FÁGÆTT DRENGLYNDI, ÖLLUM SPURNINGUM SVARAÐ.

Frá og með síðustu bjölluspurningunni í Gettu betur í kvöld sveif spurning, sem ég óttaðist að ósvarað yrði, yfir vötnunum: Hvað var það sem Sigmar átti við með aðvörun sinni um hljóð í salnum? Sem betur svaraði einn keppandi MA þeirri spurningu af miklu drenglyndi í lok keppninnar og bægði þar með frá skugga sem hugsanlega hefði hvílt yfir þessari keppni og skóla hans, jafnvel þótt atvikið, sem Sigmar ýjaði að, hefði að lokum ekki úrslitaáhrif.

Þar með endaði þessi keppni til sóma fyrir alla aðila og öllum spurningum var svarað, en það er jú sjaldan nauðsynlegra en í svona keppni. Sigmari var vandi á höndum þegar atvikið kom upp því að ómögulegt var að sanna það beinlínis að keppandinn eða keppendur hefðu heyrt ábendinguna úr sal. Í svona tilfelli verða dómari og spyrill að vera fljótir að taka ákvörðun, jafnvel þótt enginn kostur sé góður.  

Miðað við þann mikla mun sem þá var enn á keppnilsliðunum og það hve litlar líkur voru á að MA-ingar gætu unnið upp hið mikla forskot með því að vera alltaf á undan að svara og svara alltaf rétt, tel ég þá ákvörðun hafa verið þá skástu í stöðunni að láta keppnina halda áfram og geyma hugsanlega þetta álitamál og taka það ekki upp nema MA ynni.

Með því var spennunni og skemmtuninni viðhaldið og svo fór að lokum að fyrir fágætt drenglyndi fulltrúa MA urðu úrslitin öllum til mikils sóma.

Eftir situr að vakta það enn betur að svona atvik komi ekki upp. Í salnum er margt af óreyndum, kappsfullum unglingum og aðeins einn þeirra getur eyðilagt fyrir öllum hinum og þar með stórskaðað keppnina sjálfa. Keppnislið MA ber hér enga sök, en sá eða þeir sem brjóta af sér í salnum eiga að axla sína ábyrgð í hvert sinn sem svona kemur upp og skólayfirvöld og/eða nemendafélög eiga að hafa á þessu stjórn. 

Já, dramatík og fullkomið sjónvarpsefni ! Til hamingju, allir sem að þessu stóðuð !


mbl.is MR vann eftir bráðabana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Þetta hefð ekki verið tekið upp ef MA hefði unnið. Það er þegar í þessari keppni komið fordæmi fyrir að mistök dómara við stigagjöf réðu úrslitum og úrslitunum ekki breytt.

En þetta var drengileg og spennandi keppni, sérstaklega í restina.

En fyrst ég er farinn að blaðra hérna á síðunni þinni Ómar þá langar mig að ítreka við þig spurnigu um hvort þú gætir giskað á hvað einkaflugmannspróf kostaði, svona um það bil, og hvað kostar að eiga og reka litla rellu?

Landfari, 14.3.2008 kl. 22:19

2 identicon

Nú var ég á keppninni og það heyrðist greinilega í salnum að margir í MA sussuðu þegar Konráð breytti svarinu úr 400m í 100m. Hef heyrt það heimanfrá að það hefði ekkert heyrst í sjónvarpinu.

Gunnsteinn (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 23:20

3 identicon

Þessi spurning hafði víst úrslitaáhrif, því hefði hann svarað eins og hann ætlaði í upphafi höfðu þau ekki fengið stigið og þar af leiðandi ekki átt möguleika á því að ná MR að stigum.

. (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 23:28

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta fór allt vel, en er ekki Fáskrúðsfjörður í Búðahreppi?

Halldór Egill Guðnason, 14.3.2008 kl. 23:47

5 identicon

Sæll Halldór,

Það var örugglega  spurt um Búðareyri sem er Reyðarfjörður, en ekki Búðahrepp.

Guðrún Margrét Óladóttir (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 00:16

6 identicon

Gunnsteinn: Sussið heyrðist allavega mjög hátt og skýrt þar sem ég var.

Gunnhildur (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 01:04

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Búðareyri í Reyðarfirði er ekki til lengur. Nafni þorpsins var breytt fyrir 25-30 árum síðan í Reyðarfjörð.

Í Fákrúðsfirði voru tvö sveitarfélög, Fáskrúðsfjarðarhreppur og Búðahreppur, en Búðahreppur varð til árið 1907, þegar þéttbýlið Búðir var gert að sérstöku sveitarfélagi. Þessi sveitarfélög eru nú hluti Fjarðarbyggðar ásamt Reyðarfirði, Eskifirði, Norðfirði, Stöðvarfirði og Mjóafirði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2008 kl. 01:59

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Þetta var frábær keppni. Sigmar tók alveg hárrétt á þessu og strákurinn var sjálfum sér og skólanum sínum til sóma að tala um þetta opinskátt sem gerðist.

Kannski þarf meiri fjarlægð milli keppenda og áhorfenda til að fyrirbyggja að svona geti gerst. Þarna eru ungmennin búin að legGja í gífurlega vinnu við að undirbúa sig og sárt getur það orðið ef eitthvað misferst sem er ekki þeirra sjálfra orsök.

Göturnar eru auðar þegar úrslitin í Gettu betur eru send út - svo vinsælt er þetta sjónvarpsefni, sem er frábært til þess að vita.  

Marta B Helgadóttir, 15.3.2008 kl. 09:54

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað einkaflugmannsprófið snertir þá eru 39 ár síðan ég kenndi flug. Ég hygg þó að minnst 70 flugstundir þurfi til að taka prófið og nú kostar útseldur tími varla minna en 15 þúsund krónur með afsláttum. En betri upplýsingar fást með því að hringja í Flugskóla Íslands, Flugskóla Helga Jónssonar, Geirfugl eða í flugskólann á Akureyri.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2008 kl. 17:16

10 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Fáskrúðsfjörður er svo sannarlega ekki í Búðahreppi,- en aftur á móti var Búðahreppur í Fáskrúðsfirði á meðan hann var og hét,- altsvo Búðahreppur.  Og eins og þorpið Búðareyri stendur við fjörðinn Reyðarfjörð þá stendur þorpið Búðir við fjörðinn Fáskrúðsfjörð !!  Allt tilheyrir þetta nú bæjarfélaginu Fjarðarbyggð,- en eftir sem áður heita firðirnir sínum nöfnum og vonandi þorpin líka !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 17.3.2008 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband