Skólabókardæmi.

"Bílvelta á Þingvöllum. Bílvelta varð í Skálabrekku..." Fyrstu sjö orðin í tilvitnaðri frétt og sex orð síðar, alls þrettán orða texti  í þessari 35ja orða frétt, eru skólabókardæmi um það hversu mikla vitleysu er hægt að setja á prent í stuttri frétt sem er aðeins þrjár setningar.

Tökum fyrstu þrjú orðin: "Bílvelta á Þingvöllum. " Fjórum orðum síðar er sagt að bíllinn hafi oltið við Skálabrekku. Sá bær er alls ekki á Þingvöllum, heldur fimm kílómetrum fyrir sunnan suðurenda Almannagjár.

Ekki tekur betra við í framhaldinu af fyrirsögninni. "Bílvelta varð..." Á mannamáli er sagt: "Bíll valt", notuð tvö atkvæði í stað fjögurra og textinn hnitmiðaður í stað málleysunnar "bílvelta varð." Ekki tekur betra við í næstu tveimur orðum: "Í Skálabrekku."  Halda mætti að bíllinn hafi oltið í nefndri brekku en bærinn Skálabrekka stendur reyndar á flatlendi um 800 metra frá veginum.

Í næstu setningu heldur vitleysan áfram: "Þrennt var í bílnum og voru þau öll flutt til Reykjavíkur og slysadeild, en með minniháttar áverka..."

Samkvæmt þessu orðalagi var slysadeildin flutt til Reykjavíkur, en þar hefur hún reyndar verið í minnsta kosti hálfa öld. Og nú er spurningin, úr því að fólkið og slysadeildin voru flutt til Reykjavíkur, hvort slysadeildin hafi verið með minniháttar áverka eins og fólkið.

Nýlega var sagt upp fjölda góðs starfsfólks á Morgunblaðinu. Það vekur spurningar um uppsagnirnar að sjá svona texta eftir að búið var að grisja í hópi starfsmanna.

Mig langar til að gera tillögu um að orða þessa frétt svona:

Fyrst er fyrirsögnin: "Bíll valt við Þingvallavatn."

Síðan kemur fréttin: 

"Bíll valt á móts við bæinn Skálabrekku við Þingvallavatn um fimmleytið í dag. Þrennt var í bílnum og var fólkið flutt á slysadeild í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var það með minniháttar áverka."  


mbl.is Bílvelta á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú ekkert á við snerruna sem ég átti við fréttamenn á fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöld, og snerist um hvort fylgi hefði þverrað .... eða kannski gert eitthvað annað... eins og t.d. þorrið (sem það gerði alltaf í minni orðabók). Þær bentu kokhraustar á ordabok.is og skrifuðu þverrað. Og ég varð að saltstólpa með þorrið og gullsleginn kjölinn á Árna Bö í fanginu.

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 00:18

2 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Nú spyr ég þig Ómar sem reynslubolta í faginu. Af hverju hefur fréttamennskunni hrakað svona og hvað er til ráða?

Sigurður Haukur Gíslason, 15.12.2008 kl. 00:54

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fréttastjóri útvarpsins, Óðinn Jónsson, hefur sagt mér að á örfáum árum hafi íslenskukunnáttu umsækjenda um störf hrakað verulega. Þó er þetta fólk oft með háskólapróf og góða menntun.

Þetta fólk er flest fætt á áttunda áratugnum og hlýtur grunnmenntun í íslensku um og eftir 1985. Á þeim tíma urðu býsna mikil umskipti í þjóðfélaginu sem ég held að mönnum sjáist yfir.

Dæmi um það er Sumargleðin, sem varð fyrir barðinu á myndbandavæðingunni, utanlandsferðunum, stórauknu framboði á sjónvarpsefni og bættum vegasamgöngum innanlands.

Utanlandsferðirnar fyllti fólk virðingu fyrir enskunni, þar sem gerðar eru kröfur til málkunnáttu. Hið furðulega er að samsvarandi kröfur virðist fólk ekki gera um meðferð á sínu eigin tungumáli.

Heimili og skóli hafa brugðist. Það versta við hrakandi málkennd er það að rökvísi hefur hopað á hæli fyrir tískufyrirbrigðum og kansellístíl.

Það þykir fínt að flækja mál sitt samanber setningar eins og: "Mikil aukning hefur orðið í fjölda árásartilfella" í stað þess að segja "árásum hefur stórfjölgað." 

Þingmaður einn sagði: "Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" í stað þess að segja: "Vestfirðingum hefur fækkað." 

Bestu fjölmiðlar, stofnanir og skólar í nágrannalöndunum gera miklar kröfur til meðferðar máls og stíls. Af einhverri furðulegri minnimáttarkennd gerum við ekki sömu kröfur til meðferðar okkar eigin tungumáls, sem býr yfir miklum sveigjanleika og frjósemi.

Dæmi um það eru nýyrði eins og ljósvaki, þyrla, sími, tölva, skjár, samúð o. s. frv.

Íslenskan er að vísu með flóknari málfræði en sum önnur tungumál en stendur þeim í heildina tekið í engu að baki.

Á tíma þegar íslenskur orðstír er lemstraður eigum við að leggja rækt við það besta sem við eigum og af tungumálinu okkar getum við verið stolt.  

Ómar Ragnarsson, 15.12.2008 kl. 02:13

4 Smámynd: Heimir Tómasson

Má þá ekki segja að Dagar Íslensgukunátunar séu talnir? Því miður. Það þarf að gera gríðarlegt átak á Íslenskuklennslu. Nú vantar mikið upp á að mín Íslenskukunnátta sé eins og ég vil hafa hana (kominn á fertugsaldurinn) en ég er þó að lesa mér til og reyna að bæta. Menn kenna skólanum um allt sem miður fer. Hinsvegar vil ég meina að þetta byrjar allt á heimilunum. Mínir foreldrar héldu því að mér að tala og skrifa rétt, leiðréttu mig alltaf ef ég fór rangt með málið og hef ég búið að því síðan. Hinsvegar finn ég hvað getu minni hrakar núna þegar ég bý erlendis, af þeim sökum hef ég tekið upp að lesa gömlu kennslubækurnar aftur. Og vitið þið hvað? Það er hreint gríðarlega gaman að læra þetta.

Heimir Tómasson, 15.12.2008 kl. 08:31

5 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Mér svelgdist líka á Maltisíninu mínu þegar konan sagði að fylgið hefði þverrað, en svo eins og oft áður þá fór maður bara að hugsa um eitthvað annað, og gerir sig um leið meðsekan eins og í bankahruninu. Fuss og svei og búið mál !

Jóhannes Einarsson, 15.12.2008 kl. 09:35

6 identicon

Ég lauk menntaskóla  1984, en fór ekki í háskóla fyrr en sex árum síðar. Það kom mér mjög á óvart þá hvað yngri samnemendur mínir voru lélegir í stafsetningu. Það er eins og að kennsla í réttritun, ritgerðasmíð og því um líkt hafi hrakað mjög á þessum árum.

Það fór reyndar svo að grein sem ég skrifaði í nemendablað var "leiðrétt" þ.a. einhver sem hélt sig vita betur laumaði inn villu í fyrstu málskrein....

Ragnar (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 11:39

7 identicon

Í mínu fyrra starfi þurfti ég mikið að lesa yfir skýrslur undirmanna.  Það var áberandi hvað starfsmenn fæddir c.a. eftir 1975 áttu erfitt með að koma frá sér hugsunum og því sem segja þurfti frá á textaformi.  Þetta var oft bara rugl, sem þeir einir skyldu.  Sjálfum fannst mér það að læra að skrifa skilmerkilegan texta eitt það besta sem ég lærði í skóla, þmt. Háskóla.  Ég undraðist oft þegar ég las framangreindar skýrslur hvernig þetta fólk hefði komist í gegnum skólagönguna með þessa getu í að koma frá sér texta.  Hverngi gat þetta fólk skrifað t.d. lokaritgerði í Háskólanum ?  Ég sé í dag á námi barna minna að þau þurfa að skila verkefnum, en þau fá þau nær aldrei til baka og ef svo ótrúlega vill til að þau berast til baka, þá er það án leiðbeinandi athugasemda.  Ég vil meina að það sé eitthvað mikið að í skólakerfinu, þegar börn fá ekki athugasemdir og leiðbeiningar varðandi þá vinnu sem þau hafa skilað.  Líklegast tel ég að ástæðan sé sú að laun kennara miðast við það að fyrir 40 mín kennslustund hafa þeir 20 mín. undirbúningstíma.  Þessar 20 mín þarf að nota til undirbúnings fyrir kennsluna, að fara yfir heimaverkefni, sem og öll samskipti utan kennslutíma.  Það sér hver heilvita maður, nema menntamálayfirvöld, að 20 mín hljóta að duga ansi skammt.

Egill (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 12:55

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert mér á óvart kæmi,
í íslensku skólabókardæmi,
mörg hér brekkan marflöt,
minnka þarf dæmalaus göt.

Þorsteinn Briem, 15.12.2008 kl. 14:17

9 Smámynd: Hlédís

Ég held að nöldur yfir versnandi málfærni dugi ekki nokkurn skapaðan hlut!   Sjálf hef ég, jafngömul þér, Ómar, svo mikinn íslenskan orðaforða úr bænda-, sjómanna- og "júneim'it"-málum, að háskólamenntað samstarfsfólk hefur þurft orðabók til að skilja mig - alveg frá því á níunda áratugnum! - Gerist ekki mjög oft, en þó!  Hef enga patent-lausn, nema að hætta nöldrinu. Það gerir örugglega bara illt verra.   Legg til að menn tali meira saman - að ypsilon verði lagt niður (svo!) eins og zetan.    Ég tel að málhreinsi-stefnu eigi að halda áfram, en í mildu og kurteislegu formi, svo fólk verði ekki hrætt frá því að tala og skrifa íslensku - yfirleitt!

Kveðja, Hlédís

Hlédís, 15.12.2008 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband