AÐ ÝMSU AÐ HUGA.

Það má fagna auknum áhuga á að leggja raflínur í jörðu. Hingað til hefur raflínulögn ofanjarðar verið afsökuð með því að hún sé svo margfalt ódýrari en lögn neðanjarðar. Á tímum stórvaxandi verðmætis orkunnar er þetta ekki einhlít afgreiðsla. Einn versti staðurinn þar sem raflína á alls ekki heima ofanjarðar er byggðalínan fyrir norðan Landmannalaugar. Af mörgum stöðum þar er einstakt útsýni til norðurs í góðu veðri, allt norður til Bárðarbungu af hæstu stöðunum.

Margir útlendingar sem ég hef hitt á þessum slóðum hafa ekki átt orð yfir það hvers vegna línan var lögð einmitt þarna. Þetta er ekki langur kafli en alveg ótrúlega áberandi.

Í sambandi við fyrirhugaðar línulagnir þvers og kruss um Reykjanesskagann hefur verið bent á það að miklu verra sé að komast að til viðgerða á línum neðanjarðar en ofanjarðar. Þar sem línurnar liggi þvert á sprungustefnur þurfi líka að huga vel að því að ekki verði óþarfa bilanir þess vegna.

Það er að ýmsu að huga í þessum málum og þess vegna er tímabært að taka þetta mál upp að nýju og sjá til hvort ekki sé hægt að breyta ýmsu sem hingað til hefur ekki verið talið hægt að gera.


mbl.is Vilja móta stefnu um raflínur í jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

http://erla1001.blog.is/blog/erla1001/entry/388660/

USA í dag

Einar Bragi Bragason., 11.12.2007 kl. 23:59

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er spurning hvort Reyðfirðingar hafi gert mistök með því að leyfa þessar tvær háspennulínur á risamöstrum, út fjörðinn frá Þórudal að álverinu að Hrauni, en hafi ekki farið fram á að línurnar yrðu settar í jörð. Ég held að Reyðfirðingar hafi keypt þau rök að jarðstrengir yrðu svo miklu dýrari að það myndi rýra arðsemi virkjunarinnar og hún þyrfti jú að vera sem mest.

Línurnar trufla mig svo sem ekkert rosalega, lít frekar á þær sem tákn um mannlíf og grósku. En til þess að virða óskir þeirra sem láta þetta fara óskaplega í taugarnar á sér, þá hefði alveg mátt skoða jarðstrengjaleiðina betur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2007 kl. 02:33

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Þarna er ég sko hjartanlega sammála þér. Ég keyrði áætlunarbílinn Reykjavík - Landmannalaugar - Skaftafell í dálítinn tíma og það situr alltaf í mér þegar ég var að fara inn í Jökuldalina hve mér létti þegar ég sá ljósið á NMT símanum verða rautt, það þýddi að ég var sambandslaus og gat látið mér líða aðeins eins og ég væri bara einn þarna með farþegana, að sýna þeim landið. En þá birtist Byggðalínan, á þessum fallega stað. Mikið oft hef ég óskað henni norður og niður.

Þeir eru að verða fáir staðirnir þar sem maður er einn með náttúrunni - einhversstaðar glittir alltaf í mannvirki.

Heimir Tómasson, 12.12.2007 kl. 04:43

4 identicon

Þú verður að fyrirgefa Ómar, en undanfarin misseri hef ég verið eindreginn andstæðingur þinn bæði í pólitík og í mörgum öðrum málum, og stend föst á mínu varðandi ágætis tækniþróunar og iðnvæðingar og virkjana á Íslandi.
En burt séð frá því öllu saman, þá get ég af eigin reynslu sagt að það er hárrétt að það sé að mörgu að huga varðandi þessa stefnu með raflínur, og þá ekki bara umhverfislega séð. En einnig að þetta er nýtt og spennandi verkefni, sem nýtur mikils áhugar í dag í hinum lærða heimi.

Ég bý erlendis og er í doktorsnámi í raforkuverkfræði og vinn að verkefni sem ber enska titilinn:

"Comprehensive use of High Voltage AC cables in the Transmission Systems".

Sem mætti kannski útleggjast sem: "Umtalsverð notkun háspennu riðstraumsstrengja í raforku flutningskerfinu".
Því má kannski segja að ég gæti titlað mig sem nokkurskonar sérfræðing á þessu sviði í tæknilega geiranum.

Fólk má því miður alls ekki skilja sem svo að það sé eitthvað "bara" að leggja langar háspennulínur í jörðu. Væri það svo, þá væri löngu búið að gera það víðsvegar í heiminum, en það verður að segjast eins og er, að lengsta neðanjarðarlínan í háspennukerfinu í dag er ekki nema um 30 km að lengd. Þá er ég reyndar að nefna 400 kV streng. Þó svo íslenska flutningsspennan, 220 kV, sé ekki gríðarlega há, þá er hún samt sem áður nægjanlega há til að valda ýmsum vandræðum.

Sem dæmi um vandamál sem rísa með löngum háspennustrengjum eru svokallaðar "resonance circuits" sem mætti líklega útleggja sem "hermirásir" á íslensku. Þessar rásir myndast vegna samvinnu "þéttni" í strengjunum og "inductance" í hinum ýmsu háspennuíhlutum, svo sem spennum, ofanjarðar línum, rafölum og fleira. Að sjálfsögðu eru til ýmsar lausnir til að minnka þann hermi sem getur myndast, svo sem að nota hluti eins og "reactor" til að vinna gegn þéttninni í strengjum. En það er nú svo með þessa lausn eins og svo margar aðrar, að hún leysir ekki bara vandamál heldur býr einnig til ný og önnur vandkvæði. (Afsakið enskusletturnar hjá mér, ef einhver hefur góð og gild íslensk orð yfir þessa hluti væri vel þegið að fá að heyra þau)

Ég verð hinsvegar að segja að þetta er mjög skemmtilegt verkefni og það að leysa vandamálin sem því fylgir að flytja flutningskerfið í jörðu er einstaklega spennandi og gefandi fyrir mig sem verkfræðing. Það að Íslendingar eru líka farnir að huga að þessum málum þýðir líka mögulega það að fleiri sérfræðistörf myndast við rannsóknir á þessu sviði, og gerir því flutning míns og minnar fjölskyldu erlendis frá og til landsins fagra og góða einkar freistandi. 

Svo mín skoðun er að þetta er alveg einstaklega skemmtilegt og spennandi að heyra og vonandi verður eitthvað meira úr þessu fljótt. Ég verð hinsvegar að vara fólk við. Þessir hlutir eru mjög flóknir og þar af leiðandi mjög kostnaðarsamir og tímafrekir. Svo þó svo að byrjað sé að tala um þetta í dag, þá er mjög líklegt að við förum ekki að sjá neinar áþreifanlegar breytingar á flutningskerfinu fyrr en eftir mörg ár, og jafnvel ekki fyrr en eftir nokkra tugi ára.

Bestu kveðjur,
Unnur Stella Guðmundsdóttir
M.Sc.EE í raforkuverkfræði

Unnur Stella Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 09:18

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fróðlegt innleg hjá þér Unnur Stella. Ég var einmitt búinn að heyra að þetta væri ekkki einfalt. Er um meiri orkurýrnun að ræða í jarðstreng en í hefðbundnum flutningslínum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 07:17

6 identicon

Sæll Gunnar, Nei þetta er víst langt frá því að vera einfalt mál. Orkurýrnun í dag í jarðstrengjum er meiri en í hefðbundnum flutningslínum, fyrir þá riðspennu sem við erum að tala um. Í hefðbundnum flutningslínum hefur þú loftið til að kæla línuna, á meðan í jaðstrengjum heilmikil orka fer í að hita strenginn og umhverfið. Af meðal annars þessum orsökum þarf einnig leiðarinn (línan sem ber strauminn) að vera mun stærri í háspennustrengjum en í háspennulínum. Hinsvegar hefur þú einnig heilmikil töp í hefðbundnum háspennulínum, töp sem eru misjöfn eftir veðri og aðstæðum. T.d. tel ég mjög líklegt að töp í háspennulínum á Íslandi séu meiri en þar sem ég bý, þar sem svokölluð "corona" töp aukast vegna íss, snjós og rigningar. Töp vegna veðurs af þessu tagi verða ekki í neðanjarðarstrengjum, heldur er þau af öðrum uppruna. Draumur verkfræðinsins er hinsvegar að fá að vinna með vandamál, loka sig inni með blað, blýant og reiknivél (og svo mögulega einhverjar óframkvæmanlegar prófanir) og finna út úr því hvernig hægt er að leysa þetta. Svo með tíð og tíma verður þetta örugglega framkvæmanlegt með minni kostnaði en er í dag. Bestu kveðjur,M.Sc.EE í raforkuverkfræði

Unnur Stella Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 09:30

7 identicon

Þið verðið að afsaka hvernig síðasta innlegg hjá mér kom.

Ég veit ekki hvers vegna það kemur svona allt í belg og bigðu, var víst ekki þannig á meðan ég skrifaði textann. Svo hefur nafnið mitt einhverra hluta vegna horfið. En ég vona að það komi ekki að sök.

Bestu kveðjur,
Unnur Stella Guðmundsdóttir
M.Sc.EE í raforkuverkfræði

Unnur Stella Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 09:39

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk kærlega fyrir svörin Unnur Stella.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.12.2007 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband