Gott starf Íslendinga í Mósambík en sendiráðið vakti spurningar.

Það var áhugavert að fylgja utanríkisráðherra Íslands til Mósambík árið 2003 og kynnast því sem Íslendingar voru að gera þar. 

En sendiráðsbyggingin stóra og flotta vakti spurnningar, þótt hún gæfi tilefni til að varpa ljósi á hrópandi andstæðurnar hjá þessari fátæku þjóð. 

Með uppistandi við glæsislotið var hægt að benda yfir flóann og segja eitthvað á þessa leið: "Hér stöndum við á besta stað í höfuðborginni þar sem eru glæsivillur sendiráða ríkra þjóða og vitum af því hvernig mestöll heimsbyggðin er komin í gervihnattasamband, en þegar skyggnst er yfir flóann sjáum við djarfa fyrir svæði, þar sem svo mikil fátækt ríkir, að fólk þar er algerlega úr sambandi við nútíma veröld og býr við ömurlega örbirgð, en þessu kynntumst við í ferð þangað í gær til að sjá hvernig íslenska þróunarhjálpin hefur reist þar einfalda heilsugæslustöð sem gjörbyltir öllu á þvi sviði. 

Áður en hún reis, þurfti kona, sem var í barnsnauð, að fara gangandi eða í besta falli ríðandi á asna til þess að komast nálægt einhverri lágmarksþjónustu. 

Við sáum í gær hvernig fólkið þarna kom að úr öllum áttum til að fagna íslenskum gestum með því meðal annars að syngja og dansa í útivist. 

Sérstaka athygli vakti unglingur, sem hafði sett saman gítar úr einum bensínbrúsa, spýtu og nokkrum vírstrengjum, sem hann lék á að hreinustu list. 

Og fólkið söng saman á ógleymanlegan hátt með hinum mögnuðu sjálfsprottnu raddsetningum, sem er svo einkennandi fyrir þjóðirnar syðst í álfunni. 

Við fórum líka og kynntumst líknarstarfinu sem Íslendingar hafa sinnt í návígi við eitt af aumustu og illræmdustu fátækrahverfi landsins, þar sem allt að fimmtungur ungs fólks verður alnæmi að bráð." 

Á einu götuhorninu sáum við unglingspilt leika sér þannig að fótbolta, að sumt sem hann gerði hafði maður ekki séð jafnvel þá allra frægustu í þeirri íþrótt leika slíkt. 

Síðan var hann horfinn og manni varð hugsað til þess að í kringum 1960 vildi svo til að portúgalskur knattspyrnuþjálfari sá pilt einn leika sér með bolta á svipaðan hátt, stöðvaði bílinn og tók hann með sér til Portúgals. 

Á HM í London 1966 varð hann stjarna mótsins og vakti heimsathygli. Nafn hans var Eusobio, og hann var svo heppinn að það var knattspyrnuþjálfari sem sá til hans en ekki fréttamaður frá Íslandi, sem átti leið framhjá og hvarf sjónum. 

Og kannski átti knattspyrnusnillingurinn 2003 eftir að bætast í hóp þess unga fólks sem grimmur sjúkdómur felldi umvörpum á þessum tíma.

Íslendingar hjálpuðu líka til við fiskverkun í Mapútó og kenndu vinnubrögð og aðferðir við vinnslu og sölu. 

En stóra sendiráðsvillan, ein sú stærsta á svæðinu, truflaði þessa sýn. Þegar spurt var hvort hún væri ekki bruðl var svarið að verðlag allt væri svo lágt í þessu fátæka landi, að kostnaðurinn við slotið þætti lítill á íslenskan mælikvarða. 

Nú er búið að loka sendiráðinu og verið að þróa aðrar leiðir til þess að sinna þeim göfugu verkefnum, sem hrópað er á svo víða um lönd, þar sem kjör hundruð milljóna fólks eru svo langt frá því sem við eigum að venjast, að það er stundum líkt og ljósár séu á milli.  


mbl.is Sendiráði Íslands í Mósambík lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband