Einbeittur brotavilji í hernaðinum gegn landinu.

"Hernaðurinn gegn landinu", frægasta blaðagrein Halldórs Laxness, sem hann skrifaði árið 1970, lýsti hinum einbeitta og altæka brotavilja sem birtist á mörgum sviðum í þessu fyrirbæri.

Núna, 45 árum seinna, er þessi hernaður enn harðari og grimmari en nokkru sinni fyrr.

Svo ákafir eru þeir sem nú sækja gegn náttúruverðmætum landsins, að þeir víla ekki fyrir sér að valta yfir starfið við Rammaáætlun og splundra því.

Svo mikið telja þeir við liggja, að fara verði með leifturstríði inn á hálendið, og fyrir skitin 55 megavött sé sótt bæði inn að Langjökli og 60 kílómetra inn á Sprengisandsleið með mannvirkin, stíflur, stöðvarhús, virkjanavegi og háspennulínur.

Svo mikið er offorsið að þau tíðindi hafa gerst, að í fyrsta sinn í langri raunasögu umhverfisráðherra Framsóknarmanna veitir núverandi umhverfisráðherra flokksins þó viðspyrnu gegn innrásaráformunum inn á hálendið. 

Í sjónvarpi er sagt að þetta leifturstríð gegn hálendinu verði að heyja vegna orkuskorts landsmanna.

Heyr á endemi!

Við framleiðum þegar fimm sinnum meira rafafl en við þurfum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, alls um 2400 megavatta afl ! 55 megavött eru 2,3% af því en umhverfisáhrifin hins vegar gríðarleg. 

Það er ekki árið 1965 þegar fiskur var 97% útflutnings og gjaldeyrisöflunar, landið án almennelegra vega og í hönd fór raunverulegur rafmagnsskortur. 

Það er árið 2015 en virkjanaþursarnir standa eins og nátttröll, sem hafa dagað uppi og halda að allt sé enn eins og var hér fyrir 50 árum. 

Nú gildir um útifundinn á Austurvelli á morgun gamla góða herópið: "Allir á völlinn!"

Því að hernaðurinn gegn landinu er enn harðari en hann var 1970.

Að lokum þetta: Hörður Einarsson! Bravó fyrir beittri og vel skrifaðri grein í Morgunblaðinu í dag!  

 


mbl.is Telur tillöguna ekki standast lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Á 1. árs­fjórðungi 2015 ..... Brott­flutt­ir ein­stak­ling­ar með ís­lenskt rík­is­fang voru 370 um­fram aðflutta..."   Verndum landið í eyði. Við þurfum ekki virkjanir meðan við höfum Noreg, við þurfum fossa til að glápa á þegar við heimsækjum gamla landið.

Hábeinn (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 20:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dásamlegt að sjá þessi rök felumannsins, að ef við eyðileggjum ekki grundvöllinn að gjöfulasta atvinnuvegi þjóðarinnar, ferðaþjónustunni, muni landið fara í eyði. 

Og Norðmenn hafa þó ákveðið að friða álíka mikið vatnsafl að magni til í sínu landi og er óvirkjað á Íslandi. Fer Noregur þá bara ekki líka í eyði? 

Ómar Ragnarsson, 12.5.2015 kl. 20:52

3 identicon

<a href="https://scontent-lhr.xx.fbcdn.net/hphotos-xtp1/v/t1.0-9/10734129_596578297135117_5509013668804026106_n.jpg?oh=bf79d02348431f96592d71b205756091&oe=55D1859B/">Kort sem sýnir orkuframleiðslu og orkunotkun</a>

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 21:16

4 identicon

"Og Norðmenn hafa þó ákveðið að friða álíka mikið vatnsafl að magni til í sínu landi og er óvirkjað á Íslandi."  að magni til, líter á móti líter en ekki sama hlutfall. En þar sem Norðmenn hafa margfalt vatnsafl Íslands þá eru þeir hlutfallslega að friða læk fyrir hvert stórfljót sem við friðum. Norðmenn ætla ekki að sjá Noreg leggjast í eyði, Norðmenn virkja og láta friðun mæta afgangi. Og hafa þeir þó einnig olíugróðann og gætu þess vegna sleppt því að virkja eins mikið og þeir gera.

Sprænur sem flestir Íslendingar sjá aldrei og fæstir túristar hafa áhuga á eru langt frá því að geta kallast grundvöllinn að gjöfulasta atvinnuvegi þjóðarinnar.

.. Brott­flutt­ir ein­stak­ling­ar með ís­lenskt rík­is­fang voru 370 um­fram aðflutta.. ótrúlegur fjöldi láglaunastarfa við þrif og pulsuafgreiðslu nægðu ekki til að halda í þetta fólk og mun ekki halda landinu í byggð. Hver dropi sem runnið hefur óvirkjaður til sjávar hefði getað bætt hér lífskjör.

Hábeinn (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband