Hvað um útlendinga?

DSCF3065DSCF3067DSCF3069

(Ath: Hægt er að njóta myndanna betur með því að tvísmella á þær) 

Árum saman liðu útflutningsatvinnuvegirnir fyrir allt of hátt skráð gengi krónunnar.

Þegar ég flutti á sínum tíma fréttir af því að til Lapplands kæmu fleiri ferðamenn bara á veturna en allt árið til Íslands.

Ég sýndi af því myndir en menn ypptu bara öxlum og sögðu að Ísland væri ekki samkeppnisfært þótt hingað væri styttra fá fjölmennustu ríkjum Evrópu en til Lapplands.

Nú snaraukast ferðir Íslendinga um eigið land og er þó kreppa. En hvað um útlendinga þegar krónan hefur lækkað um helming?

Myndirnar með þessu bloggi voru teknar í hinu síðasta af fjórum kvikmyndatökuferðalögum mínum nú í apríl til Mývatnssveitar og svæðisins norður af því sem gera á að virkjunarsvæði. 

Við Friðþjófur Helgason fórum frá Leirhnjúki norður í Gjástykki á yfirbyggðum vélsleða í eigu Stefáns Gunnarssonar, skoðuðum gíga úr Kröflueldum 1975-84 og tókum myndir fyrir heimildarkvikmyndina "Sköpun jarðar og ferðir til mars" sem ég er að vinna að. 

Síðan fórum við norður að Þeystareykjum og gígnum Stóra-Víti á 36 ára gömlum jöklajeppaskrjóði með dísilvél í fylgd palljeppa í eigu Kristjáns Kristjánssonar sendibílstjóra í Reykjavík, sem Helgi Friðþjófsson ók.

Þær myndir eru neðar á síðunni.  

Í góðu veðri ríkir öræfakyrrð á svona slóðum en það er liðin tíð, í bili að minnsta kosti,  því dynurinn frá borholunum við Þeystareyki glymur um allt þetta stóra svæði og heyrist greinilega í 15 kílómetra fjarlægð.

Í Rovaniemi í Lapplandi má sjá hundruð vélsleða sem ferðafólk fær að nota til að fá þann draum uppfylltan að þeysa á um slétta snjóbreiðu á flötu landi í svartasta skammdeginu eftir langt flugferðalag sunnan úr Evrópu.

DSCF3066

Fólkið lætur hvorki fimbulfrost, rökkur né snjókomu á sig fá, - margt af því er komið langt sunnan frá Miðjarðarhafi til að upplifa þetta fernt þegar það hefur komist á leiðarenda og drepið á sleðunum: Kulda, þögn, myrkur, ósnortna náttúru.   

Hið tilbreytingarsnauða vetrarmhverfi í Lapplandi stenst engan samjöfnuð við hið ótrúlega eldfjallalandslag á hálendinu norður af Mývatnssveit með nýmynduðum hraunum, gígum og gjám og sjóðheitum náttúrulegum hverasvæðum inni í miðri ísauðninni.

Á myndinni af Stóra-Víti, þar sem sjá má slóðir vélsleða niðri í hluta þessa gígs, stendur Friðþjófur efst uppi á brúnni andspænis en er eins og lítið sandkorn á myndinni, sést ekki nema myndin sé stækkuð með því að tvísmella á hana.  

Svo virðist sem menn sjái ekkert annað en álver hér á landi og maður heyrir setningar eins og. "Álver er forsenda fyrir jarðgöngum".

"Álver er forsenda byggðar, annars fer hér allt á vonarvöl" "

Þú og þínir líkar eruð andstæðingar byggðar og atvinnu á landsbyggðinni."

DSCF3085

"Það er stundum lítill snjór í Mývatnssveit."

Litlu virðist skipta þótt ég bendi á að yfirleitt sé snjóþekja á hálendinu fyrir norðan sveitina þar sem tekin var upp kvikmynd í slíku umhverfi fyrir nokkrum árum og flugvél lent þar á hjarni.

Heldur ekki þótt ég minnist á að lágt gengi krónunnar skapi tafarlausa möguleika í ferðaþjónustu. 

Ég reyni að vísu að forðast umræður um þessi mál á ferðum mínum og passa mig að minnast ekki orði á neitt annað en það sem gleður okkur öll. Ekki veitir af að vera jákvæður.

Ég má bara ekki vera jákvæður um aðra möguleika en álver. 

Það er óvinsælt að tala um óþægilega hluti, einkum fyrir mann sem er að verða stimplaður "óvinur Norðausturlands númer eitt" á svipaðan hátt og gert er á Austurlandi og stefniir í að gert verði á sunnanverðum Vestfjörðum.

DSCF3080

Umhverfið við Þeystareyki hefur breyst mikið. Þar hefur myndast vatn sem fer stækkandi og af einhverjum ástæðum töldu menn nauðsynlegt að bora nánast alveg ofan í fallegasta gróna hverasvæðinu. 

Innsti kjarni Þeystareykjasvæðisins er ekkert ólíkur hverasvæðunum í Yellowstone í Bandaríkjunum, sem eru á grónu landi.

En samt er munurinn gríðarmikill. Það er vegna þess að í næsta umhverfi Þeystareykja eru hraun og gjár sem mynda með hinu gróna svæði einstaka landslagsheild sem tekur umhverfiu hveranna í hinu friðaða svæði Yellowstone langt fram að fjölbreytileika. 

Nýlega hefur hinn eldvirki hluti Íslands verið útnefndur sem eitt af hundrað undrum veraldar, raunar eitt af um 40 náttúrgerðum undrum og eitt af sjö náttúruundrum Evrópu.

DSCF3091

Yellowstone, frægasti og elsti þjóðgarður heims með öllum sínum óbeisluðu hverum og vatnsföllum komst þar ekki á blað. Verður samt friðaður um aldur og ævi og orkan í staðinn sótt til merkari svæða á Íslandi.  

Þeystareykir eru hluti af stærsta, magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði í heimi og hafa þá sérstöðu meðal háhitasvæða þess að þar er gróið land. Eins og einn liturinn í regnboga þessa fjölbreytta svæðis.

Þeystareykir eru hliðstæða við hálsinn á Monu Lisu. Sá háls er ekkert öðruvísi eða merkilegri, skoðaður einn og sér, en hver annar háls á málverkum af konum.

Hann hefur hins vegar þá sérstöðu að vera hluti af Monu Lisu og það gerbreytir málinu. Enginn skyldi dirfast að snerta við honum.   


mbl.is Fólk flykkist í ferðalög innanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Makalaus ei Mona Lisa,
merkilegri Þeistareykir,
Lisa er bara lævís skvísa,
og líflegri er Pottasleikir.

Þorsteinn Briem, 29.4.2009 kl. 12:50

2 identicon

Góður Steini eins og alltaf

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband