Kosið um aðildarumsókn?

ESB-málið virðist kljúfa alla núverandi stjórnmálaflokka hér á landi í herðar niður nema þá helst Samfylkinguna. Meðan þetta ástand varir efnir það til illinda og flækir stjórnmálastöðuna. Valgerður Sverrisdóttir sagði fullum fetum á fundi í Iðnó að við ættum að sækja um aðild að ESB og greinilegt er að Framsóknarflokkurinn er að verða logandi stafnana á milli vegna þessa máls.

Nú er það svo að Framsóknarflokkurinn gegndi mikilvægu hlutverki á síðustu öld sem miðjuflokkur, þótt hann stæði því miður að slíku misrétti í kjördæmamálum lengst af og spillingu hafta- og fyrirgreiðslukerfi að ég gat aðeins fengið mig til að kjósa hann einu sinni, - árið 1974, og þá eingöngu vegna utanríkismála. Ég var að vísu fylgjandi NATÓ-aðild þá en vildi fá mótvægi við of harða herstöðvarstefnu Sjálfstæðisflokksins.

En þetta var útúrdúr, ég hef kosið í tæpa hálfa öld fleiri en einn, fleiri en tvo og fleiri en þrjá flokka en ætlaði bara að segja að tími Framsóknarflokksins er liðinn. Samfylkingin hefur tekið við sem helsti miðjuflokkurinn. Hin dæmalausa frétt um "lekann" sem Bjarni ætlaði að hafa nafnlausan er enn einn naglinn í líkkistu Framsóknarflokksins, sem flokksmenn sjálfir virðast vera á fullu að smíða.

En hinir flokkarnir eru líka klofnir og ef pattstaðan gagnvart ESB lagast ekki held ég að eina ráðið væri í tengslum við Alþingiskosningar næsta vor að kjósa sérstaklega um það hvort leita eigi eftir aðild að ESB. Það myndi auðvelda stjórnarmyndun að kjósendur legðu komandi ríkisstjórn þessa línu.


mbl.is Bréf til Valgerðar fór á alla fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svolítil viðbót: Datt Bjarna Harðarsyni það virkilega í hug að allir fjölmiðlarnir myndu þegja um bréf með innihaldi sem þeim hafði verið ætlað að gleypa við nafnlausu og birta?

Þjóð veit þá þrír vita, segir máltækið.

Allir vita að ég hef verið mjög ósáttur við margar gjörðir Valgerðar Sverrisdóttur, en sú rýtingsstunga úr launsátri, sem henni var ætluð frá nafnlausum tilræðismanni, sem faldi sig á bak við aðra, - hitti verðskuldað fyrir þann sem á hnífnum hélt.

Ég er mjög leiður vegna þessa máls. Mér hefur líkað vel við Bjarna Harðarson og harma þessi arfamistök hans. En þau verða kannski lærdómsrík og táknræn fyrir þá pytti sem pólitíkin felur í sér þar sem eiga við orð skáldsins: "Í góðsemi vegur þar hver annan."

Ómar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 00:56

2 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Ég hugsa að ef aðild að evrópusambandinu sé skoðuð kallt án fordóma og pólitískrar tengingar sé hægt að finna fleiri kosti með inngöngu.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 11.11.2008 kl. 00:57

3 identicon

Mér finnst nú að Bjarni hefði bara átt að senda þetta í eigin nafni ef hann er sammála innihaldinu. Það er löngu tímabært að þingmenn flokka hætti að jarma í kór. Ef þeir eru sammála þá segi þeir það, ef þeir eru ósammála þá segi þeir það líka. Það veit hvert mannsbarn sem hefur minni 10 ár aftur í tímann að Framsóknarflokkurinn er mölbrotinn flokkur.

En sem ein af þjóð sem stendur í fordyri mjög djúprar efnahagskreppu finnst mér athyglisvert að aðstoðarmaðurinn er settur í að búa til nafnlaust tölvupóstfang í tölvukerfi Alþingis. Ég þarf ekki frekari rök fyrir því að aðstoðarmannastörfin eru peningasóun og atvinnubótavinna. Það er beinlínis siðlaust að leggja þau ekki niður án tafar.

Helga (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 01:28

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Aðildarumsókn" = innlimunarbeiðni = fullveldisuppgjöf = svik við land og þjóð, ÓMAR!  Láttu þig ekki dreyma um, að það sé rétt að "sækja um aðild" að þessu tröllabandalagi, sem ætti þá eftir að gleypa okkur, og hugsaðu þig alvarlega um, hvort Jón Sigurðsson hefði nokkurn tímann vilja skila áunnum fullveldisréttindum yfir sundið og það í hendurnar á Brusselbýrókrötum. Hann hafði fengið nóg af kancellíveldinu, en þú ljærð máls á því að reyra okkur í annað hundraðfalt harðara!  Niður með þá 'Íslandshreyfingu' sem þannig hugsar eða styður þá Álgerðartillögu að "breyta" stjórnarskránni til að brjóta niður stoðir hennar.

Jón Valur Jensson, 11.11.2008 kl. 04:36

5 identicon

Jón Sigurðsson var sannfærður um að ef Íslendingar fengju sjálfstæðið væri ekki hægt að okra á þeim. Hver hefur okrað á Íslendingum síðustu áratugi?

http://okurvextir.blogspot.com/2008/10/jn-forseti-tri-v-ef-slendingar-eignuust.html

Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 07:01

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er einkennilegt að menn skuli yfirleitt vera að eyða tíma og orku í að ræða þetta eins og ástandið er. Það er himinhrópandi vitnisburður um getuleysi og fáfræði þeirra sem það gera.

Það er engin leið að við séum á leið þarna inn. Maastricht sáttmálinn ætti að vera nægilegt vitni um það eins og eftirfarandi smádæmi sýnir:

Verðbólga sé ekki meira en 1½% meiri en í þeim þremur Evrópusambandslöndum sem hafa minnsta verðbólgu,

Að í eitt ár séu meðalnafnvextir á langtímabréfum að hámarki 2% hærri en í þeim þremur löndum Evrópusambandsins sem hafa lægsta verðbólgu,

 Að viðkomandi land hafi verið í gengissamstarfi Evrópu ERM í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka.

Að fjárlagahalli sé ekki meiri en 3% af VLF. Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af VLF.(verg landsframleiðsla)

Menn geta svosem rætt þetta, af þá meiri yfirvegun, þegar við erum komin út úr þessum dimma dal þrenginga. EBE hefði engu bjargað í þessu sem á hefur dunið, þótt við hefðum þar verið og ekki bjargar það neinu nú. Hér eru hryggleysingjar á þingi að reyna að beina athygli frá getuleysi sínu til að takast á við ástandið.

Ég skrifa undir að taka Evruna upp einhliða á neyðarforsendum, eða þá norska krónu til að losna undan kverkataki IMF breta og hollendinga og koma skikki á þetta fljótt og vel með lámarksskaða. Umræður um aðild geta síðan komið síðar (líklega 10 ár) þegar við getum uppfyllt skilyrðin. Þá þarf að sjálfsögðu að vega og meta málið á sömu forsendum og við höfum gert. Hverju þarf að fórna og er það þess virði? Ganga inn eða hafna því að loknu því mati.

Allt þvaður um þetta nú er lýðskrum og sandur í augu landsmanna, sem mega ekki við slíku í því moldviðri sem blæs.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 07:32

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jón Valur, þú túlkar hræðslu manna við það að leyfa fólkinu að ráða. Þú vantreystir greinilega þjóðinni til að taka upplýstar ákvarðanir í eigin málum. Í stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar kveður á um aukna notkun þjóðaratkvæðis til þess að höggva á festar flokksræðis sem getur annars gengið þvert gegn vilja þjóðarinnar, jafnvel árum saman, og þar með gegn lýðræðinu.

Íslandshreyfingin var stofnuð til að berjast fyrir auknu lýðræði með ýmsum breytingum í lýðræðisátt varðandi kjördæmaskipan og kosningalög. Er sú þjóð "fullvalda" sem má ekki ráða sér sjálf í lýðræðislegum kosningum?

Þú virðist gefa þér það að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn muni enda með umsókn. Af hverju heldurðu það? Ef upplýst og djúp umræða fer að lokum fram í aðdraganda slíkra kosninga á að að treysta þjóðinni til að velja.

Og það val yrði ekki endanlegt því að í kjölfar samningaviðræðna yrði þjóðin að kjósa aftur um málið og getur þá fellt samninginn eins og Norðmenn gerðu í tvígang. Hvað er svona voðalegt að þjóðin fái að velja sjálf um jafn mikilvægan hlut og þetta mál og það meira að segja tvisvar í röð?

Ómar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 08:02

8 identicon

Hvernig á Íslenska þjóðin að taka upplýsta afstöðu í þjóðaratkvæði um inngöngu í ESB eða ei?

Hvert stefnir ESB í framtíðinni? Hvernig er nýja stórnarskrá ESB sem þeor ætla sér að koma á þó að Frakkar,Hollendingar. og Írar felldu þessa stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðlu hver í sínu landi. Þjóðþing Búlgaríu er það eina sem hefur samþykkt þessa stjórnarskrá og ESB er nú að skoða það að keyra þetta í gegnum þjóðþing landanna eftir leiðis líka í Frakklandi,Hollandi og Írlandi því jú það þurfa öll 27 ESB löndin að samþykkja nýju stjórnarskrána svo hann taki gildi. Atkvæðagreiðla mun breytast verði þessi stjórnarskrá að veruleika áður hafði hvert ríki fyrir sig neitunarvald en yrði við nýju stjórnarskrána miðað við íbúafjölda. Nú spyr ég alla hér á landi sem eru tilbúnir að taka afstöðu með eða á móti ESB hvaða vægi Ísland hefði í slíkri atkvæðagreiðlu innan ESB landanna þegar nýja stjórnarskránin tekur gildi ??

B.N. (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 08:47

9 identicon

Gleymdi undirskriftinni vegna númer 8.

Baldvin Nielsen, Reyjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 08:57

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Norðmenn stóðu sig vel í að upplýsa sína þjóð um kosti og galla.  Þar var ekki flanað að neinu og þetta mat gert í yfirvegun. Svo geta menn í framhaldi velt fyrir sér af hverju Norska þjóðin hafnaði þessu í Tvígang? Af hverju danir og svíar hafa hafnað þessu?

Það er blóðug og miskunarlaus tækifærismennska að ætla sér að fara að leggja þetta undir þjóðina í slíku uppnámi.  Það jaðrar við föðurlandsvik Ómar.

Kynntu þér svo málin, skoðaðu klofninginn innan sambandsins eins og B.N er að benda á.  Þjóðaratkvæði eru engin leið, þegar fólk stendur í brennandi húsi. Ertu að ná þessu for crying out loud.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 09:02

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

ESB umræðan á ekki við núna. Það eru einfaldlega ekki aðstæður til þess að ganga inn núna. Samningsstaða okkar er afleit.

Við þurfum að virkja orkuna í annað t.d. að koma ríkisstjórninni frá. Laga kerfið þannig að fólk lendi ekki á vergangi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 11.11.2008 kl. 10:25

12 Smámynd: Haraldur Hansson

Þegar skoðanakannanir sýna að yfir 70% kjósenda vilja viðræður um ESB þá þurfa allir flokkar "að setja málið á dagskrá" eins og það heitir. Annað er ekki vænt til atkvæða.

Í kreppu og neyð er leitað eftir auðveldri lausn, þó hún sé ekki til. Þegar talað er um ESB sem athvarf þar sem við getum fengið plástur á sárið, þá stökkva menn á vanginn. En það er barnaskapur að láta sér detta í hug að við getum fengið "allt fyrir ekkert" í ESB eða bara valið það sem okkur hentar.

Ég hef því miður ekki kynnt mér Lissabon samninginn en það er deginum ljósara að það er áratugur eða meira í að við eigum minnstu möguleika á að uppfylla Maastricht.

Hvað nýjan gjaldmiðil varðar þá er evran ekki við góða heilsu einmitt núna. Það veit enginn fyrirfram hvernig henni reiðir af í kreppunni, þegar hún á endanum gengur yfir Evruland. En það eru vísbendingar um að hún verði ekki ýkja sterk eftir fáein ár.

Haraldur Hansson, 11.11.2008 kl. 12:56

13 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Jón Sigurðsson var uppi á 19. öld. Við lifum hinsvegar á þeirri 21. Heimurinn hefur breyst síðan þá. Þar að auki skiptir ekki máli hvað honum myndi finnast. Hann er ekki lengur á meðal vor og því ræður hann engu.

Að þjóðaratkvæði sé ekki leið þegar fólk stendur í brennandi húsi? Hví ekki? Það er enginn að tala um að vippa sér inn í sambandið sisona, heldur að taka ákvörðun um að hefja viðræður. Þær gætu allt eins skilað þeirri niðurstöðu að ekki skyldi gengið í sambandið. Hvort heldur yrði, myndi yfirlýsing um vilja til aðildarviðræðna strax hafa jákvæð áhrif og gefa okkur tíma. Kannski myndi þjóðin hafna aðild, eða samþykkja. Hvort heldur yrði, myndi hún gera það á sínum eigin forsendum þegar þar að kæmi. Ekki á forsendum norðmanna, svía eða dana. Þeir tóku væntanlega sínar ákvarðanir út frá eigin forsendum. Hver í sínu lagi. Ég veit ekki betur en að svíar og danir séu aðilar að sambandinu, þótt þeir hafi enn krónurnar sínar.

Brjánn Guðjónsson, 11.11.2008 kl. 12:56

14 identicon

Þegar og ef við förum í aðildarviðræður við ESB þá verða þær á þeirra forsendum við komum til þeirra sem gestir með ósk um að ræða inngöngu inn í ESB fjöldskyldunina. 

Ef ESB tæki þeirri ósk okkar Íslendinga um að hefja viðræður um mögulega inngöngu væri það bara  formsatriði því húsreglur ESB eru klárar.

Það er möguleiki á undanþágum t.d með sjávarútveginn meðan verið væri að venja okkur við þessu yfirþjóðlega valdi  sjávarútveginn okkur og aðrar auðlindir sem hér koma til með að finnast eins og olía í framtíðinni myndi heyra undir Brussel.

Noregur vil ekki ganga inn í ESB því þeir vilja ekki gefa eftir yfirráðin yfir oliunni sem dæmi.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 15:53

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svara síðar.

Jón Valur Jensson, 11.11.2008 kl. 18:24

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er talsvert verk að kynna sér fiskveiðistefnu ESB.  Þeir stjórnmála menn sem prédika aðildarumsókn hafa annað tveggja geymt sér að fara í það mál eða þegja yfir því.

Þetta er miður því fiskveiðar skipta Íslendinga miklu.

Sigurður Þórðarson, 11.11.2008 kl. 22:00

17 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er alveg með ólíkindum þetta fólk sem vill ekki fyrir nokkra muni leyfa aðildarviðræður við ESB. 70% þjóðarinnar virðast styðja slíkar viðræður. Margir málsmetandi menn styðja slíkar viðræður. Þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti til að samþykkja endanlega inngöngu eftir að samningsdrög hafa verið kunngerð. Af hverju stofna þeir ekki nýjan stjórnmálaflokk: Einangrunarbandalagið.

Sigurður Hrellir, 11.11.2008 kl. 22:22

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Evrópubandalagið er á fallanda fæti, Sigurður hrellir, sér í lagi á tímabilinu eftir um 20–40 ár, þegar fólksfækkun í vinnandi kynslóðum fer að skella á því af fullum þunga – vegna allt of fárra fæðinga (einungis um 1,3 til 1,8 börn á hverja konu, mismunandi eftir löndum) – og jafnvel í nánustu framtíð: menn eru farnir að tala um yfirvofandi efnahagshrun í evrulöndum. (Segðu mér í leiðinni: af hverju hafa bankar fallið að undanförnu í evrulöndum, t.d. Þýzkalandi? Sbr. hér.)

Baldvin Nielsen er sem fyrri daginn með góð innlegg; einnig Sigurður Þórðarson hér á undan. Það eru skammsýnir kjánar sem eru búnir að afskrifa sjávarútvedg sem undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. En jafnvel ráðherrar voru farnir að róma bankabisniss sem mikilvægari en sjávarútveginn fyrir bara nokkrum mánuðum! En þeir eru að vísu á útleið sjálfir.

Ég vona að erindi Ómars okkar við þjóðina sé ekki á slíkri útleið og að hann sjái sig um hönd eftir að hafa skoðað evru/EBé-mál í kjölinn. 

Ekki blasir nú við mikið lið í EBé í IMF-lánsmálinu nema síður sé; jafnvel skyldar þjóðir, sem þar eru, gagnast okkur ekki, meðan aðrir frændur, utan EBé, hjálpa okkur verulega. Þannig var það norski forsætisráðherrann, sem á nýliðnum degi talaði máli okkar við Gordon garminn í von um að leysa hans Gordíonshnút, sjá hér í Sjónvarpi: Jens Stoltenberg tjáir sig um deiluna við Breta.

Jón Valur Jensson, 12.11.2008 kl. 02:15

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Áttu þetta að heita rök, Ragnar? Kannski eins góð og þau sem þú skildir eftir þig hér að morgni liðins dags kl. 10:32–33?

Jón Valur Jensson, 12.11.2008 kl. 02:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband