Slúðrið elskar skilnaðarsögur.

Hversu margar forsíður Séð og heyrt hafa í gegnum tíðina verið með skilnaðarfréttir? Ekki svo fáar enda þótt á forsíðunni stæði "við gerum lífið skemmtilegra". Það er nú meira hvað skilnaður er skemmtilegur !

Ég deili reynslu af skilnaðarsögum með Dorrit, því að ekki vantaði þær eftir að maður kvæntist og sömuleiðis sögurnar um það að móðir mín semdi skemmtiprógrammið mitt.

Sögurnar um textagerð mömmu urðu veikari með árunum, enda setti hún aldrei saman svo mikið sem eina ferskeytlu á ævinni, og þessar ljóðagerðarsögur hurfu endanlega eftir lát hennar.

Svipað fór um skilnaðarsögurnar. Síðast komust þær á kreik 1990 þegar einhver kjaftaskjóðan sá mig laumast inn í háhýsið að Sólheimum 23 að kvöldi, þreytulegan á svip með plastpoka í höndum.

Sagan af þessu var sönn út af fyrir sig, en ekki sá spuni sem strax fór á kreik, að það þótti undir eins ljóst að þar væri ég að laumast til hjákonu, sem ég ætti þar.

Næstu vikurnar voru ýmsar konur bendlaðar við mig sem viðhöld og varð það svo glæsilegur hópur þjóðþekktra kvenna að eins og Dorrit núna var ég lúmskt montinn yfir þessari óvæntu hylli hjá hinu kyninu.

Ég kvað þessar sögur niður á tvennan hátt: Með því að flytja gamankvæði um hjákvennafansinn á útvarpsstöðinni Aðalstöðinni og með því einfaldlega að halda áfram að koma þreyttur seint heim á kvöldin með plastpoka í höndum og fara upp á sjöundu hæð til hennar Helgu minnar og barnanna, en þangað höfðum við flutt okkur með fjölskylduna rétt áður en sögurnar fóru á kreik.   


mbl.is Dorrit slær á skilnaðarsögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Slúður margt og slef var þar,
slíkur er Eiríkur,
öllum Gróum af hann bar,
Andskotanum líkur.

Þorsteinn Briem, 3.12.2014 kl. 19:37

2 identicon

Hvað er betra en gott hjónaband?

Góður skilnaður.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.12.2014 kl. 19:59

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess ber að geta að Eiríkur var ekki ritstjóri Séð og heyrt þegar flestum skilnuðunum var slegið þar upp á forsíðu. 

Ómar Ragnarsson, 3.12.2014 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband