Tíföldunarþörfin íslenska.

Tíföldunarþörf virðist nokkurs konar lögmál í hugsunarhætti Íslendinga.

Og framsetningin er yfirleitt sú sama: Það kemur í ljós að reksturinn ber sig ekki nema "einingarnar verði stærri." Án tífaldrar stækkunar er allt í voða. 

Fyrsta álverið í Straumsvík framleiddi 33 þúsund tonn af áli á ári. Það þótti svo svakalega mikið magn að ekkert minna orð en "stóriðja" dugði, sem er sérkennileg þýðing á enska heitinu "heavy industry" sem réttara væri að kalla heitinu "þungaiðnaður." 

Svo stórkostlegt þótti þetta álver, að 200 megavatta virkjunin, sem reist var, framleiddi meira en tvöfalt meiri raforku en talið var að við sjálfir myndum nokkurn tíma þurfa.

Álverið á Reyðafirði átti í upphafi að verða 120 þúsund tonn eða næstum fjórum sinnum stærra en álverið í Straumsvík var upphaflega.

En þegar komið var nógu langt af stað með það og Fljótsdalsvirkjun, sem átti að gefa álverinu orku, birtist austfirska "túrbínutrixið" í allri sinni dýrð: Talið var að fjórfalt Straumsvíkuálver yrði of lítið til þess að borga sig, og þess vegna þyrfti það að vera þrefalt stærra og þurfa þrefalt stærri virkjun.

Brýn nauðsyn væri á álveri sem væri tíu sinnum stærra en fyrsta álverið í Straumsvík, sem hlaut sæmdarheitið stóriðja. 

Og sömleiðis væri 120 þúsund tonna álver, sem áður hafði verið mært sem allsherjar lausn á öllum "fólksfjöldavanda" Austurlands, allt í einu orðið of lítið og voðinn vís nema það yrði þrefalt stærra. 

Þeir, sem andæfðu þessari stórfelldu stækkun voru úthrópaðir sem "eyðileggjendur" sem vildu "eyðileggja" alla milljarðana sem þegar væru komnir í verkefnið og "leggja Áustfirði í auðn."

Allar ábendingar um möguleika ferðaþjónustu voru úthrópaðar sem fánýtir "geimórar" og "fjallagrasarugl."

Í kjölfarið fór hröð þróun sem hefur endað með því að nú framleiðum við fimm sinnum meiri raforku en þarf til okkar eigin nota fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. 

Við framleiðum raunar meira en tíu sinnum meira rafafl samtals en fékkst með hinni fyrstu "stórvirkjun" við Búrfell.

En skyndilega er þetta ekki nóg, heldur er nú sagt að stefni í raforkuskort og atvinnuleysi nema að við framleiðum tíu sinnum meira en við þurfum sjálf fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.

Og jafnvel sé það ekki nóg, heldur þurfi að ganga miklu lengra en það til þess að fullnægja eftirspurn eftir raforku í gegnum sæstreng til Evrópu, sem ekki sé spurning um hvort, heldur hvenær muni koma.

Tíu sinnum meiri raforka yrði þá ekki nóg, heldur líklega 20 sinnum meiri.

Í fyrstu var haldið að þjóðinni 90-120 þúsund tonna álverum á Bakka og í Helguvík.

Túrbínutrix á báðum stöðum og jafnvel viðbótar túrbínutrix í Þorlákshöfn, ef einhverjir skyldu vera búnir að gleyma fréttunum af undirbúningi fyrir bráðnauðsynlegt álver þar til að "bjarga Suðurlandi."

Þeir, sem bentu á að hér væri verið að leyna staðreyndum voru vændir um að ljúga upp á Alcoa og Norðurál. Þess var til dæmis krafist af mér að ég bæðist afsökunar á því sem ég hefði skrifað um þetta. 

En síðan datt sannleikurinn óvart upp úr forsvarsmönnum þessara fyrirtækja, af því að fyrir lá heitið "fyrsti áfangi" þegar 90-120 þúsund tonna stærð var haldið á lofti.

Þeir viðurkenndu með semingi að 340-360 þúsund tonna álver væru algert lágmark til að bera sig, tíu sinnum stærri álver en það fyrsta í Straumsvík. Og þar með þyrfti 1400 megavatta virkjanir samtals, sem sagt, meira en tíu sinnum meira rafafl en þurfti til fyrsta álversins á Íslandi.

Nú blasir túrbínutrix fiskeldisins við: Það verður að tífalda framleiðsluna til þess að hún sé samkeppnishæf.

Nú þegar eru eldislaxar farnir að ganga upp í ár, sem hafa verið með villta laxa. Í Noregi reyna menn að leyna og þræta fyrir vandann varðandi fiskeldið þar.

En hér á landi er hugsunin ekki á þessum nótum. Hér vilja menn að sjálfsögðu tífalda vandann, tífalda framleiðsluna. Annars er allt í voða, fiskeldið ber sig ekki og byggðirnar leggjast í eyði. 

Það er ekki langt síðan að 100 þúsund ferðamenn komu til landsins á ári. Nú koma tíu sinnum fleiri en samt þykir sumum ferðaþjónustan ekki nógu mikil til þess að hún geti velt stóriðjunni af stalli sem mesta bjargvætti íslenskrar atvinnusköpunar, þótt í álverunum vinni einnan við eitt prósent af vinnuafli Íslendinga.    

 


mbl.is Væntingar um tífalda framleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt sem ekki hefur verið tekið inn í umræður um álver og stóriðju, er að gervigreind og þróun þjarka er að komast á það stig, þannig að ekki innan margra ára verða þessar verksmiðjur mannlausar. Hversu langan tíma það tekur áður en þetta gerist er erfitt að meta.  Það er alltaf ákveðin tregða við breytingar. Kannski eru þetta 10 til 20 ár. Jafnvel byrjar þessi þróun enn fyrr á þessum vinnustöðum.

Spurningin ætti því ef til vill að snúast um, afhverju ættu íslendingar að vilja verksmiðjur sem einungis vilja kaupa ódýrt rafmagn og verða mannlausar í framtíðinni.

En varðandi tíföldunarhugsun, þá grípur íslendinga alltaf æði. Einu sinni voru það vídeoleigur, fiskeldi, pizzastaðir, sólbaðstofur og undanfarin ár eru það álver. Hvað kemur næst, er vandi um að spá, en það verður örugglega eitt nýtt æði.

HalldorD (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband