STÓRA FLUGVALLAMÁLIÐ.

Í dag hefur verið fjallað þvívegis í sjónvarpi um lendingarstaði mína á Kárahnjúkasvæðinu, fyrst tvívegis á Stöð tvö og síðan í Kastjósþætti um umhverfismál og látið að því liggja að um umhverfishneyksli sé að ræða. Lítum á þetta stóra flugvallamál í heild. 

Lendingarstaðirnir sem um ræðir eru allir svipaðir lendingarstöðum Flugmálastjórnar á hálendinu, þannig, að þeir eru náttúrugerðir, þ.e. sléttir melar. Til þess að flugvélar spori ekki í þá og eigi auðveldara um flugtak, eru þeir valtaðir á hverju sumri. Eftir frostlyftingu vetrarins eru þeir síðan eins útlítandi og þeir væru ósnortnir og þá þarf að valta þá að nýju.

2002 fékk ég leyfi hjá Umhverfisráðuneytinu til að lenda flugvélum á hjalla í Kringilsárrana. Þessi lendingarstaður er þessa dagana að sökkva í Hálslón, drullupoll Landsvirkjunar.

Ég lenti við Jöklu á botni Hjalladals. Þessi lendingarstaður er sokkinn í drullupoll Landsvirkjunar.

Ég hef lent við Kárahnjúkaveg á lendingarbraut undir Snæfelli, sem merktur er inn á kort Landmælinga þótt Flugmálsstjórn haldi honum ekki við nú.

Ég útbjó lendingarstað á Sauðármel norðan Brúarjökuls með þremur brautum, 1400, 1000 og 700 metra löngum og valtaði þær 2004. Þangað flaug ég með fjölmiðlamenn í júlí og með fjölda fólks til og frá staðnum í þrjú sumur, þar á meðal þrjá ráðherra, Geir Haarde, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Jónínu Bjartmarz, og tvo alþingismenn.

 Ég fór með fulltrúa frá Umhverfisstofu á völlinn og gerði sveitarstjórninni ítarlega grein fyrir honum, auk manna frá Landsvirkjun og Impregilo.

Engum hefur flogið í hug umhverfisspjöll fyrr en nú, fjórum dögum fyrir kosningar.

Helsta gildi þessa vallar er að hann er stærsti og besti lendingarstaðurinn á hálendinu, sá eini á stóru svæði, og Fokker F50 vél Flugfélags Íslands gerði aðflug að honum 2005 vegna þess að hann gæti nýst fyrir svo stórar flugvélar í neyðartilfellum.

Hann gæti þjónað vel sem sjúkraflugvöllur og verið stórt öryggisatriði í fjöldaslysum eins og við Hólsselskíl fyrir nokkrum árum.

Máltækið segir: "Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" og það á við í þessu tilfelli þótt það hafi tekið hundstunguna þrjú ár að finna það sem hún leitaði að.

Sjá: islandshreyfingin.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Aumt er það orðið þegar þetta eru orðin vopnin gegn þér. Og sennilega tekið langan tíma að leita að.

Gangi ykkur vel. 

Ævar Rafn Kjartansson, 8.5.2007 kl. 22:43

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég leyfi mér að taka hér nokkuð sterkar til orða en ég er  vanur: Þetta er hreinn drullusokksháttur gagnvart þér, Ómar. Og: Drullusokkarnir velja sér tímasetninguna!

Hlynur Þór Magnússon, 8.5.2007 kl. 22:50

3 identicon

Jæja Ómar
Þarna virðist þú hafa orðið fyrir ómaklegu skítkasti. Þú virðist nú hafa undirbúið þessa braut heiðarlega. Ekki láta þetta skítkast fara í taugarnar á þér.
Hins vegar finnst mér þú nú alveg mega taka smá ábyrgð á þessu því það hefur gleymst að skilgreina hvað náttúvernd er. Það virðist mega malbika yfir landið, byggja sumarbústaði, keyra um það, moka upp rauðamöl í heimkeyrslur en bara ekki virkja á því. Þá er ég ekki farinn að tala um það ótakmarkaða virðingarleysi sem við sýnum náttúru fátækra landa.
Sættumst nú á einhverja heiðarlega skilgreiningu á náttúruvernd og þá sleppur þú vonandi við svona skítkast í framtíðinni.

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 23:11

4 identicon

Ég skil nú bara alls ekki hvernig hægt er einu sinni að ræða þetta. Þetta er ein ómaklegasta aðför sem ég man eftir í langan tíma. Ekki kannski sú ógeðfelldasta en klárlega ein sú ómaklegasta.

Stormur í vatnsglasi er það sem kemur í hugann og greinilega vaðið áfram án þess að kynna sér málið nánar.

Pétur Þór Ragnarsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 00:16

5 Smámynd: Hrafnkell Birgisson

Sæll Ómar.

Um hvað er umræðan farin að snúast hjá fólki? Það sem allt of lítið hefur verið rætt um í þessu máli öllu frá A-Ö er sú staðreynd að á þessu mikla magni af áli sem verið er að framleiða á Íslandi á sér ekki stað nein frekari vöruþróun hérlendis. Þetta er fyrir mig stærsta vandamálið við þessa svonefndu stóriðjustefnu og áhrif hennar á land og þjóð. Verðmætin sem felast í álinu eru í eigu erlends stórfyrirtækis og flutt úr landinu óávöxtuð og ómerkt. Það eru slæm viðskipti.

Með kveðju,

Hrafnkell Birgisson, 9.5.2007 kl. 00:19

6 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Hver var með þetta mál?

Tómas Þóroddsson, 9.5.2007 kl. 01:21

7 identicon

Sæll Ómar,

Já, það fór merkilega mikill tími í að ræða þetta mál í fréttum fjölmiðla í dag. Eitthvað - og bitastæðara - mætti nú segja um afrekaskrá annarra stjórnmálaleiðtoga!

Annars er ég loksins búinn að gera upp hug minn fyrir kosningarnar og reyndi að koma því frá mér í þessum pistli.

Gangi ykkur sem best á laugardaginn! 

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 01:29

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér persónulega finnst nú ekkert að því að gera flugbraut þarna en ég velti því fyrir mér hvernig "þitt" fólk brigðist við ef gerðir yrðu einhverjir slóðar annarsstaðar á hálendinu.

Hrafnkell Birgisson: Ef það er arðbært að vera með frekari vöruþróun á áli, þá mun það verða gert. Þannig virkar nú kapitalisminn, það er alltaf verið að snuðra uppi leiðir til að græða, sem betur fer.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 02:41

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Hjálmar

leitt að geta ekki svarað á þessum vef þínum en þegar fólk ræðir um 'Omar sem sprelligosa eða eins máls forsvara hvet ég alla til að kynna sér málflutning hans. Jú, hann er ástríðufullur en hann er inn í öllum þeim málum sem hann er að tala um. Og það er verulega aumkunarvert þegar aðrir flokkar eru að reyna að markaðssetja hann sem  "bara náttúruverndarsinna"!

Með Íslandshreyfingunni komna með þingmenn tryggjum við að gamla fólkið liggur ekki í herbergjum með ókunnum. Við tryggjum virðingu fyrir framtíðinni. Við tryggjum manneskjuleg sjónarmið. 

Ævar Rafn Kjartansson, 9.5.2007 kl. 03:48

10 identicon

Sæll Ómar,

Já það er ómaklega vegið að þér en þú ert sem betur fer með breitt bak.  Ég hlustaði á einn í "Reykjavík Síðdegis" á Bylgjunni í fyrradag tala um þig, farartækin þín og hvernig þú værir "áreiðanleg" að níðast á náttúrunni.  Þá varð mér hugsað til greinar sem ég las um þig (man ekki hvað tímaritið heitir) þar sem þú útskýrðir hvernig farartækjum þú ækir, hvernig og afhverju og hitnaði mér í hamsi við þennan Bylgju hlustanda sem hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala.  Ég hef aldrei þolað stjórnmál og þetta er ákkúrat ástæðan: stöðugt skítkast út í andstæðingana - hvað varð um íþróttaandann sem við erum stöðugt að predika fyrir börnunum okkar!

Ég óska þér góðs gengis ekki bara í kosningarbaráttunni heldur í öllu því sem kemur í framhaldi af henni

Guðný Hansen (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 06:34

11 identicon

Þegar maður byggir baráttu sína á mótsagnakenndum rökum er ekkert skrítið að maður lendi í svona leiðinda aðstæðum og Ómar hefur núna.
Samkvæmt stefnu Framtíðarlandsins og Íslandshreyfingarinnar er sum náttúrueyðing góð en önnur slæm, engin þekking eða heildarsýn. Það eru til náttúruverndasamtök sem eru samkvæm sjálfum sér, byggja á traustum grunni og hjálpa mannkyninu í átt til meiri virðingar við náttúruna. Framtíðarlandið og Íslandshreyfingin eru því miður ekki í þessum hópi, atvikið sem Ómar lýsir er leiðinlegt en mér finnst hann mega líta í eigin barm.

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 08:22

12 identicon

Ævar,

Ekki að þetta sé besti vettvangurinn til að benda á það, en það ER hægt að commenta á færslur á ofangreindri vefslóð. Stór reitur - neðst ;)

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 08:46

13 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞEir sem afflytja svona lagað eru nú ekki stórir í sniðum, eða þekkja mikið til flugs og lendinga á melum.

Svona gerist þegar menn þekkja ekki hvernig árstíðirnar fara með þekjuna, hvort heldur er gróðurþekja eða melar. 

Vildi að þú ættir næga peninga til að eignast 185u með stórum hjólum, það er bara snilld, hvað sú vél markar lítið í ótroðna mela og getur haft sig til flugs nánast á mótornum.

Ef ekki gengur sem skyldi núna í vor, vil ég óska þess, að þú komir til okkar í Íhaldinu og vinnir að þínum málum innan okkar raða.

Megi allar góðar vættir vera með þér í för, hvert sem ferðinni er heitið.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 9.5.2007 kl. 09:12

14 Smámynd: Guðmundur Björn

Já, þetta er nú samt spaugilegt.  Hvernig var það annars Ómar, varst annars ekki með aðra flugbraut á toppi Esju?

Samt athyglisvert, eins og Stöð 2 orðaði það, þá geta þingmenn og ráðamenn sem Ómar bauð þangað upp eftir á sínum tíma, verið meðsekir?  Hvernig í ósköpunum getur farþegi verið meðsekur ef flugstjóri lendir einhversstaðar sem mögulega kannski er ekki "opinber" flugvöllur?  Illa unnin frétt eins og í raun margar á Stöð 2.

Guðmundur Björn, 9.5.2007 kl. 10:56

15 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

SkúliS: Það hefur nú verið boðið upp á útsýnisflug "innanlands" ansi lengi. Frá Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Reykjavík og Bakka ef ég man rétt þannig að það er nú ekkert sérlega nýtt og brilljant við þessa hugmynd þína.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 9.5.2007 kl. 11:01

16 Smámynd: Guðmundur Björn

Þú segir fjórum dögum fyrir kosningar.  Ég trúi því nú varla að einhver hætti við að kjósa þig Ómar út af svona ruglfrétt.    Þá kemur nú rannsóknarfrétt um kvótakerfið frá Kompás upp í hugann, væntanlega mögulega kannski, unnið náið með Frjálslynda flokknum.  Er þetta ekki bara svipaður áróðurshernaður og á móti Ómari, þ.e.a.s. 15mín fyrir kosningar eins og sumir eru duglegir að segja nú um stundir.

Guðmundur Björn, 9.5.2007 kl. 11:09

17 identicon

Þessi aðför að Ómari varð til þess að ég tók skrefið í fyrsta skipti á ævinni og skráði mig í stjórnmálaflokk með því að ganga í íslandshreyfinguna.  Ég hef gert upp hug minn fyrir kosningarnar, Ómar og hans fólk sem stendur fyrir lífsgildum sem ég tel eftirsóknarverð fyrir bæði land og þjóð.

 Áfram Ómar og Íslandshreyfingin!

Ólafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 13:02

18 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Hvað er aðþví að búa til flugvöll á hálendi.  Ég er sammála Ómari að í sumum tilfellum getur það verið nauðsýnlegt að hafa völl sem hægt er að lenda á í neyðartilfellum.  Meðan völlurinn er vel gerður er þetta í lagi.  Það er vel hægt að gera flugvelli sem falla vel að landslagi eins og Ómar hefur sýnt.

Þórður Ingi Bjarnason, 9.5.2007 kl. 16:50

19 Smámynd: Bryndís Guðmundsdóttir  (Binna)

Ég ætla bara að orða þetta svona. Þetta var aumt skítkast, og tek undir þau orð er ég var að lesa hérna, að ekki hafi verið hægt að finna neitt annað á þig Ómar. Enda var þessi kona sem að lét þessi orð falla ekki alveg samkvæm sjálfri sér þennan daginn.

Það þyrftu að vera fleiri flugvellir fyrir áhugaflugmenn til að geta lent á sér og öðrum til yndisauka.

Gangi þér/ykkur vel

Bryndís Guðmundsdóttir (Binna), 9.5.2007 kl. 17:21

20 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Og nú heyri ég í útvarpinu að það sé búið að kæra Ómar! Og les á vefnum ruv.is að viðurlög við meintum brotum séu allt að tveggja ára fangelsi. Ég held að fólki sé varla sjálfrátt. En - þessi aðför að manninum verður ekki til annars en að vekja fleiri til stuðnings við hann.

Hlynur Þór Magnússon, 9.5.2007 kl. 18:18

21 Smámynd: Björgvin Gunnarsson

Úff... ómerkilegra verður þetta ekki!

Vonandi verður þetta þér til framdráttar Ómar frekar en hitt!!

Björgvin Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 18:50

22 Smámynd: Maria Elvira Méndez Pinedo

Hello Ómar,

Yes, indeed, the protection of the environment is so important that anybody should be taken before the courts for a new kind of crime to be inserted in our criminal codes: destruction of the nature.

But lets not be mistaken here. It is not you the one who should be judged but rather those who approved the Kárahnjúkar project and destroyed this Icelandic nature forever.

Bestu kveðjur, all the best for 12th of May

 Elvira

Maria Elvira Méndez Pinedo, 9.5.2007 kl. 21:33

23 Smámynd: Kristján Pétursson

Ómar þú varst góður í kvöld,hlýtur að hafa höfðað til margra kjósenda.

Kristján Pétursson, 9.5.2007 kl. 22:22

24 Smámynd: Báran

Er ekki bara um skjálfta að ræða? Hræðsla birtist oft í svona myndum! Nota hvað sem er til að koma andstæðing á hné?  Lýsir þeim best sem viðhafa þannig vinnubrögð... Sérstaklega þegar hægt er að benda á alvarleg, siðlaus og jafnvel ólögleg vinnubrögð.   Ég myndi í það minnsta vilja sjá skýringu á plottinu með Landsvirkjun.  

Baráttukveðja

Bára

Báran, 9.5.2007 kl. 22:24

25 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Landsvirkjun eyðir sönnunargögnum!

Í kjölfar kæru á hendur Ómari Ragnarssyni fyrir að hafa smíðað sér flugvöll við Kárahnjúka gleymist að við rannsókn þessa máls sem gæti tekið töluverðan tíma er stór hætta á því að Landsvirkjun verði sek um að spilla eða eyða sönnunargögnum sem gætu stuðlað að því að fá Ómar Ragnarsson dæmdan sem umhverfishryðjuverkamann.

Því er það mín krafa sem unnanda réttlætis og réttarkerfisins íslenska að tappinn verði tekinn úr Kárahnjúkavirkjun þannig að umræddur flugvöllur fari ekki undir vatn og spilli þannig rannsókn málsins.

Réttast væri að farið yrði fram á lögbann á þessum gerðum meðan rannsókn stendur yfir!

Það hlýtur að vera skýlaus krafa að Landsvirkjun stöðvi strax frekari rennsli í Hálslón meðan þetta mál velkist í réttarkerfinu. Að öðrum kosti er ljóst að Landsvirkjun verður sek um að spilla sönnunargögnum og hafa áhrif á störf íslenska dómskerfisins.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.5.2007 kl. 23:55

26 identicon

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að megnið af þeim sem skrifa hér á síðunni séu einmitt sömu einstaklingarnir sem vilja hrekja flugið úr Vatnsmýrinni.  En það er vitaskuld allt önnur Ella að trufla Reykvíkinga í bjútý-blundinum sínum með einkaflugi en að byggja flugvöll í landi einhvers bónda austur á landi. 

Umhverfisstofnun getur ekki gefið annað leyfi fyrir nýtingu eða afnot á eigna annara, en að hafa ekkert við gjörninginn að athuga.  Það felur ekki í sér framkvæmdaleyfi.

Það er einnig viðtekin kurteisi að hafa samband við landeigenda þegar menn ætla að gera eitthvað inn á landareign þeirra, t.d. veiða, tjalda, ganga til berja, svo ekki sé minnst á að byggja flugvöll.

Ég sé þessa einstaklinga í anda, sem skrifað hafa hér fyrir ofan og hneykslast, ef einhver afdalabóndinn stormaði til borgarinnar með nesti og nýja skó og tjaldaði á lóðinni hjá þeim, án þess að spyrja kóng eða prest, einungis með leyfi frá Villa bæjó um að hann hefði ekkert við gjörninginn að athuga.

Mér er í sjálfu sér slétt sama hvar Ómar lendir, bara ef hann slasar sig ekki.  Mér finnst hins vegar umræðan hér að vera fordómafull, einhæf og hrokafull gagnvart einföldum mannasiðum, lögum og reglum.

Benedikt V Warén (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 00:01

27 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Bíddu við Benedikt

Fór Ómar ekki eftir öllum  leikreglum?

Ævar Rafn Kjartansson, 10.5.2007 kl. 01:54

28 identicon

Ég er samt með góða hugmynd af ferðamennsku og flugvöllunum hans Ómars, hún er soldið extreme. Fljúga með þá á þessa flugvelli skilja þá eftir og láta þá finna leiðina aftur til byggða sjálfa. Örugglega nokkrir sem vildu borga fyrir það. Mér finnst samt sárt að sjá þennan bíl upp á hálendi sem þeir segja að þú eigir. 

Fluggi (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 03:02

29 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Ómar og hafðu þakkir fyrir þessa mögnuðu kynningu í gærkvöldi. Þetta var toppurinn.

Þórbergur Torfason, 10.5.2007 kl. 11:58

30 identicon

Fyrst vil ég segja að þú varst frábær í kynningu formanna í sjónvarpinu, snöggur og skýr í svörum.  Varðandi stora flugvallarmálið þá er þetta vesalings spyrjandanum sjálfum til skammar.  Og síðan taka staksteinar mbl. þetta upp sem grafalvarlegt mál.  Sá sem þar skrifar ætti að skammast sín.  Þetta er svooo lágkúrulegt að það hálfa væri nóg og mogganum til hroðalegrar hneisu að gjamma svona.  Miklu fremur ætti að tala um þá ljótu meðferð sem landið þarna hefur orðið fyrir og allt það fallega sem farið er undir vatn og er að fara undir vatn.  Grátleg verk misviturra manna.  Og þér ber að hrósa  fyrir hve mjög vasklega þú barðist gegn þessu og sýndir okkur myndir frá eyðileggingunni, reynandi að vekja ráðamenn upp úr álvímunni.  Baráttukveðjur. Auður

Auður Matth. (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 14:09

31 identicon

Ég hélt þetta væri grín fyrst þegar ég las um þetta.  Vonandi tekurðu þetta ekki nærri þér og getur bara hlegið að aumingja manninum og vitleysunni í honum.

Gangi þér vel á morgun.  Ég fylgi reyndar þínum gamla flokki svo ekki dett ég, nei atkvæðið mitt, ofan í þinn kjörkassa á morgun.  En ég er alin upp við barnaplöturnar þínar svo Ómar, þú munt alltaf eiga stað í mínu hjarta 

Lilja Haralds (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 03:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband