Vorferð á Vatnajökul - 1.

Undanfarnir fimm dagar hafa farið í það hjá mér að taka þátt í árlegri vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul og taka kvikmyndir. Efsta myndin á síðunni er tekin út um hliðarglugga á leiðinni inn í Jökulheima síðastliðið föstudagskvöld en þangað var farið það kvöld og gist þar.

Eyðilegt en heillandi landslag svartra sanda, hrauna, vatna og fjalla í dulúðugu hálfrökkri kvöldsins. Bendi á að hægt að láta myndir í síðunni fylla upp í skjáinn og njóta sín betur með því að smella á þær í tveimur áföngum. 

DSCF5254

Næstu myndir fyrir neðan eru teknar í Jökulheimum og síðan koma myndir af leiðangrinum á jökulsporði og af hluta leiðangursmanna, sem voru 25 og verða alls 29 þótt ekki verði allir alla vikuna sem ferðin stendur. Nokkrir koma inn í leiðangurinn og aðrir fara úr honum áður en honum lýkur.  

Ég hef farið eina svona vorferð áður, vorið 2005 í kjölfarið á gosinu í Grímsvötnum 2004. Ég fór eina ferð á eigin vegum í kjölfar gossins 1998 til myndatöku.

Breytingarnar í vötnunum eru svo hraðar og miklar að hver vorferð færir leiðangursmönnum nýja upplifun.

Farið var á níu bílum, einum snjóbíl og níu vélsleðum.  

DSCF5259

Ferð mín nú var í tilefni af því að í vísindalegri úttekt á Discovery channel voru valin tíu merkilegustu eldfjöll heims og þeim raðað í mikilvægisröð.

Tvö af efstu átta eldfjöllunum á listanum eru ekki eldfjöll sem sjást svo greiðlega. Önnur þeirra er eldstöð í Síberíu sem hafði gríðarleg áhrif á allt líf á jörðinni fyrir milljónum ára, en hitt er neðansjávareldfjall.

Grímsvötn er hið sjötta í röð hinna sjáanlegu eldfjalla og þess má geta að á þennan lista komast ekki eldfjöll á borð við Vesúvísus, Etnu, Fuji, Kilimanjaro, Heklu eða Snæfellsjökull. Kem nánar að því síðar af hverju Grímsvötn eru svona merkileg. 

Sjónvarpið hefur falið mér að gera nýja útgáfu af þætti um Gjálpargosið og Skeiðarárhlaupið 1996 þar sem sagan af umbrotum í Vatnajökli verður rakin til dagsins í dag. Þess vegna var þessi för nauðsynleg til að klára það dæmi, - öllu öðru hef ég fylgst með og tekið myndir af og gert fréttir og þætti um þessi ár.

DSCF5264

Á leiðinni upp eftir tafði krapi för og þurftu menn þá þegar að byrja að basla og aðstoða hverjir aðra.

Ég var á minnsta jöklajeppa landsins, Suzuki Fox árgerð 1986, en krap af þessu tagi á illa við hann og þurfti að grípa til dráttartaugar honum til hjálpar versta kaflann.

Þegar ofar kom var dimmt og blint á köflum og eftir því sem kólnaði á leið úr 700 metra hæð upp í 1700 metra hæð fór snjórinn að henta Súkkunni æ betur þannig að tvívegis var hún notuð til að draga stóran jeppa úr festu.

Á mynd sést dráttur tveggja samferðamanna minna. 

Það er höfuðatriði að vera helst ekki einn á ferð í óbyggðum og í svona leiðangri hjálpast allir að.  

DSCF5272

Við sjáum hér um helming leiðangursmanna á mynd, sem tekin er á jökulsporðinum. 

Leiðangursstjórinn, Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, er fimmti í röðinni talið frá hægri.

Í lokin komust allir í skálann á Grímsfjalli.

Þar var allt á kafi í snjó og þurfti að byrja að moka snjó og gera það fyrstu dagana í áföngum.

Nóg að gera við að koma öllu fyrir og gera klárt fyrir morgundaginn.  

 

DSCF5274DSCF5276Einstaka sinnum birti örlítið upp og efri hluti Grímsvatna, sem blasa við í vestri frá skálunum, sáust að hluta til eins og nokkurs konar "teaser" á það sem koma skyldi.

Um kvöldið fundu flestir sem voru í skálanum skjálftann, sem ég er búinn að blogga um áður.

Áttu nú við síðustu erindin úr laginu "Glöð við förum á fjöll öll" sem kyrjað var í þessari ferð með viðlaginu:

 

Glöð við förum á fjöll öll. 

Glöð við förum á fjöll.

Á fjöllum erum við snjöll öll.

Glöð við förum á fjöll.  

 

Kræktu tógi í krók, blók !

Kræktu tógi í krók !

Vertu´ekki´að fá þér smók, blók !

Kræktu tógi í krók !  

 

Öll saman nú: ! 

Glöð við förum á fjöll öll...o. s. frv. 

 

Þreytt í skálann fólk dró þó.

Þreytt í skálann fólk dró.

Hver sveinn um elskuna bjó þó.

Þreytt í skálann fólk dró.  

 

 Öll saman nú: !  

Glöð við förum á fjöll öll .... o. s. frv. 

DSCF5277
DSCF5278
 
Dreginn margur og ýtt frítt,
dreginn margur og ýtt.
Dráttaraflið vel nýtt frítt.
Dreginn margur og ýtt.
 
 
Öll saman nú! :  
 
Glöð við förum á fjöll öll...o. s. frv. 
 
 
Dreymir alla nú drátt brátt.
Dreymir alla nú drátt.
Í drætti nýja fá mátt brátt.
Dreymir alla nú drátt.
 
 
Öll saman nú !: 
 
Glöð við förum á fjöll öll,
glöð við förum á fjöll.
Á fjöllum erum við snjöll öll.
Glöð við förum á fjöll.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg frásögn. :)

Þú værir þó ekki til í að segja örstutt frá því hvernig umhverfið þarna hefur breystí vötnunum síðan þú sást þetta seinast (og aðrir)? Eða er kannski of erfitt að lýsa slíku?

Ari (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 00:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það kemur í pistli númer þrjú um ferðina niður í Grímsvötn.

Ómar Ragnarsson, 4.6.2009 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband