RÁÐSTJÓRI ?

Lenti í gær í spjalli í síðdegisútvarpinu og var beðinn algerlega óundirbúinn um tillögur í stóra ráðherramálinu hennar Steinunnar Valdísar. Það var alveg óþarfi á seinni hluta 19. aldar að velja orð með endingunni "herra" fyrir erlenda orðið minister en við sitjum uppi með "ráð" í heitunjm ráðherra og ráðuneyti. Ef við viljum hafa þennan lið áfram á sveimi dettur mér í hug orðið ráðstjóri. Nú er í tísku að nota orðið sviðsstjóri og er notað bæði um konur og karla. Þorgerður Ingólfsdóttir og Þórunn Björnsdóttir eru kórstjórar og engum dettur í huga að breyta því.

Hægt er að nota áfram heitið ráðuneytisstjóri um þann fasta embættismann sem stýrir gangverkinu í ráðuneytinu.

Einhverjum kann að finnast heitið ráðstjóri of líkt orðinu ráðstjórn og ráðstjórnarríki sem notuð voru fyrri part aldarinnar sem leið um sovét og sovétríki en það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar sem man eftir því og fer fækkandi.

Ég minntist á heitið ráðsía í hálfkæringi í gær með þeim rökum að ef ráðsían stæði sig illa mætti kalla hana óráðsíu. Ég er viss um að hægt er að finna nýtt heiti. Orðið sviðsstjóri var algerlega óþekkt fyrir tiltölulega fáum árum en er nú orðið svo algengt um öll möguleg stöðuheiti að mér finnst reyndar nóg um.

Ráðstjóri yrði hins vegar aðeins notað um þá sem núna eru kallaðir ráðherrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hið gamla heiti ráðgjafi færi ágætlega.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 10:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ráðstjóri hefur þann kost fram yfir ráðgjafa að mér vitanlega ber enginn atvinnuheitið ráðstjóri á Íslandi en hér á landi eru hinsvegar hundruð ráðgjafa og mörg ráðgjafafyrirtæki.

Ómar Ragnarsson, 23.11.2007 kl. 22:47

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Hvað með ráðskastari?

Björn Heiðdal, 24.11.2007 kl. 11:04

4 identicon

Má ekki nota orðið -ráðandi, sbr. húsráðandi?

Ráðandi menntamála, Þorgerður Katrín - Umhverfisráðandi, Þórunn Sveinbjörnsdóttir o.s.frv.

Forsætisráðandi (ekki allsráðandi) Geir Haarde - mér finnst þetta geta farið prýðilega. 

Valdimar Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 12:39

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Afhverju ekki landsstjóri, eða bara hreinlega stjóri?  T.d. forsætis landstjóri  eða forsætisstjóri, utanríkisstjóri.  Þetta fólk stjórnar jú landinu

Svava frá Strandbergi , 25.11.2007 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband