Tilefni til uppstokkunar á orkuvinnslunni.

Þegar ég vann að umræðuþætti um Kröfluvirkjun 1978 komst ég að því að þær aðferðir, sem Guðmundur Pálmason hafði lagt til að hafðar væru við að nýta háhitasvæði, höfðu verið settar til hliðar og vaðið áfram í orkuvinnslunni á Kröfusvæðinu í trássi við þær. Það var hið raunverulega Kröfluhneyksli en féll í skuggan af meintu hneyksli í samskiptum við Mitsubishi sem aldrei var sannað neitt misjafnt um.

Á þessum tíma var vaðið áfram á ofurhraða í virkjun Kröflu vegna áherslu þingmannanna fyrir norðan á að alls ekki mætti fá þangað rafmagn um "hundinn að sunnan" eins og hugsanleg raflína norður var kölluð. Upphaflega höfðu menn ætlað að æða áfram í raforkuöflun nyrðra með ótrúlega stórkarlalegum fyrirætlunum um svonefnda Gljúfurversvirkjun, sem mývetnksir bændir stöðuðu með dínamitsprengingu við Miðkvísl.

Síðustu ár hefur verið vaðið hraðar áfram í virkjun háhitasvæða en nokkru sinni fyrr, þvert ofan í þá stefnu sem Guðmundur Pálmason lagði upp með á sínum tíma og gegn aðvörunum reyndra manna á borð við Jóhannes Zoega, fyrrum hitaveitustjóra í Reykjavík.

Þegar lesin eru verk og ummæli Braga Árnasonar, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar og Gríms Björnssonar blasir við að með núverandi tækni endist jarðvarmninn á Reykjanesskaganum aðeins í um hálfa öld.

Samkvæmt ágiskunum í ritum Braga Árnasonar mætti nýta svæðið frá Nesjavöllum út að Reykjanestá á endurnýjanlegan og sjálfbæran hátt með því að virkja aðeins þriðjung af því afli sem nú á að pumpa upp úr þessum svæðum.

Það mætti gera á á tvo mismunandi vegu: Annars vegar þann að virkja aðeins þriðjung svæðanna í einu, fimmtíu ár í senn, en Bragi giskar á að það taki 2x50 ár, eða öld fyrir svæðin að jafna sig eftir oftöku á borð við þá sem nú er.
Hins vegar mætti hugsa sér að taka aðeins þriðjung þeirrar orku sem nú er pumpað upp úr svæðunum þannig að geti öll verið í stöðugum rekstri á sjálfbæran hátt til framtíðar.

Í stað risaálvers ætti núað staldra við og fá í staðinn fyrirtæki sem nota miklu minni orku með engri mengun og betur launuðum störfum.

Oftökustefnan í virkjununum er af sama toga og ofvöxtur bankakerfisins var á sínum tíma, byggð á skammtímagræðgi og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum. Áframhald á sömu braut lyga um endurnýjanlega orku er ekki bara skammarleg fyrir þjóðina heldur mun hún koma okkur í koll fyrr eða síðar. Nú er lag til að standa að þessu eins og menn.


mbl.is Álver í Helguvík í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband