Brýnt fyrir fjölmiðla að kafa ítarlega ofan í makrílmálið.

Heilmikið hefur skýrst í dag varðandi makrílsamninga ESG, Norðmanna og Færeyinga og makríldeiluna yfirleitt. Þó er mörgum spurningum ósvarað og mönnum ber ekki saman.

Annars vegar er fullyrt að Norðmenn, ESB og Færeyingar hafi bolað Íslendingum burtu frá samningaborðinu en hins vegar fullyrt að Íslendingar hafi sjálfir rokið burt frá Edinborg í fússi fyrir viku og hefðu betur verið þar áfram, þótt illa horfði um líkur á samningum, sem Íslendingar gætu sætt sig við.

Er hugsanlegt að hvort tveggja sé samt rétt, að í raun hafi hinir samningsaðilarnir verið svo frekir og ósveigjanlegir, einkum Norðmenn, að sjálfhætt hafi verið fyrir okkur ?

Þótt íslenskir sjávarútvegsráðherrar hafi oft á tíðum um áratuga skeið farið fram úr veiðiráðgjöf Hafró, hefur það þó verið rauður þráður að vera sem næst henni, enda erfitt að rökstyðja það, einkum út á við, að við séum ábyrg þjóð varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna, ef ráðgjöfin, hversu umdeilanleg sem hún kann að virðast, er hunsuð, enda ekki hægt að benda á aðra ráðgjöf, sem frekar ætti að styðjast við.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að fylgjast vel með öllum hræringum á því sviði og í fyrirspurnum Íslendinga til hinna aðilanna þriggja, einkum Norðmanna, þarf að heimta útskýringar og rök fyrir því að svo gróflega verði farið fram yfir veiðiráðgjöfina sem samningurinn ber vitni um.

Var það vegna þess að ný gögn, viðhorf eða álit hafi komið fram, en á bloggsíðu Kristins Péturssonar eru nefndar tilgátur varðandi það, sem ég bendi mönnum og fjölmiðlum á að skoða og bera síðan saman við þau svör, sem þarf að fá frá Norðmönnum, ESB og Færeyingum varðandi ástæðuna fyrir makrílveiðistefnu þeirra.

Þetta mál er svo stórt að stjórnmálamenn, samingamenn, sérfræðingar og þó einkum fjölmiðlar verða að hreinsa það upp og útskýra eins og kostur er.


mbl.is Ísland láti Norðmenn heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dularfull íslensk flughvörf.

Nú er verið að rifja upp dularfull hvörf flugvéla og nefnd tíu dularfyllstu hvörfin, sem þó hafa sum verið upplýst talsvert síðar og þá jafnvel til hlítar, samanber hvarf Air France 447, en með henni fórst einn Íslendingur.

Hér á Íslandi hafa flugvélar horfið á dularfullan hátt og koma fimm atvik upp í hugann.

DC-3 Flugfélagsvélin Glitfaxi hvarf með 20 mönnum í aðflugi suðvestur af Álftanesi í hríðardimmvirðri 31. janúar 1951.

Brak fannst úr vélinni en ákveðið var að skilgreina flakið sem grafreit og hefur það ekki fundist formlega síðan, þótt vísbendingar séu um að það sé á hafsbotni út af Flekkuvík á Vatnsleysuströnd.

Grafarhelgin endar 31. janúar árið 2026 og með nútíma tækni ætti að vera hægt að finna flakið og komast að því hvað olli slysinu.

B-18 Beechraft vél Flugsýnar hvarf skammt utan við Norðfjörð á miðjum sjöunda áratugnum og hefur ekki fundist síðan. Mig minnir að tveir flugmenn hafi verið um borð, og að flugstjórinn hafi heitið Sverrir Jónsson.

Ekki löngu síðar týndist TF-BKH, Piper Pa-22 Tri-Pacer einshreyfils flugvél einhvers staðar á Húnaflóasvæðinu.

Einn var um borð og hafði sent út neyðarkall þess efnis að hann væri villtur og að eldsneyti væri takmarkað.

Ekkert hefur fundist úr vélinni.

Hvar feinshreyfils flugvélarinnar TF-ROM með fjórum mönnnum upp úr 1970 var dularfullt, því að vélin, sem var á leið frá Reykjavík til Akureyrar, hvarf og var leitað að henni árangurslaust dögum saman.

Meðal annars tóku björgunarþyrla varnarliðsins þátt í leitinni.

Mistur hafði verið í lofti á flugleiðinni en alls staðar nægilegt skyggni nema að lágþoka var á Holtavörðuheiði.

Leitarsvæðið var afar stórt og það helgaðist af voninni um að einhver hefði komist lífs af úr slysinu, en ef til vill hefði flugvélin fundist fyrr ef höfuðáhersla hefði strax verið lögð á að leita á þokusvæðinu vestast á Tvídægru og á Holtavörðuheiði, þar sem líklegast var að vélinni hefði hlekkst á.

Raunar var flogið yfir slyssvæðið í leitinni eftir að þokunni létti, en landið var svo flekkótt að afar erfitt var að koma auga á flakið.

Frægasta dularfulla hvarfið var vafalaust hvarf DC-4 millilandaflugvélarinnar Geysis í eigu Loftleiða í september 1950 með sex manna áhöfn um borð, en það fannst ekki fyrr en fimm dögum eftir að vélin hvarf, á Bárðarbungu og voru allir á lífi.

Björgun DC-3 björgunarflugvélar bandaríska hersins af vorið eftir, sem varð innlyksa á jöklinum, hefur verið valin sem eitt af tíu merkustu atvikum í fjölskrúðugri sögu DC-3.    


mbl.is 10 dularfyllstu flugslysin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vondu kallarnir" hefðu ekki átt að koma á óvart.

Af yfirlýsingu utanríkisráðherra nú má ráða að ESB sé vondi kallinn í því að samkomulag ESB, Norðmanna og Færeyinga hefur tekist um skiptingu makrílkvótans. Heyra má stuðningsmenn hans hér á blogginu úthrópa ESB og hvetja til þess að "við sýnum þeim fingurinn".

Fyrir aðeins viku sagði utanríkisráðherra samt að Norðmenn væru vondi kallinn, og það meira segja svo vondur kall, að af bæri.

Fjölmiðlar hentu þetta á lofti því að þar áður hafði ESB alltaf verið vondi kallinn.

Nú er ekkert eftir nema að við segjum að Færeyingar séu vondi kallinn svo að við getum úthrópað allar þessar samningaþjóðir. Því að mestu virðist skipta að allir séu vondir við okkur, jafnvel Færeyingar.

Það hefur verið löngu vitað hve snjallir og harðdrægir samningamenn Norðmenn eru og hafa margir fyrrum ráðherrar og samningamenn okkar borið vitni um það.

Þeir eru til dæmis mjög slungnir og mikilvirkir í því að koma ár sinni fyrir borð í þeim illnauðsynlega lobbyisma, sem verður að stunda í Brussel vegna tilskipana sem streyma þaðan til þeirra og okkar.

Norðmenn vita hve mikilvægt það er að sinna þessu og eru ekkert feimnir við að setja í það mannskap og peninga.

Íslendingar hafa notið góðs af þessu með því að nýta sér árangur Norðmanna og gera þá að einhvers konar erindrekum og brimbrjótum fyrir okkur.

Enda eins gott, því að allt fram undir þetta hefur það verið talin nauðsyn fyrir Íslendinga að vera sem minnst á ferli í hinni vondu borg Brussel.

Að vísu var utanríkisráðherra að tilkynna nýjar áherslur í þessu, en nú er allt eins líklegt að hinn fyrri söngur verði tekinn upp á ný og ekki aðeins muni þess krafist að við gefum sem mestan skít í Brussel heldur hættum að láta Norðmenn vinna nauðsynleg verk þar fyrir okkur í að halda sjónarmiðum okkar stíft fram.

Það, að Norðmenn og Færeyingar hafi ákveðið að ganga frá þessu máli án frekari ýfinga við Íslendinga átti ekki að koma neinum á óvart, sem kynnst hefur öflugum, slungnum og harðdrægum samningamönnum Norðmanna fyrr á tíð.

 

 


mbl.is Makrílsamkomulag staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband