ALMA-verkefnið er líka spennandi.

Útvarpssjónaukaverkefnið á Suðurskautslandinu eru nú að byrja að skila inn byltingarkenndum uppgötvunum eins og sjá má á tengdri frétt á mbl.is. 

ALMA stjörnuvísindaverkefnið í Andesfjöllum, sem nýlega er farið í gang er líka gríðarlega spennandi, af því að með því nálgast menn líka Miklahvell meira en áður hefur verið hægt og sjá hvernig vetrarbrautir, sólir og reikstjörnur myndast úr geimryki.

Þar nýta menn sér hið þunna loft í 5000 metra hæð og tækni, sem gerir kleift að nema fyrirbæri sem mannsaugað getur ekki greint og það í miklu meiri fjarlægð en áður hefur verið hægt, en það þýðir að það, sem sést, er nær Miklahvelli en áður hefur sést.

Byltingarkenndar upplýsingar streyma inn í svo miklu magni að vísindafólkið er í kapphlaupi við að vinna út því og sér engan hvergi nærri fyrir endann á því verki.

Það virðist engan enda ætla að taka hvað við lifum á spennandi tímum.  


mbl.is Ein mesta uppgötvun stjarnvísindanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búin að vera líklegust síðustu árin.

Útlendingarnir sem ég hitti og spyrja mig hvar og hvenær ég haldi að gjósi næst á Íslandi fá það svar að Hekla gæti gosið eftir klukkustund en líka eftir mörg ár og að Katla gæti líka tekið upp á ýmsu.

Ekki sé að vænta goss í Grímsvötnum fyrr en eftir fimm til sjö ár. Hekla. Tungl  

Síðan koma svipaðar útskýringar varðandi Heklu og hjá Páli Einarssyni jarðfræðingi í samtali við mbl.is.

En ég bæti því líka við að í níu eldgosum og alls fjórtán umbrotahrinum í Kröflueldum 1975-84 hafi landið risið hærra fyrir hvert gos eða umbrot neðanjarðar án goss en það reist hæst fyrir næstu hrinu á undan.

Hekla virðist vera í einhvern veginn svona fasa núna og er því hið mesta ólíkindatól.

Hún gaus með 50-100 ára millibili öldum saman en byrjaði svo allt í einu að gjósa tíðar eftir 1947, fyrst 1970 og síðan 1980-81, 1991 og 2000. Og nú er goshléð hið lengsta síðan á milli gosanna 1947 og 1970.  


mbl.is Kvikusöfnun meiri í Heklu en árið 2000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matthías Rust lenti á Rauða torginu í miðju Kalda stríðinu.

Flugsagan geymir ekki aðeins dularfull hvörf flugvéla sem aldrei komu fram heldur einnig flug flugvéla, sem tókst að fljúga ólöglega í leyni og lenda klakklaust.

Mathias Rust, þá 18 ára, leigði sér Cessna Skyhawk eins hreyfils vél í Finnlandi og flaug henni þaðan alla leið til Moskvu og lenti rétt við Rauða torgið í maí 1987 þrátt fyrir öflugar loftvarnir og ratsjáreftirlit Sovétmanna.

Að vísu varð vart við flugvélina á leiðinni, en vegna óvissu um það hvort þetta væri einfaldlega vél heimamanns, var ekkert gert í málinu.

Rust kvaðst gera þetta til að að "byggja ímyndaða brú milli austurs og vesturs".

Það var fífldjarft uppátæki en að vissu leyti lagði hann með þessu skerf til þíðunnar í Kalda stríðinu, vegna þess að þetta ótrúlega atvik rýrði myndugleika sovéska hersins og Gorbasjof fékk tækifæri til að reka ýmsa af þeim sem voru honum mótdrægir innan hersins og þar með rýmra tækifæri til að koma á umbótum sínum.  


mbl.is Flugvélaverkfræðingur meðal farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fararbroddi fyrir frelsi og mannréttindum?

Á lokaárum átjándu aldarinnar voru Frakkland og Bandaríkin þau lönd, þar sem helst komu fram nútíma hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag og mannréttindahugsjónin var fóstruð.

Eitt þekktast táknið um þetta er Frelsisstyttan, sem Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum, heilsaði innflytjendum sem komu til New York lengst af og er heimsþekkt tákn sem skapað hefur þakklæti og virðingu fyrir þessum þjóðum, meðal annars hjá mér.  

Ég hef áður bloggað um þá hrapallegu mótsögn við hugsjónina um frelsi og mannréttindi, sem bandaríska réttarkerfið hefur fætt af sér. Einnig um metfjölda fangelsaðra og myrtra með skotvopnum, miðað við sambærilegar vestrænar þjóðir.  

Sumir hafa snuprað mig fyrir það og sagt mig illviljaðan í garð Bandaríkjamanna vegna þessarar gagnrýni og það að þessi gagnrýni skuli hafa verið endurtekin.

Þetta er afar billeg afgreiðsla á viðleitni minni til þess að leggja mitt á vogarskálarnar til að Bandaríkin rísi undir nafni sem forysturíki í mannréttindum, þjóð sem ól af sér Roosevelt og Martin Luther King.

Baráttan fyrir mannréttindum krefst sífelldrar vöku þeirra, sem vilja veg þeirra sem mestan, og það ekkert síður í okkar eigin heimshluta. Þeir sem benda á það sem hægt er að bæta vilja veg þess heimhluta sem mestan.

Í tveimur fréttum á mbl. is íer fjallað um skuggahliðar bandarísks réttarkerfis, annars vegar um viðbjóðslega aftökur sakamanna og hins vegar um 25 ára dvöl dauðadæmds en saklauss blökkumanns.

Í síðarnefndu fréttinni er fjögurra atriða getið:

1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni fundust. 3. Hinn ákærði neitaði ávallt sök. 4. Kviðdómurinn var eingöngu skipaður hvítum mönnum.

Bæta mætti einu atriði við: 5. Engin bitastæð ástæða meints morðingja fannst til morðsins.

Þótt 25 ár séu langur tími kom þó að því að menn þarna vestra tóku á sig rögg og viðurkenndu rangan dóm.

Þetta leiðir hugann að íslensku sakamáli þar sem tvö mannshvörf voru spyrt saman í eitt mál, fólk var dæmt í lengri fangelsisdvöl en dæmi eru um hér á landi, en ennþá hafa menn ekki tekið á sig rögg og viðurkennt að rangur dómur hafi verið kveðinn upp. Þar mætti nefna nokkur atriði:

1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni utan hinna ákærðu fundust. 3. Með ólöglegum aðferðum voru þingaðir fram síbreytilegar og mótsagnakenndar játningar og vitnisburðir ákærðu, sem síðar drógu það allt til baka. 4. Dómurinn var kveðinn upp undir fáheyrðum þrýstingi frá ráðamönnum og almenningi. 5. Engin ástæða til morðsins fannst.  

Bæta má við einu aðalatriði: 6. Ekkert lík fannst. Það var þó fyrir hendi í máli hins bandaríska blökkumanns.  

Hve mörg ár þurfa að líða í viðbót til þess að við Íslendingar gerum þetta mál upp á þann hátt að við getum talist vera í hópi þeirra þjóða, sem eru fararbroddi í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum?    


mbl.is Saklaus á dauðadeild í 25 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband