Fólkið sprettur upp og brillerar.

Það var mikill kraftur í troðfullu Háskólabíói í kvöld og svipað gerðist og hefur gerst í vetur, að nýtt fólk kom fram sem hingað til hefur ekki látið að sér kveða og flutti mergjaðar ræður með merkilegum upplýsingum í bland.

Við eigum mikinn mannauð og kannski verður kreppan til þess að stíflurnar rofni og krafturinn og hæfileikarnir spretti fram.

Nú sér maður og heyrir fólk rísa gegn þeirri þöggun og ótta sem ofríkisráðamenn þjóðarinnar komu á fyrir áratug og olli því að nær engir vísindamenn eða kunnáttumenn þorðu að koma fram með upplýsingar eða skoðanir sem ekki féllu í kramið.

Þessu kynntist ég vel í starfi mínu og fannst það umhugsunarefni að ástandið hér á landi væri svipað og það var í Austur-Þýskalandi að þessu leyti en bara miklu betur dulbúið.

Hefði betur gerst fyrr það sem nú er að gerast og það er dapurlegt að þyrfti slíkar og þvílíkar hamfarir í þjóðmálum til að rjúfa þöggunina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Fundurinn var góður. Mér finnst það afar merkilegt að "fréttirnar" affundinum hafa ekki komið á mbl.is eða vísi.

Mér dettur í hug hvirt það sé þöggun í gangi.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 12.1.2009 kl. 23:25

2 Smámynd: Sævar Helgason

Og merkilegt að ekki var sjónvarpað frá borgarafundium - Ekki einu sinni , RÚV miðill allra landsmanna.  Þetta hefur valdið vonbrigðum á landsbyggðinni.  En er RÚV kannski ekki svo frjáls miðill og ætla mætti með Flokkinn alsráðandi við stjórnvölinn.  Ekki var nú efnið sem fram kom hjá hinum ýmsu flytjendum- Flokknum hagsælt, eftir efnahagshrunið í kjölfar 17 ára samfelldar "efnahagsstjórnunar" Flokksins.

Fundurinn var afbragsgóður og öllum til sóma sem að honum stóðu sem og málflytjendum. Troðfullur salur.

Sævar Helgason, 12.1.2009 kl. 23:43

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar:

Þú hefur kannski eins og ég búið og numið í u.þ.b. ár í Austur-Þýskalandi og verið þar viðloðandi í 3 ár? Ég varð þess munaðar aðnjótandi að lenda einu sinni í yfirheyrslu hjá Stasi (þ. Staatssicherheit) - þótt þeir hafi farið mildum höndum um mig er það ekki endilega eitthvað, sem ég þarf að endurtaka! Ég hef reyndar aldrei lent í yfirheyrslu hjá löreglunni eða ríkislögreglunni, en ég held samt satt best að segja þessu sé ekki saman að jafna!

Mér finnst þetta í raun móðgun við þau hundruð manna, sem létu lífið við múrinn þegar þau voru að reyna að flýja frá Austurþýska alþýðulýðveldinu. Eða þá tugi ef ekki hundruð þúsunda manna, sem var vísað frá þessu hræðilega landi eða var lokað inn í fangelsi og pyntað fyrir skoðanir sínar árum saman.

Hefur ástandið hér á landi kannski verið svipað undanfarin 17 ár og á tímum nasista eða á tímum menningarbyltingarinnar eða á valdatíma Stalíns eða Pol Pot og rauðu khmeranna svo einhverjir siðspilltir fjöldamorðingjar séu nefndir.

Ómar, það eru þessar öfgar hjá sumum ykkar mótmælenda, sem koma í veg fyrir að venjulegt fólk eins og ég fer í Háskólabíó, þótt mig blóðlangi til þess!

Það gerist fyrst eitthvað hér á landi þegar venjulegt fólk á borð við mig fer á Austurvöll, því það erum við "smáborgararnir", sem valdhafar óttast!

Við látum hins vegar fyrst sjá okkur þegar þessir grímuklæddu stjórnleysingjar hætta að vera einkennandi fyrir mótmælin. Ummæli á borð við þau, sem að ofan getur, eru málstaðnum ekki til framdráttar og þá allra síst þegar þau koma frá málsmetandi fólki, sem maður virðir og tekur í raun mjög alvarlega! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.1.2009 kl. 23:44

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Dropinn holar steininn Guðbjörn. Ef þú segir okkur nægilega oft hvað við erum lítilmótleg þá er aldrei að vita nema við sjáum að okkur og hættum þessu skrílsæði.

Þá getur menningarlegt fólk eins og þú menn af þinni mennt loksins farið að láta sjá sig.

Hvað vorum við aftur mörg sem tókum þátt í skrílslátunum með þér Ómar og röltum með þér niður Laugaveginn að mótmæla hryðjuverkunum við Kárahnjúka?

Árni Gunnarsson, 13.1.2009 kl. 00:02

5 Smámynd: Sævar Helgason

Þú þarft ekkert að vera feiminn við að mæta hvorki á Austurvöll né Háskólabíó, Guðbjörn.

Þarna er yfirleitt alveg fullt af þínu flokkssfólki og eru drjúgir þátttakendur.  T.d á Borgarafundinum í Háskólabíó áðan , sat fyrir framan mig virðilegur borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins- bara hið besta mál.

Mér finnst að þú ættir að minnka fordómana og hressa þig upp.  Það er uppbyggjandi.

Sævar Helgason, 13.1.2009 kl. 00:10

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti ekki í bloggi mínu við það miskunnarlausa vopnavald sem beitt var í Austur-Þýskalandi og 17. júní 1953 og skotnu flóttamennirnir við múrinn eru dæmi um.

Ég átti eingöngu við þöggunina sem var beitt var á afmörkuðu sviði með því að ráðast á lúmskan hátt að því sem er svo mikilvægt hjá hverri fyrirvinnu, möguleikann til að fá verkefni við sitt hæfi og sjá sér og sínum farborða.

Viðmælendur mínir á árunum 2001 - 2004 sem þekktu til í Austur-Þýskalandi sögðu mér frá þessu.

Ég ætla að blogga sérstaklega um þessa aðferð til að útskýra hvað ég á við og dytti aldrei í hug að líkja vopnavaldskúguninni í Austur-Þýskalandi við ástandið hér.

Hefði átt að afmarka þetta nánar og biðst afsökunar á því ef ég hef ekki talað nógu skýrt.

Nú er þessi þöggun á undanhaldi og ætti vonandi að vera ástæðulaust að hylja andlit sín.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 02:25

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sé nú reyndar núna að ég líki ástandinu sem var hér og í Austur-Þýskalandi með orðunum "að þessu leyti" og hélt að það hefði átt að nægja.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband