Hálslón: 50 milljón tonn á ári? Ónýtt eftir 50 ár? Vanræksla í Andakíl?

Nú hefur komið í ljós að aurset í inntakslóni Andakílsárvirkjunar var margfalt meira en áætlað hafði verið. Má það furðu gegna, því að áin er skilgreind sem bergvatnsá en ekki jökulsá eins og árnar sem virkjaðar voru fyrir Kárahnjúkavirkjun. Leirfok, Kárahnjúkar

Tölur um aurset Kárahnjúkavirkjunar sýna best hvað 15-18 þúsund tonnin, sem fóru úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar voru í raun lítið magn miðað við það aurmagn sem áætlað er í mati á umhverfisáhrifium að fari í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar á hverju ári. 

Þar er um að ræða um 10 milljón tonn árlega og að lónið fyllist upp af auri á bilinu 150 til 300 árum.

Á efstu myndinni sést dæmigert leirfok úr þurru lónstæði Hálslóns snemmsumars meðan lágt er í lóninu. Það rétt grillir í Kárahnjúka en stíflurnar eru á kafi í leirfokinu. Þetta gerist þegar hreyfir vind í hlýjum og þurrum sunnan þey.  

En miðað við reynsluna af uppfyllingu gilsins sem Kringilsá féll um fyrir virkjun, er um stórkostlega vanáætlun að ræða.Töfrafoss í maíFólk í sandi v.Kringilsánar loftslags er aurburður Jöklu og Kringsilsár vafalaust miklu meiri en áður var og reiknað var með í áætlunum um virkjunina.

Reiknað var með að gilið fyrir neðan Töfrafoss, sem sést hér á mynd tekinni í júníbyrjun fyrir átta árum, myndi ekki fyllast upp fyrr en eftir 100 ár. 

En á myndinni sést, að aursetið hefur þegar á aðeins tveimur árum fyllt gilið upp að fossinum og sökkt í aur öllu gilinu fyrir neðan fossinn og fossunum þar að eilífu. 

Á næstu mynd þar fyrir neðan gengur fólk eftir þurrum sandflákum þar sem áður var þykkur, gróinn jarðvegur. 

Það ætti ekki að koma á óvart að miðlunargetan og þar með afl Kárahnjúkavirkjunar fari að dvína þegar eftir um hálfa öld og afl virkjunarinnar jafngilda því að hún verði ónýt á innan við öld.

Fari á þann veg felast ekki aðeins mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif í þessari virkjun, heldur er gortið af "endurnýjanlegri orku" og "sjálfbærri þróun" marklaust.

Ef reynt verður að opna "botnrás" stíflunnar til að skola aurnum niður í Jökuldal, verður að gera það eftir tiltölulega stuttan tíma, því að þessi "botnrás" er í 85 metra hæð yfir botninum! Og á meðan yrði að skrúfa fyrir rennslið yfir í hverflana að miklu eða öllu leyti.  

Af hverju liggur botnrásin svona hátt?

Það er af því að botn lónsins verður svo fljótt að fyllast af aur. Og aurskolun yrði í raun aðeins piss í skóinn um skamma stund, því að svo yfirgengilega mikill er þessu aur, að ef reynt verður að skola sem mestu af honum niður í Jökuldal og út í Héraðsflóa, myndi það valda óviðunandi afleiðingum alla leið til sjávar.  

Hvað Andakílsárvirkjun áhrærir er líklegt, að vanrækt hafi verið að mæla hæð setsins fyrir útskolun, því að með slíkri mælingu hefði komið í ljós að setið var orðið margfalt hærra og meira en reiknað hafði verið með og þess vegna ekki verjandi að láta allt gossa.  


mbl.is Set í Andakílsá meira en áður talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æ, Ómar, hættu þessari þráhyggju gegn Kárahnjúkavirkjuninni og álverinu á Reyðarfirði.
Það vita allir nú orðið að þú er sársvekktur yfir allri uppbyggingunni þarna fyrir austan og þeirri velmegun sem þessar framkvæmdir færðu austfirðingum.

Þú verður að sætta þig við það að austfirðingar fluttu ekki suður í massavís eins og þú hefðir heldur viljað.

Og þú verður að sætta þig við að framþróun og meiri velmegun varð á Austurlandi eftir þessar framkvæmdir í staðinn fyrir stöðnun og óbreytt ástand eins og þú hefðir án efa verið sáttari við.

Austri að austan (IP-tala skráð) 8.6.2017 kl. 00:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Fluttu ekki suður eins og ég hefði viljað."   Þetta er fráleitt að segja.

Ég hef alltaf talið "eitthvað annað" eins og til dæmis ferðaþjónustan, vera betri kost en stóriðja eins og komið hefur rækilega í ljós síðustu ár, og ævinlega bent á að það væri vænlegri kostur til þess að koma í veg fyrir fólksflótta. 

Ég er satt að segja orðinn þreyttur á því að rökþrota fólki grípi til þess að væna mig í síbylju um andúð og illvilja gagnvart landsbyggðarfólki þegar reynslan hefur sýnt að þetta "eitthvað annað" sem Austri og aðrir töldu glatað, hefur skapað hér mesta uppgang um allt land, sem dæmi eru um. 

Ómar Ragnarsson, 8.6.2017 kl. 01:13

3 Smámynd: Ómar Geirsson

 Blessaður nafni.

Þegar rökum er svarað með dylgjum, þá þýðir það annað að tvennu, að engin rök séu á móti, eða sá sem dylgjar, þekki ekki til þeirra.

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að álverið er byggðarstólpi, þó mun minni en væntingar stóðu til.  En líklegast voru þær söluvæddar, svona í hókus pókus stíl, Störfin áttu að streyma, því sem næst af sjálfu sér, en lítt íhugað hvað var raunhæft að baki.

En fórnin er mikil eins og þú bendir réttilega á.

Lagarfljótið og lögurinn er drullupollur, farinn er að eilífu hinn fagurgræni litur sem setti svo mikinn svip á Héraðið.  Og náttúrvættið sjálft, Jökla er orðinn að meinlausri bergvatnsá, sem engar sögur er spunnar um.

Síðan höfum við Austfirðingar verið svo heppnir, að það hefur ekki hreyft vest suðvestan vind að ráði, frá því að stíflan var byggð.  En þau sumur koma, og þá verður Peking ástand niðri á fjörðum.

Þess virði??

Ef svarið er já, þá segir það aðeins um hvílík örvænting hafði grafið um sig hérna fyrir austan, og það er erfitt að dæma fólk sem sá ekki önnur bjargráð.

En náttúran naut ekki vafans, um það þarf ekki að deila.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.6.2017 kl. 07:17

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, nafni. Ég fjallaði allt fram til 21. september 2006 um þessi mál á þann hátt, að þótt gerður væri að mér aðsúgur, ég sakaður um að vera "óvinur Austurlands númer eitt", fullyrt að ég hefði "misnotað aðstöðu mína" og þess krafist að ég væri rekinn, leiddi rannsókn útvarpsráðs í ljós, meira að segja mælt með skeiðklukkum, að þessar grófu ásakanir áttu ekki við rök að styðjast. 

Virkjun með óheyrilegum óafturkræfum spjöllum er að því leyti til ólík "verndarnýtingu landsins" að hún kemur að eilífu í veg fyrir annars konar nýtingu,-  en hið síðarnefnda er afturkræft og kemur ekki í veg fyrir virkjun síðar meir. 

Til að gæta allrar sanngirni hefði því átt að gefa þeim möguleika, kannski tvo áratugi, að þetta svæði færi á heimsminjaskrá UNESCO sem þjóðgarður og sjá, hvaða ávinning það hefði fært, líkt og gert hefur verið annars staðar með svo góðum árangri að nú gengur fádæma uppgangur yfir landið. 

Ef þetta hefði ekki þótt gefa nógu góðan árangur, var áfram opinn sá möguleiki að virkja. 

En mönnum lá á, og ég hef aldrei formælt Austfirðingum, - þvert á móti samdi ég lagið og textann "Afl fyrir Austurland" á þann veg fyrir bókina "Kárahnjúkar - með og á móti", að ég hef ekki séð málstað virkjanasinna gerð betri skil. 

Ómar Ragnarsson, 8.6.2017 kl. 08:52

5 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Takk Ómar fyrir óþrjótandi elju þína við að upplýsa og berjast fyrir náttúru Íslands.

Ragna Birgisdóttir, 8.6.2017 kl. 13:51

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, þú bjóst þara að þeirri sannfæringu að okkur hefði verið fengin ómetanleg verðmæti að láni, og að okkur bæri skyldu að koma þeim áfram til næstu kynslóðar svo hún fengi að njóta.

En flestir sem létu hæst, vissu betur um afstöðu þína, hinir voru hreinlega bjánar og fátt meir um það að segja.

En gjald verðmætunarsköpunar er mjög hátt, mjög hátt.

Fljótsdalshéraði er ekki samt, hálendið að jökli manngerður drullupyttur, og skrýmslið undir niðri, nálgast óðfluga vatnsyfirborðið.

Og eftir stendur, hver gaf manninum réttinn til að skemma það sem ennþá var óskemmt?

Það væri hollt að reyna að svara þeirri spurningu á meðan við höfum ennþá tækifæri á að spyrja hennar.

Þú ert náttúrurvættur nafni.

Þú þarft ekki að biðjast afsökunar á neinu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.6.2017 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband