Gef oss í dag vort daglega álver...

Það má alveg orða síbyljubænina um stanslausar virkjanaframkvæmdir og álver á ofangreindan hátt því nær daglega hljómar söngurinn um að allt fari til fjandans nema þetta sé gert sem hraðast og örast. 

Þegar þetta er endurtekið svona ótal sinnum dögum, mánuðum, árum og áratugum saman er það eins og að skvetta vatni á gæs að reyna að beita rökum, sem enn hafa ekki verið hrakin, gegn þessari stefnu. 

Söngurinn um virkjanirnar og álverin er bara hækkaður og sunginn oftar eins og sést einu sinni enn á fréttinni um að allt sé í uppnámi vegna Suðvesturlínu. 

Nú síðast í fyrradag í Silfri Egils var alveg sama hvaða rökum ég gat komið inn á ská á milli þess sem sessunautur minn söng sinn daglega söng um virkjanir og álver, - þau bitu þau ekki vitund á hann.

Ég hefði alveg eins getað þagað hvað hann snerti. 

Hann svaraði þeim ekki, enda gat hann ekki hrakið það sem ég sagði um að sex risaálver sem tækju alla orku landsins og rústuðu einstæðri náttúru þess gæfu aðeins 2% af vinnuaflinu atvinnu og í mesta lagi 8% ef við margföldum með fjórum vegna svonefndra afleiddra starfa.

Nei, hann byrjaði aftur á því sama: Já, en það verða koma virkjana- og álversframkvæmdir strax.

Ekki beit það heldur þegar honum var bent á að séu sköpuð x þúsund störf við skammvinnar framkvæmdir verða sömu x þúsund manns atvinnulausar þegar framkvæmdunum lýkur. Þarna væri um algera skammsýni að ræða, ekkert horft fram á við né tillit tekið til komandi kynslóða.

"Að sjálfsögðu tökum við tillit til komandi kynslóða" sagði Guðbjörn og hélt síðan áfram sama söngnum eins og ekkert hefði í skorist. Greinilega þjálfaður söngmaður sem kann óperuhlutverk sín af lærðri þýskri nákvæmni og víkur ekki frá þeim.  

Þegar þetta hafði gengið tvisvar eða þrisvar sinnum kom söngurinn um að ég væri einn af þessum öfgamönnum sem værum á móti gagnaverum, þjónustu á Keflavíkurflugvelli, kísilverksmiðju, uppsetningu heilbrigisþjónustu og ég veit ekki hverju.

Ég reyndi að koma því inn á ská að ég væri ekki og hefði aldrei verið á móti neinu af þessu en það haggaði honum ekki. Ég var samt öfgamaður að hans áliti og Ólöf Nordal tók undir sönginn um öfgarnar.

Það gafst ekkert ráðrúm til að svara því til að svonefndar öfgar fælust í því að vilja þyrma einu horninu af Hellisheiði og hætta að pumpa svo mikilli orku upp að svæðið entist ekki nema í nokkra áratugi og þar með væri gengið á rétt komandi kynslóða.

Sessunautur minn var skemmtilegur og hress, það má hann eiga, og það var fjör.

Ekki hvað síst þegar hann lýsti því hve slæmir Vinstri grænir væru vegna klofnings en hældi síðan í næsta orði Sjálfstæðisflokknum fyrir að vera þverklofinn í ESB-málinu og margklofinn í sumum málum !

Þegar Alcoa kom til sögunnar á Austurlandi á sínum tíma lýsti talsmaður þeirra yfir því að samningar og undirbúningur á Íslandi gengi sjö sinnum hraðar fyrir sig en í öðrum löndum.

Eitt af mörgum dæmum um það var að mikilvægum undirbúningsatriðum, svo sem tilraunaborunum á misgengissvæðum var sleppt undir kjörorði fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar: "Við ætluðum í gegn þar hvort eð var." 

Þeir voru lánsamir að sleppa með skrekkinn. 

Nú eru umhverfisráðherrar sakaður um skemmdarverk á Norðausturlandi og Suðvesturlandi þegar þeir viðhafa þá sjálfsögðu verkreglu að skoða stórframkvæmdir í heild en ekki í bútum jafnóðum og þær fara fram.

Í staðinn að kenna þeim um ætti að leita orsakanna hjá þeim sem vilja keyra allt áfram af fullu ábyrgðarleysi á ofurhraða, sem ætla í gegn hvort eð er, hvernig sem allt veltist.  

 

 


mbl.is Sáttmálinn í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Má ég spyrja þig einnar spurningar svona í hreinskilni? Við Íslendingar tölum sífellt um að við eigum svo mikið af auðlindum. Nú ætla ég að vera bara heimsk á meðan ég spyr hverjar eru þessar auðlindir okkar og hvað eigum við að gera við þær þannig að þær gagnist okkur? Þar sem nú eru erfiðir tímar framundan, hvernig getum við skapað okkur pening út úr þessum auðlindum? Því það hlýtur að vera keppikefli fyrir okkur að efla þjóðarframleiðsluna þar sem við erum að taka á okkur þessa Iceslavereikninga.
Það er ekki nóg að eiga auðlindir bara til að horfa á þær.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 20.10.2009 kl. 01:46

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þegar Alcoa kom til sögunnar á Austurlandi á sínum tíma lýsti talsmaður þeirra yfir því að samningar og undirbúningur á Íslandi gengi sjö sinnum hraðar fyrir sig en í öðrum löndum. "

Þetta er auðvitað framsett eins og þér er einum lagið.

Ástæðan fyrir því að samningar og undirbúningur gekk hratt fyrir sig vegna Alcoa var vegna þess að málið hafði þegar verið í undirbúningi í langan tíma. Þegar Norsk Hydro hætti við, var nánast allt klappað og klárt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 02:08

3 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Sæll Ómar.

Komdu okkur á rétta braut og komdu með nafn á atvinnu sem margir segja að heitir"eitthvað annað"

Allir skynsamir menn vita að landið þarf að framleiða eitthvað til að geta selt og fá fyrir það gjaldeyrir.  Um þessar mundir er það varhugarvert að fæla alla erlenda fjárfesta burt frá áhuga þeirra að vilja hjálpa okkur að byggja upp landið.

Kannski endar þetta á þann hátt ef afturhaldsinnar verða lengi við völd að landið byggist á 60.000 manna hræðum sem munu lifa á sjálfþurftar búskap.

Það er mín skoðun að við verðum að varast það að tala erlenda fjárfestingu niður.  Landið okkar þolir það ekki og verðum við að nýta auðlyndir okkar hratt upp þannig að ég og fleiri gerumst ekki fátækir flóttamenn í öðrum löndum.

Skoðaðu málið Ómar og komdu með lausnina hvernig Ísland á að rísa upp um ókmna framtíð með alla þessa skuldaklafa í eftirdrægi.

Árelíus Örn Þórðarson, 20.10.2009 kl. 02:53

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar steytir Guðbjörn görn,
gamla hræðir sem og börn,
austur-þýskri var í vörn,
vindhögg mörg í þeirri törn.

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 02:59

5 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

"...allt sé í uppnámi vegna Suðvesturlínu..."

Þetta eru orða að sönnu. Það er ekki bara álver heldur gagnaver og margt fleira sem þarf á línunni að halda. Geðþóttaákvörðun til að bregða fæti fyrir þá framkvæmd er ekki hægt að kalla annað en efnahagsleg hryðjuverk.

Eina rökrétta baráttuaðferð Suðurnesjamanna væri að loka Keflavíkurflugvelli á meðan umhverfisáhrif hans væru könnuð. Ef menn vilja endilega kanna heildaráhrif á að sjálfsögðu ekki að undanskilja Keflavíkurflugvöll og uppbyggingu þar.

Einn lærdómur sem við getum dregið af efnahagshruninu er sá að við slíkar aðstæður stendur stóriðjan uppi sem klettur sem heldur áfram að skapa verðmæti og störf.

Indriði Þorláksson skrifaði nýlega að framlag stóriðju til atvinnusköpunar væri ekkert, störfin yrðu bara til annarsstaðar. Mér finnst þetta lýsa yfirgripsmiklu skilningsleysi á atvinnustarfsemi utan ríkisgeirans.

Talað er um að atvinnuaukning vegna virkjana- stóriðjuframkvæmda sé að stórum hluta tímabundin. Fyrir fólk sem er að velta því fyrir sér hvernig komist verði í gegnum næstu 2-3 ár á meðan kreppan er sem verst er þetta einmitt það sem vantar núna. Á meðan gefst tækifæri til að huga að nýsköpun til lengri tíma.

Ég bjó á Suðurnesjum í 20 ár. Svæðið hefur ýmsa kosti. Náttúrufegurð er þó ekki einn af þeim. Þetta er með ljótustu landsvæðum sem hægt er að finna á Íslandi fyrir utan nokkrar undantekningar, helst sunnan til. Ef Helguvík og línustæðið eru orðnar að einhverjum náttúruperlum sem þarf að rannsaka í mörg ár vegna náttúruverndargildis þarf ekkert að eyða meiri tíma í að rannsaka restina af landinu. Hún hlýtur öll að vera ein óbætanleg náttúruperla sem ekkert má hrófla við.

Ég þekki ekki til á Bakka. En ef heimamenn telja það í lagi að nota svæðið undir stóriðju hvers vegna í ósköpunum á þá ekki að leyfa þeim það. Er það ekki endanleg staðfesting á hroka og yfirgangi þéttbýlisbúa gegn landsbyggðinni að reyna að bregða fæti fyrir þá framkvæmd.

Er vitað um einhverja sem eru að berjast fyrir 6 risaálverum? Þetta er þekkt baráttuaðferð pólitíkusa að gera andstæðingum upp skoðanir og berjast af hörku gegn þeim. Ómar er greinilega fljótur að læra.

Rætt var um komandi kynslóðir. Nýtanleg vatnsorka sem rennur til óbeisluð til sjávar eða endurnýjanleg jarðvarmaorka sem ekki er nýtt, er endanlega töpuð. Hún skapar ekki verðmæti sem komandi kynslóðir geta nýtt sér.

Finnur Hrafn Jónsson, 20.10.2009 kl. 03:08

6 identicon

Ég er almennt fylgjandi nýtingu þeirrar orku sem hagkvæmt er að virkja innan skynsamlegra marka. En af hverju er verið að gefa alla þessa afslætti fyrir álver, af hverju eru allar þessar sérlausnir, af hverju á ríkið og sveitarfélög að leggja svona mikið undir. Í dag er sagt frá því í fjölmiðlum að Árni Sigfússon heimti að ríkið komi að stækkun hafnar í Helguvík þó svo að samkvæmt lögum hafi ríkið ekkert með þá framkvæmd að gera. Landsnet á að ráðast í línulagnir þvers og kruss um allt Reykjanesið fyrir álverið og lífeyrissjóðir eiga að fjármagna virkjanir og hinar ýmsu framkvæmdir þessu tengt. Eftir að hafa lesið fjárfestingarsamninginn milli ríkisins og Century Aluminum þá renna á mann tvær grímur. Hér fyrir neðan útdráttur úr þessum samning. Takið eftir öllum undanþágunum frá sköttum og reglum, svo veit enginn hvað álverið á að borga fyrir raforkuna!

"Félagið skal undanþegið ákvæðum  um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
Félagið skal undanþegið ákvæðum laga um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum. Ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands, skulu ekki eiga við um félagið.Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
 Þrátt fyrir breytingar sem síðar kunna að verða á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félagið greiða 15% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en skal þó aldrei vera hærra en 15%.
 Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.   
 Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993
 Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
 Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við byggingu og rekstur álversins. Öll skjöl sem lúta að endurfjármögnun, svo og hlutabréf í félaginu, skulu undanþegin stimpilgjöldum og hvers kyns sams konar eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum er kunna síðar að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
Eftir undirritun fjárfestingarsamningsins skal félagið undanþegið breytingum, sem kunna að verða á ákvæðum laga um tekjuskatt, varðandi frádrátt vaxtakostnaðar, að teknu tilliti til meginreglna OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu.
 Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, sem og skatta eða gjalda sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kunna að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir fasteignaskatt, skal félagið greiða Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af álagningarstofni sem er 6.839.000.000 kr. vegna fyrsta áfanga álversins sem miðast við allt að 90.000 tonna grunnframleiðslugetu af áli á ári. Vegna annars áfanga bætast 3.943.000.000 kr. við álagningarstofninn, vegna þriðja áfanga 4.135.000.000 kr. og vegna fjórða áfanga 4.670.000.000 kr., en hver framangreindra áfanga miðast við viðbótargrunnframleiðslugetu allt að 90.000 tonna ársframleiðslu. Miðað er við byggingarvísitölu desember 2008 (478,8 stig). Fasteignaskattur skal lagður á og innheimtur fyrir sérhvert ár á grundvelli álagningarstofnsins svo sem hann er framreiknaður samkvæmt byggingarvísitölu desembermánaðar næstliðins árs. Hann skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir gangsetningu hvers áfanga fyrir sig.
Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð til Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að:
   a. ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta, sem tengjast losun lofttegundanna CO2 og SO2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
   b. ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slík gjöld eða skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þar með talin álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
   c. ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverið og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, sem og sams konar sköttum eða gjöldum er kunna síðar að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir framangreind gjöld. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álversins."

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 07:36

7 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þörf lesning þetta, Jóhann. Það virðast engin takmörk fyrir því  hvað mulið er undir þessi stóriðjufyrirtæki. Alls konar undanþágur og fríðindi, sem öðrum atvinnufyrirtækjum stendur ekki til boða. Staðreyndin er sú, að nettó eru þessi fyrirtæki ekki að leggja mikið til íslenska þjóðarbúsins og er þá ekki tekið inn í dæmið allt raskið og umhverfisspjöllin sem þeim fylgir.

Þórir Kjartansson, 20.10.2009 kl. 07:59

8 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég horfði á ykkur tollvörðinn í silfrinu á sunnudaginn. Ég vorkenndi báðum. Tollverðinum fyrir að vera ómögulegt að horfa lengra en yfir túngarðinn heima hjá sér og þér fyrir að þurfa að reyna að troða skynsamlegum rökum inní hausinn á honum. Það er alveg vonlaust verk.

Sigurður Sveinsson, 20.10.2009 kl. 08:34

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gef þeim 14.000 Íslendingum, sem eru svo ógæfusamir að vera atvinnulausir, vel launuð og örugg störf, svo þeir geti framfleytt sér og sínum og til þess að þeir verði ekki tilneyddir til að yfirgefa heimkynni sín í leit að lifibrauði erlendis.

Gef oss Suðurnesjamönnum 1.600 störf í gagnaveri, einkasjúkrahúsi, kísilverksmiðju, viðgerðarþjónustu fyrir herflugvélar, í ferðaþjónustu og við tónlistariðkun og síðast en ekki síst í álveri!

Gef oss atvinnugreinar sem skapa ríkissjóði nægilegar tekjur til að halda hér uppi öflugri velferðarþjónustu fyrir öryrkja og aldraða og aðra, sem minna mega sín og öflugu heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla og öflugu menntakerfi fyrir æsku landsins.

AMEN

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.10.2009 kl. 09:03

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rök hafa verið færð fyrir því að ekki verði til nægilegt rafmagn, 630 MW, fyrir 360 þúsund tonna álver í Helguvík OG þeirrar starfsemi sem margir vilja fá á Suðurnesjum, til dæmis kísilverksmiðju í Helguvík og gagnaver Verne Holding á Ásbrú, sem þurfa samtals 110 MW raforku eftir nokkur ár.

Hinar miklu orkulindir Íslands - Getum við virkjað endalaust?

26.02.2008
: "Orkusamningur Verne við Landsvirkjun gerir ráð fyrir skuldbindingu félagsins til að kaupa raforku í stighækkandi magni upp að 25 MW árið 2012. Það er um fimmtungur af því sem Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notar. Jafnframt hefur Verne rétt til að panta allt að 25 MW í viðbót sem Landsvirkjun afgreiðir innan tiltekinna tímamarka.

Viðskiptavinir Verne sjá sér hag í að hafa aðgang að endurnýjanlegri orku á stöðugu verðlagi til langs tíma. Orkuskortur er nú á þéttbýlissvæðum beggja vegna Atlantshafsins og orkuverð bæði hátt og sveiflukennt. Þá er sú orka yfirleitt framleidd með kolefniseldsneyti, meðan mörg stórfyrirtæki hafa sett sér markmið um koltvísýringsjöfnun í starfsemi sinni."


Um 20 milljarða króna gagnaver rís á Keflavíkurflugvelli


13.10.2008:
"Allt að 200 störf gætu skapast á Keflavíkurflugvelli, gangi fyrirætlanir hollensks fyrirtækis eftir, um að byggja upp aðstöðu þar fyrir útleigu á orrustuþotum frá Hvíta Rússlandi. […]

Rætt er um að fjárfestingin verði um fjórir og hálfur milljarður króna og talsmaður fyrirtækisins segir að framkvæmdir við endurbætur á flugskýlum gætu hafist innan nokkurra vikna gangi allt eftir."


Orrustuþotur í íslenska flugflotann


7.10.2008: "Skipulagsstofnun hefur gefið út þann úrskurð að kísilverksmiðja Icelandic Silicon Corporation í Helguvík muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið. [...] Gert er ráð fyrir 30 MW orku í hvorn ofn verksmiðjunnar.  Miðað við að orkan fáist er áætlað að gangsetja fyrsta þrep árið 2010 og full afkost náist 2012."

Kísilverksmiðja í Helguvík fær jákvætt mat


18.9.2009
: "Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar,
Kadeco, hefur það hlutverk að leiða umbreytingu og þróun fyrrum varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli, sem heitir í dag Ásbrú, til borgaralegra nota. Í tengslum við megin stefnumörkun félagsins er ráðgert að byggja upp á svæðinu tæknigarða sem leggja áherslu á græna orku."

16.9.2009: "Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Health ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu (e. Term Sheet) um að aðilar muni sameiginlega byggja upp heilsutengda starfsemi í sjúkrahúsi Kadeco á Ásbrú í Reykjanesbæ, auk samnings um nýtingu á íbúðareignum."

18.9.2009: "Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur leigt fyrirtækinu Atlantic Studios byggingu 501 við Grænásbraut á Ásbrú undir kvikmyndaver. Veik staða íslensku krónunnar getur komið sér vel fyrir erlenda framleiðendur kvikmynda sem sjá fjölmörg tækifæri til kvikmyndagerðar á Íslandi.

Þá hefur iðnaðarráðuneytið stutt vel við bakið á innflutningi kvikmyndatökuverkefna með endurgreiðslu á sköttum en 20% af framleiðslukostnaði sem fellur til á Íslandi er endurgreiddur.


Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.


Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs
var stofnaður vorið 2007. Skólinn hefur aðsetur á Ásbrú. Keilir byggist upp á fjórum mismunandi skólum auk Háskólabrúar þar sem undirbúningsnám fyrir háskólanám fer fram. Skólarnir eru Heilsu- og uppeldisskóli, Orku- og tækniskóli, Samgöngu- og öryggisskóli og Skóli skapandi greina."

Stúdentaíbúðir á Ásbrú

Ásbrú- Wikipedia

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 09:19

11 Smámynd: Karl Ingólfsson

Merkilegur grátkór Suðurnesjamanna.

Suðurnesjamenn ætla ekki að byggja álver (það eru e-h aðrir)

Suðrunesjamenn ætla ríkinu að leggja fé í álvershöfn

Suðurnesjamenn ætla ekki að leggja raflínur til Helguvíkur (það eru e-h aðrir)

Og Suðurnesjamenn  hafa selt hluti sína í HS svo þeir þurfi ekki að stunda orkuvinnsluna sjálfir svo orkuvinnslan lendir líka á þessum e-h öðrum.

Svo grenja grátkór Suðurnesjamanna yfir því að þessir "einhverjir aðrir" vilji skoða raflínur og orkuvinnslu af skynsamlegu viti.

Í dag er ástandið í raforkuflutningum á Suðurnesjum þannig að flutt eru á annað hundrað MW út af svæðinu þar sem orkuvinnsla í í Svartsengi og á Reykjanesi er langt umfram notkun í nærsveitum. Það er því hægt að fara á stað með 90 þúsund tonna álver í Helguvík án byggingu nýrrar raflínu. Það er hinsvegar nauðsynlegt að byggja nýja virkjun t.d. á Hellisheiði til að losa um raforkuna sem flutt er burt af Suðurnesjum í dag og nota núverandi línu til að flytja e-h tugi MW  til Helguvíkur í stað þess að flytja orku út af Suðurnesjum.

Það er í raun ekki hægt að kalla það annað en skort á verksviti að reisa álver í Helguvík.  Það er 10+  miljarða aukakostnaður við að að flytja raforkuna út á þennan útnára í stað þess að stækka álverin í Straumsvík og Grundartanga eða byggja nýtt álver í Þorlákshöfn sem liggur mun betur við virkjunum og flutningsneti.

Þeir Suðurnesjamenn sem gráta upplýsta ákvarðanatöku um Suðurnesjalínu virðast algerlega fákunnandi um raforkunotkun, raforkuflutninga og raforkuvinnslu.

Ég vil einnig benda á að það er til skammar fyrir Iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun að ekki sé tilbúin opinber skýrsla um mögulega orkugetu þeirra svæða sem nefnd hafa verið sem orkugjafar fyrir risaálver í Helguvík.

Það má rökæða um stefnu í orkumálum en staðreyndir eiga að vera öllum tiltækar (með þeirri óvissu sem alltaf verður um "ópnuð" jarðhitakerfi)

Karl Ingólfsson, 20.10.2009 kl. 09:23

12 Smámynd: Karl Ingólfsson

í neðstu línu hér að ofan á að standa "óopnuð"

Karl Ingólfsson, 20.10.2009 kl. 09:28

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.4.2008: "Þann 2. apríl sl. var skrifað undir viljayfirlýsingu í Hollandi milli Greenstone ehf. og LV [Landsvirkjunar] um sölu á raforku til netþjónabúa.

Helstu ákvæði viljayfirlýsingarinnar milli Greenstone og LV eru að fyrirtækin hyggjast ganga frá samningi um sölu á 50 MW af rafmagni sem ætlunin er að fari til tveggja búa sem taka um 25 MW hvort.

Greenstone hefur enn fremur til skoðunar að reisa tvö eða fleiri hátæknivædd netþjónabú til viðbótar hér á landi á næstu 3-5 árum og má áætla að heildarfjárfesting vegna þeirra geti numið allt að 50 milljörðum kr."

Viljayfirlýsing Greenstone og Farice um gagnaflutninga og sveitarfélagsins Ölfuss um netþjónabú í Þorlákshöfn


25.8.2009
: "Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global. [...]

Greenstone ehf. er í eigu íslenskra, bandarískra og hollenskra aðila.
Sveinn [Óskar Sigurðsson, talsmaður Greenstone hérlendis] segir að fyrirtækið hafi byggt yfir 700 byggingar í Bandaríkjunum sem tengist gagnaversiðnaðinum með einum eða öðrum hætti."

Um 120 störf í gagnaveri Greenstone á Blönduósi


Um 20 störf í netþjónabúi Greenstone í Fjallabyggð

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 09:31

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

14.3.2009: "Orkufyrirtækin sáu sér hag í því að fá þessa starfsemi til landsins og lögðu fram tæplega 1,5 milljarða kr. í hlutafé í Farice og ríkið lagði fram tæpar 400 milljónir kr.

Í fjárlögum þessa árs er síðan heimild fyrir ríkið að ábyrgjast 5 milljarða króna lán vegna sæstrengsins og hefur það auðveldað fjármögnun."

Fréttaskýring Morgunblaðsins: Tekjur af sæstrengnum Danice


1.10.2009: Grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings með töflum og korti:

Hinar miklu orkulindir Íslands- Getum við virkjað endalaust?

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 09:34

15 identicon

Ég skil ekki þetta væl á Reykjanesi. Ég bý úti á landi þar sem suðvesturhornið hefur verið að soga lífið úr á síðustu 10-20 árum, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar. Við erum ekki að biðja um álver, nema þá Húsvíkingar. Við erum bara að biðja um réttláta skiptingu á störfum hins opinbera, en ekki flytja allt í hornið. 5-10 störf eru stóriðja þar sem ég bý, en það virðist vera að öll umræða um störf og aukna vinnu liggi í nokkur hundruð manna vinnustöðum. Til framtíðar litið er mun betra að vera með fleiri og minni vinnustaði. Höggið er þá minna ef hlutirnir ganga ekki upp. Ég styð Svandísi heilshugar í hennar afstöðu.

Helgi J (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 09:54

16 identicon

Ómar - ekki gefast upp á að koma fram með rök!  Við erum mörg sem hlustum á þig og tökum mark á þér.  Það gefur mér og öðrum von í vonleysi að til sé fólk einsog þú sem ekki gefst upp.

Gunnar:  Ég er ein af þeim atvinnulausu.  Tek á mig miklar byrðar í tekjulækkun svo ekki sé talað um annan toll.  Ég er EKKI tilbúin að taka líka á mig þær byrðar sem skefjalaus stóriðjustefna mun leggja á samfélagið í nútíð og framtíð.  Vinsamlega talaðu fyrir sjálfan þig framvegis en ekki okkur sem erum atvinnulaus.

Atvinnulaus (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 10:10

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

12.10.2009: "Sveitarfélagið Þingeyjarsveit hefur ritað undir viljayfirlýsingu við Greenstone ehf. um byggingu gagnavers á lóð í sveitarfélaginu.

Þingeyjarsveit mun leggja til lóðina undir gagnaver eða eiga milligöngu um slík og Greenstone muni sjá um kynningu á möguleikum sveitarfélagsins í þessu efni, hönnun og væntanlega byggingu gagnavers, að því er segir í fréttatilkynningu."


Stefnt að gagnaveri í Þingeyjarsveit


Stefnt er að um 120 störfum í gagnaveri Greenstone á Blönduósi en í lok september síðastliðins voru 15 atvinnulausir í Þingeyjarsveit, þar af 7 karlar, og 77 í Norðurþingi, þar af 30 karlar, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.

25.8.2009
: "Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global."

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit - Kort


Sveitarfélagið Norðurþing - Kort

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 10:16

18 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Ómar þú ert hreint frábær.

Birgir Viðar Halldórsson, 20.10.2009 kl. 11:10

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í tvö ár að minnsta kosti stóð yfir ákafur undirbúningur fyrir risaálver í Þorlákshöfn. Á þeim tíma var allt á fullu með að eftirtalin álver væru á Íslandi: 1. Straumsvík. 2. Grundartangi. 3. Reyðarfjörður. 4. Helguvík. 5. Bakki. 6. Þorlákshöfn.

Þorlákshafnarálverið átti að fá rafmagn frá hluta af Reykjanesskaga, Neðri-Þjórsá, Kerlingarfjöllum, Torfajökli, Langasjó, Bjallavirkjun, Norðlingaölduveitu o. s. frv.

Jafnvel þótt Þorlákshafnarálverið sé dregið frá þarf alla orku landsins til að sinna hinum risaálverunum fimm.

Hvers vegna nefni ég þá Þorlákshöfn? Jú, vegna þess að reynslan sýnir að þótt hætt hafi verið við að framkvæmdir í bili á einstökum stöðum, komar þær upp aftur síðar og þá í ljósi þess hve miklum fjármunum hafi verið eytt í undirbúning.

Og fyrir kosningarnar 2007 voru sex risaálver í pípunum.

Einu sinni áttu álverin í Reyðarfirði, Helguvík og á Bakka að vera næstum helmingi minni en síðar varð. Sókn stóriðjunnar í alla orku landsins er takmarkalaus.

Það er sérstaklega alvarlegt hvað snertir það sem gert er á hlut milljóna Íslendinga sem eiga eftir að eiga heima í þessu landi.

Ég ætla að blogga sérstaklega um nýjustu greinina um "ágenga vinnslu" í Morgunblaðinu þar sem kemur fram hjá greinahöfundum að það komi ekki ljós fyrr en eftir nokkur ár hvort viðkomadi vinnslusvæði standi undir vinnslunni til framtíðar.

Þeir komast að þeirri niðurstöðu að vinnslan sé samt "endurnýjanleg" vegna þess að hægt sé að koma henni í jafnvægi MEÐ ÞVÍ AÐ MINNKA HANA.

Einmitt, já. En það verður ekki hægt að minnka álframleiðsluna til samræmis við það og þetta er því forkastanlega óábyrg orkustefna.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2009 kl. 12:27

20 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Áfram með þig Ómar!

Gunnar Skúli Ármannsson, 20.10.2009 kl. 12:28

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Upphaflegu áætlanirnar um álver á Reyðarfirði gerðu ráð fyrir 420 þús tonna álveri. Niðurstaðan er 360 þús. t. álver.

Hvenær gerðu áætlanir ráð fyrir að álverið yrði 180 þús. tonn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 12:48

22 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Jóhann hérna á undan hafði áhyggjur af sérstöku skattahagræði stóriðjufyrirtækja.

Hvað Alcan varðar, var skattahagræðið ekki meira en svo að þeir sóttust eftir því að vera skattlagðir samkvæmt almennum skattareglum og fengu síðan árið 2007 sbr. eftirfarandi lög frá Alþingi: http://www.althingi.is/altext/stjt/2007.112.html

Þar fyrir utan er ekki óeðlilegt að einhverja sérsamninga þurfi um skattaumhverfi þegar um alþjóðleg fyrirtæki er að ræða en almennar íslenskar skattareglur eru að sjálfsögðu mest sniðnar að þörfum íslenskra fyrirtækja.

Hvenær ætla umhverfisverndarsinnar að losna úr þessum 2007 hugsunarhætti að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af verðmætasköpun og atvinnu. Aðstæður eru breyttar núna og við höfum ekki efni á því að slá hendinni á móti miljarðatuga innstreymi á fjárfestingu inn í landið til framleiðslu á raunverðmætum.

Finnur Hrafn Jónsson, 20.10.2009 kl. 13:43

23 identicon

Fjöldi þjóða lifa góðu lífi án auðlinda. Danir, Hollendingar, Belgar, Luxemburgbúar ofl.ofl..  Þeir nýta hugvit sitt til að framleiða það sem þarf til að lifa góðu lífi. Ef saga þessara þjóða eftir stríð er skoðuð og borin saman við sögu okkar er óhjákvæmilegt að sjá að auðlindir hafa verið okkur jafnt böl sem blessun. Jafnt og þétt gæti verið einkennissöngur ofannefndra landa meðan okkar söngur er upp og niður, upp og niður og krónan orðin 0.0005 aurar á fimmtíu árum. Það hlýtur að vera kominn tími á að stoppa , hugsa og velja: menntun eða fiskur og ál, annars verður krónan orðin 0.00000025 um miðja þessa öld.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 13:50

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allar götur til 2000 var miðað við 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði. Um það stóð Eyjabakkadeilan meðal annars. Þegar búið var að eyða nógu mörgum milljörðum í undirbúning þess var mönnum allt í einu stillt upp við vegg í mars 2000 með eftirfarandi hótun: Annað hvort verður ekkert álver reist eða 3-4 sinnum stærra.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2009 kl. 14:08

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Framleiðsla á raunverðmætum" felst í fleiru heldur en álframleiðslu sem kostar mesta orkubruðl og langdýrustu störf sem möguleg eru.

Í AMEN-pistli sínum hér á undan nefnir vinur minn Guðbjörn Guðbjörnsson nokka af fjölmörgum möguleikum sem þjóð okkar hefur. Ég minni á mátt menntunarinnar eins og glögglega hefur komið fram hjá fyrirtækjum, sem þrátt fyrir skilningsleysi stjórnvalda og ruðningsáhrif frá stóriðjunni hafa komist á legg, svo sem CCP.

Ef ég hefði nefnt nafnið Reynir Harðarson og skammstöfunina CCP fyrir áratug sem dæmi um "eitthvað annað", hefði ég verið hafður að athlægi.

Nú skapar þetta fyrirtæki gjaldeyri á við laun allra starfsmanna álveranna á Íslandi. Og varan, sem seld er, er líkt og sjávaraflinn, seld af Íslendingum til útlanda, en ekki sem framleiðsla útlends fyrirtækis sem græðir á hráefnissölunni.

Ef stóriðjusinnarnir, sem sjá enga möguleika nema orkufíknina réðu ferðinni í Danmörku ættu líkast færri íbúar heima þar en á Íslandi.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2009 kl. 14:16

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Stóriðjusinnarnir" eru með galopin augun fyrir hverju sem er.

stefan benediktsson, auðlindir Danmerkur, Lúxemborgar, Hollands og Belga eru fólgnar í staðsetningu þeirra. Ef þú dregur einn stóran hring utanum þessi lönd á landakorti, þá hefurðu eitt þéttbýlasta svæði veraldar. Þessi stóri markaður er mikil auðlind fyrir þessar þjóðir og hjá þeim haur þróast í aldanna rás, mikil þekking og mannauður í verslun og þjónustu. Auk þess hafa sum þessara landa notið góðs af nýlendum sínum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 14:46

27 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

.... hefur þróast í aldanna rás...

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.10.2009 kl. 14:47

28 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

"...Ef stóriðjusinnarnir, sem sjá enga möguleika nema orkufíknina..." - enn er verið að gera mönnum upp skoðanir.

Ég þekki ekki til neinna sem eru hlynntir stóriðju sem eru andsnúnir öðrum tegundum af atvinnuuppbyggingu. Uppbygging stóriðju er hins vegar nærtæk og fljótleg aðferð til að styrkja byggð og byggja upp atvinnu. - Án þess að skerða möguleika til annarrar atvinnuuppbyggingar.

Fjárfestar og lánastofnanir eru áhættufælnir þessa dagana. Þeir eru tilbúnir til fjárfestinga í orkuiðnaði og stóriðju þar sem áhættan er lítil.

Fjárfesting í sprotafyrirtækjum eins og CCP var einu sinni, er hins vegar mjög áhættusöm. Í langflestum tilvikum tapast sú fjárfesting fyrir utan eina og eina undantekningu sem getur skilað góðum arði. Þetta er verkefni fyrir áhættufjárfesta sem hafa þolinmæði til að bíða. Einnig kallar þetta á mikla þrautsegju og þolinmæði stofnenda slíkra sprotafyrirtækja sem eru tilbúnir að að leggja á sig mikla vinnu árum saman án þess að hafa miklar tekjur.

Sprotafyrirtæki eru nauðsynlegur partur af atvinnulífinu en þau leysa ekki nema hluta af því sem þarf að gera. Miljarðatuga fjárfesting í áhættusöm sprotafyrirtæki er ekki á borðinu. Ekki einu sinni á meðan bólan var.

Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn í Reykjavík 101 verða líka að gera sér grein fyrir því að sömu störf henta ekki öllum. Það er til fjöldinn allur af iðnaðarmönnum og ófaglærðum sem búa ekki einu sinni í Reykjavík. Þetta fólk á rétt á vel launuðum störfum þegar þau bjóðast. Fyrir utan það að stóriðjufyrirtæki byggja líka mikið á verkþekkingu og tæknikunnáttu.

Sjálfur þekki ég vel til í hugbúnaðargeiranum. Möguleikar hans til stækkunar takmarkast einfaldlega af því að það er takmarkaður fjöldi fólks sem hefur áhuga á því að sérhæfa sig í greininni. Fjárfestar vita þetta og eru því ekki tilbúnir til að leggja háar fjárhæðir í fjárfestingu í slíkum fyrirtækjum.

Finnur Hrafn Jónsson, 20.10.2009 kl. 17:43

29 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Risaálverin fimm sem þegar eru á flugstigi þurfa svo mikla orku að það er ekki einasta að það er vafasamt hvort nokkur orka verði afgangs fyrir aðra starfsemi, heldur er blygðunarlaust stunduð vinnsla sem er "ágeng", það er, að tekin er sú óviðunandi áhætta á að þegar frá líði dvini orkugetan og að þá verði annað hvort "að minnka vinnsluna" eins og lýst var í nýlegri sérfræðigrein í Morgunblaðinu eða að virkja hvern læk og hvern hver landsins.

Þetta er stóriðjustefnan og ég er ekki að gera neinum upp neitt þegar ég lýsi henni eins og hún er.

Risaálverin eru langstærstu og orkufrekustu vinnslueiningar sem hugsast getaog taka hvert um sig undir sig orku heilu landshlutanna.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2009 kl. 20:12

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

Einungis 1,8% atvinnuleysi var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra í september síðastliðnum og 2,4% á Austurlandi, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.

Og tvöfalt fleiri krónur fást nú fyrir hverja evru en í árslok 2007
, sem kemur meðal annars sjávarútvegi í öllum sjávarbyggðum landsins til góða, sem og ferðaþjónustu um allt land og Netleikjafyrirtækinu CCP á Grandagarði í Reykjavík.

Ekki er hægt að reisa álver í hverjum firði og eftir að álverið á Reyðarfirði tók til starfa fækkaði íbúum í sjö af níu sveitarfélögum á Austurlandi.
Aftur á móti getur fólk fengið vinnu í gagnaverum í bæði litlum og stórum byggðarlögum um allt land, til dæmis á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, í Þorlákshöfn, á Blönduósi, í Fjallabyggð og Þingeyjarsveit.

27.12.2008: Austurglugginn - Fréttir


25.8.2009
: "Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global."

Gagnaver í Þingeyjarsveit


Um 120 störf í gagnaveri Greenstone á Blönduósi


Um 20 störf í netþjónabúi Greenstone í Fjallabyggð


Fréttaskýring Morgunblaðsins: Tekjur af sæstrengnum Danice


Viljayfirlýsing Greenstone og Farice um gagnaflutninga og sveitarfélagsins Ölfuss um netþjónabú í Þorlákshöfn

Þorsteinn Briem, 20.10.2009 kl. 21:09

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða álfyrirtæki gerði, eða ætlaði að gera orkukaupasamning fyrir 120 þús.t. álver fyrir aldamót, Ómar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.10.2009 kl. 03:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband