Baslsöm útgerð ljóss og skugga.

Fór í birtingu í morgun á gömlum smájepparræfli upp á flugvöllinn á Sauðármél milli Kárahnjúka og Brúarjökuls til þess að taka þaðan "minnsta jöklabíl á Íslandi," tuttugu ára gamlan tveggja manna Toyta Hilux pallbíl, sem ég hef haft þarna efra til taks  til að draga Örkina, ef fara þyrfti í lokasiglingar á lónum Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells.

Ég fór reyndar austur 19.-20. septembar á Fiat 126, til að ná mynd af drekkingu gróinna og fallegra áreyra Kelduár 20. desember, en hún gerðist um nótt og var að því leyti fyrir luktum rökkurtjöldum og náðist ekki á mynd. Ég kom fljúgandi ausur í fyrradag og lenti á flugvellinum eftir myndatökur af Hálslóni og svæðinu vestan við það þar sem enn eru jarðskjálftakippir. 

Ágætismaður, Helgi Haraldsson, fór með mig frá Kárahnjúkum inn á flugvöll og varð mér síðan samferða til baka. Ljósið í þessari ferð var eitthvert fallegasta vetrarveður sem ég hef fengið á þessum slóðum.

Í ljós kom að ventill lak á litla jeppanum og nú er ég kominn niður á Egilsstaði og er að leggja þessum gömlu druslum en færa eina þeirra til frá Mývatni til Egilsstaða í fyrramálið. Þetta stand í kringum Örkina er svona basl eins og gengur hjá útgerðarmönnum og ákveðinn sjarmi við það. 

Dapurlegra verður þegar Kelduárlón verður fyllt til fulls á næstunni og sex ferkílómetrum af fallegu landi með tjörnum, gróðurvinjum og hinu blátæra Folavatni með Vatnajökul og Snæfell í tignarlegri umgjörð sinni verður sökkt í aurugt lón.

Eins og ég hef lýst áður í bloggi er þetta "virkjun til einskis" svipað og "bridge to nowhere" Söru Palins í Alaska. Brú Palins liggur þó til um fjörutíu manna og kostaði ekki eyðileggingu náttúrverðmæta en Hraunaveitan austan við Eyjabakka er gersamlega óþörf.

Svo mikið vatn hefur verið og verður í Jöklu og Kringisá í hlýnandi loftslagi að þessar tvær ár hafa nægt fyrir Kárahnjúkavirkjun og vel það án þess að Jökulsá í Fljótsdal hafi veirð notuð.

Aðeins var notuð 25 metra  sveifla af 50 metrum mögulegum í Hálsóni í vor og kröftugt yfirfall á Kárahnjúkastíflu sýnir fáránleika þess að umturna ánum, gróðurvinjunum og fossunum á Hraununum austan Snæfells án þess að skapa eitt einasta megavatt. 

Þetta er jafnvel verra en bruðlið sem hefur leitt okkur þangað sem við erum komin. Verið er að ganga braut eyðileggingar á náttúru landsins til enda án þess að fá nokkuð í staðinn.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Og nú vilja íslenskir bílasalar selja aftur úr landi mörg þúsund bíla sem þeir hafa ekki getað selt hér undanfarið. Ál er næstalgengasta efnið í bílum á eftir stáli og því gæti almennur efnahagssamdráttur í heiminum dregið mjög úr eftirspurn eftir áli, enda féll heimsmarkaðsverð á áli um 25% á tveimur mánuðum nú í haust.

Iceland Express á hins vegar í viðræðum um kaup á tveimur þotum af gerðinni Airbus A320. Sala farmiða hefur aukist um 5% á milli ára og bókanir fyrir desembermánuð eru 10% meiri en í fyrra, enda hefur gengi krónunnar fallið mikið á þessu ári.

"Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, kallar eftir samhæfðum aðgerðum ferðaþjónustunnar og stjórnvalda til að fjölga ferðamönnum hingað til lands. Hann segir að með því að allir leggist á eitt, þá mætti fjölga ferðamönnum um allt að 25% milli ára, en þeir eru nú um 500.000. Þetta myndi þýða gríðarmikla innspýtingu gjaldeyris, auk þess sem að það fé sem varið yrði til þessa verkefnis væri góð fjárfesting til framtíðar."

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/16/iceland_express_i_vidraedum_um_kaup_a_thotum/

Þorsteinn Briem, 16.10.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki er að sjá heilsíðu "bænarskjal" frá íslenskum sveitarstjórnarmönnum um þá möguleika sem ferðaþjónustan býður upp á þegar í stað. Nei, álver eftir nokkur ár er það eina sem mönnum dettur í hug. 

Ómar Ragnarsson, 16.10.2008 kl. 22:46

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki hafa þeir verið að heimta álver á Dalvík og munu aldrei gera. Dalvíkurbyggð byggist á matvælaframleiðslu, landbúnaði og sjávarútvegi, enda erum við Íslendingar trúlega mesta matvælaútflutningsþjóð í heimi og 13. stærsta fiskveiðiþjóðin. Við landið er því ein mesta matarkista heimsins.

Húsvíkingar hafa hins vegar mun meiri tekjur af ferðamönnum en Dalvíkingar vegna til dæmis hvalaskoðunar, Mývatns, Ásbyrgis, Goðafoss og Dettifoss. Nú geta skemmtiferðaskip lagst að bryggju á Húsavík, vegasamgöngur verða bættar að ferðamannastöðum og grafa ætti jarðgöng undir Vaðlaheiði.

Tekjur Húsvíkinga af sjávarútvegi og erlendum ferðamönnum munu aukast á næstu árum vegna gengislækkunar krónunnar og jafnvel einnig lækkunar olíuverðs um tíma. Marga útlendinga hefur dreymt um að ferðast um landið en ekki treyst sér til þess, þar sem það hefur verið gríðarlega dýrt fyrir þá undanfarin ár.

Þorsteinn Briem, 17.10.2008 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband