sama tíma er æpandi þörf fyrir göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð fyrir landshluta, sem enn er á svipuðu samgöngustigi á landi og í lofti og v var fyrir hálfri öld.

Því var aldrei lofað á sínum tíma að grafin yrðu jarðgöng þvers og kruss um allan norðanverðan Tröllaskaga.

Valið stóð á milli tveggja leiða og hvor kosturinn, sem í boði var, var mjög dýr og á kostnað annarra landshluta.

Úr því að menn vildu ekki göng milli Siglufjarðar og Fljóta þegar þeir gátu fengið þau, er ólíklegt að þeir geti fengið þau í viðbót við Héðinsfjarðargöng.

Því að það er oft þannig, að sá sem vill ekki þegar hann fær, fær ekki það sem hann vill.  


mbl.is Vegurinn illkeyranlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrst grefur Árni Johnsen göng á milli lands og Eyja.

Icelandic MP Moves Elves' Boulder to His Home

Þorsteinn Briem, 21.7.2014 kl. 22:03

2 identicon

Það eru fleiri eyðifirðir.Inn úr Norðfjarðarflóa sem nær frá Norðfjarðarhorni í Glettinganes,ganga  þrír eyðifirðir, Hellisfjörður Viðfjörður Loðmundarfjörður að auki víknana sunnan Borgarfjarðar.Þetta er hin stóra Fjarðabyggð.

Hallo (IP-tala skráð) 21.7.2014 kl. 22:06

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Fljótaleiðin var hugmynd Trausta á Bjarnagili. Þormóður Rammi á Siglufirði beitti sér fyrir því að Héðinsfjarðarleiðin var farin vegna tengsla við vinnsluna á Ólafsfirði. En það eru fleiri leiðir til æa Tröllaskaganum. Ein er göng frá Austur-Fljótum ( Stíflu) inn í Svarfaðardal sem myndi stytta leið til Dalvíkur og Akureyrar verulega frá Siglufirði og Skagafirði. Þessi leið er erfið vegna Snjóalaga og þyrfti lengri gangamunna og spurning um hverju hún skilar en hugmyndin er spennandi og hringleið myndast á skaganum fyrir ferðamenn.

Jósef Smári Ásmundsson, 22.7.2014 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband