Úrelt mörk sveitarfélaga, kjördæma og landshluta.

Mörk sveitarfélaganna Hveragerðis og Ölfuss eru gott dæmi um það hvernig löngu úrelt mörk sveitafélaga valda óréttlæti og óþægindum vegna breyttra aðstæðna. 

Þannig hefur sveitarfélagið Ölfus í krafti landamerkja yfirráð yfir því að hægt sé að demba niður stórum jarðvarmavirkjunum með tilheyrandi smáskjálftum og brennisteinsmengun sem leggur yfir Hveragerði. 

Dæmin eru mýmörg um allt land. Eignarhaldið á landi Reykjavíkurflugvallar er eitt þeirra. 

Þegar Keflavíkurflugvöllur var gerður snerti það yfirráð fimm sveitarfélaga á flugvallarsvæðinu. Það er kaldranaleg staðreynd að ef ekki hefði staðið yfir heimsstyrjöld er alls óvíst að hægt hefði verið að byggja flugvöllinn vegna hættu á ósætti á milli sveitarfélaganna. 

Höggvið var á hnútinn í krafti herveldis, sem knúði það fram að landið fyrir flugvöllinn yrði tekið úr lögsögu sveitarfélaganna og sett undir forræði ríkisins. 

Þegar litið er á gildi vallarins fyrir stærsta atvinnuveg þjóðarinnar blasir við hve farsæl þessi lausn var, þótt hún væri kannski erfið fyrir marga þegar þessu var þrýst fram. 

Nefna má tvö ný og sambærileg dæmi um það þegar þjóðhagslegir hagsmunir verða að víkja fyrir svæðisbundnum hagsmunum, en það eru annars vegar Reykjavíkurflugvöllur og hins vegar lega þjóðvegar 1 í gegnum land Blönduósbæjar. 

En af nógu er að taka varðandi það að löngu liðið ástand á tíma dreifbýlis og landbúnaðar er látið skipta sköpum um stórfellda almannahagsmuni. 

Mörk atvinnusvæða eru ekki látin ráða, heldur fyrrnefnt löngu liðið ástand. 

Þannig vegur vægi atkvæðis manns á Akranesi, sem í raun býr í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu, meira en tvöfalt á við vægi atkvæðis manns í Vallahverfinu í Hafnarfirði, sem líka býr í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu. 


mbl.is Erindi hafnað um breytt landamörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir allt vesturland, suðvestur hornið og suðurland skiptir staðsetning og starfsemi Reykjavíkurflugvallar engu máli. Og á þessum svæðum býr stærstur hluti þjóðarinnar. En þegar barist er fyrir einhverju sem engin skynsamleg rök eru fyrir þá er gott að kalla það þjóðhagslega hagsmuni, flott orð yfir afþví bara.

Vagn (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 02:36

2 identicon

Hef lengi haldið því fram, að Ísland sé of lítið til að vera annað en ein stjórnsýslueining. Afnema sveitarfélögin, því sveitarstjórnarstigið þjónar engum tilgangi nema sem þægileg afkomutrygging fyrir allskyns siðlausa smákónga. Síðan yrði eitt fulltrúaþing, þar sem einn fulltrúi væri fyrir hvrja 10.000 íbúa. Forsætisráðherra yrði kosinn sérstaklega, líkt og forseti í USA, og síðan myndi hann velja ráðherra, sem sætu ekki á þingi. Hlutverk þingsins yrði fyrst og fremst að setja lög og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og fengi það hæfileg tól og tæki til þess. Á þingi gæti enginn tekið sæti, sem yrði sextugur á komandi kjörtímabili. Það tryggði að sjónarmið öldunga myndi ekki ráða öllu eins og nú er staðreyndin.

Þverhaus (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 08:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband