HÓSTAÐ Í GEGNUM AKUREYRI.

Ég þurfti að aka í gegnum Akureyri á leið frá Egilsstöðum í fyrradag. Um leið og komið var á Drottningarbrautina var vasaklúturinn kominn upp og hóstanum linnti ekki fyrr en komið var upp í Öxnadal.  Ástæðan var rykmengun sem ku vera jafnvel verri en í Reykjavík á þurrum stilludögum. Bílarnir á Akureyri eru þegar orðnir svartir af tjöru upp á miðjar hliðar margir hverjir. Djúp hjólför í malbikinu. 

Akureyringar hafa samkvæmt eðli veðurfarsins meiri þörf fyrir neglda hjólbarða en Reykvíkingar. En fróðlegt væri ef hægt væri að rannsaka hér í Reykjavík hve mörgum slysum tjöruausturinn upp á rúður og rúðuþurrku, lélegri hemlunarskilyrði vegna sleiprar tjörunnar og löngu pollarnir í hjólflörunum valda á þeim 98% tímans frá október fram í apríl þar sem engin þörf er fyrir neglda hjólbarða innanbæjar.

Ég er ekki viss um að minni slysahætta með negldum börðum 2% af vetrartímanum nái að bæta hitt upp. 

Ég giska á 2% því að hálkuaðstæður ríkja yfirleitt ekki í Reykjavík nema örfáar klukkustundir í hvert skipti.  

Undanfarin haust hefur ætíð sama sagan gerst: Um leið og fyrsta fölin fellur í október rjúka menn tugþúsundum saman til og setja neglda hjólbarða undir bílana til þess eins að berja auðar göturnar með þeim jafnvel fram í janúar.

Menn segja að nauðsynlegt sé að vera á negldu vegna Hellisheiðarinnar. Ef grannt væri skoðað myndi þó koma í ljós að aðeins lítið brot af þessum naglaakstri gerist við skilyrði þar sem naglanna er raunveruleg þörf á heiðinni og að langflestir þurfa hvort eð er ekki að fara yfir hana á veturna.

Það myndi verða lítið dýrara að leigja sér bílaleigubíl í þau örfáu skipti sem hálka er á heiðinni heldur en að kosta fjármunum til að setja neglda hjólbarða undir. Vegagerðin er dugleg við að eyða hálku á henni þótt auðvitað komi nokkrar klukkustundir einstaka sinnum þegar hún er fyrir hendi og hliðarvindur gerir akstur erfiðan.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Már Barðason

Verktakar munu farnir að bera salt á götur Akureyrar í óþökk bæjaryfirvalda. Eigandi dekkjaverkstæðis segir svifrykið fremur vera af völdum lélegs malbiks en notkunar nagladekkja. Áreiðanlega spila margir þættir saman. Fyrir nokkrum árum var svifrykið ekki svona mikið vandamál og varla er eingöngu um að kenna aukinni umferð. Notkun nagladekkja hefur ábyggilega minnkað fremur en hitt þar sem annars konar dekk verða sífellt betri. En hvað sem því líður er það staðreynd að mengunin í bænum er stundum skelfileg á lognkyrrum, snjólausum vetrardögum.

Helgi Már Barðason, 23.11.2007 kl. 22:54

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég tek heilshugar undir þetta. Í fyrra setti ég nagladekk undir hjá mér í október, þar sem ég þurfti einmitt að fara einstöku sinnum yfir Hellisheiði og til Ísafjarðar. Árangurinn varð sá að naglarnir voru nánast uppeyddir um vorið og vetrardekkin í raun orðin að heilsársdekkjum. Ég þrjóskaðist við þar til í dag að setja vetrardekkin (heilsársdekkin) undir, enda sumardekkin orðin snjáð.

Það er alveg óhætt að vera á heilsársdekkjum hér á suðvesturhorninu yfir veturinn. Ef vont veður er á Hellisheiði þá er, auk bílaleigubíls, hægt að taka rútu hjá Þingvallaleið, eigi menn erindi í borgina. Rútuferð kostar svipað og bensíneyðslan og slitið á einkabílnum.

Síðan þarf fólk að gera mikið meira af því að hjóla, í stað þess að nota reykmengandi einkabifreiðina í örstuttar ferðir innanbæjar. Það er reyndar hálfgerð þjóðarskömm hve illa er búið að reiðhjólafólki á tímum vaxandi umhverfisvitundar í heiminum, en það er önnur saga. 

Theódór Norðkvist, 23.11.2007 kl. 22:55

3 identicon

Jáhá,, þarna kemur líklega skíringin, á hósta mínum. Ég flutti á Akureyri snemma í vor, og hef ekki kynnst vetri hér fyrr, en er búin að vara brjáluð í hósta í allt haust. Ég keypti í fyrsta skipti loftbóludekk undir bílinn minn í haust ,sem að ég er að venjast að keyra á.  það er allt öðruvísi tilfinning að keyra á þeim en ég hélt.  Mér líka það vel á þurrum degi því að það eru eingin dekkjahljóð í bílnum eins og ég átti að venjast, og þau laða sig vel að götunni, en er varasöm í fljúgandi hálku.  Þar er líka satt hjá þér Ómar,, að bílarnir eru strax skítugir hér. Ég er ekki fyrr búin að þvo, þegar það sést ekki í bílinn fyrir óhreinindum.

Nú ætla ég að skoða hósta minn frá öðru sjónar horni. Ég er búin að vera að kenna öllu mögulegu um. Eigðu góðar stundir.

Sigga Svavars (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 23:22

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú hefur eflaust séð pistla mína um hálku og ryk á Akureyri, Ómar. Sem ég var óspart hnýfilyrtur fyrir af þarlendum.

Ég var á naglalausum vetrardekkjum þar og þá, má segja að ég hafi aflagt nagladekkjanotkun að mestu um aldamótin. Vissulega þurfti ég að aka í samræmi við það, bæði í höfuðstað Norðurlands og ekki síður á heimleiðinni, sem var viðsjárverð allt suður fyrir Blönduós og síðan aftur á Holtavörðuheiðinni.

En svona skreppur réttlætir ekki naglanotkun alla aðra daga vetrarins.

Endurtek: Ryk- og sandskafla eins og lágu í haugum meðfram gangstéttum á Akureyri hef ég sem betur fer ekki séð lengi í Reykjavík, þó ég skreppi þangað oft í viku hverri. Og er þó kvartað um (svif)ryk þar!

Sigurður Hreiðar, 24.11.2007 kl. 13:18

5 Smámynd: Stefán Stefánsson

Nú í líklega tíu ár hef ég ekki verið á nagladekkjum, en í staðinn verið á loftbóludekkjun frá Bridgestone og líkar vel við þau og mun aldrei framar nota nagladekk. En það sem gildir fyrst og fremst að aka eftir aðstæðum.
Ég tek það líka fram að ég bý úti á land, nánar tiltekið í fegurstu sveit landsins, Mývatnssveit.

Það er helst það fólk sem býr við erfiða fjallvegi sem þarf á nagladekkjum að halda. 

Stefán Stefánsson, 26.11.2007 kl. 00:23

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þið bílfróðu menn Ómar og Sigurður Hreiðar:

Hafið þið skoðað fyrirbæri það sem nefnt hefur verið dekkjasokkur og hvort það sé eitthvað sem rétt væri að gefa betri gaum að?

Mér skilst að þetta sé nokkurs konar aukabúnaðar sem settur er á drifhjól ökutækis til að auka spyrnu og væntanlega einnig hemlunarhæfileika.

Eitt par kostar um eða rétt innan við 10.000 krónur og ef það dugar veturinn ætti það að koma ekki ver út en aukakostnaðurinn vegna naglanna.

Ef þetta gæti komið að sama gagni og negldu hjólbarðarnir þá væri það mikils virði fyrir okkur að losna að mestu við svifrykið sem er að verulegu leyti vegna nagladekkjanna.

Fróðlegt væri að heyra ykkar álit um dekkjasokkana.

Kveðja

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 26.11.2007 kl. 10:28

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslendingar eru svo latir að þeir nenna ekki að setja keðjur eða dekkjasokka undir bílana. Þetta held ég að minnsta kosti. Þetta er heldur ekki þrifalegt í allri tjörudrullunni.

Hér í gamla daga setti maður keðjur undir af því að ekkert annað var að hafa.

Nú er aksturshraðinn miklu meiri og meiri hætta á að keðjur eða sokkar sláist utan í bretti.

En ég held að dekkjasokkurinn geti nýst vel á afar afmörkuðum hálkublettum.

En Íslendingurinn kaupir held ég ekki slíkan búnað til afmarkaðra nota fremur en hann kaupir rafbíl sem ekki er hægt að skreppa á til Hveragerðis nema vera stopp þar í nokkrar klukkustundir meðan verið að er hlaða hann fyrir ferðina til baka.

Ameríski pallbíllinn sýnir þetta: Ef Íslendingurinn vill eiga eign sem auglýsir veldi hans daglega hvar sem hann fer þá kaupir hann þriggja tonna 6,5 metra langan pallbíl með yfir 300 hestafla vél.

Hann vill frekar eiga þennan eina bíl sem getur allt heldur en tvo bíla sem geta ekki allt. Ef þú ekur um á svona dreka gefur þú í skyn að þú eigir svo stóra hestakerru að ekkert minna þurfi til að draga hana, - að þú eigir ennfremur svo stórt hjólhýsi að 300 hestöfl þurfi til að geta dregið það á 100 kílómetra hraða upp Kambana.

Þú gefur í skyn að þú farir hamförum um torfærustu slóðir hálendisins þótt þú akir í raun aldrei út fyrir malbikið.  

Auk þess sýnir pallbíllinn að þú átt mikið undir þér að öllu öðru leyti.

Hann gefur líka í skyn að þú sért með rekstur sem jafnvel leitar útrásar, ehf af stærstu gerð.  

Skítt með það þótt þú komir honum ekki í stæði í miðborginni. Sá sem sér þig gangandi í Austurstræti spyr ekki um það hvar þú hafir lagt stöðutákninu þínu.  

Ómar Ragnarsson, 27.11.2007 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband