ERUM VIÐ ÞORGERÐUR KATRÍN AFBRIGÐILEG ?

Guðni Ágústsson lagði áherslu á það í Kastljósi í kvöld að 80% íbúa Íslands væru í þjóðkirkjunni og þá er stutt í það að það sé allt í lagi að 80% nemenda í skólabekk fari í fermingarfræðslu og hin 20 prósentin sitji eftir eins og afbrigðilegt fólk. Eða þá að allir fái frí vegna þess að fyrirkomulag námsins miðist við nemendur sem eru í einni ákveðinni kirkjudeild. Eða að fermingarfræðslan sé færð inn í skólana.

Af hverju getur þetta ekki verið svipað og það var þegar ég var í Gaggó. Fermingarfræðslan fór fram utan skólatímans og utan skólans. Ég fór í fræðslu til hins stórkostlega kennimanns Emils Björnssonar, sem þá var á hátindi kennimannsferils síns og þurfti ekki að elta hina krakkana til þjóðkirkjuprestsins frekar en ég vildi. Ég held að þjóðkirkjunni sé enginn greiði gerður með þeim rökstuðningi að í krafti stærðarinnar beri að ganga undir henni á kostnað annarra sem ekki eru í henni.

Þorgerður Katrín sat andspænis Guðna og sagðist vera í kaþólskum söfnuði. Ég er í fríkirkjusöfnuði og með því að hamra sífellt á því að við séum í miklum minnihlutahópi meðal þjóðarinnar fer maður að velta því fyrir sér hvot við séum ekki afbrigðileg.

Sem fríkirkjumaður þekki ég það vel vel hve erfitt var fyrir okkur hjónin í alls sjö skipti að rökstyðja það fyrir börnum okkar að eðlilegra væri fyrir þau að fermast í kirkjunni okkar þar sem þau voru skírð, en ekki í þjóðkirkju.

Á 13-14 ára aldrinum eru börn afar viðkvæm fyrir því að vera öðruvísi en hópurinn og þess vegna er mikilvægt að herða þau og styrkja í því að hafa kjark til að fylgja sannfæringu sinni og gera það sem þeim finnst rétt í stað þess að elta hópinn. En þau áttu auðvitað öll erfitt með að gera það í stað þess að láta hópinn ráða fyrir sig og berast með straumnum.

Hvað þetta atriði í mótun ungmenna snertir held ég að það sé ekki uppbyggilegt að rækta hópsál ungmenna og ótta við meirihlutann.

Meira en 90% landsmanna neytir áfengis og ég kannast vel við það frá unglingsárum mínum hve erfitt það var að fylgja ekki hópnum á táningsárunum á því sviði.

Þegar börnin okkar fluttu síðan að heima uppgötvuðu mörg þeirra að þau höfðu sjálfkrafa verið skráð inn í þjóðkirkjusöfnuði hverfanna sem þau fluttu í.

Sumir kunna að segja að þetta sé furðulegt í ljósi þess að enginn munur er á skilgreiningu trúarinnar sem iðkuð er hjá þjóðkirkjunni og fríkirkjunni, - hvort tveggja er evangelisk Lúterstrú. Ég vil ekki orða það svona því að með því væri ég að segja að það væri allt í lagi að þjóðkirkjan hefði forréttindi gagnvart söfnuðum annarra trúarbragða, svo sem Búddisma eða Múslimatrú, nú eða trúleysingjum.

Sigmar Guðmundsson spurði Guðna Ágústsson hvort trúleysingjar gætu ekki ástundað jafngott siðgæði og kristilegt siðgæði og fékk ekki svar. Í orðinu siðgæði felst að gæði siðanna sé mikið, kærleikur, skilningur, jafnrétti og umburðarlyndi og þótt ég sé kristinn maður tel ég ekki gefið að kristnir menn nái lengra á því sviði en aðrir, þótt vitað sé hve nálægð Guðs og trú á hann geti verið mörgum mikilvæg í lífsins ólgusjó.

Það er ekki nóg að segjast í orði vera kristinn en breyta síðan á allt annan veg. Kristnar þjóðir hafa staðið fyrir mörgum af verstu verkum mannkynssögunnar og í innbyrðis styrjöldum kristinna manna töldu báðir aðilar oft á tíðum að Guð stæði með þeim.

Trúleysingjar benda á þetta og þegar gagnrýni þeirra á við rök að styðjast eins og því miður er oft, má segja að gagnrýni þeirra sé að mörgu leyti byggð á sama grunni og gagnrýni Krists á trúarleiðtoga sinnar tíðar.

Ég er vil alls ekki draga fólk í dilka eftir söfnuðum og trúarbrögðum. Á hverju ári á ég samstarf við og kem fram hjá bæði þjóðkirkjusöfnuðum og fríkirkjusöfnuðum. Um þessar mundir hef ég að beiðni þáttarins A-J á Rás tvö sett muni á þar á uppboð til styrktar vatnssöfnun Hjálparstofnunar kirkjunnar sem ég hef kynnst af eigin raun í Afríku. Ég hef frá bernsku allt til þessa dags verið í nánum tengslum við KFUM og fékk þar ómetanlegan skerf í uppeldinu.

Ég hef farið tvær ferðir til Eþíópíu í öflun mynda um Helga Hróbjartsson kristniboða, sem þar hefur unnið ótrúlegt afrek sem koma þarf á framfæri við þjóðina. Ef einhver telur eitthvað af því sem stendur í þessum pistli ekki nógu hagstætt fyrir þjóðkirkjuna vil ég segja: Vinur er sá er til vamms segir. Þjóðkirkjan á gott skilið og getur reitt sig á mína velvild.

Kristnir menn geta verið stoltir af því að það er fyrst og fremst á grundvelli kristilegs siðgæðis sem mannréttindaákvæði hafa verið sett inn í lög og sáttmála, lög gegn mismunun og misrétti. Þess vegna er það skrýtið þegar menn kvarta undan því að fylgja þurfi þessum sömu ákvæðum.

Kristur réðist harðast á þá sem mest börðu sér á brjóst fyrir það hvað þeir væru góðir en voru að innan sem kalkaðar grafir. Hann kom til hjálpar börnum og þess tíma undirmálsfólki og jafnvel afbrotafólki svo sem hórdómskonunni sem átti að grýta. Hann lét valdastétt síns tíma finna fyrir beittri ádeilu og gagnrýni.

Þjóðkirkjan á Íslandi gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og til hennar er leitað á stærstu stundum þjóðarinnar í gleði og sorg. Það hlutverk sitt hefur hún rækt vel og fyrir það ber að þakka. Ég sé ekkert athugavert við það að svo verði áfram á meðan þjóðirkjan hefur núverandi stöðu í stjórnarskrá og lögum.

Með starfi sínu og boðskap getur hún best haldið merki kristinna gilda á lofti og á alveg að geta komist áfram á eigin verðleikum og kenningar sinnar en ekki að þurfa að hafa forréttindi umfram ákvæði stjórnarskrár og laga um hana sjálfa og um trúfrelsi, mannréttindi og önnur atriði í lögum sem kristilegt siðgæði hefur borið fram til sigurs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sæll Ómar!

 Frábær hugleiðing hjá þér . Eins og talað út úr mínu hjarta ! Ég var einmitt að velta þessu sjónarhorni fyrir mér í dag.    Að í raun væru þeir Siðmenntarmenn og fleiri andstöðumenn við sérréttindi hinnar Evangelísk-Lúthersku þjóðkirkju nær því að vera í stöðu Jesús á sínum tíma. Í andstöðu sinni við hrokafullan Prestaskara og farísea þess tíma sem þóttust hafa máttinn og dýrðina á sínu bandi í skjóli meirihlutaafls. Þá var lítið um það skeytt hvort siðgæðið væri raunverulegt hjá þeim háu herrum.

Sorglegt ef okkar Þjóðkirkjumenn, teljandi sig sannkristna, ætla að haga sér með svipuðum hætti gegn minnihlutaskoðunum .  Málflutningur Guðna og fleiri

Kristján H Theódórsson, 12.12.2007 kl. 22:33

2 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Missti pistilin ókláran frá mér fyrir klaufaskap. Átti að enda svona!

Málflutningur Guðna og fleiri af hans kalíber á vettvangi umræðunnar held ég að sé á misskilningi byggður. Menn hafa ekki hugsað þetta með skynsemina að leiðarljósi. Láta tilfinningar hlaupa með sig í gönur!

Kristján H Theódórsson, 12.12.2007 kl. 22:40

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Takk fyrir góðan pistil

Brjánn Guðjónsson, 12.12.2007 kl. 22:52

4 identicon

Réttsýnn ertu í þessu máli, Ómar. Þakka þér fyrir. Ég hef fylgst grannt með umræðu um þessi mál og það gleður mig mjög að sjá þessi sjónarmið hjá kristnum manni. Þau eru þér og þinni kristni til sóma.

Reynir Harðarson (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 23:49

5 Smámynd: Ingólfur

Ég tek undir þennan pistil Ómar.

Vopnabræðurnir Guðni og Biskup hefðu gott af því að lesa hann.

Ingólfur, 12.12.2007 kl. 23:58

6 Smámynd: Sif Traustadóttir

Ég er hjartanlega sammála þér í þessu máli Ómar, eins og reyndar mörgum öðrum. 

Kannski er það vegna þess að við eigum sama afmælisdag   Tel mig ekki lengur kristna, en var áður í fríkirkjusöfnuðinum.  Get ekki samþykkt það að siðgæði Guðna sé meira en mitt af þessum sökum.

Sif Traustadóttir, 13.12.2007 kl. 00:31

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þakka þér fyrir alveg stórfínan pistil.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.12.2007 kl. 00:44

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar á villugötum ...

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 00:52

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það voru illir menn, sem af illum hvötum og ókristilegum hleyptu af stað t.d. heimsstyrjöldunum tveimur. Evrópa er ekki í heild kristin, og kristnir menn breyta stundum (og oft í léttvægari atriðum) illa, en þá út frá öðru en kristnu viðmiði og trúaranda (og þurfa því að iðrast og leita fyrirgefningar), en kristið siðgæði er hins vegar það sem finnst í Nýja testamentinu, og reyndu ekki með ódýrum hætti í fáeinum hraðsuðusetningum að jafna því siðgæði við siðferði heimsins eða annarra trúarbragða. Það er munur á hlutunum í henni veröld, þú hlýtur að vita það, Ómar, og dragðu ekki siðakenningu Krists niður í það að vera bara samdauna öllu öðru siðferði hvaða trúarbragða sem er og hvaða trúleysisstefnu sem er. (Nietzsche vissi t.d. af mótsögn siðfræði sinnar og þeirrar kristnu, og það sama vissu nazistar, en varstu búinn að gleyma því?)

Viljirðu samsama kristið siðferði við heiðið eða annarra trúarbragða siðferði, þarftu að skrifa langtum lengri ritgerð en þessa og styðja hana dæmum og rökleiðslum og sönnunum -- en munt reyna það í verkinu, að á þeim er hörgull. Við eigum ekki að láta draga okkur út í að skrifa svona útjöfnunarpistla bara af því að okkur langi til að vera umburðarlyndir, ódómharðir og gestrisnir við erlenda menn hérna, jafnvel þótt það sé allt gott og blessað.

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 01:08

10 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir Ómar, þú segir í þessum pistli það sem ég hef hugsað undanfarnar vikur. Gott að fá svona frá fólki innan kirkju, alltof mikið um að fólk sem hefur misskilið umræðuna hafi hátt. Guðni og biskup verða að skilja ábyrgð sína í þessari umræðu, satt að segja hef ég áhyggjur af því hvert slíkur málflutningur leiðir. Ábyrgð þeirra er mikil, þeir eru ekki bar einhverjir bullarar á bloggsíðum, við ætlumst til að hægt sé að taka mark á þeim.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:48

11 Smámynd: Mofi

Mjög fínn pistill og einstaklega sammála að fermingarfræðslan á auðvitað heima fyrir utan skólatíma svo það sé ekki verið að láta eins og sum börn eru skrítin. Þótt að þjóðkirkjan hafi gert margt gott þá gengur það bara ekki upp að hafa ríkis kirkju. Sammála síðan Jóni Vali að það er ekki rökrétt að setja saman kristið siðgæði við siðgæði í öðrum trúarbrögðum því það einfaldlega er ekki eins.

Mofi, 13.12.2007 kl. 09:22

12 Smámynd: Ólafur Þór Kristjánsson

Þakka þér fyrir frábæran pistil Ómar.

Langar í framhaldi af þessari umræðu að spyrja hvort einhver hér geti frætt mig um hvað kristið siðgæði er í raun og veru, verð að játa að ég er líklega svo einfaldur að ég átta mig engan vegin á hvað það er, það virðast nefnilega vera margar hliðar á þessu kristna siðgæði. Er kristið siðgæði rétt túlkað í bíblíuni, þar með talið gamla testamentinu? Verð að játa að slík siðgæði hugnast mér ekki því þar má lesa margt sem ég með mitt "normal siðgæði" hugnast ekki. Er Kristið siðgæði rétt túlkað hjá Gunnari Þorsteinsyni í krossinum? Aftur verð ég að játa að ég get ekki tekið undir túlkun Gunnars á siðgæðinu. Er kaþólska kirkjan með þetta á hreinu? Aftur verð ég að játa að þar er margt á ferð sem er á skjön við það sem ég kalla kærleik, umburðarlyndi og virðingu, alla vega eftir lestur greina og athugasemda frá Jóni Val Jensyni og hans félögum í vatikaninu. Var Guðmundir í Byrginu með þetta krista siðgæði á hreinu? Held ekki. Er kristið siðgæði að finni í boðskap þjóðkirkjunar þá? Því miður finnst mér framganga þjóðkirkjunar í málum t.d. samkynhneygðra ekki beint benda til þess. í þessari umræði um tengsl skóla og þjóðkirkju finnst mér skorta tilfinnanlega á umburðarlyndi, kærleik og virðingu fyrir öðrum lífskoðunum frá Biskupi og hans hirðsveinum. Vantar ekki bara eitthvað uppá almennt siðgæði á þeim bænum?

Ég spyr hér aftur í fyllstu einlægni, hverjir af þessum söfnuðum er að túlka kristna siðgæðið best.

Með vinsemd og virðingu til ykkar allra.

Ólafur Þór Kristjánsson, 13.12.2007 kl. 09:51

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Áttu ekki Nýja testamentið, Ólafur? Viljirðu finna kristið siðgæði, leitaðu þar. Kristið siðgæði er kennt við Krist, ekki við neinar aðrar persónur sem þú nafngreinir. Leitaðu ekki yfir bæjarlækinn að ná þér í vatn -- það er gnótt lifandi vatns í orðum Jesú frelsara þíns, þ.e.a.s.: viljirðu þiggja.

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 11:07

14 Smámynd: Ólafur Þór Kristjánsson

Það sem mátti kannski lesa á milli línana í mínu innleggi var að allir þeir sem ég taldi upp segjast byggja sitt siðgæði á þeim texta sem finna má í bibíunni. Geri ráð fyrir að þú gerir það líka Jón Valur. Ég tók þessi dæmi vegna þess að það sýnir hversu kristið siðgæði er túlkað eftir því hvernig hentar hverju sinni.

Ólafur Þór Kristjánsson, 13.12.2007 kl. 11:53

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Kristilegt siðgæði er tengt við Krist. Það byggir á ævi hans og starfi og þar af leiðandi Kristi sem fyrirmynd. Kristilegt siðgæði er að setja sig í fótspor hans, lifa og starfa í þeim anda sem hann gerði.

Æðsta boðorð Krists var að elska náungann eins og sjálfan sig.  Það álít ég vera grunninn í kristilegu siðgæði. Ein besta dæmisagan um kristilegt siðgæði er sagan af miskunnsama Samverjanum - sem hjálpar náunga í neyð, sama hver hann er og sama þó að ,,einhver lög" banni það.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.12.2007 kl. 15:16

16 identicon

Og Samverjinn var einmitt ekki sömu trúar og Kristur! Ergo - gott siðgæði er óháð trúarbrögðum.

Reynir Harðarson (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 16:51

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jóhanna fer rangt með æðsta boðorðið, þótt af kennimönnum sé komin. Æðsta boðorðið er að elska Drottin Guð sinn af allri sálu sinni, öllum huga sínum og öllum mætti sínum; annað boðorð (sagði hann) er þessu líkt: að elska náungann eins og sjálfan sig. Það tekst reyndar naumast -- þ.e.a.s. gagnvart sérhverjum 'náunga', m.ö.o. hverjum sem við mætum, sem er í þörf eða neyð -- án þess að elska Guð.

Reynir, Samverjinn var víst sömu trúar og Gyðingar, þótt trú Samverja væri með öðrum áherzlum en hjá Faríseum og æðstu prestunum.

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 17:10

18 identicon

Varla var Samverjinn Kristinn. Er gyðinglegt siðgæði þá jafngott og kristilegt siðgæði? Þetta eru hártoganir. Eftir stendur að gott siðgæði er óháð trúarbrögðum.  Annars var á DV nýlega frétt um Samverja í nútímanum. Jón Valur, lestu endilega.

http://www.dv.is/frettir/lesa/3223

Reynir Harðarson (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 17:42

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Heyr! heyr! 

Kærar þakkir Ómar fyrir verulega góðan pistil.  Megin kjarni hans er dýrmætur og það sést á viðbrögðunum að við getum öll verið sammála um hann, hvort sem við erum aðventistar, kristnir, húmanistar o.s.frv. 

Kjörorð fermingarfræðslu Siðmenntar eru:  "Það er í lagi að vera öðru vísi".   Það kemur akkúrat að þeim punkti sem þú kemur að með þessari málsgrein þinni:

"Á 13-14 ára aldrinum eru börn afar viðkvæm fyrir því að vera öðruvísi en hópurinn og þess vegna er mikilvægt að herða þau og styrkja í því að hafa kjark til að fylgja sannfæringu sinni og gera það sem þeim finnst rétt í stað þess að elta hópinn. En þau áttu auðvitað öll erfitt með að gera það í stað þess að láta hópinn ráða fyrir sig og berast með straumnum. "

Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og áramóta.  Bestu þakkir fyrir veittar ánægjustundir á skjánum í gegnum árin.   

Svanur Sigurbjörnsson, 13.12.2007 kl. 22:52

20 identicon

Ég vil biðjast afsökunar fyrir dónaskapinn í Jóni Vali hér að ofan (finnst allavegna að einhver ætti að gera það!). Honum virðist ekki nægja sín bloggsíða til þess að "leiðrétta" rangfærslur og gera lítið úr skoðunum annarra

Baddi (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 06:16

21 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það vita orðið allir hvernig Jón Valur er og gerir lítið úr fólki (ætli það sé kennt í guðfræðideildinni?) svo þú skalt bara vera rólegur Baddi minn!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.12.2007 kl. 09:18

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Valur er nú bara að koma  á framfæri skoðun sinni hérna og gagnrýna það að Kristnu siðgæði sé sópað undir teppi í örfáum setningum. Get nú alveg tekið undir þá gagnrýni hjá honum.

Baddi á ekki að vera svona meðvirkur. Hann á ekki að taka það svona inná sig þó það sjáist hér aðrar skoðanir en síðuhöfundar.

 Baddi; Þú þarft ekkert að biðjast afsökunar!

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.12.2007 kl. 11:59

23 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sæll Ómar,

Ég hef einfaldlega ekki orku til að lesa þetta allt saman. Mig langaði bara að láta þig vita af því að ef þið Þorgerður Katrín eruð afbrigðileg, þá er ég það líka og við sem sagt samkvæmt því að minnsta kosti þrjú í minnihlutahópi.

Kveðja, Greta Björg. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.12.2007 kl. 18:14

24 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Samt er ég enn skráð í þjóðkirkjuna, hvað sem verður. Mér hefur satt að segja liðið mjög illa undir þeirri "umræðu" sem farið hefur fram og er ekki sátt við hvernig biskup minn hefur tekið á málum, það er alveg á tæru. Mér yrði létt ef kirkjan mín breyttist úr því að vera þjóðkirkjan, í það að verða evangelísk-lúterska kirkjudeildin á Íslandi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.12.2007 kl. 18:17

25 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En Fríkirkjan starfar líka í þeim anda, er það ekki? - þannig að þá yrðu deildirnar væntanlega tvær. Klaufi er ég!

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.12.2007 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband