FLUGBRAUT Á BARÐASTRÖND.

Vestfirðir hafa haft sérstöðu í samanburði við aðra landshluti hvað snertir flugsamgöngur eins og dæmið með sinfóníuhljómsveitina nú nýlega sýnir. Byggðakjarninn Ísafjörður er hinn eini þriggja höfuðkjarna á landsbyggðini sem ekki er hægt að fljúga til í myrkri. Þegar dagur er stystur á veturna er aðeins bjart í nokkrar klukkustundir á hverjum sólarhring og þá getur staðið þannig á að einmitt þessa stuttu stund sé ófært þótt veður sé skárra hinar 19 klukkustundirnar.

Eini flugvöllurinn á Vestfjörðum, sem hægt er að fljúga að í myrkri og lenda á er Patreksfjarðarflugvöllur en hann er 180 kílómetra frá Ísafirði og ófært þangað landveg á veturna. Þessi sérstaða Vestfjarða er óviðunandi og kemur framar öllu öðru í veg fyrir að hægt sé að byggja þar upp byggð eftir kröfum 21. aldarinnar. Ferðaþjónusta líður fyrir þetta og öll önnur starfsemi.

Athygli vekur að oft er fært til flugs á flugvöllinn á Bíldudal í norðan hríð þótt ófært sé til allra flugvalla á norðanverðu landinu frá Ísafirði til Norðfjarðar. Það er vegna þess að syðst á Vestfjarðarkjálkanum eru aðstæður svipaðar og í Reykjavík, - skjólmegin við fjöllin er bjart. Aðstæður við Bildudalsflugvöll eru hins vegar of þröngar til flugs þangað í myrkri og lélegu skyggni.

Nú er í ráði að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og sé jafnframt lagfærð hin meira en 40 ára gamla leið þaðan suður á Barðaströnd gerbreytast aðstæður. Þá verður álíka langt að aka frá Ísafirði suður til Barðastrandar og frá Akureyri til Húsavíkur og eins og vitað er víla Húsvíkingar ekki fyrir sér að nota Akureyrarflugvöll.

Þetta opnar þrjá möguleika til flugbrautargerðar á sunnanverðum Vestfjörðum sem gagnast gætu Ísafjarðarbæ.

1. Lenging norður-suður þverbrautar á Patreksfirði sem nýtast myndi í hvassri norðan- og sunnanátt og gera þann flugvöll að tryggum kosti á nótt sem degi allan ársins hring. Gallinn er sá að þaðan til Ísafjarðar er ca 50 kílómetrum lengra en frá Brjánslæk til Ísafjarðar. Kosturinn er að þessi framkvæmd er líklega ódýrust, því að á Patreksfjarðarflugvelli eru nauðsynlegar byggingar og aðstaða þegar fyrir hendi.

2. Flugbraut við Brjánslæk. Hún þyrfti ekki að vera nema 1200 metrar til að byrja með svo að hún nýttist fyrir Ísafjarðarflugið. Þaðan yrði álíka langt til Ísafjarðar og frá Akureyri til Húsavíkur eins og áður sagði. Völlurinn yrði opinn á nóttu sem degi og Vestfirðir þar með komnir á kortið með öðrum landsmönnum í þessu efni.

Menn spyrja um kostnað. Vestfirðingar eiga svona flugbraut inni samanborðið við aðrar landshluta og vel það. Flugbrautir á Vestfjörðum eru ca 3,6 km langar en flugbrautir á Norður- og Austurlandi samtals yfir tíu kílómetrar. Þetta er ódýrari framkvæmd en jarðgöng og rúmast vel inni í langtímaáætlun um samgöngubætur.

3. Flugbraut við Haga á Barðaströnd. Þarna er heldur rýmra en við Brjánslæk en hins vegar um 14 kílómetrum lengra til Ísafjarðar.

Það kemur fyrir að í hvassri vestlægri átt getur verið misvindasamt til lendingar á flugvöllunum á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta er mun skárra á Patreksfjarðarflugvelli og bæði við Haga og Brjánslæk væri hægt að leggja þverbrautir sem nýttust í þessari vindátt ef menn vildu það síðar meir.

Menn hafa hent gaman af því að ég skyldi nefna orðið "alþjóðaflugvöllur" þegar ég hef rætt þetta mál. Með því átti ég ekki við það að það þyrfti að gera alþjóðaflugvöll á Barðaströnd til þess að valda gerbyltingu í samgöngum við Vestfirði heldur einungis það að bæði við Haga og Brjánslæk er rými fyrir meira en 2ja kílómetra langar brautir ef menn vildu.

Kristinn H. Gunnarsson benti nýlega á að ríkisvaldið hefði varið á annað hundrað miklljörðum króna til byggingar Kárahnjúkavirkjunar (sem líkast til á ekki eftir að standast almennar arðsemiskröfur) og þegar þetta væri borið saman við framlög til byggðaþróunar á Vestfjörðum myndi taka aldir að jafna þennan mun.

Enn og aftur má því benda á það að Vestfirðingar eiga það inni að gætt sé jafnræðis byggðakjarnans á Ísafirði við byggðakjarnana norðanlands og austan.

Gleðilegt sumar !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

Merkilegt að þessi ágæti pistill hafi ekki fengið eina athugasemd enn sem komið er, en það er væntanlega til marks um að það séu bara allir sammála þér Ómar

Bloggarar eru a.m.k. yfirleitt ansi fljótir að stökkva fram ef þeir eru ekki sammála manni.

Baldvin Jónsson, 22.4.2007 kl. 00:06

2 Smámynd: Dante

Ómar!

Ég tek ofan fyrir þér eftir lestur þessa pistils. Ég er fullkomlega sammála þér í því sem þú segir um þetta. 

Í minni fjölskyldu hefur þú verið kallaður sonur Patriksfjarðar og ert vel að því kominn.

Taktu eftir, ég kalla staðinn PatrIksfjörð en ekki Patreksfjörð.  Patrik er rétta nafnið.

Haltu áfram á þessari braut. Þetta mun landsbyggðin kunna að meta mun betur en einhver stopp-stefna. Það eru svona hugmyndir sem rækta jarðveginn.

Lifðu heill.

Dante, 22.4.2007 kl. 07:01

3 Smámynd: Guðmundur Björn

Baldvin:  Getur ekki verið að fólk sé einfaldlega hætt að lesa þetta blogg?

Guðmundur Björn, 29.4.2007 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband