Duldir ógnarkraftar.

 Ýmsa mælikvarða má nota þegar lagt er mat á stærð náttúruhamfara og það hve merkilegar eldstöðvar séu. Nefnum nokkra: 

1.

Heildarmagn kvikunnar, sem kemst upp á yfirborðið í mismunandi formi ösku eða hrauns, mælt í rúmkílómetrum. Sé þessi mælikvarði notaður eru tvö gos á sögulegum tíma langstærst. Stærst er Eldgjárgosið 934, líkast til með um 20 rúmkílómetra. Í öðru sæti eru Skaftáreldar 1783, með um 16 rúmkílómetra. Fram að þessu er Holuhraunsgosið enn miklu minna en þó komið vel á annan rúmkílómetra.

2.

Flatarmál hrauns. Þar eru Eldgjá og Lakagígar enn efst á blaði, og Eldhraunin úr Lakagígum þekja um 565 ferkílómetra lands. Holuhraunið hið nýja er komið í 74 ferkílómetra og er stærsta hraun sem runnið hefur hér á landi síðan í Skaftáreldum.

3.

Afl og ákafi gossins. Flest gos eru kraftmest í upphafi og þeirra er oftast minnst fyrir það. Hér kemur Grímsvatnagosið 2011 sterkt inn. Á fyrsta degi kom meiri aska upp úr Grímsvötnum en í öll Eyjafjallajökulsgosinu, sem var næstum tíu sinnum minna hvað snertir framleiðslu á ösku. Af þeim 26 eldgosum, sem ég minnist (ég man eftir Heklugosinu 1947 þótt ég væri þá aðeins á sjöunda ári), er Grímsvatnagosið á fyrstu klukkustundum þess það langöflugasta og hrikalegasta. Heklugos eru alltaf öflugust í byrjun og vegna búsifja af þeim naut það eldfjall lengst af meiri frægðar hér á landi og erlendis en nokkur önnur íslensk eldstöð. 

4. 

Samanlagður áhrifamáttur gossins. Hér tróna Skaftáreldar efst þegar við hraunframleiðsluna og ákafann í gosinu, sem stóð aðeins í fáa mánuði, bætist dráp 25% landsmanna, 70% búfjár og milljóna manna í þremur heimsálfum. Því að í viðbót við öll þessi býsn af hrauni var gasframleiðsla gossins yfirgengilega mikil og hafði ekki aðeins áhrif á lífsskilyrði fólks, dýra og gróðurs, heldur olli veðurfarsbreytingum, sem vöruðu í nokkur ár.

5.

Hve merkileg og einstæð er eldstöðin?  Þar skjótast Grímsvötn upp fyrir allar aðrar íslenskar eldstöðvar fyrir sakir einstæðs samspils elds og íss auk þess sem Grímsvötn eru virkasta eldstöð Íslands, mælt í tíðni gosa, gjóskuframleiðslu og hamfarahlaupum. Þau eru eina íslenska eldstöðin sem kemst á lista yfir sjö merkustu eldstöðvar á þurrlendi jarðarinnar.

6.

Samanlögð áhrif eldstöðvarinnar, bæði þegar gýs í henni sjálfri og í eldstöðvakerfi hennarHér og því, sem ég vil nefna "dulda ógnarkrafta", þ. e. alla þá kviku og umbrot sem tengjast eldstöðinni. Hér skýst Bárðarbunga sennilega upp í efsta sætið. Og séu Holuhraunseldar "ofboðslega mikið gos" eru samanlagðar hamfarir þar og undir Bárðarbungu enn ofboðslegri.

7.

Persónuleg upplifun. Hér er það hver og einn sem velur fyrir sig og hvað mig snertir eru a' minningar úr tveimur gosum,sem tróna efst.  Annars vegar að standa á barmi gjár syðst í Gjástykki í Kröflugosi í ársbyrjun 1981 og horfa lóðrétt niður gjávegginn, sem var ígildi árbakka, ofan í breiða hraunelfu sem fossaði hljóðlaust framhjá eins og eldrauð Þjórsá. Það var einungis mögulegt að standa þarna á þennan hátt án þess að fuðra upp samstundis vegna þess að snarpur vindur í 10 stiga frosti stóð af gjábarminum inn yfir hraunelfuna. Aðeins eitt skref fram af brúninni og "mjög snöggt bað" í jarðeldinum. Hins vegar er einn einstæðari upplifun, Heimaeyjargosið, flug lágt yfir hafflötinn um hánótt í átt að Heimaey á móti röð af flýjandi bátum þar sem fólkið sást standa á þilförunum, en bjarmi eldveggsins að baki upplýstum húsum bæjarins framundan og skin tungls, sem gægðist augnablik í gegnum skýin, sindruðu á sjónum. Ég var sá eini sem kom fljúgandi til Eyja undir skýjum, - aðrir komu inn í blindaðflugi. Þess vegna á enginn annar slíka minningu, sem eingöngu væri hægt að festa niður með því að mála af því mynd eftir þessari lýsingu og staðsetning og nota tölvutækni.   


mbl.is „Þetta er ofboðslega mikið gos“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjórsárhraunið mikla toppar þetta alveg. Stærsta hraunflóð á jörðinni frá lokum ísaldar. 25 rúmkílómetrar a.m.k.

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 10:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, en ég er að tala um hraun, sem runnið hafa á sögulegum tíma hér á landi.

Ómar Ragnarsson, 27.11.2014 kl. 19:53

3 identicon

Sorrý. Hjó ekki eftir því sem skilgreiningu.
Það er þó merkilegt hvað bæði Eldgjá og Lakagígar hafa höggvið nærri mesta kvikumagni síðan að síðasta ísaldarskeiði lauk. Væri gaman að vita hvaða hraungos voru þá stærri í millitíðinni. Kannski engin???

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 21:52

4 identicon

Sæll og blessaður Ómar.

Fyrir nokkru var mér bent á að þú hefðir sagst vera líklega sá seini sem hefði flogið sjónflug til Eyja gosnóttina miklu 23. jan 1973. Nú vill svo til að við Gunnar V. Andrésson ljósmyndari fórum á Islander háþekju til Eyja þessa nótt og flugum sjónflug, því þegar við komum  yfir Hellisheiði blasti gosið við og svo komu skipin siglandi á móti okkur. Auk okkar og Jóns Helgasonar ritstjóra var m .a. með í för Garðar alþíngismaður þeirra Eyjamanna. Þegar við vorum að halda af stað frá flugskýlinu kom Sigurður M. Þorsteinsson lögregluvarðstjóri  ásamt lögregluþjónum með hvíta hjálma og ætluðu þeir að taka yfir vélina, en eftir samskipti í talstöð við flugturninn var bara gefið í og við í loftið. Við Gunnar héldum að Þórólfur Magnússon , sá knái flugmaður hefði verið við stjórnvölinn og hafði ég samband við hann sem er kórfélagi minn í Karlakór Reykjavíkur. Hann flaug okkur reyndar ekki en þá kom í ljós í loggbókinni hans að hann hafði farið tvisvar sinnnum sjónflug til Eyja þessa nótt, en ekki á Islandernum. Svona er nú það , svo öllu sé haldið til haga. Hafðu það ætíð sem best.Kveðja Kári Jónasson    

Kári Jónasson (IP-tala skráð) 9.12.2014 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband