Þarf betri upplýsingar og þjónustu.

Afar sérkennilegt fyrirbæri blasti við á ferð um þjóðveg eitt á Norðausturlandi fyrir tveimur dögum, áberandi skilti og tilheyrandi keðja við ströngu banni við akstri inn í Herðubreiðarlindir. DSC00953

Bannsvæði er bannsvæði, rétt er það. En þegar ferðafólk frá útlöndum er komið hátt á aðra milljón á ári eykst ekki aðeins hættan á misskilningi eða því fyrirbæri, að það er misjafn sauður í mörgu fé, heldur þurfa merkingar að vera á erlendu máli og útskýra ástæðu banns. 

DSC00955

Einnig er varasamt og jafnvel hættulegt, hvernig þjónusta og innviðir eru stórlega vanræktir á sama tíma og tugir og hundruð milljarða streyma inn í þjóðarbúið í vaxandi tekjum af ferðafólki. 

Það er ekki nóg að setja bann, heldur þarf líka að segja af hverju, til dæmis að hverir séu sjóðandi heitir. 

Í Yellowstone er þetta tilgreint vel og vandlega og aðeins leyft að ganga á göngupöllum. DSC00954

Verst er þó ef sett eru boð og bönn á borð við bann, sem sett hefur verið við því að aka leiðina frá þjóðvegi eitt við Hrossaborg inn í Herðubreiðarlindir. 

Í allt haust hefur verið einmuna blíðutíð á landinu og eftir ferðalag inn að Vatnajökli fyrir nokkrum dögum blasir við að líklega hefur aldrei verið eins góð færð á öllum slóðum og núna. 

Þess vegna er merkingin við keðjuna sem lokar leiðinni beinlínis haugalygi; það er ekki og hefur ekki verið lengi ófært á þessari leið og er ekki hægt að sjá í þessari viku að minnsta kosti að stefni í ófærð. DSC00956

Þegar hugað er að smáu letri á langminnsta skiltinu við lokunina, sem enginn tekur eftir, er tilgreint að engir landverðir séu á svæðinu og virðist það eiga að réttlæta lokunina. 

En það eru heldur engir landverðir við Kverkfjallaleið eða Brúardalaleið, sem ekki hefur verið lokað, svo að það er ekkert samræmi í þessum aðgerðum.

Það eru mun fleiri ferðamenn á ferð á landinu en verið hefur á sama tíma undanfarin ár og málið lyktar af skammsýni og nísku við að sinna þjónustu og innviðum. 

Í fréttum í hádeginu var greint frá því að í heilum landshluta sé ástandið þannig að aðeins einn lögreglumaður sé á vakt og jafnvel engir varamenn tiltækir til að koma til hjálpar ef eitthvað ber út af.

Ef menn telja sig ekki hafa efni á því að hafa svo sem einn eða tvö landverði á hálendinu norðan Vatnajökuls þegar þar eru bestu skilyrði til ferða sem hugsast geta, er lágmark að breyta merkingum við Hrossaborg á þann veg, að litla hvíta skiltið, sem fæstir sjá, sé haft eins stórt og mögulegt er.


mbl.is Fór inn á lokað hverasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bannsvæði er bannsvæði, það þarf ekkert að útskýra það frekar. Ekki setjum við útskýringar á umferðarmerki á láglendi, hvers vegna ætti þess að þurfa á hálendinu?

Hábeinn (IP-tala skráð) 9.10.2016 kl. 15:56

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Erlendir ferðamenn vita yfirleitt hvað umferðarmerki á láglendi þýða, sem eru líka í þeirra löndum. 

Bannið þarna er óþarft og óútskýranlegt því að færðin þarna hefur undanfafrnar vikur verið sú besta á öllu þessu langa sumri.

Það er ekkert samræmi í þessu, -  allar svipaðar hálendisleiðir austan Jökulsár á Fjöllum hafa verið opnar og eru opnar, þótt þar sé enginn landvörður. 

Ómar Ragnarsson, 9.10.2016 kl. 17:53

3 Smámynd: Már Elíson

..og hafðu það, þráðbeint, "hábeinn" - Ekki að vera að þvæla um eitthvað sem þú veist að verður rekið ofan í þig. Sumir vita betur af þekkingu og langri reynslu.

Már Elíson, 9.10.2016 kl. 19:26

4 identicon

Þó bannið sé í þínum augum óþarft og óútskýranlegt þá er það til staðar og flestum ljóst. 5 áberandi skilti og keðja eru ekki boð um að halda áfram. Á láglendi ákveðum við ekki að hundsa umferðarmerki sem okkur þykja óþörf og óútskýranleg. Heimtum ekki nánari upplýsingar svo við getum sjálf ákveðið hvort við ökum gegn einstefnu eða á 100 framhjá skóla. Hvort það er undirlægjuháttur eða meðvirkni sem kallar á sérstaka meðhöndlun hálendisfara veit ég ekki. Þeim ber að fara að reglunum þó þeim þyki þær óþarfar og óútskýranlegar. Það þarf ekkert að útskýra annað sérstaklega fyrir þeim.

Hábeinn (IP-tala skráð) 9.10.2016 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband