Leitið og þér munið finna ?

Ógleymanleg er sú minning frá níu ára aldri að heyra fullorðna fólkið bregðast við fréttum af því að Sovétríkin réðu yfir kjarnorkuvopnum eins og Bandaríkin.  Þar með var ljóst að enda þótt Kanar ættu meira en 50 sprengjur og gætu hótað Rússum útþurrkun jafn margra borga í Rússlandi, myndu Rússar geta svarað fyrir sig eftir örfá ár.

Áratug síðar kom síðan gleðifréttin um það að fundin væri upp orkugjafi, sem væri hreinn, ódýr, umhverfisvænn og óþrjótandi, sem sagt friðsamleg notkun kjarnorkunnar.

Upp úr 1960 var það ein helsta röksemdin fyrir stóriðju og stórum vatnsaflsvirkjunum hér á landi, að nú væri um að gera að flýta sér í þessum efnum áður en vatnsorkan myndi tapa í samkeppninni fyrir kjarnorkunni og verða úrelt.

Hálfri öld eftir tilkomu kjarnorkunnar til orkuframleiðslu upplýsist síðan, að úraníum er ekki óþrjótandi, og að útilokað sé að láta kjarnorkuna leysa orkuvandann, því að þá klárist þetta hráefni á nokkrum áratugum.

Stórfelld kjarnorkuslys voru aldrei nefnd í kringum 1960. Þetta átti að vera pottþétt og öruggt allt saman.

Annað hefur komið á daginn.  

Einnig er ljóst að kjarorkuúrgangurinn stefnir í að verða óleysanlegt vandamál. Sem sagt: Upphrópanirnar "ódýr, umhverfisvænn, óþrjótandi, öruggur!" orkugjafi voru öll á misskilningi eða blekkingum byggðar.

Fyrir nokkrum árum kom það upp að með því að nota þóríum í staðinn fyrir úraníum hyrfu geislavirknisvandamálin og slysahættann að mestu auk þess sem margfalt meira hráefni yrði til slíkrar kjarnorkuvinnslu en með núverandi aðferð.

Síðan hefur verið hljótt um þessa töfralausn enda stór "galli" á henni. Hún skapar ekki möguleika til að búa til kjarnorkuvopn !

Fyriri nokkrum árum kom fram í vísindatímariti sá möguleiki að vinna helium 3 á tunglinu og með því að flytja aðeins 100 tonn til jarðar leystist orkuvandinn í heila öld!  

Ekkert hef ég séð minnst á þetta síðan.

Nú eru rafknúin samgöngutæki stóra málið og notkun Litíums í rafhlöður stórbætir möguleikana þar.

Græn orka?

Nei, umhverfisvandamálin vegna vinnslunnar gerir ókleift að skilgreina litíum sem græna orku.

Óþrjótandi hráefni?

Nei. Endist aðeins í nokkra áratugi ef rafknúin samgöngutæki eiga að taka algerlega við hlutverki núverandi mengunarspúandi samgöngutækjum.  Þriðjungur litíum heims er í einu landi, Bólivíu. 

Hvað um "fracking" og nýjar gas-, olíu- og kolaorkulindir?

Jú, svipað og að pissa í skóinn. Þetta er jarðefnaeldsneyti og þrýtur að mestu á okkar öld með sama áframhaldi.

Metanól og framleiðsla eldsneytis úr jarðargróða?

Jú, en aðeins ef sveltandi heimur hefur efni á að leggja hundruð þúsunda ferkilómetra lands undir ræktun fyrir slíkt.

Nýjasta undrið er "lághitakjarnahvörf". Ódýr, hrein, hagkvæm. 

Hefur áður komið upp á yfirborðið í fjölmiðlum en horfið jafnharðan.

Stórt EF. Enn óleyst mál. 

Hvað um að hætta þessu vonlitla ströggli ?

Það er einföld "lausn" en tryggir líka 100% stórfelldustu kreppu í sögu mannkynsins.  

Hvað er þá til ráða?  

Jú, bara þetta gamla, vonin og viðleitnin í anda orðanna "leitið og þér munið finna!" 


mbl.is Ótæmandi orkulind fundin ef...
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lithium er bara "component" í rafhlöðu. Orkan þarf að koma annars staðar frá. Rafhlaðan er geymsla, ekki orkulind.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.10.2014 kl. 09:30

2 identicon

eg er að vona að þetta sje lausnin http://www.fixtheworldproject.net/qeg-videos.html

 eg er að safna að mer þess sem þarf til að búa til þessa græju

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 13.10.2014 kl. 10:29

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kynorkan er óþrjótandi og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um gríðarstóra miðstýrða og ríkisrekna geymslu fyrir hana á Selfossi.

Þorsteinn Briem, 13.10.2014 kl. 14:10

4 identicon

"Metanól og framleiðsla eldsneytis úr jarðargróða?

Jú, en aðeins ef sveltandi heimur hefur efni á að leggja hundruð þúsunda ferkilómetra lands undir ræktun fyrir slíkt."

Þetta á við Etanól en Metanól er hér á landi gert úr mengun (koltvísýringur úr strompinum í Svartsengi), rafmagni og vatni.

Jón (IP-tala skráð) 13.10.2014 kl. 14:36

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vissi ég þetta, Jón Logi, en engu að síður má sjá gögn um, að það hve lítið er af lithium, takmarki möguleikana á notkun þess auk þess sem umhverfisáhrifin felli það sem "græna lausn."

Með því er ekki sagt að við Íslendingar eigum ekki að rafvæða bílaflotann.

Það er sjálfsagt mál að slá í klárinn þar, en það þarf meira til á svo mörgum sviðum.

Ómar Ragnarsson, 13.10.2014 kl. 23:37

6 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Lithium er endurvinnanlegt, en verstur er sá mannanna galli að henda hlutum í ruslið. Það mun því alltaf ganga á það. En vonandi koma fram lausnir með batterí, - kannski bara spurning um tíma. Og rafvæðing bílaflotans, - stór-spennandi!
En hvar finnum við orku? Jarðargróði að einhverju leyti. Hægt væri að keyra matvælaframleiðslu heimsins (altso landbúnaðarhlutann) á ca 10% lands þess sem er í framleiðslu. N.B. um 50% af matvælunum skemmast eða enda í ruslinu!
Svo er það vindorkan. Víða vannýtt. Nú eða ekkert nýtt, - t.a.m. á Íslandi til þessa. Hér átti víst ekki að vera nógu vindasamt að mati fróðra, sem hengdu sig á meðalvind á skjólsælli stöðum í lítilli hæð. En annað kom á daginn!
En það sem er spennandi eru sjávarstraumar. Þar er gífurleg orka í gangi, og það er verið að vinna í tæknilegum úrlausnum með neðansjávarvirkjanir.

Jón Logi Þorsteinsson, 14.10.2014 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband