Leyft að útskýra.

Ég horfði á hluta kappræðnanna á meðan ég beið eftir flugvél í Lindberg-flugstöðinni í Minneapolis. Þessi sjónvarpsþáttur var ekki endurtekning á frægum þætti Kennedys og Nixons 1960 þar sem Nixon virtist fölur og gugginn en Kennedy var æskufjörið uppmálað.

McCain kemur vel fram í sjónvarpi og skilar sínu ágætlega, lítur ekki út fyrir að vera maður sem yrði forseti á áttræðisaldri. Aldurinn var heldur Ronald Reagan ekki fjötur um fót á sínum tíma. Enn auðvitað gat McCain ekki logið sig frá aldrinum og greinilegt að Obama nýtur þess að "markaðssetja" sig sem mann nýrra tíma.

Mér fannst áberandi hve hann lagði sig í líma við að vera yfirvegaður og traustvekjandi.

Þáttastjórnendurnir leyfðu forsetaframbjóðendunum að svara spurningum án þess að vera að grípa frammi í fyrir þeim. Stundum er sagt að þáttastjórendur eigi að halda uppi tempóinu og taka í taumana ef stjórnmálamennirnir verða of langorðir.

Ástæðan er skýr: Það er bæði stjórnmálamanninum,áhorfendum, sem og sjónvarpsstöðinni verst ef þeir teygja lopann og mikið. Við það er hætta á að þeir glati athygli áhorfenda.

Í kappræðunum í gærkvöldi sýndist mér ljóst að þáttastjórnendur "treystu" frambjóðendunum fyrir að gera slík mistök sjálfir og taka þá afleiðingunum. Hér er um að ræða val á valdamesta manni heims og best fyrir þá sem valið eiga að kynnast því hvernig þeir meðhöndla viðfangsefni sín.

Þann tíma sem ég horfði á Obama og McCain voru þeir til dæmis að útskýra stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Rússum. Til þess að gera það svo að vel sé, þarf einfaldlega ákveðinn lágmarkstíma og mikilvægt var fyrir hvorn um sig að útskýra sem best stefnu sína.

Það fengu þeir að gera og ákveða sjálfir hvernig þeir nýttu tímann, sem eftir allt saman, var þó takmarkaður miðað við að halda athygli áhorfenda og koma sínu til skila.

Auðvitað fer það eftir aðstæðum og tímalengd hvernig tíminn er nýttur og hvenær bráðnauðsynlegt er að stjórnandinn haldi á svipunni og sjái til þess að takmarkaður nýtist sem best. Þess getur verið brýn þörf að stöðva og grípa fram í ef um stutt viðtal er að ræða og í slíkum tilfellum geta hvassar spurningar og stutt, ydduð svör verið forsenda þess að sem mestum upplýsingum um staðreyndir og viðhorf sé komið til skila á áhugaverðan hátt. 


mbl.is Obama kom betur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband