Breyttar aðstæður breyta hugmyndum.

Í allri dýrkuninni á bruðli og óhófi, sem tröllreið íslensku samfélagi á þeim tíma sem fjármálaráðherrann mælti hin fleygu orð á þingi: "Drengir, sjáið þið ekki veisluna?" var búið að bannfæra allar hugmyndir um það að ofurlaunaliðið tæki þátt í sameiginlegum rekstri ríkisins í samræmi við ofurgetu sína.

Árum saman blasti þessi hugsunarháttur við í tímaritum landsmanna með greinum um það sem einstaklingar voru að gera í lífsgæða- og peningakapphlaupinu: "Sjáið lúxusbílana og sumarhúsin!" með litríkum frásögnum sem birtust lýðnum til eftirbreytni í dýrlegri og æskilegri eftirsókn eftir glysi og glaumi.

Sú var tíð að Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fiski var árum saman hæsti skattgreiðandi í Reykjavík þótt margir þættust vita að aðrir ættu að skila meira en hann til samfélagsins en notuðu klæki til að koma sér undan því.

Þorvaldur sagðist vera stoltur af því að geta látið gott leiða af velgengni sinni, sem byggðist frá upphafi á þrotlausri vinnu og elju þessa einstæða manns. Vonandi verða einhverjir nú til að endurmeta stöðu þeirra sem geta lagt til samfélagsins en flýja ekki með auð sinn til skattaparadísa erlendis.

Eitt sinn bað fjölmiðill mig og konu mína um að segja frá brúðkaupi okkar hjóna. Þá hafði þessi fjömiðill verið með hvern þáttinn af öðrum þar sem lýst var í smáatriðum dýrum brúðkaupsgjöfum, brúðkaupsferðum og miklum glæsileik brúðkaupanna.

Ekkert varð af frásögn okkar því að við höfðum engu slíku til að dreifa. Við giftum okkur í kyrrþei ein með presti okkar, séra Emil Björnssyni og skorti því allan glæsileik lista yfir dýrar brúðkaupsgjafir og mikilfenglegt brúðkaup og brúðkaupsferð. Slíkt "seldi ekki" í fjölmiðlunum þá.

Við erum nú samt búin að vera gift í bráðum 47 ár og eignast sjö börn og tuttugu barnabörn. Stundum sýnist mér að ending hjónabanda fari ekki eftir því hve mörgum milljónum króna var eytt í herlegheitin.


mbl.is Darling sagður íhuga hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: A.L.F

Vel mælt.

Tek undir með lokorðum þínum  "Stundum sýnist mér að ending hjónabanda fari ekki eftir því hve mörgum milljónum króna var eytt í herlegheitin" Mörg hjónabönd sem ég þekki til farið í súginn þó miljónum hafi verið eytt í brúðkaupsdaginn.

A.L.F, 24.11.2008 kl. 02:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þjóðarbókhlaðan var byggð fyrir hátekjuskatt, ef ég man rétt, enda var hún lengi að tosast upp úr jörðinni.

Dómsmálaráðherrann á nokkrar rolluskjátur og ég efast ekki um að hann láti það fé af hendi rakna, þjóðinni til blessunar á erfiðum tímum.

Síldin var svo ómerkileg að hún taldist ekki fiskur, þar til þjóðin fór á hausinn árið 1968 eftir að hafa ofveitt síldina. Þá varð síldin allt í einu fiskur. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

"Þeim var ég verst er ég unni mest," sagði Guðrún Ósvífursdóttir, en myndir frá öllum fjórum brúðkaupum hennar birtust í Séð og heyrt á sínum tíma: "Sjáið kjólana og skartið!"

Þorsteinn Briem, 24.11.2008 kl. 03:06

3 identicon

Það má segja að almennt líði íslensku þjóðinni illa í dag, líður eins og barni sem opnar tóman jólapakka og á erfitt með að leyna vonbrigðum sínum. Hvar eru allar gjafirnar, allt innlitið og útlitið? Það er líka farið á hausinn, hvernig gat þetta gerst?

Í kringum Þjóðfundinn þann 1. desember nk. verður framinn ákveðinn gjörningur til að minna fólk á þetta einstaka tímabil sögunnar, heilan áratug sem endurspeglar hugarfar landans sem stakk hausnum í sandinn og las tímarit eins og Slefað og Sleikt eins og hann fengi greitt fyrir það. Tímaritunum verður safnað og fargað á táknrænan hátt til að fagna enddaloka þessa tímabils.

Nú reynir á þjóðina að halda sér vakandi á þessum skelfilegu tímum. Ég bið elskulega þjóð mína að vinsamlegast að hugsa um skuldir afkomenda okkar þegar að ímyndir ákveðinna aðila eru nú bornar ókeypis á borð fyrir landann í sjónvarpsþáttum og það í  "Ókeypis" útsendningum.  Þar á bakvið er útpæld PR tækni norska herforingjans, kostuð af landanum sjálfum og notuð til að svæfa hann niður, eins fljótt og auðið er. Ég horfi ekki á slíkt myndefni enda gubbudallurinn löngu orðinn fullur á mínum bæ og kýs frekar að halda meðvitund svo lengi sem ég lifi. Abraham Lincoln sagði eitt sinn; "Guð hefur sérstakt dálæti á ósköp venjulegu fólki, þess vegna bjó hann til svona mikið af því." Meirihlutinn ræður, fólkið ræður og fólkið er valdið!

S.R (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 10:59

4 identicon

Ég held að það megi jafnvel færa fyrir því rök að ending hjónabanda sé í öfugu hlutfalli við glysið og umstangið í kring um það, séu brúðkaupin í beinni á slúðursíðunum er ansi hætt við að skilnaðirnir séu það líka og það ekki svo löngu síðar.

Sigvaldi

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband