SAMBAND Á MILLI SKJÁLFTANNA OG FYLLINGAR HÁLSLÓNS?

Það vekur athygli þegar skoðaðir eru skjálftarnir sem voru við Upptyppinga síðsumars að fylgni virðist á milli þeirra og fyllingar Hálslóns. Þegar lónið fylltist hraðast voru skjálftarnir mestir en dró úr þeim þegar hleypt var úr lóninu svo að hækkaði hægar í því. Nú er lónhæðin nokkuð kyrr og líka rólegt á mælunum. Ef þetta er svona er ljóst að farg Hálslóns hefur áhrif á hraunkviku djúpt í jörðu og komið af stað skjálftum sem vísindamenn sögðu vera einstæða, því þeir væru "á ónvenjulega miklu dýpi".

Þess ber að gæta að Hálslón er á sprungusveim Kverkfjalla, sem er það breitt að það nær vestur að Upptyppingum og að Askja er vestan við þennan sprungusveim. Sprungusveimar geta vafalaust verið flókin fyrirbæri. Þannig voru hræringar í Hamrinum og Bárðarbungu undanfari eldgosa og umbrota í Gjálp og Grímsvötnum.

Það er álíka langt frá Bárðarbungu í Gjálp og Grímsvötn og frá Upptyppingum til Kárahnjúka.

Í ljóðinu Áfangar nefnir Jón Helgason "Kverkfjallavættir reiðar". Mann dettur helst í hug skáldlegt innsæi varðandi skjálfta og kvikuhreyfingar á miklu dýpi nú, því Kverkfjöll-Upptyppingar-Kárahnjúkar, þetta er allt á sprungusvæði Kverfjallasveimsins.

Áður en lónið kom gat maður horft yfir berggang á botni Hjalladals sem stefndi þráðbeint á Kverkfjöll og sama var að segja um sprungurnar sem liggja undir Kárahnjúkastíflu og Sauðárdal og eru nú undir fargi Kárahnjúkastíflu og Hálslóns.

Vitað er að þegar ísaldarjökullinn bráðnaði fyrir 11000 árum hafði létting fargsins þau áhrif á svæðið norðan Vatnajökuls að þar jókst eldvirkni þrítugfalt, - endurtek, þrítugfalt, fyrst á eftir meðan landið var að jafna sig.

Þá, eins og nú, hefur þessi fargbreyting haft áhrif langt niður í jarðskorpuna, "óvenju djúpt" eins og jarðfræðingar höfðu á orði um skjálftana við Upptyppinga.

Mikið væri nú gott ef sérfræðingar hefðu eitthvað um þetta að segja því að framansagt eru aðeins hugleiðingar leikmanns, að vísu byggðar á samneyti og samtölum við jarðvísindamenn í áratugi.

Guðmundur Sigvaldason heitinn lagði áherslu á það hve þunn jarðskorpan væri á þessu svæði og byggði varnaðarorð sín á því.

Í vændum er starfstími Kárahnjúkavirkjunar með allt að 50 metra árlegri vatnsborðssveiflu Hálslóns þar sem um er að ræða "miðlunarrými" upp á 2100 gígalítra. 180 metra djúpt lón er gríðarlegt farg, ekkert síður en 180 metra þykkur jökull.

Það má spyrja vísindamenn margra spurninga:

Munu aftur hefjast skjálftar þegar farg lónsins minnkar hvað hraðast á næstu útmánuðum?

Verður aftur skjálftahrina þegar fargið eykst hvað hraðast síðsumars 2008?

Til er sú vísindakenning að hæðar/fargbreyting vatns í Grímsvötnum sem nemur miklu minna magni en hækkun Hálslón geti hleypt af stað eldgosum. Hvað um Hálslón?

Auðvitað var farg ísaldarjökulsins miklu víðfeðmara en farg Hálslóns er nú. Á móti kemur að farg jökulsins minnkaði hægt og bítandi jafnt og þétt á mörgum öldum en farg Hálsóns mun sveiflast upp og niður með hröðum breytingum tvisvar á ári.

Hraðasta breytingin er hækkunin frá júlí til miðs septembers.

Er hægt að spá eitthvað í það hvaða áhrif þessar árlegu fargsveiflur geti haft þegar til lengdar lætur?

Eða verður að bíða og fagna þeirri tilraun sem þarna er verið að gera um áhrif mikils fargs á þunna og sprungna jarðskorpu eldfjallasvæðis vegna þess hve mikið vísindagildi hún hefur, burtséð frá hugsanlegum afleiðingum?

Ég veit að það er líklega ekki vinsælt hjá öllum að ræða þetta af því að þetta mál er "viðkvæmt".

Ég tel hins vegar að málið sé viðkvæmt af því að það sé svo stórt á alla lund og þess vegna eigi frekar að ræða það en smærri mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Ómar,

Það var fróðlegt að fylgjast með þessum hræringum fyrir stuttu í Upptyppingum á vef Veðurstofunnar. En þá bloggaði ég um fyrirbærið í nokkrum færslum sem sjá má nánar hér:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/276849

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/288610

En þar hélt ég utan um grafískar myndir sem Veðurstofan birti reglulega af svæðinu.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 14.9.2007 kl. 06:47

2 Smámynd: Sævar Helgason

'Í upphafi skal endirinn skoða" "Of seint um rassinn gripð"

Vonandi verða þessir málshættir ekki að áhrínsorðum varðandi Kárahnjúkavirkjun.

Þetta er fróðleg samantekt hjá þér Ómar...takk fyrir það 

Sævar Helgason, 14.9.2007 kl. 09:05

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Guðmundur Sigvaldason tók þetta saman vorið 2001 fyrir einn rýnifund Landverndar í umhverfismatsskýrsluna.

Pétur Þorleifsson , 14.9.2007 kl. 09:31

4 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta er fróðleg samantekt hjá þér Ómar.  Það virðist vera að þegar ákveðið er að fara í í stórframkvæmdir þá skoða menn aðeins þá hluti sem þeir vita að henti þeim.  Ýmsir jarðfræðingar hafa bent á að þessi framkvæmdm við kárahnjúka væri varasöm vegna jarðhreyfinga en á þá var ekki hlustað því þeir treystu frekar sýnum mönum sem horfa framhjá svona hlutu. 

Þórður Ingi Bjarnason, 14.9.2007 kl. 09:38

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Allflestir jarðfræðingar eta úr lófa ríkisins, þeir sem ekki eta úr þeim lófa eta úr öðrum lófum sem eru alveg eins og lófi ríkisins. Þessar vangaveltur Ómars komast því ekki á dagskrá vegna sveltihættu.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 14.9.2007 kl. 17:47

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tilgangslaus og fánýt umræða. Það væri nær að þið spyrðuð ykkur hvort nokkur glóra sé í því að hafa allar stærstu virkjanirnar á Suð-Vesturhorninu, á skjálfta og gosvirkasta bletti landsins. Hvort ekki sé skynsamlegra að afla orkunnar sem víðast til að minnka áhættuna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.9.2007 kl. 23:37

7 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Hvergi er nefnt að jarðhiti fannst í könnunarholum, sem voru boraðar við Hafrahvammagljúfrin, en þar veit undirritaður af uppkomu volgra borkjarna."

Það þótti mjög mikilvægt að þetta yrði ekki heyrinkunnugt fyrir afgreiðslu Alþingis.

Pétur Þorleifsson , 15.9.2007 kl. 01:26

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Tilgangslaus og fánýt umræða" segir Gunnar. Hálslón er eina virkjanaframkvæmdin sem hugsanlega gæti aukið líkur á náttúruhamförum. Engin önnur virkjun setur farg á þunna jarðskorpuna.

Blönduvirkjun var á sínum tíma "seld" landsmönnum sem varúðarráðstöfun, - stórvirkjun utan eldvirku svæðanna. Talið er að Kröfluvirkjun sé nú á svæði sem verði rólegt næstu tvær aldir eftir að það gliðnaði í Kröflueldum og losaði um spennu milli landreksflekanna.

Það er rétt sem Pétur segir um jarðhitann í holunum en þess utan voru heitu laugarnar í Lindunum á misgengis- og sprungusvæðinu sem gengur í gegnum stíflurnar.

Tilraunir mínar 2001 til þess að "skúbba" með frásögn af framlagi Guðmundar Sigvaldasonar í fréttum eru nefndar í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár".

Þá þótti þetta ekki merkilegra en svo að það komst ekki í sjöfréttirnar og fékk inni með 50 sekúndna umfjöllun í tíufréttum, án þess að þess væri getið í "helsti.."

Skjálftarnir við Upptyppinga voru hins vegar helstfréttir í sumar en þó lögðu fjölmiðlar sig í framkróka við að reyna að breiða yfir tengsl skjálftasvæðisins við Kárahnjúkasvæðið.

Blaðið sýndi á korti hve ógnarlangt væri frá þarna á milli með því að færa Kárahnjúka og Snæfell 40 kílómetra í austur svo að fyrirsögnin um að skjálftarnir tengdust ekki Kárahnjúkasvæðinu stæðist betur.

Ómar Ragnarsson, 15.9.2007 kl. 02:02

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég fékk framan í mig þegar ég velti því fram að fylling Hálslóns hefði haft áhrif á Upptyppinga að ég þyrfti að fara að athuga mína jarðfræði og kunnáttu. Mín jarðfræðikunnátta er engin! :Þetta voru bara hugmyndir um hvort þessar jarðhræringar gætu verið af völdum Kárahnjúkavirkjunar. Eðlilegar pælingar hjá leikmanni. Gunnar Th. Gunnarsson er hér í gamalkunnu hlutverki. Að gera lítið úr viðvörunarorðum og framtíðarsýn þeirra sem setja ekki Landsvirkjunarlogoið á altari sitt við kvöldbænir. Hann eins og aðrir lærissveinar Hannesar Hólmsteins gætu samt ef þeir ynnu heimavinnuna sína komist að því að það er meiri hagnaður fólginn í því að bíða og skoða málin útfrá framtíðinni en að hugsa um að grípa álgæsina núna.

Vandamál okkar liggja í því að allir sérfræðingar um þessi mál ÞORA ekki að tjá sig vegna þess að aðalvinnuveitandi þeirra heitir Landsvirkjun og þeir sem ekki sprikla með geta ekki einu sinni búist við að finna vinnu innan evrópska efnahagssvæðisins eftir að þeir hafa gagnrýnt stofnunina.

Ævar Rafn Kjartansson, 16.9.2007 kl. 00:05

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það ekki stórt tekið upp í sig Ómar, að saka fjölmiðlana eins og þeir leggja sig, um að "breiða yfir" einhverjar upplýsingar um meint jarðfræðileg tengsl Upptyppinga og Kárahnjúka? Og þó Blaðið sýni ónákvæmt kort af svæðinu, þá er það nú ekki í fyrsta skipti sem götublað birtir ónákvæmt kort og það hefur hingað til ekki þótt gefa tilefni til samsæriskenninga um upplýsingafalsanir af pólitískum toga.

Þú ættir kannski að semja skáldsögu Ómar, um Kárahnjúkaævintýrið. Nóg hefurðu ímyndunaraflið. Ef þú finnur góðan titil, þá verður hún metsölubók, ekki spurning.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 22:58

11 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Það vekur athygli þegar skoðaðir eru skjálftarnir sem voru við Upptyppinga síðsumars að fylgni virðist á milli þeirra og fyllingar Hálslóns."  Páll Einarsson jarðfræðingur staðfesti þetta á Útvarpisögu í gær í viðtali við Sigurð G.Tómasson.

Pétur Þorleifsson , 25.9.2007 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband